Ferill 713. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1262  —  713. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni um
yfirfæranlegt tap við samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hve mikið yfirfæranlegt tap fylgdi með Sparisjóði Vestmannaeyja við yfirtöku Landsbankans á sparisjóðnum og hve mikið getur bankinn lækkað skattbyrði sína í framtíðinni með þeirri aðgerð?

    Svarið er unnið eftir upplýsingum frá Bankasýslu ríkisins.
    Samkvæmt ársreikningi Sparisjóðs Vestmannaeyja fyrir árið 2014 nam eigið fé sjóðsins 97,9 millj. kr. í árslok. Ef bókfærð skattinneign sjóðsins að fjárhæð 100,0 millj. kr. er dregin frá, var eigið fé sjóðsins því neikvætt um 2,1 millj. kr. Í skýringu nr. 15 í ársreikningnum kemur fram að samtals yfirfæranlegt tap sparisjóðsins, sem nýtist á móti skattskyldum hagnaði á næstu 10 árum eftir að það myndast, hafi numið 1,304.3 millj. kr. í árslok 2014. Í inngangsorðum skýringarinnar kemur fram að „[v]ið sameiningu við annað fjármálafyrirtæki gæti skattinneign mögulega nýst að fullu og nemur hún þá rúmum 254 [millj. kr.]“. Hér má geta þess að 20% af 1.304,3 millj. kr. samsvarar 260,9 millj. kr. en einungis 100,0 millj. kr. af þessari mögulegu skattinneign var eignfærð í ársreikningi sjóðsins.
    Miðað við fyrrgreinda skýringu má því gera ráð fyrir því að Landsbankinn hf. geti lækkað tekjuskatt sinn fyrir árið 2015 um rúmar 254 millj. kr., en tekjuskattur bankans á árinu 2014 nam 6,8 milljörðum kr.