Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 97  —  97. mál.




Fyrirspurn



til heilbrigðisráðherra um kynáttunarvanda og lagaframkvæmd.

Frá Svandísi Svavarsdóttur.


     1.      Hvaða verklagsreglum og fyrirmyndum er einkum fylgt við framkvæmd laga nr. 57/2012, um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda? Er t.d. stuðst við leiðbeiningar, aðferðir og siðareglur World Professional Association for Transgender Health (WPATH) og ef svo er, í hvaða mæli og hvaða útgáfa leiðbeininganna er notuð? Er stuðst við aðrar verklagsreglur í þeirra stað eða samhliða þeim?
     2.      Hefur teymi Landspítala um kynáttunarvanda samstarf við erlenda aðila og ef svo er, við hverja og í hverju er það einkum fólgið? Hversu oft er leitað eftir upplýsingum frá samstarfsaðilum eða ráðgjöfum?
     3.      Hvernig er fylgst með greiningar- og meðferðarstarfi sem fer fram samkvæmt lögum nr. 57/2012, hvernig er gætt að eftirfylgni við verklagsreglur og hvert geta þeir einstaklingar snúið sér með umkvartanir og beiðni um úrbætur sem eru ósáttir við veitta meðferð eða telja hana ófullnægjandi?
     4.      Hvernig er háttað greiningu og meðferð einstaklinga undir 18 ára aldri, hvaða aðili annast slíkt, við hvaða verklagsreglur, siðareglur og aðferðir er stuðst og hver er almennur biðtími eftir greiningu og meðferð fyrir þennan hóp?
     5.      Hverjar eru forsendur þess að í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/2012 er þess krafist að einstaklingur sem óskar staðfestingar á því að tilheyra gagnstæðu kyni skuli hafa verið í gagnstæðu kynhlutverki í a.m.k. eitt ár áður en til greiningar og meðferðar kemur? Er sambærilegt skilyrði sett fyrir greiningu og meðferð í nágrannalöndunum, samræmist skilyrðið nýjustu WPATH-reglum og við hvaða verklagsreglur er stuðst við framkvæmd þess?
     6.      Getur transfólk sem skilgreinir sig ekki eingöngu sem karlkyns eða kvenkyns fengið aðgang að þjónustu teymis Landspítala um kynáttunarvanda þótt í lögum nr. 57/2012 er einungis gert ráð fyrir að kyn geti verði tvö? Ef svo er, með hvaða hætti?


Skriflegt svar óskast.