07.03.1973
Sameinað þing: 56. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2383 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

Minning látins fyrrv. alþingismanns

Forseti. (EystJ) :

Áður en gengið verður til dagskrár, vil ég minnast Karls Guðjónssonar fyrrv. alþm., sem lézt s. l. nótt, hálfsextugur að aldri.

Karl Guðjónsson var fæddur 1. nóv. 1917 í Hlíð í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Guðjón fiskmatsmaður í Breiðholti í Vestmannaeyjum Einarsson bónda í Hallgeirsey í Landeyjum Sigurðssonar og kona hans, Guðfinna Jónsdóttir bónda á Þorgrímsstöðum í Ölfusi Jónssonar. Hann lauk gagnfræðaprófi í Vestmannaeyjum árið 1933 og kennaraprófi í Reykjavík 1938. Veturinn 1964–1965 var hann við framhaldsnám við kennaraháskólann í Kaupmannahöfn.

Karl Guðjónsson var kennari við barnaskólann í Vestmannaeyjum 1938–1963, kennari við Vogaskólann í Reykjavík 1963–1966 og fræðslufulltrúi og fræðslustjóri í Kópavogi frá 1966. Hann var alþm. á árunum 1953–1963 og aftur 1967–1971, en tók auk þess sæti sem varamaður á þingi 1965, sat á 16 þingum alls.

Karl Guðjónsson vann mikið starf að félagsmálum og honum voru falin margs konar trúnaðarstörf önnur en þau, sem talin hafa verið hér að framan. Hann átti sæti í skólanefnd og síðar fræðsluráði í Vestmannaeyjum um langt skeið. Bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum var hann 1958–1963. Hann var kosinn í orkunefnd á Alþ. 1955, í mþn. í samgöngumálum 1956 og í úthlutunarnefnd atvinnuaukningarfjár 1959. Í bankaráði Framkvæmdabanka Íslands átti hann sæti 1957–1966. Hann var kjörinn í Norðurlandaráð 1968 og átti þar sæti um eins árs skeið. Formaður Stéttarfélags barnakennara í Vestmannaeyjum var hann 1952–1954 og formaður Sambands ísl. lúðrasveita 1964–1965. Hann var í hópi forustumanna í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og vann ötullega að eflingu handalagsins.

Ævistarf Karls Guðjónssonar beindist einkum að kennslu, félagsmálum margs konar og stjórnmálaafskiptum. Hann var glöggur starfsmaður og átti létt með að koma hugsunum sínum og skoðunum á framfæri í töluðu og rituðu máli. Hann var í útgáfustjórn Eyjablaðsins í Vestmannaeyjum um langt árabil og ritaði margar greinar í það blað á árunum 1938–1968. Í ræðustóli flutti hann mál sitt skörulega og kjarnyrt. Á Alþ. var hann áhugasamur og dugandi fulltrúi. Hann fjallaði hér um ýmis landsmál, átti sæti á sjávarútvegsnefnd, samgöngumálanefnd og landbúnaðarnefnd, og á mörgum þingum var hann í fjárveitinganefnd og um skeið formaður hennar. Skammt er síðan hann átti hér sæti meðal okkar, en er nú fallinn frá fyrir aldur fram.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Karls Guðjónssonar með því að rísa úr sætum. [Þingmenn risu úr sætum.]