Ferill 61. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 61  —  61. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt.


Flm.: Þórarinn Ingi Pétursson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir, Logi Einarsson, Gísli Rafn Ólafsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samráði við matvælaráðherra að koma fyrir lok árs 2024 á samstarfi stjórnvalda, bænda, Lands og skógar, atvinnulífs og almennings sem miði að því að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu og skógrækt með þjóðarátaki þess efnis.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessa efnis var áður lögð fram á 150., 151., 152. og 153. löggjafarþingi (125. mál) og er nú endurflutt með breytingum. Umsagnir um málið á fyrri þingum hafa verið jákvæðar. Í umsögn Umhverfisstofnunar frá 150. löggjafarþingi benti stofnunin á möguleikana á því að tengja þjóðarátakið við átak sem mætti hefja við að draga úr urðun lífræns úrgangs og auka endurnýtingu hans.
    Með tillögunni er lagt til að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samráði við matvælaráðherra, verði falið að sjá til þess að komið verði á fót vettvangi fyrir samstarfi stjórnvalda, Lands og skógar, bænda, atvinnulífs og almennings sem miði að því stuðla að þjóðarátaki með það að markmiði að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu og skógrækt. Samstarfsvettvangi þessum verði komið á fyrir lok árs 2024.
    Markmið tillögunnar er að auka kolefnisbindingu, koma í veg fyrir jarðvegsrof og græða upp örfoka land með aukinni þátttöku almennings í landgræðslu og skógrækt.
    Samstarfsvettvangurinn hafi að fyrirmynd átakið „Bændur græða landið“, samstarfsverkefni bænda og Landgræðslunnar (nú Land og skógur) um uppgræðslu heimalanda, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1990 og gefið góða raun.
    Með aukinni umhverfisvitund og fræðslu til almennings hafa æ fleiri fyrirtæki boðið viðskiptavinum upp á að kolefnisjafna viðskipti sín. Þátttaka atvinnulífsins í verkefninu gæti falist í því að bjóða upp á kolefnisjöfnun viðskipta með landgræðslu og/eða skógrækt. Þannig yrði þátttaka almennings tvíþætt, annars vegar með beinni þátttöku í landgræðslu og skógrækt undir leiðsögn Lands og skógar og hins vegar með kolefnisjöfnun viðskipta sinna.
    Markmið þingsályktunartillögu þessarar falla vel að stjórnarsáttmála Framsóknar, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokksins, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá því í júní 2020 ( Aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030) sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, þ.e. markmiði nr. 13: Aðgerðir í loftslagsmálum.
    Aðrir alþjóðasamningar sem framangreint samvinnuverkefni vinnur í átt að því að uppfylla eru: Parísarsáttmálinn, samningur Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun, sem hefur verið í gildi hér á landi frá árinu 1997, alþjóðlegir samningar um líffræðilega fjölbreytni, sem fullgiltir voru á Alþingi árið 1994, og rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem tók gildi hér á landi árið 1994.
    Árið 2022 var í fyrsta skipti gefin út sameiginleg stefna stjórnvalda um landgræðslu og skógrækt, sem fékk heitið Land og líf. Í henni kemur fram framtíðarstefna stjórnvalda um málefnið auk aðgerðaáætlunar í landgræðslu og skógrækt til ársins 2026. Með aukinni áherslu á umhverfisvernd og loftslagsmál var nauðsynlegt að hafa skýra framtíðarsýn um landgræðslu og skógrækt, sem gegna stóru hlutverki í umræddum málaflokkum. Í þeirri stefnu og meðfylgjandi aðgerðaáætlun er m.a. lögð áhersla á endurheimt vistkerfa, endurheimt á röskuðu landi, endurheimt votlendis og náttúruskóga og skógrækt.
    Á 153. löggjafarþingi voru samþykkt lög um Land og skóg. Í kjölfarið voru stofnanirnar Landgræðslan og Skógræktin sameinaðar í eina stofnun, Land og skóg, en sú stofnun tekur við verkefnum þeirra. Þau verkefni verða sífellt mikilvægari í ljósi skuldbindinga Íslands í umhverfis- og loftslagsmálum, sbr. alþjóðaskuldbindingar landsins. Farið var í framangreinda sameiningu með það að markmiði að efla þjónustu og ráðgjöf til viðeigandi aðila sem vinna í þágu betri nýtingar lands.
    Jarðvegur er mikilvæg auðlind. Hann er undirstaða mestallrar matvælaframleiðslu heimsins, en jarðvegseyðing er ein mesta ógn við fæðuöryggi mannkynsins. Eyðing gróðurs og jarðvegs hefur um langa hríð verið ein helsta áskorun í umhverfismálum á Íslandi. Flutningsmenn leggja því til að farið verði í þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt enda hafi fáar þjóðir eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.