Ferill 778. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1421  —  778. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Teiti Birni Einarssyni um kostnaðarþátttöku sveitarfélaga vegna framkvæmda við framhaldsskóla.


     1.      Hvaða sveitarfélög standa að baki hverjum framhaldsskóla og tóku þátt í kostnaði við stofnframkvæmdir skv. b- eða c-lið 2. mgr. 47. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008? Svar óskast sundurliðað eftir sveitarfélögum.
    Á grundvelli 2. mgr. 47. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, hafa verið gerðir samningar milli ríkis og sveitarfélaga um stofnframkvæmdir en almennt er gengið út frá því að um sameiginlega framkvæmd sé að ræða á grundvelli c-liðar ákvæðisins.
    Árið 2013 var Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ byggður og greiddi ríkissjóður 60% af áætluðum stofnkostnaði þeirrar framkvæmdar. Árið 2015 var Menntaskólinn við Sund stækkaður og var kostnaði við stofnframkvæmdir skipt þannig að ríkissjóður greiddi 60% og Reykjavíkurborg 40%. Sama ár var Fjölbrautaskóli Suðurlands stækkaður og var kostnaði við stofnframkvæmdir skipt þannig að ríkissjóður greiddi 60% og sveitarfélög á Suðurlandi 40%. Kostnaður sveitarfélaga skiptist þannig að Sveitarfélagið Árborg greiddi 22%, Héraðsnefnd Árnesinga (án Árborgar) 13,8%, Héraðsnefnd Rangæinga 3,4% og Héraðsnefnd Vestur-Skaftafellssýslu 0,8%. Þá eru áform um að stækka Fjölbrautaskólann í Breiðholti og hefur verið gengið frá samningum við Reykjavíkurborg þar sem kostnaði við stofnframkvæmdir verður skipt þannig að ríkissjóður greiðir 60% og Reykjavíkurborg 40%.
    Rétt er að geta þess að Fjölbrautaskóli Suðurnesja var stækkaður árið 2019 á grundvelli a-liðar 2. mgr. 47. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og greiddi ríkissjóður 60% af áætluðum stofnkostnaði þeirrar framkvæmdar. Framkvæmdin var á ábyrgð sveitarfélaga og er ráðuneytinu ekki kunnugt um með hvaða hætti kostnaði var skipt milli þeirra.

     2.      Hversu oft hefur reynt á b- og c-lið 2. mgr. 47. gr. laganna frá gildistöku þeirra árið 2008, í hvaða skólum og hver var kostnaðarþátttaka hvers sveitarfélags og íbúafjöldi 1. janúar það ár sem kostnaður var greiddur?
    Vísað er til svars við 1. tölul. þar sem nefnd eru þau tilvik þar sem reynt hefur á b- og c-lið 2. mgr. 47. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, ásamt kostnaðarþátttöku ríkis og sveitarfélaga, þ.e. hlutfallslega. Áréttað er að sveitarfélög ákveða kostnaðarskiptingu sín á milli þegar kemur að kostnaðarþátttöku vegna stofnunar eða stækkunar framhaldsskóla á grundvelli 2. mgr. 47. gr. laganna, en í flestum tilvikum hefur verið miðað við íbúafjölda næstliðins árs.

     3.      Hafa verið gerðar undantekningar frá því að sveitarfélög taki þátt í kostnaði skv. b- og c-lið 2. mgr. 47. gr. laganna frá árinu 2008?
    Nei.

     4.      Er hafið yfir allan vafa að 47. gr. laganna eigi við um stækkun framhaldsskóla en ekki bara stofnun nýs skóla?
    Í framkvæmd hefur verið lagt til grundvallar að 47. gr. laga um framhaldsskóla nái bæði til þess þegar framhaldsskóli er stofnaður og er stækkaður, með hliðsjón af skilgreiningu stofnkostnaðar í 1. mgr. 47. gr. laganna um að átt er við kostnað vegna húsnæðis og almenns búnaðar sem samningsaðilar ákveða að leggja til skólans. Hins vegar fellur kostnaður vegna viðhalds alfarið á ríkissjóð.

     5.      Hversu oft hefur Alþingi komið að stofnun framhaldsskóla án aðildar sveitarfélaga skv. 4. mgr. 47. gr. laganna frá árinu 2008 og um hvaða framhaldsskóla er að ræða?
    Aldrei.