Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


155. löggjafarþing 2024–2025.
Þingskjal 233  —  232. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010 (meðalhófsprófun, EES-reglur).

Frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lög þessi gilda einnig um meðalhófsprófun sem framkvæma skal áður en ný lög eða stjórnvaldsfyrirmæli eru sett um lögverndun starfs eða gildandi lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum er breytt.

2. gr.

     a.      Í stað orðsins „tilskipunina“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 3. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: tilskipun 2005/36/EB
     b.      Í stað orðsins „tilskipuninni“ í 3. mgr. 7. gr., 1. mgr. 8. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: tilskipun 2005/36/EB.
     c.      Í stað orðsins „tilskipunarinnar“ í 3. mgr. 3. gr., 1. málsl. 1. mgr. 4. gr., 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr. og 5. mgr. 9. gr. laganna kemur: tilskipunar 2005/36/EB.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Ráðherra sem í hlut á skal framkvæma meðalhófsprófun, í samræmi við 7. gr. tilskipunar (ESB) 2018/958 um meðalhófsprófun áður en samþykkt er ný lögverndun starfsgreina, við undirbúning á frumvarpi til nýrra laga eða stjórnvaldsfyrirmælum sem fela í sér lögverndun starfs. Sama á við um breytingu á gildandi lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Ráðherra sem í hlut á skal skrá rökstuðning fyrir því að ákvæðin séu réttlætanleg og standist meðalhóf í gagnagrunn yfir lögverndaðar starfsgreinar.
                 Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli í reglugerð um innleiðingu og framkvæmd tilskipunar (ESB) 2018/958, þar á meðal um framkvæmd meðalhófsprófunar, upplýsingaskipti milli aðildarríkja og kröfur um skráningu upplýsinga í gagnagrunn yfir lögverndaðar starfsgreinar.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Samræming, reglugerð, meðalhófsprófun o.fl.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/958 frá 28. júní 2018 um meðalhófsprófun áður en samþykkt er ný lögverndun starfsgreina, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 71 frá 11. nóvember 2021, bls. 236–245. Tilskipun (ESB) 2018/958 var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 243/2021, frá 24. september 2021, sem birt var 22. febrúar 2024 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 17, bls. 30, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Innleiðing.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu. Markmið þess er að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðar Evrópska efnahagssvæðisins. Með frumvarpinu er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/958 um meðalhófsprófun áður en samþykkt er ný lögverndun starfsgreina. Tilskipun um meðalhófsprófun tekur til þeirra lögvernduðu starfsgreina sem falla undir gildissvið tilskipunar 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem innleidd var með lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á á landi, nr. 26/2010.
    Utanríkismálanefnd Alþingis fjallaði um tilskipun um meðalhófsprófun, í samræmi við 5. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála, hinn 3. júní 2019. Nefndin gerði ekki athugasemd við að gerðin yrði tekin upp í EES-samninginn. Tilskipunin um meðalhófsprófun varð hluti af EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 243/2021, hinn 24. september 2021.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Markmið tilskipunar um meðalhófsprófun er að koma í veg fyrir ótilhlýðilegar takmarkanir á aðgangi að lögvernduðum starfsgreinum eða iðkun þeirra, að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins og tryggja á sama tíma gagnsæi og öfluga neytendavernd. Það er á valdsviði aðildarríkja EES-samningsins að ákveða hvort og hvernig eigi að setja reglur sem varða starfsgrein innan marka meginreglna um bann við mismunun og með tilliti til meðalhófs. Tilskipunin felur í sér að aðildarríki eru skuldbundin til að meta meðalhóf krafna sinna um takmarkanir á aðgengi að lögvernduðum starfsgreinum til að tryggja frjálsa för launafólks, staðfesturétt og frelsi til að veita þjónustu, sem eru grundvallarreglur innri markaðarins.
    Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf frá nóvember 2021 kemur fram áhersla ríkisstjórnarinnar á einfaldara regluverk og að markvisst verði unnið að því að auka samkeppnishæfni og sveigjanleika íslensks atvinnulífs með því að draga úr hindrunum í gildandi regluverki og tryggja að ný löggjöf sé skýr og skilvirk. Innleiðing tilskipunarinnar er í efnislegu samræmi við þá stefnu stjórnvalda að einfalda regluverk sem setur starfi fólks hindranir á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins og er til þess fallið að hindra samkeppni. Því er fyrirliggjandi lagafrumvarp eðlilegt skref í að styðja við stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki.
    Eftirlitsstofnun EFTA gaf frá sér rökstutt álit 6. desember 2023 þess efnis að Ísland hefði gerst brotlegt við EES-samninginn með því að hafa ekki innleitt tilskipun (ESB) 2018/958 í landsrétt. Með bréfi, dags. 25. janúar 2024, svaraði ráðuneytið því að til stæði að leggja fram frumvarp til innleiðingar á tilskipuninni auk þess að útbúa ítarlegar leiðbeiningar um meðalhófsmat. Tafir hafa orðið á innleiðingu gerðarinnar þar sem flókið var að finna ákvæðum um meðalhófsmat stað við innleiðingu í landsrétt.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun um meðalhófsprófun áður en samþykkt er ný lögverndun starfsgreina. Samkvæmt tilskipuninni skulu allar nýjar og breyttar reglur vera réttlætanlegar út frá sjónarmiðum um almannahagsmuni og gæta þarf meðalhófs. Þeim þarf að fylgja rökstuðningur með vísan til markmiða sem varða almannahagsmuni.
    Aðildarríki þurfa að meta meðalhóf ráðstöfunar áður en nýjar eða breyttar gildandi laga- eða stjórnvaldsreglur eru settar og fylgjast með því að slíkar ráðstafanir séu í samræmi við meðalhófsregluna eftir að þær hafa verið samþykktar. Matið skal vera með nægilega ítarlegri skýringu sem gerir kleift að meta hvort hún samræmist meðalhófsreglunni, hún þarf að vera framkvæmd á grundvelli eigindlegra og, ef unnt er, megindlegra gagna, og framkvæmd á opinn og hlutlægan hátt.
    Íslenska stjórnarskráin hefur að geyma ákvæði um að skorður á atvinnufrelsi þurfi að ákveða með lögum og verði að helgast af nauðsyn vegna almannahagsmuna og því er ekki að finna sérstakt efnisákvæði um það í frumvarpi þessu. Þá eru drög að reglugerðum og frumvörpum að meginstefnu til birt í samráðsgátt stjórnvalda og gefst hagaðilum þar tækifæri til að fá upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ákvæði 8. gr. tilskipunar um meðalhófsprófun er þannig þegar fylgt í framkvæmd.
    Efnisákvæði frumvarps þessa snúa að því að innleiða tilskipun um meðalhófsprófun formlega. Þá er kveðið á um framkvæmd meðalhófsprófunar og er ábyrgð þess á höndum hlutaðeigandi ráðherra hverju sinni. Einnig er kveðið á um að skrá skuli rökstuðning fyrir því að ákvæði sem metin eru í samræmi við tilskipunina séu rökstudd sem réttlætanleg og að meðalhófs sé gætt, í gagnagrunn Evrópusambandsins yfir lögverndaðar starfsgreinar.
    Þá er einnig mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja reglugerð, sé þörf á frekari útfærslu á meðalhófsprófuninni, um upplýsingaskipti milli aðildarríkja, kröfur um skráningu í gagnagrunn og önnur framkvæmdaratriði tilskipunar um meðalhófsprófun.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins snertir atvinnufrelsið sem varið er í 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem hefur að geyma lagaáskilnaðarreglu um að eingöngu megi setja atvinnufrelsi skorður með settum lögum frá Alþingi. Þá verða slíkar skorður einvörðungu settar krefjist almannahagsmunir þess.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um að stjórnvöld þurfi að framkvæma sérstakt mat áður en reglur um lögverndun starfs eru settar eða þeim breytt, og miða þannig að því að tryggja að skorður við atvinnufrelsi séu eingöngu settar með því markmiði að tryggja almannahagsmuni. Samþykkt frumvarpsins er til þess fallin að styrkja atvinnufrelsi.
    Breytingar sem stefnt er að með frumvarpinu eru gerðar til að efna þær skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir með aðild að EES-samningnum.

5. Samráð.
    Áform um lagasetningu voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 26. janúar til 12. febrúar 2024 (mál nr. S-16/2024). Drög að frumvarpi voru í framhaldinu til umsagnar frá 10. maí til 31. maí 2024 (mál nr. S-99/2004). Umsögn barst frá Samtökum iðnaðarins um áformin og drög að lagafrumvarpinu. Viðskiptaráð Íslands sendi umsögn um drög að frumvarpinu. Í umsögn sinni við frumvarpið árétta Samtök iðnaðarins að innleiðing tilskipunarinnar gefi ekki tilefni til endurskoðunar á reglum er varða löggiltar iðngreinar. Þá benda þau á að ríkir almannahagsmunir séu til staðar þegar kemur að því að vera með öflugt iðnnám og að endurskoðun á löggildingu iðngreina komi ekki til greina án samráðs við greinarnar sjálfar. Þá er að mati samtakanna varhugavert að lögskýringargögn sem fylgi drögum að frumvarpi gefi til kynna að stjórnvöld leiti leiða til að draga úr hæfisskilyrðum þegar ekki er til staðar eftirlitskerfi sem tryggi almannahagsmuni né öryggissjónarmið.
    Í umsögn Viðskiptaráðs er innleiðingu á tilskipuninni fagnað, enda sé hún liður í því að auka samkeppnishæfni og sveigjanleika íslensks atvinnulífs og draga úr hindrunum í reglu-verki. Viðskiptaráð telur mikilvægt að meðalhófskönnun verði jafnframt beitt við endur-skoðun eldri krafna.
    Verði frumvarpið að lögum þurfa stjórnvöld að tryggja að meðalhófsprófun á nýjum eða breyttum reglum um aðgengi að lögvernduðum starfsgreinum, eða iðkun þeirra, fari fram, og kanna þannig hvort önnur úrræði en löggilding geti náð því markmiði sem stefnt er að hverju sinni. Frumvarpið felur ekki í sér skyldu til þess að endurskoða eldri kröfur um löggildingu með hliðsjón af meðalhófi.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum skal mat á meðalhófi fara fram áður en settar eru reglur um löggildingu starfsgreina eða þeim breytt. Það á að leiða til vandaðri reglusetningar um lögverndun starfa, þar sem ekki er gengið lengra í að lögvernda starfsgreinar en þörf er á með tilliti til almannahagsmuna. Slík vinnubrögð ættu að hafa hlutlaus eða jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Frumvarpið eykur ekki reglubyrði á fyrirtæki eða einstaklinga og getur haft jákvæð áhrif á atvinnufrelsi og samkeppnishæfni.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. gildandi laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 29/2010, er fjallað um gildissvið laganna. Lagt er til að við 1. gr. bætist ákvæði um að undir gildissvið laganna falli einnig meðalhófsprófun sem stjórnvöld skulu framkvæma þegar setja á nýjar lagareglur eða stjórnvaldsfyrirmæli sem takmarka aðgengi að lögvernduðum starfsgreinum eða iðkun þeirra. Þetta á einnig við þegar stjórnvöld hyggjast breyta gildandi lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Í greininni er bætt við ákvæði um meðalhófsprófun. Það er hlutaðeigandi ráðherra sem ber ábyrgð á að mat í samræmi við 7. gr. tilskipunar um meðalhófsprófun sé framkvæmt til þess að tryggja að ný eða breytt ákvæði sem takmarka aðgengi að lögvernduðum starfsgreinum eða iðkun þeirra séu til þess fallin að ná því markmiði sem stefnt er að og að þau gangi ekki lengra en nauðsynlegt er til að ná því markmiði. Í 5. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar er sérstaklega tekið fram að við mat á lögverndun heilbrigðisstarfsgreina skuli taka tillit til markmiðsins um að tryggja öfluga heilsuvernd manna.
    Umfang matsins skal vera í réttu hlutfalli við eðli, innihald og umfang ákvæðisins en skýringar skulu vera nægjanlega ítarlegar svo unnt sé að leggja mat á hvort farið sé að meðalhófsreglunni. Ráðherra sem í hlut á skráir rökstuðninginn fyrir því að ákvæði, sem metin eru í samræmi við tilskipun um meðalhófsprófun, séu rökstudd sem réttlætanleg og að meðalhófs sé gætt, í gagnagrunn Evrópusambandsins yfir lögverndaðar starfsgreinar, sem er nú þegar í notkun.
    Lagt er til að ráðherra verði heimilt að kveða nánar á um meðalhófsprófun og aðra framkvæmd á tilskipun um meðalhófsprófun í reglugerð.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.