Ferill 926. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2037  —  926. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um útgjöld og notkun á almennum og sérsmíðuðum hugbúnaði hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess.

    Ráðuneytið vekur athygli á að við vinnslu svarsins hefur ekki reynst unnt að greina á milli leyfisgjalda vegna hugbúnaðar annars vegar og þjónustugjalda vegna hugbúnaðar hins vegar. Stafar þetta af því að þjónusta er í mörgum tilvikum innifalin í leyfisgjaldi eða öfugt, þ.e. leyfisgjöld eru innifalin í þjónustusamningi. Þá hefur einnig reynst vandkvæðum bundið að aðgreina kaup á hugbúnaði og leyfisgjöld enda fela kaup á hugbúnaði eðli málsins samkvæmt í sér heimild eða leyfi til að nota hann. Eru kostnaðartölur vegna hugbúnaðarkaupa og leyfis- og þjónustugjalda því ekki sundurgreindar í eftirfarandi svörum. Ráðuneytið vekur jafnframt athygli á því að ekki hefur reynst unnt að sérgreina kostnað vegna vinnu starfsmanna stofnana, þar sem við á, við forritun hugbúnaðar. Þá er einnig bent á að hugbúnaðarkaup kunna að hafa verið hluti af vélbúnaðarkaupum í einhverjum tilvikum. Á þetta einkum við á fyrri hluta tímabilsins sem spurt er um. Að lokum er tekið fram að kostnaðartölur og svör að öðru leyti byggjast alfarið á upplýsingum sem aflað hefur verið hjá viðkomandi stofnunum.

     1.      Hver hafa verið útgjöld ráðuneytisins og undirstofnana þess vegna hugbúnaðarkaupa frá árinu 2009? Hve háum fjárhæðum var varið til kaupa á sérsmíðuðum kerfum annars vegar og til kaupa á almennum hugbúnaði hins vegar?

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.













     2.      Hve háum fjárhæðum vörðu ráðuneytið og undirstofnanir þess til greiðslu leyfisgjalda fyrir hugbúnað annars vegar og til greiðslu þjónustugjalda fyrir hugbúnað hins vegar frá árinu 2009?
    Eins og rakið er í inngangi svarsins hefur ekki reynst mögulegt að aðgreina kostnað vegna leyfisgjalda vegna hugbúnaðar annars vegar og þjónustugjalda vegna hugbúnaðar hins vegar. Um kostnað vegna þessa er að öðru leyti vísað til upplýsinga í töflu í svari við 1. lið.

     3.      Hvaða sérsmíðaða hugbúnað er ráðuneytið og hver undirstofnun þess að nota og:
                  a.      hver er eigandi hugbúnaðarins,
                  b.      eftir hvaða hugbúnaðarleyfi er hugbúnaðurinn gefinn út,
                  c.      var hugbúnaðurinn þróaður af verktökum eða af forriturum í starfi innan ráðuneytis eða stofnunar,
                  d.      hver var kostnaðurinn við gerð hugbúnaðarins,
                  e.      hver er tilgangur hugbúnaðarins?

    a.     Tvær stofnanir sem heyra undir ráðuneytið nýta sérsmíðaðan hugbúnað í starfsemi sinni og er sá hugbúnaður í nær öllum tilfellum í eigu stofnunarinnar, það er Hagstofu Íslands og Seðlabanka Íslands.
    b.     Hugbúnaðurinn er ekki gefinn út eða gerður samkvæmt sérstöku hugbúnaðarleyfi.
    c.     Hugbúnaðurinn hefur ýmist verið þróaður af verktökum eða forriturum í starfi innan stofnananna.
    d.     Kostnaður við gerð hugbúnaðarins hjá Hagstofu Íslands kemur fram í töflu hér að framan. Seðlabanki Íslands telur sig á hinn bóginn ekki með góðu móti geta sundurliðað þennan kostnað þar sem kostnaður vegna kaupa á almennum hugbúnaði og vinnu verktaka við sérsmíðaðan hugbúnað hefur verið skráður á sama bókhaldslykil, auk þess sem erfitt er að áætla innri kostnað vegna forritunar af hálfu starfsmanna Seðlabankans.
    e.     Tilgangur hins sérsmíðaða hugbúnaðar er að gera stofnunum betur kleift að sinna lögbundinni starfsemi sinni.