Ferill 79. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 284  —  79. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Söru Elísu Þórðardóttur
um meðferðarheimilið í Krýsuvík.


     1.      Hyggst ráðherra leggja til að ríkið styðji áfram við meðferðarheimilið í Krýsuvík með fjárframlögum? Ef svo er ekki, hvernig hyggst ráðherra þá bregðast við þeirri fækkun innlagnarplássa sem hlytist af lokun heimilisins?
    Meðferðarheimilið í Krýsuvík hefur undanfarin ár veitt þjónustu á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands, sem gera samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd velferðarráðuneytisins. Embætti landlæknis gerði úttekt á starfseminni í Krýsuvík árið 2016 og komst að þeirri niðurstöðu að starfsemin væri nær því að vera félagslegt úrræði með stuðningi frekar en heilbrigðisþjónusta. Lagði embættið til við ráðuneytið að hætt yrði að reka meðferðarheimilið sem heilbrigðisþjónustu en að kannaður væri sá möguleiki að reka heimilið áfram sem félagslegt úrræði eða búsetuúrræði með stuðningi.
    Í framhaldi af þessari niðurstöðu fól velferðarráðuneytið Sjúkratryggingum Íslands að tilkynna meðferðarheimilinu í Krýsuvík að stofnunin mundi ekki gera nýjan þjónustusamning við meðferðarheimilið og voru þjónustulok ákveðin 30. nóvember 2018.
    Heilbrigðisráðherra leggur mikla áherslu á að meðferðarheimilið haldi áfram starfsemi til að tryggja velferð þess viðkvæma hóps sem þar er veitt þjónusta og hefur stutt vinnu sem miðar að því að finna farveg fyrir þjónustuna sem félagslegt úrræði í samræmi við tillögur embættis landlæknis í samráði við félags- og jafnréttismálaráðherra.
    Innan ráðuneytisins er nú verið að skoða með hvaða hætti hægt er að sinna þessari þjónustu sem félagslegri þjónustu og standa yfir viðræður við tvö sveitarfélög vegna þess, en verkefnið fellur undir 50. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Núgildandi fyrirkomulag verður framlengt ef nauðsynlegt reynist svo að tryggja megi samfellda þjónustu.

     2.      Stendur til að fjölga meðferðarúrræðum sambærilegum við það sem rekið er í Krýsuvík?
    Engar ákvarðanir hafa verið teknar um að fjölga sambærilegum meðferðarrúrræðum. Í velferðarráðuneytinu er unnið að áætlun til að efla bráðameðferð ungmenna í neysluvanda. Sú vinna markar upphaf að heildarstefnumótun í meðferð vegna áfengis- og fíknivanda. Einn liður í því verður mat á þörf fyrir mismunandi meðferðarúrræði.