Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 661  —  225. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um frekari sölu á eignarhluta í Íslandsbanka.


     1.      Hvert er hið nýja fyrirkomulag við frekari sölu á eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka sem ríkisstjórnin boðaði 19. apríl sl. og hvenær er frumvarp þess efnis væntanlegt?
    Á þingmálaskrá er gert ráð fyrir frumvarpi til laga um meðferð eignarhluta ríkisins í fyrirtækjum á haustþingi. Í því frumvarpi, eða sérstöku frumvarpi sem lagt verður fram samhliða, verða settar fram tillögur um sölumeðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Ráðuneytið taldi rétt að bíða með að fullvinna tillögur um breytt fyrirkomulag þar til úttekt Ríkisendurskoðunar á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022 hefði verið gefin út og rædd á Alþingi. Horft verður til niðurstaðna skýrslunnar og ábendinga sem í henni koma fram við þá vinnu.

     2.      Er hið nýja fyrirkomulag forsenda þess að frekari sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum fari fram eða telur ráðherra efni til að halda söluferlinu áfram þrátt fyrir yfirlýsingu formanna ríkisstjórnarflokkanna í apríl sl.?
    Í tilvitnaðri yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna 19. apríl 2022 kemur fram að ekki verði ráðist í frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka að sinni en þegar ný löggjöf liggur fyrir muni ákvörðun um mögulega sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verða tekin fyrir á Alþingi. Í ráðuneytinu er unnið í samræmi við framangreind áform.

     3.      Hvert er mat á samanlögðu virði allra þeirra eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem Bankasýsla ríkisins hefur umsjón með?
    Samkvæmt ríkisreikningi 2021 var samanlagt virði eignarhlutanna þriggja í Íslandsbanka, Landsbankanum og Sparisjóði Austurlands út frá eigin fé (hlutdeildarvirði) um 415 milljarðar kr. í lok 2021, en þá átti ríkið 65% hlut í Íslandsbanka. Við sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars sl. lækkaði hlutdeild ríkisins í eigin fé bankans í sama mæli og þar með einnig samanlagt virði ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem Bankasýsla ríkisins hefur umsjón með. Virði eignarhluta er endurmetið árlega í reikningsskilum ríkisins miðað við stöðu í árslok.
    Ef horft er til sömu aðferðafræði (hlutdeildarvirðis) var samanlagt virði eignarhlutanna í lok júnímánaðar 2022 um 354 milljarðar kr. miðað við 6 mánaða uppgjör bankanna og hlutdeild ríkisins í eigin fé, en ríkið átti þá 42,5% í Íslandsbanka.
    Þar sem hlutabréf Íslandsbanka eru skráð á markað er einnig hægt að horfa til markaðsvirðis hans, frekar en hlutdeildarvirðis, en markaðsvirði skráðra félaga sveiflast frá degi til dags. Þannig mætti bera saman virði hlutar ríkisins í Íslandsbanka miðað við hlutdeildarvirði, sem var 86,6 milljarðar kr. í lok júní 2022, og virði hlutarins miðað við markaðsvirði sama dags, sem var 102 milljarðar kr. (gengi 120). Ef markaðsvirði Íslandsbanka yrði notað í stað hlutdeildarvirðis hans væri samanlagt virði eignarhlutanna þriggja þannig um 369 milljarðar kr. í lok júní 2022.

     4.      Er einhugur í ríkisstjórn um fyrirkomulag sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum?
    Tillögur um breytt fyrirkomulag í tengslum við sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafa ekki verið bornar undir ríkisstjórn á þessu stigi. Gert er ráð fyrir að eftir að áform um lagabreytingar og drög að frumvarpi hafa verið lögð fram til kynningar og samráðs með vanalegum hætti í samráðsgátt stjórnvalda verði tillaga um framlagningu frumvarps á Alþingi lögð fyrir ríkisstjórn.