Ferill 82. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 210  —  82. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur um rafrænt eftirlit við afplánun refsinga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvenær má vænta niðurstöðu starfshóps um endurskoðun fyrirkomulags rafræns eftirlits við afplánun refsinga, sbr. bráðabirgðaákvæði II í lögum um fullnustu refsinga?

    Hinn 23. mars 2016 tóku gildi ný lög um fullnustu refsinga, nr. 16/2015. Í ákvæði til bráðabirgða II kemur eftirfarandi fram: „Ráðherra skal setja á laggirnar starfshóp til að endurskoða fyrirkomulag rafræns eftirlits við afplánun refsinga. Starfshópurinn skal greina hvaða afleiðingar það kunni að hafa á framkvæmd fullnustu refsinga samkvæmt gildandi lögum að fangi eigi þann kost að sæta rafrænu eftirliti í stað afplánunar í fangelsi, sé hann dæmdur til refsivistar í styttri tíma, með hliðsjón af varnaðaráhrifum refsinga, betrun og lækkaðri endurkomutíðni. Starfshópurinn skal skila ráðherra skýrslu um málið ásamt lagafrumvarpi eigi síðar en 1. júní 2016.“
    Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða II var settur á laggirnar starfshópur til að endurskoða fyrirkomulag rafræns eftirlits við afplánun refsinga. Starfshópurinn skilaði skýrslu, dags. 1. júní 2016. Meginniðurstöður hans voru að þar sem almenna reynslu skorti á rýmkun á rafrænu eftirliti, sem nú hefur verið felld inn í lög um fullnustu refsinga, væri ekki tilefni til að leggja til breytingar á fyrirkomulagi rafræns eftirlits í lögum um fullnustu refsinga að svo stöddu.
    Ráðherra mun kynna sér efni skýrslunnar frekar áður en tekin verður afstaða til niðurstaðna starfshópsins.