Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 703  —  546. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um leyfisskyldu og eftirlit með áfangaheimilum.


Flm.: Jódís Skúladóttir, René Biasone, Bjarni Jónsson, Orri Páll Jóhannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að undirbúa lagasetningu um leyfisskyldu og eftirlit með rekstri áfangaheimila, skilgreiningu þeirra og hlutverk.

Greinargerð.

    Í gildandi lagaumhverfi er ekki kveðið á um leyfisskyldu eða eftirlit með rekstri og umsjón áfangaheimila. Þá eru engin lagaákvæði sem kveða á um heimild ráðherra til að setja eftirlit með þeim í reglugerð. Almennt vísar hugtakið til tímabundins heimilis fólks með fjölþættan vanda sem starfrækt er með það að markmiði að stuðla að endurhæfingu þess í kjölfar dvalar á meðferðar- eða endurhæfingarstofnun eða í fangelsi. Slíkar orðskýringar er að finna í 3. gr. laga um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, og í 3. mgr. 2. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994. Þrátt fyrir ágæti þeirra skilgreininga taka þær ekki til starfshátta, leyfisskyldu og eftirlits. Í skjóli þess er unnt að reka ýmsa starfsemi undir þessu heiti án sérstaks eftirlits eða leyfis.
    Í sögulegu samhengi hefur eftirliti með úrræðum til handa fólki með fjölþættan vanda verið ábótavant. Í mörgum tilfellum hefur það varðað við lög vegna misneytingar og ofbeldis gagnvart skjólstæðingum. Hér á landi er umtalsverður fjöldi áfangaheimila. Rekstur þeirra er ýmist á höndum hins opinbera eða einkaaðila, svo sem sjálfseignarstofnana, félagasamtaka eða einstaklinga. Mörg þeirra eru rekin á trúarlegum forsendum og eru liður í eftirfylgni áfengis- eða vímuefnameðferðar. Leyfisveitingar og eftirlit með þeim er frábrugðið því sem almennt gerist í heilbrigðis-, velferðar- og félagsþjónustu. Almennt er viðtekið að ábyrgðaraðili þjónustunnar setji reglur um eftirlit og eftirfylgni með henni sjálfur. Nýleg dæmi eru um áfangaheimili í þágu fólks með fíknivanda, þar sem tilfinnanlegur skortur var á eftirliti með aðbúnaði, hreinlæti og öryggi. Í ljósi þess að brotalöm er á opinberu eftirliti með starfsemi áfangaheimila og ekki skýrt regluverk í kringum það hver má stofna til slíkra úrræða eru takmarkaðar kröfur gerðar til ábyrgðaraðila um rekstur þeirra.
    Mikilvægt er að starfsemi áfangaheimila hafi skýr markmið, hvert sem úrræðið er og til staðar séu fagleg, gagnreynd vinnubrögð og verkferlar sem stuðli að endurhæfingu. Opinbert eftirlit og leyfisskylda sem knýr á um fagleg vinnubrögð, viðveru þar til menntaðs heilbrigðisstarfsfólks sem og félagslegrar ráðgjafar, hreinlætis, öryggis og aðbúnaðar eru lykilatriði. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að sá hópur fólks sem sækir þjónustu áfangaheimilis er iðulega í viðkvæmri stöðu og glímir oft við fjölþættan vanda. Hópurinn sem nýtir úrræðin er fjölbreyttur og því þurfa úrræðin að endurspegla þær þarfir. Með hliðsjón af því þarf að fara fram þarfagreining á milli hópa svo að lögin endurspegli sem best ólíka þjónustuþörf þeirra sem kunna að nýta sér þá þjónustu sem veitt er á áfangaheimilum. Í mörgum tilfellum er heimilisleysi í kjölfar neyslu og geðrænna áskorana hluti þess vanda sem fólk er að takast á við, en heimilisleysi er mun algengara meðal fólks með fjölþættan vanda. Mikilvægt er því að tryggja húsnæðisúrræði vegna endurhæfingar á breiðari grunni en áður hefur þekkst og að úrræði séu af fjölbreyttum toga. Af því myndi hljótast almenn velsæld meðal þjónustuþega.
    Það er mat þeirra sem standa að þessari tillögu að óásættanlegt sé í íslensku samfélagi að fíknisjúkdómar útiloki fólk frá sjálfsögðum mannréttindum, heilbrigðisþjónustu og úrræðum til að takast á við vanda sinn. Vímuefnaneysla er oftar en ekki ásteytingarsteinn sem kemur í veg fyrir að fólk með fíknisjúkdóma njóti ýmissa réttinda. Útskúfun og aðstöðuleysi eykur á vanda fólks og hættu á heimilisleysi. Meðal þeirra áskorana sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna húsnæðishraks einstaklinga er slæm heilsa, útskúfun og fleira sem ýtir undir vandann. Aðgengi að faglegri þjónustu sem er til staðar á áfangaheimili er skaðaminnkandi og getur leitt til bættra lífsgæða fólks með fíkni- og fjölþættan vanda. Í málaflokknum í heild er gagngerrar endurskoðunar þörf. Greina þarf hvaða starfsemi fellur í dag undir áfangaheimili. Móta þarf ramma utan um hvaða starfsemi er eðlilegt að falli þar undir og hvert markmið hennar eigi að vera. Eðlilegt fyrirkomulag er að velferðarþjónusta sem þessi verði lögboðin og sæti opinberu eftirliti. Þörfin er brýn og knýr á um skýrar leikreglur. Mikilvægt er að eftirlit vegna útvistunar þjónustunnar í gegnum þjónustusamninga lúti sömu lögmálum og ef um opinbera aðila er að ræða. Þá vill flutningsfólk þessa máls árétta mikilvægi þess að skilgreina þá starfsemi sem fellur undir leyfisskyldu svo ekki sé neinum vafa undirorpið til hvers konar starfsemi er vísað. Jafnframt er vísað til þeirrar ábyrgðar að stjórnvöld hafi eftirlit með lögbundinni þjónustu, svo sem heilbrigðis- og félagsþjónustu sem við á hér. Þetta er réttaröryggismál fyrir einstaklinga sem nýta slík úrræði.