Ferill 681. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1361  —  681. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lagalega ráðgjöf.


     1.      Hvaða viðmið eru viðhöfð þegar ráðuneytið leitar eftir ráðgjöf til stofnana eða starfsmanna, þ.m.t. félaga í eigu starfsmanna, lagadeilda Háskólans á Akureyri (HA), Háskóla Íslands (HÍ), Háskólans í Reykjavík (HR) og Háskólans á Bifröst (Bifröst) sem gegna stöðu nýdoktora, háskólakennara, lektora, dósenta eða prófessora í fullu starfi og hlutastarfi, þ.m.t. starfsmenn í gesta- og rannsóknarstöðum?
    Fagleg viðmið eru fyrst og fremst ráðandi um hverjir eru fengnir til lögfræðilegrar ráðgjafar á málefnasviðum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Með faglegum viðmiðum er átt við að viðkomandi stofnun eða ráðgjafi hafi sérþekkingu á viðkomandi málefni sem ekki er til staðar innan ráðuneytisins í sama mæli. Einnig getur verið um að ræða að stofnanir eða ráðgjafar séu fengnir til að taka þátt í málefnastarfi, t.d. verkefnahópum ráðherra þar sem þekking viðkomandi nýtist.

     2.      Vegna hvers konar verkefna er leitað lagalegrar ráðgjafar hjá starfsmönnum og stofnunum lagadeilda háskólanna og hversu oft vegna hverrar tegundar verkefna?
    Fátítt er að ráðuneytið leiti til tilvitnaðra stofnana eða einstaklinga, en þá væri aðallega um að ræða ráðgjöf í sérhæfðum málum sem snúa að lögfræðilegu mati og álitaefnum þar sem akademísk þekking nýtist.

     3.      Hversu mörg ráðgjafarverkefni, sem 1. tölul. lýtur að, hafa verið innt af hendi frá árinu 2018 og hversu mikið hefur verið greitt samtals fyrir ráðgjöfina á umræddu tímabili?
    Tvö ráðgjafarverkefni hafa verið unnin í tengslum við tilvitnaðar stofnanir og aðila sem nefnd eru í 1. tölul. frá 1. janúar 2018, sjá meðfylgjandi töflu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




     4.      Hversu mikið hefur verið greitt fyrir verkefni sem vikið er að í 1. tölul. frá ársbyrjun 2018 og hversu mörg hafa verið innt af hendi af annars vegar starfsmönnum og hins vegar stofnunum:
                  a.      lagadeildar HA,
                  b.      lagadeildar HÍ,
                  c.      lagadeildar HR,
                  d.      lagadeildar Bifrastar?

    Sjá svar við 3. tölul., bæði verkefnin voru unnin á vegum Lagastofnunar HÍ sem heyrir undir lagadeild.

     5.      Hvaða bókaútgáfu á sviði lögfræði hefur ráðuneytið styrkt frá árinu 2018 og hversu hár hefur styrkurinn verið fyrir hverja og eina útgáfu? Hvaða viðmið eru lögð til grundvallar við slíkar styrkveitingar?
    Ráðuneytið hefur ekki styrkt bókaútgáfu á sviði lögfræði á umræddu tímabili.