Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 834  —  460. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni
um lögfestingu reglna um þunna eiginfjármögnun.


     1.      Hvernig hefur ríkisstjórnin unnið að undirbúningi þess að lögfestar verði reglur um þunna eiginfjármögnun, sbr. afgreiðslu Alþingis 16. maí sl. á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, 15. máli 143. löggjafarþings? Sjá einnig nefndarálit frá efnahags- og viðskiptanefnd í sama máli.
    Í því nefndaráliti sem vísað er til og lagt var fram á Alþingi 3. apríl 2014 kemur fram að efnahags- og viðskiptanefnd telji markmið frumvarpsins jákvætt, en hins vegar sé þörf á því að efni þess fái nánari skoðun. Því leggi nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Á árinu 2011 skipaði þáverandi fjármálaráðherra starfshóp til að fjalla um reglur um þunna eiginfjármögnun, auk þess að gera tillögur að æskilegum lagabreytingum. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til ráðherra í júní 2012 og er hana að finna á vef ráðuneytisins. Í framhaldi af útkomu skýrslunnar lagði ráðuneytið frekara mat á það hvar væri æskilegast að bera fyrst niður varðandi úrræði til að stuðla að færri undanskotum frá tekjuskatti lögaðila sem er megintilgangurinn með setningu reglna um þunna eiginfjármögnun. Þar koma ýmis önnur úrræði til, m.a. almennar reglur um milliverðlagningu sem einnig var fjallað um í skýrslunni. Niðurstaða matsins var sú að æskilegra væri að lögfesta fyrst reglur um milliverðlagningu í viðskiptum milli tengdra aðila, en þær taka alla jafna einnig til hvers kyns fjármálagerninga, þ.m.t. óeðlilegra vaxtakjara. Var þessari stefnumótun fylgt eftir í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt sem síðar varð að lögum nr. 142/2013 sem öðluðust gildi í ársbyrjun 2014. Með því var í fyrsta sinn fest í íslensk lög ákvæði um skjölunarskyldu í viðskiptum milli tengdra lögaðila. Í framhaldinu var ráðist í það mikilvæga verkefni að semja reglugerð með nánari afmörkun á skjölunarskyldu í viðskiptum milli tengdra lögaðila og lauk þeirri vinnu undir lok síðasta árs (reglugerð nr. 1180/2014, um skjölun og milliverðlagningu í viðskiptum tengdra lögaðila).
    Þá hefur ráðuneytið fylgst grannt með þeirri yfirgripsmiklu vinnu sem fram fer þessi missirin á vegum OECD og gengur undir heitinu Base Erosion and Profit Shifting. Sú vinna gengur í stuttu máli út á að leita frekari leiða til að hamla gegn misnotkun skattareglna til undanskota frá skatti, þ.m.t. óhóflegum frádrætti vaxtakostnaðar í því skyni að lækka eða komast hjá greiðslu skatta. Áætlað er að þessari vinnu ljúki fyrir árslok 2015. Rétt er að benda á að mörg ríki bíða átekta um frekari úrbætur þar til að endanlegar tillögur liggja fyrir á vettvangi OECD.
    Loks hefur ráðuneytið fylgst, eins og kostur er, með þeirri þróun sem á sér stað á reglum um takmarkanir á heimildum til frádráttar vaxtakostnaðar frá tekjum í helstu nágrannaríkjum. Í þessu samhengi má nefna Noreg og Svíþjóð. Þar hafa verið að störfum nefndir um skattlagningu fyrirtækja sem m.a. var ætlað að skoða hvaða leiðir æskilegt væri að fara til þess að koma í veg fyrir skattsniðgöngu í tengslum við frádráttarbæran vaxtakostnað. Þessar nefndir hafa þegar skilað niðurstöðum sínum.


     2.      Er þess að vænta að ráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga um lögfestingu reglna um þunna eiginfjármögnun eða hyggst ráðherra senda málið efnahags- og viðskiptanefnd til fyrirgreiðslu, sbr. yfirlýstan vilja nefndarinnar til að sinna því ef ráðherra kýs að gera það ekki?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar þá fylgist fjármála- og efnahagsráðuneytið grannt með þeirri vinnu sem nú fer fram á vegum OECD og varðar m.a. aðgerðir gegn skattundanskotum lögaðila í formi óhóflegs vaxtafrádráttar. Þá er þegar hafin vinna við að skoða nánar þær tillögur sem séð hafa dagsins ljós í Noregi og Svíþjóð í þessum efnum. Ljóst er að tillögur að lagabreytingum um takmörkun vaxtafrádráttar hjá lögaðilum munu ekki líta dagsins ljós á þessu vorþingi, en ekki er útilokað að sú verði raunin að lokinni frekari skoðun á komandi hausti.