Ferill 783. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1776  —  783. mál.
Leiðréttur texti.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um vinnu Tryggingastofnunar ríkisins við leiðréttingu búsetuhlutfalls örorkulífeyrisþega.


     1.      Hversu margir örorkulífeyrisþegar munu fá eða hafa fengið endurskoðun og leiðréttingu búsetuhlutfalls í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016?
    Endurskoðun á búsetuhlutfalli nær til allra greiðsluþega sem fengu afgreiddan örorkulífeyri frá 1. júní 2014. Í júní 2019 voru þetta 1.453 einstaklingar.

     2.      Hversu margir þeirra hafa þegar fengið leiðréttingu búsetuhlutfalls og hversu margir eru enn að bíða eftir niðurstöðu Tryggingastofnunar?
    Tryggingastofnun hefur lokið endurskoðun búsetuhlutfalls hjá 499 manns. Þannig er enn ólokið endurskoðun búsetuhlutfalls hjá 954 einstaklingum.

     3.      Fyrir hversu marga hefur Tryggingastofnun ekki hafið vinnu við leiðréttingu búsetuhlutfalls?
    Tryggingastofnun hefur hafið endurskoðun á búsetuhlutfalli hjá 808 manns. Þannig er ekki hafin vinna við endurskoðun búsetuhlutfalls hjá 645 einstaklingum.

     4.      Hversu margir þeirra, sem hlutu fyrsta 75% örorkumat eftir að Tryggingastofnun hóf endurskoðun og leiðréttingu búsetuhlutfallsins, fá nú greitt eða hafa fengið greitt miðað við hlutfallslegan framreikning?
    Frá 1. júní 2019 hafa 110 einstaklingar með lækkað búsetuhlutfall fengið samþykkta örorku. Af þeim hafa 37 fengið samþykktan 100% framreikning í örorkumati og fá greitt í samræmi við það.
    Rétt er að taka fram að framvinda málsins er í samræmi við tímaáætlun sem sett var í upphafi, en gert er ráð fyrir að leiðréttingu verði lokið á árinu 2021. Meta þarf hvert mál fyrir sig og Tryggingastofnun ber samkvæmt stjórnsýslulögum að afla allra gagna og sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Í mörgum tilvikum þarf að kalla eftir upplýsingum bæði frá greiðsluþega og þeim löndum þar sem hann hefur verið búsettur. Það er mismunandi eftir hverju landi fyrir sig hversu langan tíma það tekur að fá svör við fyrirspurnum og hefur því stofnunin gefið sér umræddan tíma til að vinna mál þessi.