Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 464  —  225. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um lóðir fyrir trú- og lífsskoðunarfélög.


     1.      Ber að mati ráðherra að túlka 5. gr. laga um Kristnisjóð o.fl., þar sem segir að sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi, með vísun til þjóðkirkjunnar eingöngu eða láta sömu reglu gilda fyrir önnur trú- og lífsskoðunarfélög?
    Lög um Kristnisjóð o.fl. vísa til hinnar íslensku þjóðkirkju. Kirkjuráð hefur á hendi umsjá og stjórn sjóðsins og ber ábyrgð fyrir kirkjuþingi á stjórn hans. Það má því segja að ákvæði 5. gr. laganna um að sveitarfélögum sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi vísi til þjóðkirkjunnar. Hins vegar virðast mörg sveitarfélög hafa litið svo á að á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar beri þeim einnig að leggja til ókeypis lóðir undir sambærilegt húsnæði annarra skráðra trúfélaga og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Því til viðbótar hafa sveitarfélög jafnframt haft til hliðsjónar 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, en samkvæmt því ákvæði eru kirkjur og bænahús íslensku þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga og samkomuhús skráðra lífsskoðunarfélaga sem hlotið hafa skráningu þess ráðuneytis er fer með málefni þjóðkirkjunnar undanþegin fasteignaskatti.
    Það er mat ráðherra að ekkert sé því til fyrirstöðu að túlka lögin með þeim hætti sem hér hefur verið rakinn. Nánar verður þó vikið að því í 5. tölul. fyrirspurnarinnar.

     2.      Hvaða áhrif hefði brottfall þessarar lagagreinar á fjárhag þjóðkirkjunnar eða einstakra safnaða hennar?
    Brottfall umræddrar greinar hefði þau áhrif að stofnkostnaður vegna byggingar nýrra kirkna mundi hækka og til viðbótar mundi bætast árleg greiðsla fyrir lóðarleigu, ef hún hefur ekki þegar verið innheimt, og lóð er ekki í eigu kirkjunnar. Viðbótarkostnaður mundi því fyrst og fremst hafa áhrif á fjárhag einstakra safnaða sem nemur greiðslu á gatnagerðargjöldum og lóðarleigu, sbr. svar við 3. tölul.

     3.      Hver hefði kostnaðarauki kirkjunnar á uppreiknuðu verðlagi ársins 2014 verið vegna Guðríðarkirkju og Lindakirkju sem eru þær tvær sóknarkirkjur sem byggðar hafa verið á síðustu tíu árum ef þessarar undanþágu hefði ekki notið við?
    Gatnagerðargjald er skv. 4. gr laga um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, 15% af byggingarkostnaði fermetra í vísitöluhúsi eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands, nema sveitarstjórnir hafi mælt fyrir um lægra gjald í samþykkt sinni.
    Samkvæmt gjaldskrá Reykjavíkurborgar í október 2014 er gatnagerðargjald vegna fasteignar sem skilgreind er sem „annað húsnæði“ 17.700 kr. á hvern fermetra. Miðað er við að gatnagerðargjaldið sé 9,4% af byggingarkostnaði vísitöluhúss sem skilgreint er að fjárhæð 188.300 kr. á hvern fermetra.
    Ef tekið er mið af Guðríðarkirkju, sem skráð er 854 m 2, þá er áætlað að viðbótarstofnkostnaður kirkjunnar vegna gatnagerðargjalds yrði 15,1 millj. kr. vegna þeirrar byggingar.
    Lindakirkja í Kópavogi er skráð um 1.819 m 2 og samkvæmt gjaldskrá Kópavogsbæjar í október 2014 er gatnagerðargjaldið 16.006 kr. á hvern fermetra. Áætlað gatnagerðargjald vegna Lindakirkju væri því um 29,1 millj. kr. ef niðurfellingar nyti ekki við í samræmi við 5. gr. laga um Kristnisjóð o.fl.
    Áætluð lóðarleiga væri á bilinu 345–372 þús. kr. fyrir þessar kirkjur.

     4.      Hefði afnám undanþágunnar áhrif á aðra gjaldtöku eða skattlagningu þjóðkirkjunnar?
    Afnám umræddrar greinar hefði, eins og farið var yfir í 2. tölul., áhrif á stofnkostnað vegna byggingar nýrra kirkna og eftir atvikum á lóðarleigu og mundi sá kostnaður leggjast á söfnuði sem standa að kirkjubyggingum.

     5.      Hyggst ráðherra leggja fram frumvarp til laga um brottfall 5. gr. laga um Kristnisjóð o.fl.?

    Slík breyting er ekki á frumvarpalista ráðuneytisins. Hins vegar kemur til greina á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og breytinga á löggjöf, m.a. lögum um skráð trúfélög, nú lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, svo og lögum um tekjustofna sveitarfélaga að taka til endurskoðunar ákvæði 5. gr. laga um Kristnisjóð o.fl. og huga að breytingum á löggjöf með hliðsjón af þróun í okkar samfélagi og því hvernig staðið hefur verið að úthlutun lóða undir kirkjur þjóðkirkjunnar og sambærilegt húsnæði annarra skráðra trúfélaga.