Ferill 496. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 927  —  496. mál.




Svar


um­hverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um endurskoðun laga um landgræðslu.



    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er unnið að endurskoðun laga um landgræðslu? Ef svo er, hversu langt er það verk komið og hvenær er áformað að leggja fyrir Alþingi afrakstur þeirrar vinnu? Að hvaða marki hefur verið stuðst við niðurstöður og tillögur starfshóps um­hverfisráðherra sem birtust í skýrslunni Tillögur að inntaki nýrra laga um landgræðslu frá því í júní 2012?

    Ráðherra ákvað haustið 2014 að hefja vinnu við endurskoðun á lögum um landgræðslu. Gert var ráð fyrir að vinnan yrði byggð á tillögum nefndar um endurskoðun laga um landgræðslu, sem skilaði greinargerð til ráðherra í júní 2012. Samráðsvettvangi hagsmunaaðila var komið á fót til að starfa með ráðuneytinu og vera því til ráðgjafar við endurskoðun laganna. Í samráðsvettvanginum sitja auk fulltrúa ráðuneytisins landgræðslustjóri, formaður fyrri nefndar, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og fulltrúar frá Sambandi íslenskra ­sveitarfélaga, Bændasamtökum Íslands og Landvernd.
    Samráðsvettvangurinn hefur komið saman einu sinni og fjallað um fyrirliggjandi tillögur að innihaldi nýrra laga um landgræðslu.
    Miðað er við að frumvarp til nýrra laga um landgræðslu verði lagt fram á haustþingi 2015.