Ferill 989. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2126  —  989. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um áfangastaðastofur landshluta.


     1.      Hvað líður undirbúningi fyrir stofnun áfangastaðastofa landshluta?
    Vinna við áfangastaðaáætlanir landshlutanna hófst árið 2017 sem eitt af forgangsverkefnum Vegvísis í ferðaþjónustu. Samið var við markaðsstofur landshlutanna um að leiða vinnuna í hverjum landshluta en Ferðamálastofa hafði umsjón með verkefninu í samvinnu við Stjórnstöð ferðamála. Áfangastaðaáætlanir landshlutanna voru síðan birtar árið 2018. Við vinnslu þeirra kom í ljós að efla mætti stoðkerfi ferðaþjónustunnar í landshlutunum með stofnun svokallaðra áfangastaðastofa (e. destination management organisation).
    Árið 2019 var framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála og ferðamálastjóra falið að setja af stað vinnu við að kanna hug sveitarfélaga og landshlutasamtaka þeirra gagnvart málinu. Farið var í fundaferð um landið, rætt við stjórnir landshlutafélaga og sveitarstjórnarmenn og hugmyndir um áfangastaðastofur kynntar. Rætt var um hlutverk og helstu verkefni áfangastaðastofa og um svæðaskiptingu slíkra stofa, t.d. hvort byggja ætti á núverandi skiptingu markaðsstofa milli landshluta eða hvort horfa ætti til annars konar skiptingar. Í því samhengi var því velt upp hvort skynsamlegt væri að svæðin væru færri þannig að hver áfangastaðastofa væri öflugri og fjölmennari eining en þó þannig að staðsetning starfa gæti verið á nokkrum stöðum. Einnig kom til umræðu fjármögnun áfangastaðastofa sem gæti verið byggð á samstarfi opinberra aðila og einkaaðila (e. public/private partnership), fjármögnun í gegnum ýmiss konar styrktarsjóði, innlenda og erlenda, sem og tilfallandi sérverkefni.
    Ferðamálastofa fékk erlendan ráðgjafa til að vinna skýrslu um skipulag og hlutverk áfangastaðastofa sem var birt sumarið 2019. Skýrslan byggist á ítarlegum viðtölum við sérfræðinga ellefu áfangastaðastofa víða um heim og er þar að finna yfirlit yfir hlutverk og skipulag þeirra. Þar er einnig yfirlit yfir fjármögnun þeirra, álit forsvarsmanna þeirra á hvað þykir hafa tekist vel til og hvað ber að forðast.
    Ferðaþjónusta er ein grunnstoð íslensks atvinnulífs og byggðaþróunar sem kallar á samhæfingu og eflingu stoðkerfis ferðaþjónustunnar um landið. Undanfarin ár hafa undirstöður stoðkerfisins verið treystar, svo sem með aukinni aðkomu sveitarfélaga, fjölbreyttari verkefnum markaðsstofanna og aukinni áherslu á nýsköpun í byggðum landsins. Stofnun áfangastaðastofa á grunni markaðsstofa landshlutanna mun styrkja þessar undirstöður enn frekar en verkefninu verður einungis lokið í góðu samstarfi við heimamenn og á forsendum þeirra sjálfra. Við þá vinnu er jafnframt byggt á Framtíðarsýn og leiðarljósi ferðaþjónustunnar til 2030 þar sem fram kemur skýr áhersla á jafnvægi milli sjálfbærnivíddanna þriggja, samfélags, efnahags og umhverfis.
    Það er vilji stjórnvalda að styðja við þróun markaðsstofa landshlutanna yfir í áfangastaðastofur. Eins og áður sagði verður slík þróun að vera á forsendum svæðanna sjálfra. Niðurstaðan liggur því að stórum hluta hjá sveitarfélögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga á hverju svæði. Í flestum landshlutum er nú þegar kominn vísir að áfangastaðastofu með þéttri samvinnu eða samþættingu markaðsstofu og landshlutasamtaka sveitarfélaga á þeim svæðum. Ráðuneytið á í virku samtali við markaðsstofur landshlutanna um áframhaldandi þróun í þá átt. Þá hefur Reykjavíkurborg þegar hafið forvinnu fyrir höfuðborgarsvæðið með tilliti til þess að þar verði stofnuð áfangastaðastofa.

     2.      Hvenær má gera ráð fyrir að þeim undirbúningi ljúki?
    Vísað er til svars við 1. tölul. Þar kemur m.a. fram mikilvægi þess að vilji landshlutasamtaka sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga sé skýr.

     3.      Er gert ráð fyrir því að landshlutasamtök sveitarfélaga komi að rekstri áfangastaðastofa?
    Vísað er til svars við 1. tölul. Ljóst er að landshlutasamtök sveitarfélaga munu leika lykilhlutverk í samþættingu áætlanagerðar, uppbyggingar og skipulags áfangastaðanna.

     4.      Hvernig er gert ráð fyrir að starfsemi áfangastaðastofa landshluta verði fjármögnuð?
    Á undanförnum árum hefur framlag ríkisins til svæðisbundinnar þróunar í ferðaþjónustu að verulegu leyti runnið til markaðsstofa landshlutanna, enda hefur hlutverk þeirra vaxið í kjölfar þess að ráðist var í gerð áfangastaðaáætlana. Með nýjum áherslum í kjölfar stofnunar áfangastaðastofa mun hlutverk og verkefni þeirra lúta í auknum mæli að stjórnun áfangastaðanna. Fjármögnun þarf að endurspegla breyttar áherslur og því er horft til þess, eins og fram kemur í 1. tölul., að hún gæti verið byggð á samstarfi opinberra aðila og einkaaðila.