Ferill 987. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1921  —  987. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012 (hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins).

Frá 2. minni hluta velferðarnefndar.


    Ákvæði laga um hámarksaldur opinberra starfsmanna eru að vissu leyti komin til ára sinna. Árið 1970 var meðalævilengd karla 71,6 ár og meðalævilengd kvenna 77,5 ár. Nú er meðalævilengd karla 81 ár og meðalævilengd kvenna 84 ár. Að jafnaði hafa lífslíkur því aukist um átta ár frá árinu 1970. Í greinargerð með frumvarpi þessu er bent á að lífslíkur hafi aukist um tíu ár frá því að reglan um 70 ára hámarksaldur opinberra starfsmanna tók gildi árið 1947. Í frumvarpinu er lögð til undanþága frá 70 ára reglunni sem heimilar heilbrigðisstarfsmönnum að vinna hjá opinberum stofnunum þar til þeir ná 75 ára aldri. Almenningur hefur lengi kallað eftir því að felldar verði úr lögum hinar ýmsu hindranir sem gera eldra fólki erfiðara fyrir að halda áfram að vinna eftir sjötugt. Flokkur fólksins hefur barist fyrir aukinni atvinnuþátttöku eldra fólks og m.a. lagt til afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna og stutt þingmál sem miða að afnámi ákvæða um hámarksaldur starfsmanna.
    Þingmenn hafa reglulega lagt fram frumvörp og þingsályktunartillögur sem miða að því að afnema ákvæði um hámarksaldur opinberra starfsmanna eða hækka viðmiðið. Þau þingmál hafa ekki hlotið framgang. Nú er útlit fyrir að frumvarp heilbrigðisráðherra muni fá fulla þinglega meðferð og því ber að fagna. En vert er að hafa í huga að tilefni þessa frumvarps er sjálfskaparvíti stjórnvalda sem ná ekki að ráða bót á viðvarandi mannekluvanda heilbrigðiskerfisins. Til þess að koma í veg fyrir algjört hrun í opinberri þjónustu neyðist ríkisstjórnin til að viðurkenna þann mikla mannauð sem felst í eldra fólki.
    Fagna ber því að hækka eigi hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna en vert er að spyrja hvers vegna breytingin á ekki að gilda um alla opinbera starfsmenn. Ætla mætti að hvergi væru gerðar jafn strangar kröfur um hæfni starfsmanna og gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum. Með réttu ætti frumvarp þetta að taka til allra opinberra starfsmanna.
    Ekki er hægt að fjalla um frumvarp þetta án þess að nefna lífeyrisréttindi þeirra sem frumvarpið tekur til. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að þegar starfsmaður nær 70 ára aldri falli niður skylda til greiðslu iðgjalds í lífeyrissjóð. Stjórnvöld líta svo á að samhliða falli niður skylda þeirra til greiðslu mótframlags. Heilbrigðisstarfsmaður sem heldur áfram að vinna eftir sjötugt verður fyrir kjaraskerðingu sem því nemur.
    Það er með öllu ótækt að fólk verði fyrir kjaraskerðingu sem nemur 11,5% á grundvelli aldurs. Í slíkri tilhögun felst mismunun á grundvelli aldurs. Til er einföld lausn á þessu vandamáli. Á hinum almenna vinnumarkaði tíðkast að gera samkomulag við starfsmenn um að vinnuveitandi greiði samsvarandi hlutfall launa í séreignarsparnað starfsmanns eftir að starfsmaður nær 70 ára aldri. Lögfesta ætti slíkt fyrirkomulag þannig að það gilti bæði um opinbera starfsmenn og starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði. Þar sem frumvarp þetta hefur þegar verið rætt við eina umræðu á Alþingi og breytingartillaga um lögfestingu slíks fyrirkomulags fyrir allt launafólk yfir sjötugt fæli í sér viðamikla breytingu á efni frumvarpsins telur 2. minni hluti, með skírskotun til 44. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að lagafrumvörp þurfi að ræða við þrjár umræður, ekki rétt að leggja slíkt fyrirkomulag til í formi breytingartillögu. Þó þykir rétt að ganga strax til verka varðandi þann hóp launafólks sem frumvarpið tekur til. Því styður 2. minni hluti breytingartillögu sem tryggir þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem vinna fram yfir sjötugt rétt til mótframlags frá launagreiðanda sem verði ráðstafað til séreignarsparnaðar.
    Lagt er til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem 1. og 2. minni hluti leggur til.

Alþingi, 1. júní 2023.

Guðmundur Ingi Kristinsson.