Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 665  —  356. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Heiðu Kristínu Helgadóttur
um aðgerðir til að styðja við byggð í Grímsey.


     1.      Hvað er áætlaður heildarkostnaður við fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að styðja við byggð í Grímsey?
    Beinn heildarkostnaður ríkissjóðs vegna aðgerðanna er áætlaður 60–70 millj. kr.

     2.      Hefur ráðuneytið upplýsingar um að svipaðar aðgerðir hafi borið árangur og snúið við fólksfækkun?
    Nauðsynlegt er að horfa til langs tíma þegar metið er hvort aðgerðir hafi borið árangur. Þá verður að horfa til þess að margvíslegir þættir geta haft áhrif á íbúaþróun hverju sinni.
    Fyrstu byggðarlögin komu inn í verkefnið Brothættar byggðir á árinu 2013 og fyrstu samningarnir um Aflamark Byggðastofnunar voru gerðir á fiskveiðiárinu 2013/2014. Þeir þrír staðir sem hafa verið með samning við Byggðastofnun um Aflamark Byggðastofnunar frá upphafi eru Suðureyri, Drangsnes og Raufarhöfn. Aflamark Byggðastofnunar hefur á þessum stöðum tryggt stöðugri vinnslu og fækkað verulega hráefnislausum dögum. Á öllum þessum stöðum hefur íbúum fjölgað eftir að samningar tóku gildi. Á Raufarhöfn hefur verkefnið Brothættar byggðir verið keyrt samhliða.

1. jan. 2013 1. jan. 2015 Fjölgun %
Suðureyri 264 278 5,30%
Drangsnes 69 83 20,29%
Raufarhöfn 169 183 8,28%

    Auk þessara staða hefur verkefnið Brothættar byggðir verið í gangi á Bíldudal, í Breiðdalshreppi og Skaftárhreppi frá árinu 2013. Íbúaþróun á þessum þremur stöðum hefur í öllum tilfellum verið jákvæð.

1. jan. 2013 1. jan. 2015 Fjölgun %
Bíldudalur 170 196 15,29%
Breiðdalshreppur 180 186 3,23%
Skaftárhreppur 443 460 3,84%

    Í Breiðdalshreppi hafa aðilar á staðnum verið með samning um Aflamark Byggðastofnunar frá og með síðasta fiskveiðiári.