Ferill 124. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 344  —  124. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Heiðu Kristínu Helgadóttur um þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir.


     1.      Hvernig miðar vinnu að heildstæðri lausn á þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir og fjölskyldur þeirra?
    Skýrsla nefndar um samhæfða þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir var kynnt í ríkisstjórn 19. nóvember 2013. Í nefndinni sátu yfirlæknir á Barna- og unglingageðdeild Landspítala, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs Barnaverndarstofu, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, sem einnig er sérfræðingur í fötlunum barna, yfirfélagsráðgjafi á geðsviði Landspítala, deildarstjóri hjá Barnavernd Reykjavíkur, bæjarlögmaður Kópavogsbæjar og staðgengill skrifstofustjóra í velferðarráðuneytinu. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að um mjög fá börn væri að ræða eða um 8–12 á hverjum tíma sem væru með miklar þjónustuþarfir vegna alvarlegra geð- og þroskaraskana. Vandi þessara barna er slíkur að fullreynt er að börnin geti búið í foreldrahúsum og þurfa þau sérsniðin búsetuúrræði með mikilli, samræmdri og samfelldri þjónustu, en vistunarúrræði barnaverndarlaga eiga hér ekki við. Börnin hafa þróað með sér geðræn einkenni og stundum alvarlega geðsjúkdóma. Hegðun þeirra er mjög truflandi, óútreiknanleg og stundum skaðleg bæði barni og umhverfi. Vandi barnanna er það varanlegur að þau þurfa einkum aðstoð í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks. Sú þjónusta er á vegum sveitarfélaga og getur varað fram á fullorðinsár ásamt annarri sérhæfðri þjónustu stofnana ríkis og sveitarfélaga.
    Tilhneiging hefur verið til að veita börnunum þjónustu samkvæmt barnaverndarlögum. Barnaverndarúrræðin eru tímabundin og koma ekki til móts við flóknar og varanlegar þarfir barnanna vegna fötlunar þeirra. Vísbendingar eru um að vistun barns, sem glímir við alvarlega þroskaröskun og/eða geðræna erfiðleika, utan heimilis á vegum barnaverndaryfirvalda, geti leitt til þess að barnið fái lakari sérfræðiþjónustu en ella og fari á mis við þjónustu sem veitt er samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks. Þjónusta við börnin á heima þar sem til staðar er þekking og reynsla af mismunandi fötlunum. Umrædd börn eiga samhliða rétt á allri annarri þjónustu á vegum ríkis og sveitarfélaga, þ.m.t. geðheilbrigðisþjónustu og barnavernd lögum samkvæmt sé þörf á því.
    Þegar málaflokkur fatlaðs fólks fluttist til sveitarfélaganna 2011 var ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna þessara barna við yfirfærsluna. Þar af leiðandi hafa sveitarfélögin ekki verið vel í stakk búin til að takast á við verkefnið. Lögð var áhersla á það við verkefnisstjórn um endurmat á yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga að stjórnin tæki þjónustu við þessi börn til sérstakrar umfjöllunar.
    Stefnt er að því að tillögur verkefnisstjórnarinnar komi til umræðu á Alþingi við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016.
    Fyrirhugað er að fjármunir verði veittir heildstætt gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og byggjast tillögurnar á sameiginlegu endurmati ríkis og sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks. Greiðslur fyrir kostnað sveitarfélaganna vegna barna með alvarlegar þroska- og geðraskanir verða þannig hluti af heildarfjárhæðinni sem þar verður lögð til. Í þessu samhengi er leitað leiða til að leggja fram tillögu að nýrri útsvarsprósentu.

     2.      Hvaða lausn sér ráðherra fyrir sér á þeirri stöðu sem upp kom fyrr á þessu ári þar sem vinnu sérfræðiteymis sem aðstoðaði sveitarfélög við útfærslu á þjónustu við þennan hóp var hætt vegna álits Persónuverndar um miðlun persónuupplýsinga um börn til teymisins?
    Sérfræðingateymið, sem stofnað var haustið 2014 til að veita sveitarfélögunum ráðgjöf og meta þarfir barns, hætti störfum sl. sumar í kjölfar álits Persónuverndar. Teymið var stofnað sem tilraunaverkefni til eins árs og var við stofnun þess gert ráð fyrir að störf þess yrðu metin að loknu tilraunaverkefninu. Nú stendur yfir mat á störfum teymisins og mun niðurstaða liggja fyrir eigi síðar en í lok nóvember nk. Á grundvelli matsins og að höfðu samráði við sveitarfélögin og Barnaverndarstofu verður ákvörðun tekin um framhaldið.