Ferill 771. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2120  —  771. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um starfsemi fjárhagsupplýsingastofa.


     1.      Hvernig er tryggt og hver ber ábyrgð á því að upplýsingar eldri en fjögurra ára eða upplýsingar um kröfu sem hefur verið komið í skil verði eftir það ekki notaðar með neikvæðum áhrifum við gerð lánshæfismats, sbr. 2. tölul. svars ráðherra við fyrirspurn um vinnslu og miðlun upplýsinga um umdeildar skuldir á þskj. 1264?
    Til að svara fyrirspurninni leitaði ráðuneytið til Persónuverndar. Í svari stofnunarinnar kemur fram að öll vinnsla persónuupplýsinga verði að byggjast á heimild í persónuverndarlögum, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2018. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2018 skal starfræksla fjárhagsupplýsingastofa og vinnsla þeirra á upplýsingum sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga bundin leyfi Persónuverndar.
    Þá kemur fram að það sé á ábyrgð fjárhagsupplýsingastofu að tryggja að farið sé að þeim kröfum í starfsleyfi til vanskilaskráningar sem vitnað er til í þessum lið fyrirspurnarinnar. Sem eftirlitsstofnun hefur Persónuvernd það hlutverk að sjá til þess að þeirri skyldu sé fylgt.

     2.      Við hvaða upphafsdag skal miða það fjögurra ára tímabil sem heimilt er að miðla fjárhagsupplýsingum í?
    Í svari Persónuverndar kemur fram að lagt sé til grundvallar að um ræði fjögur ár frá skráningu.

     3.      Hver ber ábyrgð á því tilkynna fjárhagsupplýsingastofu um að kröfu hafi verið komið í skil og upplýsingum um hana skuli því eyða? Geri kröfuhafi það ekki og greiðandi þurfi því að gera það sjálfur, þarf hann að sanna að krafan sé komin í skil og þá hvernig?
    Persónuvernd tekur fram í svari sínu að eigandi kröfu ber ábyrgð á því að vanskilamerkingar stafi ekki af kröfum sem komið hefur verið í skil. Fjárhagsupplýsingastofa skal eyða upplýsingum um einstakar skuldir sé vitað að svo sé óháð því hvort eigendur kröfu hafa gert henni viðvart. Ef kröfuhafi neitar að láta eyða kröfu á vanskilaskrá er unnt að kvarta til Persónuverndar.

     4.      Hversu oft hefur viðurlögum verið beitt vegna miðlunar eða vinnslu fjárhagsupplýsinga, sbr. 3 tölul. fyrrgreinds svars við fyrirspurn á þskj. 1264, sundurliðað eftir árum:
                  a.      í formi hækkunar áskriftargjalds af hálfu fjárhagsupplýsingastofu,
                  b.      í formi uppsagnar áskriftarsamnings af hálfu fjárhagsupplýsingastofu,
                  c.      í formi stjórnvaldssektar af hálfu Persónuverndar, eða
                  d.      í formi sviptingar leyfis af hálfu Persónuverndar?
        Hvaða fyrirkomulag er á opinberri birtingu slíkra ákvarðana?

    Samkvæmt svari frá Persónuvernd liggur ekki fyrir tölfræði um hækkun áskriftargjalds og uppsagnir áskriftarsamninga. Stjórnvaldssektum, sem Persónuvernd hefur haft heimild til að beita frá 15. júlí 2018, hefur ekki verið beitt gagnvart fjárhagsupplýsingastofu og ekki hefur komið til leyfissviptingar. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru birtar á vefsíðu Persónuverndar. Hið sama myndi gilda um ákvörðun um leyfissviptingu.

     5.      Telur ráðherra forsvaranlegt að það sé í verkahring fjárhagsupplýsingastofu að beita ábyrgðaraðila, þ.e. kröfuhafa eða umboðsmann hans sem notar vanskilaskrána hverju sinni, viðurlögum með hækkun áskriftargjalds eða uppsögn áskriftarsamnings, þegar stofan hefur sjálf hagsmuni af því að verða ekki af áskriftartekjum vegna uppsagnar áskriftarsamnings? Telur ráðherra koma til greina að fela opinberum aðila þetta hlutverk, t.d. Persónuvernd?
    Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, skal starfræksla fjárhagsupplýsingastofa og vinnsla þeirra á upplýsingum sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga bundin leyfi Persónuverndar. Skv. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust getur Persónuvernd bundið slíkt starfsleyfi þeim skilmálum sem hún telur nauðsynlega hverju sinni. Í skilmálum starfsleyfis sem Persónuvernd hefur veitt þeirri fjárhagsupplýsingastofu, sem starfað hefur hér á landi, er lögð sú skylda að bregðast við ef áskrifandi hjá henni fer ekki að skilmálum með hækkun á áskriftargjaldi og, eftir atvikum, uppsögn á áskriftarsamningi eins og nánar er rakið í niðurlagi greinar 2.9 í áðurnefndu leyfi.
    Persónuvernd er sjálfstæð stofnun með sérstaka stjórn, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 90/2018. Stofnunin tekur ekki við fyrirmælum frá stjórnvöldum eða öðrum aðilum. Þá verður ákvörðunum Persónuverndar ekki skotið til annarra stjórnvalda, en aðilum máls er samkvæmt sama ákvæði heimilt að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjubundnum hætti.
    Það er ekki í verkahring ráðherra að endurskoða skilmála starfsleyfis sem Persónuvernd hefur veitt þeirri fjárhagsupplýsingastofu, sem starfað hefur hér á landi, þar á meðal þá sem lúta að hækkun á áskriftargjaldi eða uppsögn samnings. Það er ábyrgð fjárhagsupplýsingastofunnar að tryggja að farið sé að kröfum í starfsleyfi. Persónuvernd gegnir síðan hlutverki sem eftirlitsaðili skv. lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

     6.      Hvernig telur ráðherra rétt að bregðast við þeim upplýsingum, sem koma fram í 4. tölul. fyrrgreinds svars við fyrirspurn á þskj. 1264, að tíunda hver kvörtun til Persónuverndar tengist starfsemi eins og sama fyrirtækisins?
    Við fyrirhugaða endurskoðun reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust verður haft samráð við Persónuvernd. Gera má ráð fyrir að skoðaðir verði þeir úrskurðir sem hafa gengið hjá Persónuvernd vegna ágreinings um heimildir samkvæmt lögum, reglum og skilmálum í starfsleyfi fjárhagsupplýsingastofunnar. Leitað verður m.a. eftir afstöðu Persónuverndar til þess hvort framkvæmdin hafi leitt í ljós atriði sem þarfnast sérstakrar skoðunar við endurskoðun reglugerðarinnar.