Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


155. löggjafarþing 2024–2025.
Þingskjal 199  —  198. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skipun starfshóps um umönnun og geymslu líka.


Flm.: Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Logi Einarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa starfshóp um úttekt á aðstöðu til umönnunar og geymslu líka, aðgengi að líkhúsum eða viðeigandi húsnæði, regluverki þar að lútandi og mögulegum úrbótum á núverandi lagaumhverfi. Starfshópurinn kortleggi stöðu þessara mála á landsvísu og skili Alþingi skýrslu fyrir 1. maí 2025.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er nú flutt í fjórða sinn en hún var síðast lögð fram á 154. löggjafarþingi ( 122. mál). Tillagan er endurflutt óbreytt að efnisatriðum en með breytingum á greinargerð.
    Á 153. löggjafarþingi gekk málið til allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni fyrri umræðu og bárust tvær umsagnir um málið, annars vegar frá kirkjugarðaráði og Kirkju garðasambandi Íslands og hins vegar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í umsögnum er tekið undir mikilvægi þess að gera úrbætur í málaflokknum. Þá bendir Samband íslenskra sveitarfélaga á að lagaumhverfi sé óljóst og að dæmi séu um að leitað hafi verið á náðir sveitarfélaga eftir fjármagni til að tryggja viðunandi aðstöðu til umönnunar og geymslu líka, án þess að fyrir því sé lagastoð. Að lokum er bent á að yfirlýst stefna stjórnvalda, m.a. í gegnum byggðaáætlun, er að nauðsynleg þjónusta sé aðgengileg um allt land en líkhúsmál eru misjöfn á milli landshluta.
    Í umsögn kirkjugarðaráðs og Kirkjugarðasambands Íslands segir að umboðsmaður Alþingis hafi með áliti í máli nr. 4417/2005 skorað á dóms- og kirkjumálaráðuneytið að setja skýrar reglur varðandi líkhúsmál. Jafnframt kemur fram í álitinu að kirkjugörðum sé óheimilt að innheimta líkhúsgjald vegna þjónustu við aðstandendur. Niðurstaðan er í samræmi við breytingar á lögum nr. 138/2004 er varða stöðu kirkjugarðanna sem sjálfstæðra stofnana og eftir atvikum heimildir þeirra til að reka útfararþjónustu í samkeppni við einkaaðila. Í því tilliti taldi umboðsmaður mikilvægt að fyrir lægi með skýrum hætti hvaða þjónustu ætlast væri til að kirkjugarðarnir létu almenningi endurgjaldslaust í té. Í áliti umboðsmanns segir m.a. að ekki verði annað ráðið af atvikum þessa máls en að þetta atriði hafi ekki verið að fullu skýrt í þeim samningum sem ríkið og kirkjugarðaráð gerðu á grundvelli 39. gr. laga nr. 36/1993, sbr. breytingu sem gerð var með 6. gr. laga nr. 138/2004. Þá er áréttað að ákvörðun um slíka þætti verði ekki tekin einvörðungu með útfærslu í samningi af hálfu stjórnvalda, heldur ráðist niðurstaða um þetta af ákvæðum laga. Var því beint til dóms- og kirkjumálaráðherra að hann tæki sérstaklega til athugunar hvort ákvæði laga nr. 36/1993 væru nægilega skýr um þessi atriði og beitti sér eftir atvikum fyrir breytingum á þeim teldi hann ástæðu til. Ekki er að merkja að umræddum lögum hafi verið breytt í þá veru sem hér segir.
    Á 154. löggjafarþingi gekk málið til allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni fyrri umræðu. Nefndinni bárust þrjár umsagnir. Kirkjugarðaráð og Kirkjugarðasamband Íslands árétta þar fyrri umsögn sína og leggja áherslu á að skýra verði lagaumgjörð í þessum málaflokki, sérstaklega með það að leiðarljósi að tryggja hver beri ábyrgð á að halda úti líkhúsum og að tryggja fjármögnun fyrir þau. Aðstaða líkhússins í Fossvogi sé orðin gömul og úr sér gengin, og fyrirséð að stækka þarf aðstöðuna. Gert er ráð fyrir að fjöldi andláta tvöfaldist á næstu 20 til 25 árum vegna aldurssamsetningar þjóðarinnar. Sóttvarnalæknir styður tillöguna og er reiðubúinn að koma með tillögur að aðila í slíkan starfshóp með tilliti til sýkingavarna. Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) telur einnig að skýra verði hver beri ábyrgð á þessari þjónustu og fagnar því að þessi tillaga hafi verið lögð fram.
    Tryggt aðgengi að umönnun látinna og geymslu líka er hluti af sjálfsagðri þjónustu sem aðstandendur látinna reiða sig á. Sá ferill sem tekur við eftir að læknir hefur staðfest dauðaskilmerki, á sjúkrastofnunum eða utan þeirra, er ekki einsýnn og aðstæður mismunandi eftir aðgengi að þjónustu. Starfsemi þessi verður að vera tryggð í ljósi þess sem augljóst er, að við munum öll deyja. Í lögum er ekki skýrt hver skuli tryggja geymslu líka. Í því ljósi er mikilvægt að skýra nánar núverandi lagaumhverfi.