Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 765  —  537. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um samráðsvettvang um mótun verkefnastjórnsýsluumhverfis opinberra framkvæmda.


Flm.: Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Líneik Anna Sævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að móta samráðsvettvang stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélagsins um mótun verkefnastjórnsýsluumhverfis opinberra framkvæmda. Hlutverk hans verði að vinna innan tímasettra rammaáætlana að því að móta nútímalegt verkefnastjórnsýsluumhverfi.

Greinargerð.

    Mikilvægt er að móta rammaáætlun sem miði að því að auka skilvirkni og hagkvæmni opinberra fjárfestingarverkefna. Til þess að ná því markmiði leggja flutningsmenn til að mótaður verði samráðsvettvangur stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélagsins að erlendri fyrirmynd. Fyrirmynd má finna í Noregi, en þar hefur rannsóknarverkefnið „Concept“ skilað miklum ávinningi fyrir norsku þjóðina en því er ætlað að afla þekkingar sem tryggi betri ákvarðanatöku, auðlindanýtingu og árangur stórra opinberra fjárfestinga.
    Reynslan sýnir að opinber fjárfestingarverkefni skila ekki alltaf þeim ávinningi sem að er stefnt. Skýringa má t.d. leita í hinu pólitíska undirbúningsferli, í ákvarðanatökuferlinu og í verkefnunum sjálfum. Vandamál eins og framúrkeyrsla kostnaðar og seinkun á afhendingu, óljós ávinningur fyrir almenning og ónógur ávinningur fyrir samfélagið eru þekkt hér á landi eins og víða annars staðar. Dæmi finnast um skort á hæfni, vöntun á skýrum leikreglum, óhóflega bjartsýni og fleiri tæknilega, félagslega og sálfræðilega þætti sem leiða til vandamála þegar fjármunum almennings er ráðstafað. Þessi vitneskja liggur fyrir svo ekki verður um deilt og skýrsla innanríkisráðuneytisins Verkefnastjórnsýsla: Markviss notkun fjármuna til samgönguframkvæmda frá 2016 bendir m.a. á þetta viðfangsefni og leiðir til útbóta.
    Hugmyndafræðin að baki samráðsvettvangnum er að stjórnvöld, atvinnulíf og fræðasamfélagið vinni saman innan tímasettra rammaáætlana að því að móta nútímalegt verkefnastjórnsýsluumhverfi. Sem dæmi má taka að OECD mælir með því að þróuð samfélög ástundi bestu starfsvenjur (e. best practice) frekar en laga- og reglugerðarsetningu. Með því eru leikreglur og verklag á markaði þróaðar eftir því sem þekkingu fleygir fram. Með starfsemi samráðsvettvangsins má þess vænta að ýtt verði undir fagmennsku við stjórnun og stjórnsýslu, menntunargrundvöllur verður styrktur verulega, dregið úr óvissu og áhættu við opinberar framkvæmdir, gegnsæi aukið til muna og hið pólitíska og framkvæmdalega samspil fært til góðra stjórnsýsluhátta. Dæmi erlendis frá sýna einnig að kostnaður við opinber verkefni muni lækka hlutfallslega og traust almennings á stjórnvöldum muni aukast.
    Staðan hér á landi er sú að margar stofnanir og fyrirtæki hafa komið sér upp sjálfstæðum stjórnsýslukerfum og þá má benda á að Framkvæmdasýsla ríkisins (nú FSRE) hefur bætt sína verkferla verulega. En skortur er á samræmi, gagnasöfnun og úrvinnsla er mjög takmörkuð, útgáfa og dreifing upplýsinga nánast engin o.s.frv. Með því að stilla upp tímasettri rammaáætlunin er hægt að vinna að umbótum eftir tölusettum markmiðum, t.d. innan kjörtímabilsins. Þá er ljóst að hverju er stefnt og til eru skýrar fyrirmyndir sem styðjast skal við. Byggja má á þeim grunni sem þegar er til og stilla upp fyrirkomulagi þar sem hægt er að reka kerfið um ótiltekinn tíma og miða að því að það verði sjálfbært, líkt og tíðkast víða erlendis. Fyrsti hluti rammaáætlunarinnar gæti miðað að því að byggja upp gagnagrunn til þess að safna upplýsingum sem yrðu þá grundvöllur að öllu umbótastarfi. Samhliða því verði áfram unnið að greiningu á íslenska verkefnastjórnsýsluumhverfinu, við þá vinnu má líta til erlendra fyrirmynda. Í framhaldi yrði svo unnið að þróun og innleiðingu á bestu starfsvenjum og umhverfi sem tryggi að lög um opinberar framkvæmdir virki sem skyldi.
    Mikilvægt er að móta samráðsvettvang sem miðar að því að færa verkefnastjórnsýsluumhverfi í nútímalegt horf. Flutningsmenn telja að með því verði hægt að draga úr kostnaði við framkvæmdir og auka traust almennings á stjórnvöldum og leggja því fram þingsályktunartillögu þessa.