Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 861  —  402. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um barnaverndarnefndir og umgengni.


     1.      Telur ráðherra að barnaverndarnefndum sé óheimilt að ráða foreldri frá því að senda barn til foreldris sem er til rannsóknar vegna kynferðisbrota?
    Barnaverndarnefndir geta beint fyrirmælum til forsjáraðila varðandi umönnun og aðbúnað barns, bæði með samkomulagi við foreldra og með sérstökum úrskurði þar um. Til þess að slík fyrirmæli geti lotið að umgengni barns við foreldri þurfa upplýsingar og gögn að vera þess eðlis að grunur um ofbeldi sé rökstuddur, svo ekki sé brotið gegn rétti barns og foreldris til samskipta. Skoða þarf hverju sinni hvaða upplýsingar liggja fyrir í málinu til þess að hægt sé að taka ákvörðun sem takmarkar stjórnarskrárbundinn rétt barns og foreldris til samveru.

     2.      Telur ráðherra að barnaverndarnefndum og Barnaverndarstofu beri ávallt að beita sér fyrir því að umgengnissamningum og úrskurðum sýslumanns um umgengni sé fylgt, óháð því hvort meint kynferðisbrot séu til rannsóknar?
    Líkt og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar getur barnaverndarnefnd beint fyrirmælum til forsjáraðila um umönnun og aðbúnað barns, óháð því hvort samningur eða úrskurður um umgengni liggur fyrir. Barnaverndarstofa kemur aldrei að slíkum ákvörðunum og getur aldrei gefið beitt sér í málum sem þessum heldur veitir eingöngu ráðgjöf til nefnda um framkvæmd barnaverndarlaga.
    Í þessum efnum er mikilvægt að hafa í huga að Alþingi hefur ákveðið að önnur stjórnvöld en barnaverndaryfirvöld, þ.e. sýslumannsembætti, hafi það hlutverk að taka ákvarðanir um umgengni foreldra og barna. Síðast þegar barnalögum var breytt árið 2012 var sett inn sérstakt ákvæði um heimild sýslumannsembætta til að taka bráðabirgðaákvarðanir um umgengni og t.d. stöðva umgengni tímabundið á meðan mál væru skoðuð nánar. Það gæti talist valdníðsla ef barnaverndarnefndir færu að taka þetta lögbundna hlutverk sýslumannsembætta yfir og því ber barnaverndaryfirvöldum að stíga varlega til jarðar í þessum efnum.
    Mikilvægt er að líta til þess við endurskoðun laga um þjónustu við börn hvernig verkefni stjórnvalda kunna að skarast samkvæmt barnalögum annars vegar og barnaverndarlögum hins vegar og hvort hægt sé að einfalda stjórnsýsluna í þessum efnum og skýra betur skil milli þessara tveggja lagabálka.