Ferill 845. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1635  —  845. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Unu Hildardóttur um málefni hinsegin fólks sem sækir um alþjóðlega vernd.


     1.      Hve margir einstaklingar, sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi, falla undir það að vera hinsegin, þ.e. að kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáning þeirra fellur að þeirri skilgreiningu að vera hinsegin?
    Upplýsingar um hvort einstaklingar sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi eru hinsegin eða ekki eru ekki skráðar sérstaklega. Því liggur ekki fyrir tölfræði um hversu margir af þeim sem sótt hafa um vernd hér á landi eru hinsegin. Slíkar upplýsingar eru hins vegar hluti af málsástæðu í einstökum málum þar sem umsækjandi greinir sjálfur frá því.

     2.      Er það tekið sérstaklega til greina að einstaklingur sé hinsegin þegar kemur að úrvinnslu mála, t.d. þegar upprunaland hans eða það ríki sem hann yrði sendur aftur til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki en brýtur þó ef til vill á hinsegin fólki? Telur ráðherra að slík lönd séu í raun örugg eða mundi einstaklingurinn teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga?
    Við vinnslu umsókna um alþjóðlega vernd fer alltaf fram einstaklingsbundið mat á öllum aðstæðum umsækjandans og tekið er mið af stöðu hvers og eins. Við matið kemur til skoðunar hvaða áhrif það hefur á stöðu einstaklingsins að vera hinsegin í því ríki sem viðkomandi yrði annars sendur til. Ofsóknir í garð einstaklinga vegna kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar falla undir skilgreiningu á sérstökum þjóðfélagshópi samkvæmt flóttamannasamningnum. Þetta á við hvort sem um ræðir örugg upprunaríki eða önnur. Hvað varðar endursendingar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eru aðstæður viðkomandi skoðaðar með hliðsjón af aðstæðum í móttökuríki.
    Ráðherra metur ekki einstök mál umsækjenda um alþjóðlega vernd heldur felur stjórnvöldum að fylgja lögum, reglum og alþjóðaskuldbindingum sem um þennan málaflokk gilda og framkvæma einstaklingsbundið mat á öllum aðstæðum umsækjandans og taka mið af stöðu hvers og eins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd geta leitað endurskoðunar á ákvörðun stjórnvalda hjá sjálfstæðri kærunefnd útlendingamála séu þeir ósammála niðurstöðunni.

     3.      Hvaða sértæku úrræði hefur íslenska ríkið þegar kemur að þjónustu við þessa einstaklinga og er sérstaklega gert ráð fyrir þeim hjá Útlendingastofnun?
    Útlendingastofnun hagar þjónustu sinni eins og hægt er hverju sinni í samræmi við þarfir einstaklinga. Engin sértæk úrræði eru fyrir hinsegin fólk en áhersla er lögð á það hjá stofnuninni að koma einstaklingum með sérstakar þjónustuþarfir í þjónustu sveitarfélaga á meðan á dvöl þeirra stendur. Stofnunin hefur jafnframt átt samtöl við Samtökin ´78 og hefur vísað einstaklingum til þeirra um ráðgjöf og lokaða stuðningshópa. Þá skal Rauði krossinn standa fyrir félagslegum stuðningi við umsækjendur um alþjóðlega vernd samkvæmt samningi Rauða krossins á Íslandi, dómsmálaráðuneytisins og Útlendingastofnunar um aðstoð og þjónustu við einstaklinga sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi. Í viðauka við þann samning segir meðal annars að á hverjum tíma skuli Rauði krossinn meta sérstaklega stöðu viðkvæmra hópa og þörf þeirra fyrir sérstök virkniúrræði. Meðal hópa sem líta megi sérstaklega til séu umsækjendur sem flýja vegna kynhneigðar.

     4.      Hefur ráðherra hug á því að setja sig í samband við félagasamtök sem gæta hagsmuna hinsegin fólks hér á landi með það að leiðarljósi að bæta þjónustu við hinsegin fólk sem sækir um alþjóðlega vernd?
    Ráðherra felur Útlendingastofnun að sinna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi og hefur stofnunin í gegnum tíðina og eftir þörfum átt í samtölum við Samtökin ´78. Þannig voru Samtökin ´78 nýverið með kynningu hjá Útlendingastofnun þar sem allt starfsfólk stofnunarinnar fékk fræðslu um hvað felst í því að vera hinsegin. Þá hafa samtökin leitað til stofnunarinnar varðandi ýmis málefni þessa hóps og Útlendingastofnun hefur leitast við að bregðast hratt við slíkum erindum.
    Ráðherra vonar að samstarf Útlendingastofnunar, Samtakanna ´78 og annarra félagasamtaka varðandi fræðslu og ráðgjöf haldi áfram að vera farsælt.

     5.      Hefur ráðherra hug á að skipa ráðgjafarnefnd skipaða fulltrúum hagsmunafélaga ásamt fulltrúum hins opinbera til að greina stöðu hinsegin fólks sem sækir um alþjóðlega vernd með það að leiðarljósi að bæta stöðu þess og efla þjónustu við það?
    Dómsmálaráðuneytið, Útlendingastofnun og Rauði krossinn á Íslandi hafa gert með sér samning um aðstoð og þjónustu við einstaklinga sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þar kemur meðal annars fram að Rauði krossinn skuli meta sérstaklega stöðu viðkvæmra hópa og þörf þeirra fyrir sérstök virkniúrræði. Meðal hópa sem líta má sérstaklega til eru umsækjendur sem flýja vegna kynhneigðar. Þá er Útlendingastofnun einnig í góðu samtali við Samtökin ´78 varðandi málefni hinsegin fólks sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi.
    Ráðherra metur reglulega skilvirkni verndarkerfisins hér á landi þar sem brýnt er að kerfið grípi þá sem flýja ofsóknir og lífshættu í heimalandi sínu og eiga rétt á aðstoð. Ráðherra hefur eins og fram kemur hér að framan þegar gripið til aðgerða hvað varðar stöðu hinsegin fólks sem sækir um vernd með það að leiðarljósi að veita þeim nauðsynlega þjónustu og að þeir sem fari með mál þeirra séu vel upplýstir. Ekki er talin þörf á ráðgjafarnefnd að svo stöddu.

     6.      Hefur verið tekið sérstakt tillit til hinsegin fólks sem sækir um alþjóðlega vernd þegar kemur að búsetuúrræðum, t.d. með því að leyfa samkynja pörum að deila herbergi?
    Eins og fram hefur komið hagar Útlendingastofnun þjónustu sinni eins og hægt er hverju sinni í samræmi við þarfir einstaklinga. Samkynja pör, hinsegin pör og fjölskyldur þeirra eiga sama rétt og önnur pör og fjölskyldur að deila herbergi eða íbúð.