Ferill 922. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2002  —  922. mál.




Frumvarp til laga


um breytingar á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011 (réttindagæslumenn og persónulegir talsmenn).

(Eftir 2. umræðu, 21. júní.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Orðin „á viðkomandi svæði“ í 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „veita hinum fatlaða einstaklingi nauðsynlegan stuðning“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: leiðbeina hinum fatlaða einstaklingi, veita honum nauðsynlegan stuðning eftir þörfum.
     c.      Í stað orðanna „aðstoðar réttindagæslumaður hinn fatlaða einstakling við að leita réttar síns miðað við atvik máls hverju sinni og“ í 6. málsl. 1. mgr. kemur: veitir réttindagæslumaður hinum fatlaða einstaklingi leiðbeiningar og aðstoðar hann eftir þörfum miðað við.
     d.      2. mgr. orðast svo:
                      Réttindagæslumaður getur, telji hann málið þess eðlis, komið ábendingum um úrbætur á framfæri við hlutaðeigandi aðila og gefið honum frest til að verða við ábendingunum. Verði ekki orðið við ábendingum réttindagæslumanns skal hann eftir atvikum leiðbeina hinum fatlaða einstaklingi um innlendar og alþjóðlegar kvörtunar- og kæruleiðir og veita viðeigandi stuðning eftir þörfum.
     e.      Á eftir 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Réttindagæslumaður tekur ekki til meðferðar ágreining milli einstaklinga, en honum ber að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál um leiðir sem færar eru innan stjórnsýslu og hjá dómstólum.
                      Réttindagæslumaður endurskoðar ekki ákvarðanir stjórnvalda í einstökum málum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Persónulegur talsmaður skal vera lögráða og varði samkomulag ráðstöfun fjármuna skal hann einnig vera fjár síns ráðandi. Hafi hann hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla, XXVI. kafla, 211. eða 218. gr. almennra hegningarlaga skal sýslumaður meta hvort hann sé hæfur til að verða persónulegur talsmaður. Við undirritun samkomulags skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild sýslumanns til að afla upplýsinga úr sakaskrá.
     b.      Í stað orðanna „persónulegur talsmaður skal fá endurgreiddan“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: heimilt er að endurgreiða persónulegum talsmanni nauðsynlegan.
     c.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Útlagður kostnaður skal að jafnaði greiddur af hinum fatlaða einstaklingi. Sýslumaður getur þó ákveðið að hann skuli greiddur úr ríkissjóði ef eignir hins fatlaða einstaklings eru litlar eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því.
     d.      Í stað orðanna „með hagsmuni hans að leiðarljósi“ í 3. mgr. kemur: í samræmi við vilja og óskir viðkomandi.

3. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, svohljóðandi:
    Persónulegur talsmaður skal ár hvert gefa sýslumanni skýrslu, á eyðublaði sem hann leggur til, um framkvæmd samkomulags skv. 1. mgr. 7. gr. og 9. gr. Skal þar gerð grein fyrir þeirri aðstoð sem persónulegur talsmaður veitti hinum fatlaða einstaklingi á fyrra ári. Nái samkomulag til aðstoðar við ráðstöfun fjármuna vegna daglegra útgjalda skv. 4. tölul. 1. mgr. 9. gr. skal sérstaklega gerð grein fyrir þeirri aðstoð með gögnum og skýringum um útgjöld.
    Sýslumaður hefur heimild til að krefja persónulegan talsmann um frekari skýringar og/eða gögn um aðstoð sem persónulegur talsmaður hefur veitt á grundvelli samkomulags og eru sýslumanni nauðsynleg vegna eftirlits með samkomulaginu og er persónulegum talsmanni skylt að verða við því. Sýslumaður hefur heimild til að kalla eftir upplýsingum og gögnum frá hinum fatlaða einstaklingi og þjónustuveitendum, svo sem félagsþjónustu sveitarfélaga, réttindagæslumönnum fatlaðs fólks og fjármálafyrirtækjum ef samkomulag tekur til ráðstöfunar fjármuna, sem varða framkvæmd samkomulags skv. 1. mgr. 7. gr. og 9. gr. og nauðsynlegar eru til að hann geti sinnt eftirliti sínu.
    Persónulegur talsmaður skal gera sýslumanni grein fyrir aðstoð sinni hvenær sem hann krefst þess.
    Þegar persónulegur talsmaður lætur af hlutverki sínu skal hann gefa sýslumanni skýrslu, á eyðublaði sem hann leggur til, um framkvæmd samkomulagsins, sbr. 1. mgr.
    Þjóðskjalavörður tekur ákvörðun um förgun þeirra gagna sem verða til við eftirlit sýslumanns skv. 1.–4. mgr. í samræmi við lög um opinber skjalasöfn.
    Ráðherra setur nánari reglur um skýrslugjöf samkvæmt þessari grein í reglugerð.

4. gr.

    4. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: Aðstoð við ráðstöfun fjármuna vegna daglegra útgjalda. Persónulegum talsmanni er heimilt, á grundvelli samkomulags skv. 1. mgr. 7. gr., að sjá um greiðslu daglegra útgjalda fyrir einstakling sem hann aðstoðar enda sé greiðslum ráðstafað af sérgreindum reikningum fyrir þess háttar útgjöld. Með viðauka við samkomulagið má veita persónulegum talsmanni heimild til þess að fá nauðsynlegan skoðunaraðgang að sérgreindum reikningum og greiða tilteknar, reglulegar kröfur í heimabanka þess einstaklings sem nýtur aðstoðar. Heimild til handa persónulegum talsmanni getur einnig tekið til þess að stofna til greiðsluþjónustu fyrir hönd einstaklings hjá viðskiptabanka hans um sömu reikninga. Persónulegum talsmanni er hins vegar óheimilt að stofna til fjárhagsskuldbindinga fyrir hönd þess sem hann aðstoðar nema sá einstaklingur hafi veitt honum skriflegt umboð til þess. Hafi fötluðum einstaklingi verið skipaður ráðsmaður á grundvelli lögræðislaga tekur umboð persónulegs talsmanns ekki til þeirra eigna og fjármuna sem ráðsmaður hefur umsjón með.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2025.