Ferill 885. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1590  —  885. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um skrifstofur og skrifstofustjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.


     1.      Hvaða skrifstofur eru í ráðuneytinu og hvaða skrifstofum stýrir skrifstofustjóri? Hver eru verkefni hverrar skrifstofu og hversu margir starfsmenn starfa undir skrifstofustjóra á hverri skrifstofu?
    Skrifstofur ráðuneytisins eru sjö: skrifstofa ráðuneytisstjóra, skrifstofa matvæla og landbúnaðar, skrifstofa sjávarútvegs og fiskeldis, skrifstofa orku, iðnaðar og viðskipta, skrifstofa ferðamála og nýsköpunar, og skrifstofa fjárlaga, rekstrar og innri þjónustu.
     Skrifstofa ráðuneytisstjóra: Hlutverk skrifstofunnar er að styrkja og samræma starfsemi ráðuneytisins á sviði lagalegra úrlausnarefna, upplýsingamiðlunar og alþjóðasamstarfs. Dagleg þjónusta og skipulag fyrir báða ráðherra ráðuneytisins heyrir undir skrifstofuna. Starfsmenn skrifstofunnar eru sex, þar af tveir staðsettir við sendiráð Íslands í Brussel.
     Skrifstofa matvæla og landbúnaðar: Skrifstofan fer með mál á sviði matvælaframleiðslu og matvælaöryggis, fæðuöryggis, dýra- og plöntusjúkdóma og inn- og útflutnings afurða. Búvörusamningar og jarðamál heyra undir skrifstofuna. Starfsmenn skrifstofunnar eru níu.
     Skrifstofa sjávarútvegs og fiskeldis: Hlutverk skrifstofunnar er að skapa sjávarútvegi og fiskeldi ásamt veiði í ám og vötnum hagkvæma og skilvirka umgjörð, skýrar leikreglur og vinna að stefnumótun á því sviði. Skrifstofan fer með gerð ýmissa fiskveiðisamninga. Starfsmenn skrifstofunnar eru átta.
     Skrifstofa orku, iðnaðar og viðskipta: Hlutverk skrifstofunnar er að skapa orku-, viðskipta-, iðnaðar- og nýfjárfestingamálum hagkvæma og skilvirka umgjörð, skýrar leikreglur og vinna að stefnumótun á þessum sviðum. Starfsmenn skrifstofunnar eru sjö.
     Skrifstofa ferðamála og nýsköpunar: Hlutverk skrifstofunnar er að skapa ferðaþjónustunni hagkvæma og skilvirka umgjörð og treysta grundvöll þeirra með skýrum leikreglum og stefnumótun. Málefni nýsköpunar falla undir skrifstofuna. Starfsmenn skrifstofunnar eru níu.
     Skrifstofa fjárlaga, rekstrar og innri þjónustu: Hlutverk skrifstofunnar er að annast rekstur ráðuneytisins, mannauðsmál, gæðamál, skjalavistun og veita fagskrifstofunum fjórum margvíslega stoðþjónustu. Þá annast skrifstofan ýmis miðlæg verkefni svo sem tölvuþjónustu í samstarfi við Rekstrarfélag Stjórnarráðsins. Öryggismál, móttaka gesta og afgreiðsla heyrir undir skrifstofuna. Þá fer skrifstofan með rekstur ráðuneytisins, innkaup, skiptingu á fjárhagsramma og annast framkvæmd og eftirfylgni fjárlaga. Hún hefur rekstrarlegt eftirlit með stofnunum ráðuneytisins, umsjón með fjárlagavinnu stofnana og gefur út til þeirra fjárveitingabréf. Kostnaðarmat frumvarpa ásamt eftirliti með samningagerð ráðuneytisins heyrir einnig undir skrifstofuna. Starfsmenn eru þrettán.

     2.      Hversu margir skrifstofustjórar heyra undir aðra skrifstofustjóra eða stýra ekki skrifstofu sjálfir?
    Enginn.

     3.      Hvaða aukastörf og hlunnindi fylgja starfi hvers skrifstofustjóra og hvert er hlunnindamat starfa þeirra?
    Seta í nefndum, ráðum og starfshópum á vegum ráðuneytisins er skilgreind sem hluti af störfum skrifstofustjóra og því ekki greitt sérstaklega fyrir þá vinnu. Kjararáð úrskurðaði áður um laun og starfskjör skrifstofustjóra og fá þeir greidd föst laun og einingar samkvæmt síðasta úrskurði þess. Nú hafa ákvarðanir um laun og starfskjör skrifstofustjóra verið flutt undir BHM.
    Skrifstofustjórar hafa farsíma til umráða og kostnaður vegna þeirra er greiddur af ráðuneytinu. Þá fá þeir greiddan kostnað vegna heimasíma og nettenginga. Önnur hlunnindi eru ekki greidd.

     4.      Hversu mikla yfirvinnu vinnur hver skrifstofustjóri að jafnaði á mánuði, talið í klukkustundum?
    Nokkuð er breytilegt eftir skrifstofum hversu mikla yfirvinnu skrifstofustjórar vinna en yfirvinna þeirra á árinu 2018 samkvæmt Vinnustund (tímaskráningarkerfi ráðuneytisins) var að jafnaði á bilinu 10–21 klukkustund á mánuði.

     5.      Hvernig tengjast skrifstofurnar í ráðuneytinu undirstofnunum þess?
    Að öllu jöfnu hafa stofnanir tvo tengiliði í ráðuneytinu. Annar þeirra er skrifstofustjóri á viðkomandi fagskrifstofu og hinn sérfræðingur á skrifstofu fjárlaga innri þjónustu og rekstrar. Í fjárveitingabréfum til stofnana er meðal annars kveðið á um formleg samskipti milli ráðuneytis og stofnana en þess utan eru samskiptin eftir þörfum. Fer það mikið eftir verkefnum hverju sinni hversu mikil samskiptin eru.