Ferill 757. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2026  —  757. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku.


     1.      Hver er stefna ráðuneytisins er varðar ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Liggur sú stefna fyrir opinberlega og ef svo er ekki, hvaða ástæður liggja þar að baki?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sem leiðarljós í störfum sínum mannauðsstefnu Stjórnarráðsins þar sem lögð er áhersla á heilsusamlegt og heilsueflandi vinnuumhverfi sem hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Að auki er þess getið í mannauðsstefnunni að allt starfsfólk skuli hafa sömu möguleika á að geta nýtt hæfileika sína í starfi og ekki sæta mismunun af nokkrum toga. Þá er kveðið á um bann við mismunun á vinnumarkaði vegna skertrar starfsgetu og viðeigandi ráðstafanir atvinnurekenda vegna hennar í lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Ráðuneytið hefur ekki mótað sérstaka stefnu að öðru leyti um ráðningar einstaklinga með skerta starfsgetu en fylgir viðmiðum framangreindrar mannauðsstefnu og meginreglum laganna.
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með stefnumörkun í mannauðsmálum ríkisins og verður ný stefna ríkisins í mannauðsmálum gefin út á árinu. Í gildandi fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 hafa áherslur í stefnunni verið til umfjöllunar, en þar kemur m.a. fram að lögð verði áhersla á að þátttaka og endurkoma einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði verði auðvelduð þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og fái tækifæri á vinnumarkaði án þess að afkomuöryggi þess sé ógnað.

     2.      Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að undirstofnanir þess móti skýra stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Ef ekki, hvers vegna ekki? Hvaða undirstofnanir hafa mótað stefnu og hverjar ekki?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerði breytingar á reglum um auglýsingar lausra starfa hjá ríkinu haustið 2019 að höfðu samráði við heildarsamtök opinberra starfsmanna. Eftir breytingarnar þarf ekki að auglýsa hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu sem teljast til vinnumarkaðsúrræða.
    Kjara- og mannauðssýsla ríkisins, sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, hefur jafnframt hvatt stofnanir til að huga sérstaklega að því hvort laus störf gætu hentað fólki með skerta starfsorku. Þá hafa stjórnendur ríkisstofnana verið hvattir til að kynna sér sértæka ráðgjöf og vinnumiðlun Vinnumálastofnunar. Jafnframt hefur Kjara- og mannauðssýsla í tvígang staðið fyrir könnun með það að markmiði að fá upplýsingar um fjölda einstaklinga með skerta starfsgetu sem starfa hjá stofnunum ríkisins og um leið minna stjórnendur á mikilvægi þess að tryggja öllum störf við hæfi.
    Leitað var upplýsinga hjá stofnunum ráðuneytisins hvort þær hefðu mótað sér stefnu um ráðningar starfsfólks með skerta starfsorku. Undirstofnanir ráðuneytisins eru: Skatturinn, yfirskattanefnd, Bankasýsla ríkisins, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, Fjársýsla ríkisins, Ríkiskaup og Umbra – þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins. Svör bárust frá öllum stofnununum og hafði engin stofnun mótað sérstaka stefnu hvað þetta varðar. Ráðuneytið hefur ekki beitt sér sérstaklega fyrir gerð slíkrar stefnumótunar meðal stofnana sinna.

     3.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir slíkri stefnumótun?
    Ráðuneytið og stofnanir þess hafa ekki sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort tölusett markmið fylgi væntanlegri stefnu ríkisins í mannauðsmálum.

     4.      Hversu margt starfsfólk með skerta starfsorku er í hlutastarfi eða fullu starfi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    
Fjármála- og efnahagsráðuneyti Einn starfsmaður með skerta starfsorku í hlutastarfi.
Skatturinn Samkvæmt svari starfa þrír aðilar í fullu starfi.
Yfirskattanefnd Enginn.
Bankasýsla ríkisins Enginn.
Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir Enginn.
Fjársýsla ríkisins Enginn.
Ríkiskaup Enginn.
Umbra – þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins Enginn.

     5.      Liggur fyrir mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf, sem henta einstaklingum með skerta starfsorku, geti verið hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Ekki liggur fyrir sérstakt mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf, sem henta einstaklingum með skerta starfsorku, geti verið hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum.