Ferill 583. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1015  —  583. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008,
með síðari breytingum (skipun lögmanns vegna beitingar
símahlustunar eða annarra sambærilegra úrræða).

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir.


1. gr.

    Á eftir 84. gr. laganna kemur ný grein, 84. gr. a, svohljóðandi:
    Áður en dómari tekur ákvörðun um heimild til aðgerða skv. 84. gr. ber að skipa þeim sem aðgerðin varðar lögmann, tilnefndan af Lögmannafélagi Íslands, og skal honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna.
    Tilkynna ber skipuðum lögmanni um þinghöld í málinu og gefa honum kost á að kynna sér gögn málsins, fá afrit þeirra og taka til varna. Dómari getur með úrskurði ákveðið að afrit málsgagna verði ekki afhent ef rökstuddir rannsóknarhagsmunir krefjast þess eða ástæða er til sérstaks trúnaðar.
    Þagnarskylda hvílir á lögmanninum um málið og er honum óheimilt að veita þeim sem aðgerðin beinist gegn eða öðrum upplýsingar er það varða eða aðgang að gögnum.
    Um skipun lögmanns samkvæmt þessari grein gilda að öðru leyti sömu reglur og um skipun verjanda samkvæmt lögum þessum. Dómari getur ákveðið að kröfu lögreglu að lög­maðurinn megi ekki síðar gegna starfi verjanda fyrir sakborning eða aðra sem tengjast mál­inu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í XI. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er fjallað um símahlustun og önnur sambærileg úrræði. Þau úrræði sem þar er kveðið á um fela í sér mikla röskun á friðhelgi einkalífs og persónuvernd og til þeirra þarf úrskurð dómara. Þegar kröfur lögreglu um beit­ingu úrræðanna eru teknar fyrir á dómþingi er sá sem aðgerðir eiga að beinast gegn ekki við­staddur og honum eðlilega ekki kynntar kröfur lögreglunnar né úrskurður réttarins að svo stöddu, enda eiga aðgerðir að fara fram án vitneskju hans. Meginmarkmið þess að krafist er úrskurðar dómara fyrir aðgerðum sem þessum er að dómara er ætlað að tryggja að ekki sé raskað rétti til friðhelgi einkalífs nema ríkar ástæður séu til þess og meðalhófs sé gætt. Dóm­ara er með öðrum orðum ætlað að gæta að réttindum þess sem fyrir rannsókninni verður. Sýnt hefur verið fram á að eftirliti dómstóla er nokkuð ábótavant að þessu leyti. Má vísa þar m.a. til svars innanríkisráðherra við fyrirspurn þingmanns um hleranir frá ársbyrjun 2008 (þskj. 1022 í 517. máli á 141. löggjafarþingi). Í svarinu kemur fram að dómstólar veita úrskurð til þessara sérstöku rannsóknaraðgerða í allt að 98% tilvika sem óskað er eftir þeim. Í svari við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar um ástæður hlerana frá 2008 (þskj. 546 í 116. máli á 144. löggjafarþingi) er eftirfarandi töflu að finna:

Tafla 1. Fjöldi beiðna um hlustun, fjöldi úrskurða og fjöldi mála þar sem heimild var veitt til símahlustunar 2009–2013 (ártal máls og ártal úrskurðar
í sama máli þurfa ekki ávallt að fara saman).

2009 2010 2011 2012 2013
Fjöldi beiðna 171 165 166 118 100
Fjöldi úrskurða 170 165 163 118 99
Fjöldi mála (málsnúmera) 41 36 25 24 19

    Af töflunni má sjá að synjað hefur verið um úrskurð í fimm tilvikum af 720 sem þýðir að heimild er veitt í 99,31% tilvika. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í Iordachi o.fl. gegn Moldavíu frá 10. febrúar 2009, í máli nr. 25198/02 1 , var fjallað um friðhelgi einkalífs og framkvæmd á símahlustun og sambærilegum úrræðum lögreglu. Í ljósi þess að dómstólar í Moldavíu samþykktu í raun allar beiðnir lögreglu um beitingu fjarskiptarannsókna árið 2007 féllst dómurinn á að það úrræði að fylgjast með símnotkun með leynd hafi verið stórlega ofnotað. Dómurinn komst þar af leiðandi að þeirri niðurstöðu að þau lög sem um þessi efni giltu í Moldavíu hafi ekki tryggt næga vernd gegn misnotkun valds sem 8. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, um friðhelgi einkalífs, mælir fyrir um. Dómurinn áréttaði jafnframt að síma­hlustun væri mjög alvarlegt inngrip á réttindum fólks og að eingöngu ætti að heimila hana á grundvelli rökstudds gruns um að viðkomandi hafi framið alvarlegan glæp.
    Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, segir frá starfi nefndar sem dómsmálaráðherra skipaði á sínum tíma til að fjalla um sérstakar, óhefðbundnar rannsóknaraðferðir lögreglu og skilaði skýrslu í apríl 1999. Gerði sú nefnd m.a. að tillögu sinni að þegar beiðni kæmi fram af hálfu lögreglu um símahlustun og önnur sambærileg úrræði sem úrskurð dómara þyrfti til yrði skipaður lögmaður til að gæta hags­muna þess sem aðgerð ætti að beinast gegn. Helstu rök með slíku fyrirkomulagi eru fyrst og fremst aukið réttaröryggi þeirra sem hlut eiga að máli. Í athugasemdunum er hins vegar bent á þá ágalla að um falskt öryggi kunni að vera að ræða sem bæti litlu sem engu við aðkomu sjálfstæðs og óvilhalls dómara að málinu og gagnlegra muni vera að veita lögreglu og dómara aðhald, t.d. með því að tilkynna þeim sem aðgerð beinist að um hana eftir á eins og skylt er skv. 2. mgr. 85. gr. laga um meðferð sakamála. Í frumvarpinu var því ekki lagt til að tekið skyldi upp það fyrirkomulag að skipa lögmann til að gæta hagsmuna þeirra sem aðgerðir sem hér er rætt um beinast gegn.
    Sá munur er á fyrrnefndum tillögum nefndar dómsmálaráðherra frá árinu 1999 og þessu frumvarpi er að hér er gerð tillaga um að lögmaðurinn sem skipa á verði tilnefndur af Lög­mannafélagi Íslands. Er með þessu leitast við að koma til móts við meinta ágalla á fyrrnefnd­um tillögum, þ.e. að um falskt öryggi kunni að vera að ræða sem bæti litlu sem engu við aðkomu sjálfstæðs og óvilhalls dómara að málinu.
    Á undanförnum missirum hefur komið í ljós að hvorki áskilnaður um dómsúrskurð né sú regla að mönnum skuli tilkynnt um aðgerð eftir að hún er framkvæmd hefur tryggt nægilega vel réttarvernd þeirra sem þau rannsóknarúrræði sem um ræðir beinast gegn. Er því með þessu frumvarpi lagt til að mælt verði fyrir um í lögum um meðferð sakamála að skipa beri lögmann fyrir þann sem þessar alvarlegustu rannsóknaraðgerðir eiga að beinast gegn þegar beiðni um heimild til aðgerðar er tekin fyrir á dómþingi. Frumvarpið er unnið að fyrirmynd tillagna framangreindrar nefndar dómsmálaráðherra, um sérstakar rannsóknaraðferðir lög­reglu, sem settar voru fram í skýrslu sem út kom í apríl 1999. 2 Í skýrslunni er tekið fram að þessi skipan mála hafi reynst vel í Danmörku en í dönsku réttarfarslögunum, 784. og 785. gr., er mælt fyrir um slíka skipan. Svipað fyrirkomulag er einnig viðhaft í Noregi, sbr. 100 a. gr., sbr. 216 a. gr. og 216 b. gr. í norsku réttarfarslögunum.
    Hlutverk lögmannsins yrði að kanna þau gögn sem fylgja kröfu lögreglunnar, tjá sig um hana og eftir atvikum andmæla eða andæfa henni og lýsa efasemdum um réttmæti hennar. Fær dómarinn þannig andstæð sjónarmið fram í málinu áður en hann kveður upp úrskurð sinn. Lögmaðurinn hefði síðan heimild til að kæra úrskurð dómara til Hæstaréttar. Störf skipaðs lögmanns ættu að stuðla að því að lagafyrirmælum verði fylgt á umræddu sviði og þannig mundu þau efla réttaröryggi borgaranna. Skipaður lögmaður má hins vegar ekki hafa neitt samband við þann sem aðgerð á að beinast gegn eða aðra nema með samþykki lögreglu. Í reynd má segja að hann sé ekki einvörðungu talsmaður þess manns heldur einnig fulltrúi almennings eða borgaranna við meðferð dómkröfunnar.
    Lagt er til að í 4. mgr. hins nýja ákvæðis verði dómara heimilað að kröfu lögreglu að ákveða að lögmaður sem gætir hagsmuna manns sem rannsóknaraðgerð beinist að geti ekki orðið verjandi sakbornings eða annarra í málinu. Hér er um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu 3. mgr. 33. gr. laganna að sakborningi skuli skipa eða tilnefna þann verjanda sem hann óskar eftir. Þessa heimild ber því að túlka þröngt og kemur hún aðeins til álita þegar í þinghaldi hafa komið fram upplýsingar sem heimilt er að synja verjanda um skv. 37. gr. lag­anna.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.coe.int/t/dghl/standardsetting/dataprotection/Judgments/ECHR%20-%20%20CASE%20OF%20IORDA CHI%20AND%20OTHERS%20v.%20MOLDOVA_En%20-%2014%209%202009.pdf.
Neðanmálsgrein: 2
2     Skýrsla um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu, dóms- og kirkjumálaráðuneytið, apríl 1999 (http://www.innanrikisraduneyti.is/utgefid-efni/skyrslur_til_radherra/nr/691).