Ferill 359. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 723  —  359. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Lárusi Ástmari Hannessyni
um hækkun á nemendagólfi Fjölbrautaskóla Snæfellinga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Mun ráðherra heimila hækkun á svonefndu nemendagólfi Fjölbrautaskóla Snæfellinga ef umsóknum nemenda, sem ganga fyrir um skólavist, fjölgar umfram það sem gildandi nemendakvóti gerir ráð fyrir?


    Rétt er að leiðrétta misskilning á hugtakinu nemendagólf sem merkir tímabundið úrræði gagnvart einstökum framhaldsskólum sem gripið hefur verið til þegar umtalsverð nemendafækkun verður í tilteknum skóla. Þá er nemendafjöldi festur og framlög ekki dregin af fjárheimild skólanna þrátt fyrir að raunfjöldi nemenda hafi reynst lægri en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Í fjárlögum líðandi árs eru hvergi nemendagólf og er ekki ráðgert að taka þau upp að nýju.
    Spurningin virðist þó snúast um hækkun þeirrar ársnemendatölu sem kemur fram í fjárlögum og er viðmið um þær fjárheimildir sem skólinn hefur á fjárlagaárinu. Sú tala er 153 í fjárlögum fyrir árið 2016. Meginreglan er að sjálfsögðu sú að skólar lagi sig að þeim viðmiðum sem fjárlög setja og fjölgi því ekki nemendum umfram þau mörk sem sett eru og því er svarið við spurningunni neitandi. Við það má þó bæta að í fjáraukalögum fyrir árið 2014 og fjárlögum fyrir árið 2015 var veitt tímabundið 35 millj. kr. framlag til að koma til móts við fámenna framhaldsskóla sem glíma við nemendafækkun. Í fjárlögum fyrir árið 2016 var framlagið gert varanlegt. Fjölbrautaskóli Snæfellinga fékk 8,3 millj. kr. árið 2104 og 11 millj. kr. árið 2015 af þessu framlagi. Því má telja líklegt að skólinn hafi fjárhagslegt svigrúm til að mæta einhverjum sveiflum í nemendafjölda og ekki sé þörf á hækkun ársnemendatölu.