Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1127  —  487. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann þjóðaröryggisráðs, Þórunni Hafstein, ritara þjóðaröryggisráðs, Jónas G. Allansson frá utanríkisráðuneyti, Rögnu Bjarnadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Arnór Gunnar Gunnarsson frá forsætisráðuneyti, Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra, Hrafnkel V. Gíslason, Unni Kristínu Sveinbjarnardóttur, Þorleif Jónasson og Guðmund Sigmundsson frá Fjarskiptastofu, Baldur Þórhallsson, Guðmund Hálfdánarson, Jón Ólafsson og Silju Báru Ómarsdóttur frá Háskóla Íslands, Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra, Þorvarð Sveinsson og Mörthu Eiríksdóttur frá Farice ehf., Gunnar Jakobsson og Hauk C. Benediktsson frá Seðlabanka Íslands, Tómas Gíslason og Magnús Hauksson frá Neyðarlínunni, Evu Bjarnadóttur frá UNICEF á Íslandi, Jóhannes Stefánsson frá Viðskiptaráði, Auði Önnu Magnúsdóttur frá Landvernd og Friðrik Jónsson.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra, Bændasamtökum Íslands, Farice ehf., Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Landspítala, Landsvirkjun, Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Neyðarlínunni, Seðlabanka Íslands, UNICEF á Íslandi, Veðurstofu Íslands og Viðskiptaráði Íslands. Þá barst nefndinni umsögn frá Fjarskiptastofu sem bundin er trúnaði.
    Enn fremur barst nefndinni skýrsla forsætisráðherra um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum (þingskjal 689, 544. mál) sem kynnt var á fundi nefndarinnar í tengslum við umfjöllun hennar um tillöguna.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi geri breytingar á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145, frá árinu 2016, en með henni fól Alþingi ríkisstjórninni að fylgja stefnu um þjóðaröryggi sem tryggði sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins.
    Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð, nr. 98/2016, beri ráðinu að stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar á fimm ára fresti. Þjóðaröryggisráð hafi fjallað um endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar á reglulegum fundum og sérstökum vinnufundi auk þess sem margvísleg skýrslugerð á vettvangi ráðsins liggi endurskoðun til grundvallar. Þjóðaröryggisráð telji að þjóðaröryggisstefnan frá árinu 2016 hafi staðið vel fyrir sínu með víðtækri skilgreiningu öryggishugtaksins þar sem litið er til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta. Stefnan sé byggð á grunngildum þjóðarinnar: lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti og sjálfbærri þróun, afvopnun og friðsamlegri lausn deilumála. Vernd grundvallarréttinda, réttaröryggi borgaranna og stöðugleiki í stjórnskipulegu, efnahagslegu, menningarlegu og félagslegu tilliti séu meðal þeirra grundvallargilda sem borgaralegt og þjóðfélagslegt öryggi hvílir á. Loks er áréttað að grundvallarforsenda þjóðaröryggisstefnunnar sé staða Íslands sem herlaust land sem tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.
    Í greinargerð er jafnframt bent á að ógnir og áskoranir í öryggismálum séu síbreytilegar og flóknari en áður og að hröð tækniþróun, einkum í net- og upplýsingatækni, hafi leitt til margvíslegra framfara en um leið nýrra áskorana. Ný staða í öryggismálum Evrópu, alvarlegar afleiðingar hernaðar Rússa í Úkraínu og aukin spenna í alþjóðasamskiptum kalli á aukna árvekni á fjölmörgum málefnasviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til. Því sé rétt að skerpa á tilteknum sviðum þjóðaröryggisstefnunnar og taka tillögurnar m.a. til þess að þjóðaröryggisstefna tryggi lýðræðislegt stjórnarfar, áherslu á hafsvæðið umhverfis landið, áherslu á vernd og órofa virkni mikilvægra innviða og styrkingu áfallaþols samfélagsins, áherslu á upplýsingöryggi og fjarskiptaöryggi og áherslu á mikilvægi samvinnu og samhæfingar í stjórnkerfinu á þeim sviðum sem þjóðaröryggisstefnan nær til. Þá er lagt til að bæta við þjóðaröryggisstefnuna nýjum lið þar sem kveðið er á um að sporna við röskun á lífsskilyrðum og búsetu vegna loftslagsbreytinga, m.a. með samdrætti í kolefnislosun, orkuskiptum, grænni fjárfestingu og virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi til að bregðast við loftslagsbreytingum.
    Nefndin telur tillöguna til breytingar á þjóðaröryggisstefnu tímabæra og endurspegla breytt öryggisumhverfi í okkar heimshluta og aukna spennu í alþjóðasamskiptum. Nefndin telur mikilvægt að stjórnvöld séu á varðbergi gagnvart kvikum breytingum í hinu alþjóðlega umhverfi, sjái til þess að Ísland sé virkur og áreiðanlegur aðili í því alþjóðlega samstarfi sem þjóðaröryggisstefnan tekur til og fylgi eftir alþjóðlegum skuldbindingum henni tengdum. Þá fagnar nefndin því að lagt sé til að bæta við stefnuna nýjum lið um loftslagsbreytingar.
    Með tillögunni eru lagðar til breytingar á inngangsorðum þjóðaröryggisstefnunnar til áhersluauka á lýðræðislegt stjórnarfar og vernd mikilvægra innviða. Nefndin tekur undir þær breytingar en flytur jafnframt tvær breytingartillögur sem taka til inngangsorðanna. Annars vegar telur nefndin rétt að skerpa á því að þjóðaröryggisstefnan taki til varna landsins. Sú breyting á inngangsorðum kallast á við 3.–6. tölul. þjóðaröryggisstefnunnar sem taka til aðildar að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamnings við Bandaríkin, norræns samstarfs á sviði öryggis- og varnarmála, og varnarmannvirkja. Nefndin leggur áherslu á grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins í þessu sambandi. Hins vegar flytur nefndin breytingartillögu þar sem texti inngangsorða um stöðu Íslands sem „fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki“ er umorðaður og einfaldaður.
    Í d-lið tillögugreinarinnar hefur orðið „loftslagsbreytingum“ fallið út fyrir mistök og flytur nefndin breytingartillögu því til leiðréttingar.
    Í umfjöllun nefndarinnar um net- og upplýsingaöryggi kom hugtakið stafrænt fullveldi ítrekað fyrir sem vísar til getu ríkja til þess að tryggja hina stafrænu innviði og að varaleiðir og þrautavaraleiðir séu til staðar svo að gangvirki samfélagsins verði varið ef neyðarástand skapast. Nefndin flytur breytingartillögu við f-lið tillögugreinarinnar um net- og upplýsingaöryggi þess efnis að hugtakið komi þar fyrir.
    Á fundi nefndarinnar með forsætisráðherra og formanni þjóðaröryggisráðs var m.a. rætt hvernig auka mætti samráð þjóðaröryggisráðs og utanríkismálanefndar. Samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð ber ráðinu að upplýsa Alþingi árlega um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og utanríkismálanefnd þingsins um hver þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á þjóðaröryggisstefnuna og framkvæmd hennar. Á fundinum kom fram skýr vilji beggja aðila til að auka samráðið og undirstrikar nefndin að lokum ásetning sinn til þess.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við tillögugreinina.
     a.      Á eftir orðunum „öryggi borgaranna“ í a-lið komi: varnir landsins.
     b.      Á eftir a-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: 2. málsl. 3. mgr. orðist svo: Grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem herlaust land sem tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.
     c.      Á eftir orðinu „tengjast“ í d-lið komi: loftslagsbreytingum.
     d.      Í stað orðanna „Að stuðla að auknu“ í f-lið komi: Að efla stafrænt fullveldi og auka.

    Diljá Mist Einarsdóttir, Jakob Frímann Magnússon og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta í samræmi við 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem snýr að vægi varnar- og öryggismála í þjóðaröryggisstefnunni.

Alþingi, 9. febrúar 2023.

Bjarni Jónsson,
form., frsm.
Birgir Þórarinsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Jakob Frímann Magnússon. Jóhann Friðrik Friðriksson. Logi Einarsson.
Njáll Trausti Friðbertsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, með fyrirvara.