Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 716  —  464. mál.




Fyrirspurn



til fjármála- og efnahagsráðherra um eftirlit með framkvæmd
laga um vexti og verðtryggingu.

Frá Jóni Þór Ólafssyni.


     1.      Hvaða eftirlitshlutverki gegna Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Neytendastofa við framkvæmd laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, og hvernig er eftirlitinu háttað? Hafa ef til vill aðrir aðilar eftirlitshlutverk í þessu samhengi og ef svo er, hvernig er því háttað?
     2.      Telur ráðherra að nægilegt eftirlit sé með framkvæmd laganna og ef ekki, hverju telur hann þá ábótavant og hvernig hyggst hann bregðast við því?


Skriflegt svar óskast.

Greinargerð.

    Neytendastofa fer m.a. með eftirlit samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og lögum um neytendalán. Í eftirliti samkvæmt síðargreindu lögunum felst m.a. eftirlit með því að skilyrði laganna um upplýsingagjöf séu uppfyllt. Fjármálaeftirlitið hefur almennt eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi en hefur ekkert skilgreint hlutverk samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu.
    Samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu setur Seðlabankinn reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár auk þess sem hann ákveður og birtir ýmsa vexti. Bankinn hefur hins vegar ekki skilgreint eftirlit með framkvæmd laganna. Gríðarlegir almannahagsmunir eru í húfi af því að vextir séu rétt reiknaðir og eftir réttum viðmiðum. Jafnframt er mikilvægt fyrir opinbera aðila, fyrirtæki og neytendur að hafa aðgang að kvörtunarleiðum eða möguleikum til úrlausnar um ágreiningsefni varðandi vaxtaútreikninga.