Lagasafn.  Íslensk lög 12. apríl 2024.  Útgáfa 154b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um meðferð einkamála

1991 nr. 91 31. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 1992. Breytt með: L. 133/1993 (tóku gildi 1. jan. 1994; EES-samningurinn: V. viðauki tilskipun 64/221/EBE, VII. viðauki tilskipun 67/43/EBE, V. viðauki tilskipun 68/360/EBE og 72/194/EBE, VIII. viðauki tilskipun 73/148/EBE, 75/34/EBE og 75/35/EBE, VII. viðauki tilskipun 77/249/EBE og 89/48/EBE, VIII. viðauki tilskipun 90/364/EBE, 90/365/EBE og 90/366/EBE). L. 38/1994 (tóku gildi 1. júlí 1994). L. 15/1998 (tóku gildi 1. júlí 1998 nema 38. gr. sem tók gildi 3. apríl 1998). L. 36/1999 (tóku gildi 1. maí 1999). L. 97/1999 (tóku gildi 27. des. 1999; EES-samningurinn). L. 72/2003 (tóku gildi 10. apríl 2003). L. 7/2005 (tóku gildi 24. febr. 2005). L. 53/2008 (tóku gildi 7. júní 2008). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 70/2009 (tóku gildi 30. júní 2009 nema 1.–3. gr., 12.–26. gr. og brbákv. V og VI sem tóku gildi 1. júlí 2009, 4. gr. sem tók gildi 1. sept. 2009 og brbákv. IV sem tók gildi 16. júní 2009; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 29. gr., sbr. og l. 97/2009 (tóku gildi 3. sept. 2009)). L. 117/2010 (tóku gildi 23. sept. 2010). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 72/2012 (tóku gildi 4. júlí 2012 nema 7. gr. sem tók gildi 15. júlí 2012). L. 6/2013 (tóku gildi 1. jan. 2013, birt í Stjtíð. 13. febr. 2013). L. 15/2013 (tóku gildi 9. mars 2013). L. 80/2013 (tóku gildi 4. júlí 2013, féllu úr gildi 1. jan. 2015). L. 78/2015 (tóku gildi 1. ágúst 2015). L. 49/2016 (tóku gildi 1. jan. 2018; um lagaskil sjá 78. gr., sbr. l. 117/2016, 76. gr., l. 53/2017, 4. gr., og l. 90/2017, 8. gr.). L. 99/2016 (tóku gildi 24. sept. 2016). L. 90/2017 (tóku gildi 29. des. 2017). L. 141/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019). L. 18/2019 (tóku gildi 3. apríl 2019). L. 76/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 141/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020). L. 32/2020 (tóku gildi 9. maí 2020). L. 47/2020 (tóku gildi 1. des. 2020 nema 3. og 6. gr. sem tóku gildi 5. júní 2020). L. 121/2020 (tóku gildi 19. nóv. 2020). L. 136/2021 (tóku gildi 31. des. 2021). L. 134/2022 (tóku gildi 7. jan. 2023; um lagaskil sjá 24. gr.). L. 98/2023 (tóku gildi 29. des. 2023).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. þáttur. Almennar reglur um meðferð einkamála.
I. kafli. [Gildissvið laganna og dómendur í héraði og fyrir Landsrétti.]1)
    1)L. 49/2016, 5. gr.
1. gr.
1. Lög þessi taka til dómsmála sem hvorki sæta sérstakri meðferð eftir fyrirmælum annarra laga né eiga undir sérdómstóla lögum samkvæmt.
2. Í héraði eiga mál samkvæmt lögum þessum undir hina reglulegu héraðsdómstóla eftir löggjöf um skipan dómsvalds í héraði.
2. gr.
1. Einn dómari skipar dóm í hverju máli [í héraði] 1) nema [kvaddir verði] 2) til meðdómsmenn skv. 2. eða 3. mgr.
[2. Ef deilt er um staðreyndir sem eru bornar fram sem málsástæður og dómari telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr getur hann kvatt til einn meðdómsmann sem hefur slíka kunnáttu og ákveður dómstjóri þá hvaða héraðsdómari skipi dóm í málinu með dómsformanni og hinum sérfróða meðdómsmanni. Þó er dómara heimilt að kveðja til tvo meðdómsmenn ef hann telur þurfa sérkunnáttu í dómi á fleiri en einu sviði.] 1)
3. Ef mál er umfangsmikið eða sakarefni mjög mikilvægt frá almennu sjónarmiði [getur dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu eða tveir héraðsdómarar með einum sérfróðum meðdómsmanni]. 2)
    1)L. 49/2016, 1. gr. 2)L. 15/1998, 36. gr.
[2. gr. a.
Ef sérfróður meðdómsmaður hefur tekið þátt í meðferð máls fyrir héraðsdómi sem fengið hefur efnislega úrlausn þar og enn er deilt um staðreyndir sem eru bornar fram sem málsástæður fyrir Landsrétti, og forseti telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr, getur forseti að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu dómsformanns í málinu kvatt til einn meðdómsmann sem hefur slíka sérkunnáttu og skipar hann þá dóm í máli með tveimur dómurum við Landsrétt. Hafi málinu þegar verið úthlutað til þriggja dómara Landsréttar ákveður forseti hver þeirra víki. Telji forseti þörf á sérkunnáttu á fleiri en einu sviði við úrlausn máls og ekki er völ á meðdómsmanni með sérþekkingu á báðum eða öllum sviðum getur hann kallað til tvo sérfróða meðdómsmenn til að taka þátt í meðferð þess með þremur dómurum við Landsrétt. Jafnframt getur hann ákveðið, ef mál er umfangsmikið eða sakarefni mjög mikilvægt frá almennu sjónarmiði, að þrír dómarar við Landsrétt skipi dóm með tveimur sérfróðum meðdómsmönnum.] 1)
    1)L. 49/2016, 2. gr.
3. gr.
1. Þá eina má kveðja til setu í dómi sem sérfróða meðdómsmenn sem hafa nægilegan þroska og andlegt og líkamlegt heilbrigði, njóta íslensks ríkisborgararéttar, eru lögráða og orðnir 25 ára, hafa forræði á búi sínu og hafa hvorki [hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að þeir urðu fullra 18 ára] 1) né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
2. Hverjum þeim sem fullnægir skilyrðum 1. mgr. er skylt að verða við kvaðningu til starfa meðdómsmanns. Þetta gildir þó ekki um hæstaréttardómara, [starfsmenn Hæstaréttar], 2) [landsréttardómara, starfsmenn Landsréttar], 3) ráðherra, ráðuneytisstjóra, biskupa, presta og forstöðumenn í viðurkenndum trúfélögum [og skráðum lífsskoðunarfélögum], 4) umboðsmann Alþingis, ríkissaksóknara, sýslumenn, [tollyfirvöld] 5) og lögreglustjóra og löglærða starfsmenn þeirra eða lögmenn og fulltrúa þeirra. Forstöðumanni ríkisstofnunar eða starfsmanni í heilbrigðisþjónustu verður heldur ekki gert að taka sæti meðdómsmanns ef sakarefnið varðar stofnun sem hann starfar við.
[3. Um val á sérfróðum meðdómsmönnum að öðru leyti fer eftir lögum um dómstóla.] 3)
    1)L. 141/2018, 8. gr. 2)L. 15/1998, 36. gr. 3)L. 49/2016, 3. gr. 4)L. 6/2013, 14. gr. 5)L. 141/2019, 48. gr.
4. gr.
1. Meðdómsmenn skulu ekki taka sæti í dómi síðar en við upphaf aðalmeðferðar máls. Dómari skal að öðru jöfnu greina aðilum frá því með fyrirvara hverja hann hyggist kveðja til setu í dómi, þannig að aðilum gefist kostur á að gera athugasemdir ef þeir telja efni til.
2. Bókað skal um kvaðningu meðdómsmanna í máli þegar þeir taka fyrst sæti í dómi. … 1)
3. Meðdómsmenn taka þátt í málsmeðferð og [samningu dóms] 2) og hafa sömu réttindi og bera sömu skyldur og dómsformaður í því máli. Dómsformaður stýrir þó dómi, kveður einn upp úrskurði um annað en frávísun máls, þar á meðal um hæfi meðdómsmanns, gefur út kvaðningar og tilkynningar, [heldur þing til uppkvaðningar dóms], 2) annast gerð og staðfestingu dómsgerða og kemur fram út á við fyrir hönd dómsins.
4. Dómsformaður ákveður þóknun sérfróðra meðdómsmanna [eftir reglum sem dómstólasýslan setur]. 1)3)
    1)L. 49/2016, 4. gr. 2)L. 78/2015, 1. gr. 3)L. 15/1998, 35. gr.
5. gr.
Dómari, þar á meðal meðdómsmaður, er vanhæfur til að fara með mál ef:
    a. hann er aðili að málinu eða fyrirsvarsmaður aðila,
    b. hann hefur gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila ólögskyldar leiðbeiningar um það,
    c. hann hefur borið eða verið kvaddur til að bera vitni um atvik málsins af réttmætu tilefni eða verið mats- eða skoðunarmaður um sakarefnið,
    d. hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar,
    e. hann tengist eða hefur tengst fyrirsvarsmanni eða málflytjanda aðila með þeim hætti sem segir í d-lið,
    f. hann tengist eða hefur tengst vitni í málinu með sama hætti og segir í d-lið, mats- eða skoðunarmanni eða manni sem neitar að láta af hendi sönnunargagn,
    g. fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
6. gr.
1. Dómari gætir að hæfi sínu og meðdómsmanna til að fara með mál af sjálfsdáðum, en aðili getur einnig krafist að hann eða þeir víki sæti.
2. Dómari kveður sjálfur upp úrskurð um kröfu aðila um að hann víki sæti, svo og ef hann víkur sæti af sjálfsdáðum.
3. … 1)
4. Þótt dómari hafi vikið sæti ber honum að gera ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að halda máli í réttu horfi þar til annar dómari tekur við því. Á þeim tíma getur hann einnig látið af hendi endurrit af málsskjölum og staðfest dómsgerðir.
    1)L. 15/1998, 35. gr.

II. kafli. Þinghöld, þingbækur o.fl.
7. gr.
1. Dómari stýrir þinghaldi og gætir þess að það sé háð eftir réttum reglum. Hann ákveður í hverri röð mál verða tekin fyrir. Enginn má taka til máls nema með leyfi dómara og getur hann tekið orðið af manni sem heldur sig ekki við efni máls.
2. … 1)
    1)L. 76/2019, 1. gr.
8. gr.
1. Þinghöld skulu háð í heyranda hljóði. Hvort sem aðili krefst þess eða ekki getur dómari þó ákveðið að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum ef það er háð utan reglulegs þingstaðar eða hann telur það nauðsynlegt:
    a. til hlífðar aðila, vandamanni aðila, vitni eða öðrum sem málið varðar,
    b. vegna nauðsynjar aðila, vitnis eða annars sem málið varðar á því að halda leyndum atriðum varðandi hagsmuni í viðskiptum eða samsvarandi aðstöðu,
    c. vegna hagsmuna almennings eða ríkisins,
    d. af velsæmisástæðum,
    e. til að halda uppi þingfriði.
2. Bókað skal um ákvörðun dómara um lokun þinghalds og greint frá því af hverri ástæðu hún hafi verið tekin.
3. Þótt þinghald sé háð í heyranda hljóði er dómara rétt að takmarka fjölda áheyrenda við þá sem rúmast á þingstað með góðu móti. Dómari getur einnig meinað þeim aðgang sem eru yngri en 15 ára eða þannig á sig komnir að návist þeirra samræmist ekki góðri reglu við þinghald.
9. gr.
[1. Óheimilt er öðrum en dómstólum að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi. Jafnframt er óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða greina frá því sem [aðili] 1) eða vitni skýrir frá við skýrslutöku meðan á henni stendur. Dómari getur veitt undanþágu frá banni við öllu framangreindu ef sérstaklega stendur á. Ef tekið hefur verið upp hljóð eða teknar myndir í þinghaldi án leyfis dómara er óheimilt að birta þær hljóðupptökur eða myndir. Sama gildir um birtingu hljóð- og myndupptakna af munnlegum framburði sem dómstóll hefur annast. Brot gegn þessari málsgrein varðar sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.] 2)
2. Óheimilt er að skýra opinberlega frá því sem gerist í lokuðu þinghaldi án leyfis dómara. Þótt þinghald sé háð í heyranda hljóði getur dómari bannað að skýrt verði opinberlega frá því sem gerist þar, enda kynni hann ákvörðun sína um það viðstöddum og bóki um hana. Brot gegn þessu varðar sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.
3. Dómara er rétt að vísa manni úr þinghaldi ef návist hans horfir til truflunar þingfriði eða framkoma hans er óviðeigandi í orði eða verki. Ef um aðila er að ræða, fyrirsvarsmann hans eða málflytjanda skal dómari þó að jafnaði áminna hann og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en af brottvísun verður. Ákvörðun dómara um að víkja manni úr þinghaldi má framfylgja með lögregluvaldi ef með þarf. Bókað skal um brottvikningu manns ef aðili, fyrirsvarsmaður hans eða málflytjandi á í hlut.
    1)L. 134/2022, 1. gr. 2)L. 76/2019, 2. gr.
10. gr.
1. Þingmálið er íslenska.
2. Nú gefur maður skýrslu fyrir dómi sem kann ekki íslensku nægilega vel, og skal þá aðilinn sem hlutast til um skýrslugjöfina kalla til löggiltan dómtúlk. Dómari kveður þó til löggiltan dómtúlk ef það leiðir af samningi við erlent ríki. Sé ekki kostur á löggiltum dómtúlki er dómara rétt að samþykkja að annar hæfur maður annist þýðingu, en sá skal þá undirrita heit í þingbók um að hann muni rækja starfann eftir bestu getu og ber honum að staðfesta þýðingu sína fyrir dómi ef hún er vefengd. Aðilinn greiðir kostnað af starfa túlks, en kostnaðurinn skal þó greiddur úr ríkissjóði í einkarefsimálum og málum um faðerni barna og lögræðissviptingar, svo og ef dómari kveður til dómtúlk vegna ákvæða samnings við erlent ríki.
3. Skjali á erlendu tungumáli skal að jafnaði fylgja þýðing á íslensku að því leyti sem er byggt á efni þess í máli nema dómari telji sér fært að þýða það. Komi aðilar sér ekki sjálfir saman um rétta þýðingu skjals skal hún gerð af löggiltum skjalaþýðanda. Sé ekki kostur á löggiltum skjalaþýðanda má leggja fram þýðingu annars hæfs manns, en honum ber að staðfesta hana fyrir dómi ef hún er vefengd. Um kostnað af starfa þýðanda fer sem segir í 2. mgr.
[4. Nú gefur maður skýrslu fyrir dómi sem reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta og skal þá aðilinn sem hlutast til um skýrslugjöfina kalla til táknmálstúlk. Um heit táknmálstúlks og staðfestingu fer eftir ákvæðum 2. mgr. Þóknun og annar kostnaður vegna starfa táknmálstúlks greiðist úr ríkissjóði.] 1)
[5.] 1) Ef maður, sem á að gefa skýrslu fyrir dómi, er ekki [fyllilega] 1) fær um að eiga orðaskipti á mæltu máli [eða íslensku táknmáli] 1) skal aðilinn sem hlutast til um skýrslugjöfina kalla til kunnáttumann til aðstoðar. Um heit slíks manns, staðfestingu og kostnað af starfa fer eftir ákvæðum 2. mgr. Dómari getur þó ákveðið í stað þess að eftir atvikum verði spurningar lagðar fyrir hlutaðeiganda eða hann svari þeim skriflega fyrir dómi. [Þóknun og annar kostnaður vegna starfa kunnáttumanns greiðist úr ríkissjóði.] 1)
    1)L. 18/2019, 1. gr.
11. gr.
1. Við [Landsrétt og] 1) hvern héraðsdómstól skulu vera þingbækur til afnota í einkamálum. [Dómara er rétt að rita á tölvu það sem væri ella fært í slíka bók, en það sem skráð er með þeim hætti skal þá varðveita á rafrænu formi þannig að það sé öruggt og aðgengilegt.] 2)
2. Þegar dómþing er háð skal rita skýrslu í þingbók um það sem fer fram. Þar skal jafnan skráð hvar og hvenær þinghald fer fram, nafn dómara sem fer með mál sem er tekið fyrir, gögn sem eru lögð fram, hverjir mæta í máli og koma fyrir dóm og hvað hafi verið afráðið um rekstur máls, svo og ákvarðanir dómara og úrskurði sem hann kveður upp jafnharðan undir rekstri máls. Einnig er rétt að bóka um yfirlýsingar af hendi aðila sem hafa ekki komið fram skriflega. Ef önnur ákvæði þessara laga mæla ekki fyrir um að bókað verði um tiltekin atriði ákveður dómari að öðru leyti hvað verði skráð í þingbók og undirritar það sem hefur verið bókað að loknu þinghaldi. Ef dómari telur ástæðu til er honum rétt að kynna þeim sem mæta í þinghaldi efni bókunar í heild eða að hluta og gefa hlutaðeigendum kost á að undirrita hana.
[3. Það sem kemur fram við munnlega sönnunarfærslu skal tekið upp í hljóði og mynd, sbr. þó 3. og 4. mgr. 51. gr. Dómari getur einnig í undantekningartilfellum ákveðið að taka upp eða skrá útdrátt sinn af framburði, en hlutaðeiganda skal þá gefinn kostur á að koma að athugasemdum um það sem er haft eftir honum og um framkvæmd skýrslutökunnar.] 1)
    1)L. 49/2016, 6. gr. 2)L. 76/2019, 3. gr.
12. gr.
1. Við [Landsrétt og] 1) hvern héraðsdómstól skal haldin dómabók sem hefur að geyma dóma, svo og úrskurði sem fela í sér niðurstöðu máls, undirritaða af dómara.
2. Enn fremur skal halda skrá við [Landsrétt og] 1) hvern héraðsdómstól yfir þau mál sem koma til úrlausnar eftir þessum lögum.
    1)L. 49/2016, 7. gr.
13. gr.
1. Skjöl, sem eru lögð fram í dómi, skulu vera í frumriti séu þau tiltæk. Þau skulu merkt í áframhaldandi töluröð og vottuð um framlagningu. Sá sem leggur fram skjal skal láta í té þann fjölda eftirrita af því sem dómari mælir fyrir um og afhendir jafnframt öðrum aðilum máls eftirrit.
2. Framlögð skjöl skulu varðveitt í skjalasafni hlutaðeigandi dómstóls þar til þau verða afhent Þjóðskjalasafni. Ef aðili, sem hefur lagt fram skjal, þarf á því að halda þegar máli er lokið skal afhenda honum frumrit þess eða myndrit, en sé frumrit látið af hendi skal myndrit varðveitt í þess stað. Meðan máli er ólokið verður frumrit skjals ekki afhent nema aðilar séu því samþykkir eða ekkert eða óverulega er byggt á efni þess og dómari telur mega láta það af hendi gegn því að myndrit komi í stað þess.
3. Öðrum en aðila máls verður ekki afhent frumrit skjals nema með samþykki þess sem lagði það fram, sbr. þó 3. mgr. 69. gr.
[4. Dómabækur, þingbækur, framlögð skjöl og hljóð- og myndupptökur skal varðveita í skjalasafni hlutaðeigandi dómstóls þar til þau verða afhent Þjóðskjalasafni.] 1)
    1)L. 49/2016, 8. gr.
14. gr.
1. [Meðan mál er rekið fyrir [æðra dómi] 1) eða héraðsdómi er dómara eða eftir atvikum dómsformanni] 2) skylt gegn greiðslu gjalds að láta þeim sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta í té staðfest eftirrit af málsskjölum og úr þingbók eða dómabók, … 3) svo fljótt sem við verður komið og ekki síðar en innan mánaðar frá því þess er óskað.
[2. Áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum [eða eftirrit málsskjala] 2) eru afhent öðrum en aðilum máls skal ef sérstök ástæða er til afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna.] 4)
[3.] 4) [Meðan mál er rekið fyrir Landsrétti eða í héraði, unnt er að skjóta því til æðra dóms eða mál er rekið þar fyrir dómi er dómara skylt gegn greiðslu gjalds að afhenda aðilum máls afrit hljóðupptöku skv. 3. mgr. 11. gr. eða leyfa þeim að hlýða á slíkar upptökur eða horfa á myndupptökur, svo fljótt sem við verður komið eftir að þess er óskað.] 1) Eftir þann tíma má verða við ósk þess efnis ef sérstakar ástæður mæla með því. [Dómstólasýslan setur nánari reglur 5) um afhendingu afrita af hljóðupptökum og um aðgang að myndupptökum.] 1)
[4.] 3) Dómara er heimilt að krefjast fyrirframgreiðslu áætlaðs gjalds skv. [1. mgr.] 2)
[5.] 4) Telji dómari óheimilt eða óskylt að verða við ósk um eftirrit eða leyfi til að hlýða [eða horfa] 2) á upptöku kveður hann upp úrskurð um það ef þess er krafist.
[6. Nú er meðferð máls endanlega lokið fyrir héraðsdómi og tekur þá dómstjóri ákvörðun um afhendingu eftirrits skv. 1. mgr. eða kveður upp úrskurð skv. 5. mgr. [Forseti æðra dóms tekur slíka ákvörðun eða kveður upp úrskurð þegar meðferð máls er endanlega lokið fyrir þeim dómi.] 1)] 6)
    1)L. 76/2019, 4. gr. 2)L. 49/2016, 9. gr. 3)L. 38/1994, 1. gr. 4)L. 36/1999, 48. gr. 5) Rgl. 1292/2022. 6)L. 78/2015, 2. gr.
15. gr.
[1. … 1)
2. [Dómstólasýslan setur nánari reglur 2) um eftirfarandi atriði fyrir Landsrétt og héraðsdómstóla]: 1)
    a. málaskrár,
    b. þingbækur, þar á meðal rafræna færslu þeirra,
    c. búnað til [hljóð- og myndupptöku] 1) í þinghöldum,
    d. dómabækur,
    e. varðveislu málsskjala [og hljóð- og myndupptaka], 1)
    f. [aðgang almennings að endurritum af dómum og úr þingbók, svo og að framlögðum skjölum, þ.m.t. um brottnám upplýsinga úr þeim, eftir að máli hefur verið endanlega lokið], 1)
    g. form og frágang dómskjala, þar á meðal hámarkslengd stefnu og greinargerðar stefnda.] 3)
    1)L. 49/2016, 10. gr. 2) Rgl. 433/2024. 3)L. 78/2015, 1. gr.

III. kafli. Aðild og fyrirsvar.
16. gr.
1. Aðili dómsmáls getur hver sá verið, einstaklingur, félag eða stofnun, sem getur átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Dómstólar hafa vald til að dæma mál allra þeirra sem geta verið aðilar nema undantekningar séu gerðar í lögum eða samkvæmt þjóðarétti.
2. Varnir byggðar á aðildarskorti leiða til sýknu ef fallist er á þær.
17. gr.
1. Maður kemur sjálfur fram í máli sínu ef hann er hæfur að lögum til að ráðstafa sakarefninu.
2. Ef maður búsettur erlendis telst hæfur til að koma sjálfur fram í dómsmáli eftir lögum heimalands síns skal honum talið það heimilt hér á landi. Ef hann telst hæfur til þess að íslenskum lögum skiptir ekki máli hvort svo sé að lögum heimalands hans.
3. Lögráðamaður kemur fram sem fyrirsvarsmaður ólögráða manns sem á aðild að máli og brestur hæfi til að ráðstafa sakarefninu.
4. Stjórnendur félaga, stofnana eða samtaka koma fram einir eða fleiri í sameiningu sem fyrirsvarsmenn slíkra aðila eftir því sem leiðir af almennum reglum.
5. Þegar ríkið eða sveitarfélag á aðild að máli, stofnun eða fyrirtæki þess eða einstök stjórnvöld, kemur sá fram sem fyrirsvarsmaður sem hefur ákvörðunarvald um þá hagsmuni aðilans sem sakarefnið varðar, nema mælt sé á annan veg í lögum.
6. Nú flytur aðili mál sitt sjálfur eða fyrirsvarsmaður og dómari telur hann ófæran um að gæta þannig hagsmuna sinna, og skal þá dómari leggja fyrir hann að ráða sér hæfan umboðsmann til að flytja málið. Hafi hlutaðeigandi ekki orðið við því þegar mál er tekið næst fyrir má fara með það eins og hann hefði ekki sótt þing.
18. gr.
1. Nú eiga fleiri en einn óskipt réttindi eða bera óskipta skyldu, og eiga þeir þá óskipta aðild.
2. Ef þeim sem bera óskipta skyldu er ekki öllum veittur kostur á að svara til sakar skal vísa máli frá dómi. Það sama á við ef þeir sem eiga óskipt réttindi sækja ekki mál í sameiningu, að því leyti sem krafa er höfð uppi um hagsmuni einhvers þeirra sem á ekki aðild að því.
3. Ef þeir sem eiga óskipta aðild sækja ekki allir þing skulu þeir sem gera það teljast hafa heimild til að skuldbinda hina.
4. Nú eru kröfur eða yfirlýsingar þeirra sem eiga óskipta aðild ósamrýmanlegar, og skal þá telja aðilana alla bundna við þá kröfu eða yfirlýsingu sem er gagnaðila hagkvæmust, nema sýnt sé að hún sé röng eða þann sem setti hana fram hafi sér að ósekju skort vitneskju um málsatvik eða stöðu sína að lögum.
19. gr.
1. Fleiri en einum er heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með sömu skilyrðum má sækja fleiri en einn í sama máli. Ella skal vísa máli frá dómi að kröfu varnaraðila að því er hann varðar.
2. Sækja má fleiri en einn í sama máli með þeim hætti að kröfum sé aðallega beint að einum þeirra en að öðrum til vara ef skilyrðum 1. mgr. er fullnægt. Ella skal vísa frá dómi kröfum á hendur þeim sem eru sóttir til vara ef þeir krefjast þess.
3. Nú vill sóknaraðili stefna nýjum aðila eftir þingfestingu máls til að svara til sakar með þeim sem hann hefur þegar stefnt, og er það þá því aðeins heimilt að skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt og sóknaraðila verði ekki metið til vanrækslu að hann hafi ekki stefnt nýja aðilanum áður en málið var þingfest.
[19. gr. a.
1. Þremur aðilum eða fleiri, sem eiga kröfur á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, er í stað þess að sækja mál skv. 1. mgr. 19. gr. heimilt að láta málsóknarfélag, sem þeir eiga hlut að, reka í einu lagi mál um kröfur þeirra allra. Málsóknarfélag skal stofnað til að reka tiltekið mál fyrir dómi og er hvorki heimilt að takmarka ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum félagsins né láta það starfa við annað en rekstur málsins og eftir atvikum fullnustu á réttindum félagsmanna og uppgjör krafna þeirra. Séu málsóknarfélagi ekki settar sérstakar samþykktir skulu gilda um það almennar samþykktir sem [ráðherra] 1) ákveður í reglugerð. 2) Halda skal skrá um félagsmenn. Verði málsóknarfélag skrásett skal ekki greitt fyrir það gjald í ríkissjóð.
2. Þótt málsóknarfélag eigi aðild að máli eiga félagsmenn hver fyrir sitt leyti þá hagsmuni sem málið varðar og njóta þar sömu stöðu og aðilar að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessarar greinar. Í stefnu skal dómkrafa gerð í einu lagi í nafni félagsins en greint skal allt að einu frá félagsmönnum, svo og hvern hlut hver þeirra eigi í kröfu sé hún um greiðslu peningafjárhæðar. Í dómi skal kveðið á um kröfu eða önnur réttindi félagsins á hendur gagnaðila án þess að félagsmanna sé getið. Félagið fer í hvívetna með forræði á máli svo að bindandi sé fyrir félagsmenn, þar á meðal til að fella það niður eða ljúka því með dómsátt. Ef því er að skipta leitar félagið í eigin nafni fullnustu réttinda félagsmanna að máli loknu. Leita má fullnustu á réttindum á hendur málsóknarfélagi hjá félagsmönnum sjálfum.
3. Nú gengur nýr aðili í málsóknarfélag eftir að mál er höfðað en áður en aðalmeðferð þess er hafin og getur þá félagið aukið við dómkröfur sínar í þágu nýja félagsmannsins. Slík breyting á dómkröfum skal eftir þörfum gerð með framhaldsstefnu og gildir þá ekki það skilyrði 29. gr. að félaginu verði ekki metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu.
4. Segi félagsmaður sig eftir höfðun máls úr málsóknarfélagi fer það ekki lengur með forræði á hagsmunum hans sem málið varðar og ber félaginu að breyta dómkröfum sínum að því leyti sem úrsögn gefur tilefni til. Dæma má félagsmann, sem svo er ástatt um, til að greiða hlut í málskostnaði sem gagnaðila félagsins kann að verða ákveðinn.] 3)
    1)L. 162/2010, 126. gr. 1)Rg. 818/2010. 3)L. 117/2010, 1. gr.
20. gr.
Þriðja manni er heimilt að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Skal hann þá stefna báðum eða öllum upphaflegu aðilunum og gera kröfu um að honum verði leyfð meðalgangan og dæmt sakarefnið eða dómur annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður.
21. gr.
1. Ef úrslit máls geta skipt þriðja mann máli að lögum getur aðili stefnt honum og skorað þannig á hann að veita sér styrk í málinu eða gæta þar annars réttar síns.
2. Mæti þriðji maður í máli en gerist ekki aðili að því verða kröfur ekki gerðar á hendur honum og getur hann ekki gert kröfu um annað en málskostnað sér til handa. Honum er allt að einu rétt að afla gagna í máli og flytja það af sinni hendi að því leyti sem það varðar hann að lögum.
22. gr.
1. Ef sóknaraðili framselur þau réttindi sem dómkrafa hans varðar eftir að mál er höfðað en áður en það er tekið til dóms tekur nýi eigandinn í hans stað við aðild að málinu í því horfi sem það er.
2. Ef sóknaraðili deyr á þeim tíma sem segir í 1. mgr. tekur dánarbú hans við aðild að málinu ef þau réttindi, sem dómkrafan varðar, áskotnast því. Að öðrum kosti fellur málið niður en dæma má dánarbúið til greiðslu málskostnaðar.
3. Ef bú sóknaraðila er tekið til gjaldþrotaskipta á þeim tíma sem segir í 1. mgr. tekur þrotabú hans við aðild að málinu ef þau réttindi, sem dómkrafan varðar, áskotnast því. Falli réttindi niður vegna gjaldþrotaskipta fellur mál jafnframt niður.
23. gr.
1. Nú afhendir varnaraðili hlut eða réttindi sem hann er sóttur til að láta af hendi eftir að mál er höfðað, og má þá sóknaraðili allt að einu halda málinu áfram gegn upphaflegum varnaraðila. Verður sá sem leiðir rétt sinn frá varnaraðila þá bundinn af dómi í málinu nema hann hafi eignast hlut eða réttindi með þeim hætti að réttur annarra glatist gagnvart honum.
2. Ef varnaraðili deyr á þeim tíma sem segir í 1. mgr. tekur dánarbú hans við aðild að málinu ef þær skyldur, sem dómkrafan varðar, falla á það. Að öðrum kosti fellur málið niður en dæma má dánarbúið til greiðslu málskostnaðar.
3. Ef bú varnaraðila er tekið til gjaldþrotaskipta á þeim tíma sem segir í 1. mgr. tekur þrotabú hans við aðild að málinu ef þær skyldur, sem dómkrafan varðar, falla á það. Sóknaraðili getur þó krafist að dómur gangi aðeins á hendur þrotamanni eða bæði á hendur honum og þrotabúinu.

IV. kafli. Sakarefni.
24. gr.
1. Dómstólar hafa vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu. Eigi sakarefni ekki undir dómstóla vísar dómari máli frá dómi.
2. Nú telur dómari að mál eigi undir annan dómstól eða það beri að reka eftir reglum um meðferð [sakamála] 1) eða meðferð ágreiningsmála vegna fullnustugerða eða búskipta, og vísar hann þá máli frá dómi.
    1)L. 88/2008, 234. gr.
25. gr.
1. Dómstólar verða ekki krafðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli.
2. Nú hefur sóknaraðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands, og getur hann þá leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Gildir þetta án tillits til þess hvort honum væri þess í stað unnt að leita dóms sem mætti fullnægja með aðför.
3. Félag eða samtök manna geta í eigin nafni rekið mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra, enda samrýmist það tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem dómkrafan tekur til.
26. gr.
1. Ef mál er höfðað til úrlausnar um rétt eða skyldu sem sóknaraðili játar eða sýnt er á annan hátt að sé ekki enn orðin til skal vísa máli frá dómi.
2. Nú er krafist dóms um skyldu, sem mætti fullnægja með aðför, og hún reynist hvíla eða geta hvílt á varnaraðila, en sá tími er ókominn sem hann verður krafinn um efndir hennar þegar mál er dómtekið, og skal þá sýkna varnaraðila að svo stöddu.
27. gr.
1. Í einu máli má sækja allar kröfur á hendur sama aðila sem eru samkynja eða eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Öðrum kröfum verður vísað frá dómi ef varnaraðili krefst.
2. Hafi aðili ekki sótt allar kröfur sínar í máli, sem hann mátti skv. 1. mgr., er honum heimilt að sækja afgang þeirra í öðru máli, en ekki má þá dæma varnaraðila til að greiða málskostnað í nýja málinu nema sýnt þyki að ekki hafi verið unnt að höfða mál í upphafi um allar kröfurnar eða það hefði leitt til tilfinnanlegra tafa eða óhagræðis.
28. gr.
1. Varnaraðila er rétt að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar í máli án þess að gagnstefna ef skilyrði fyrir skuldajöfnuði eru fyrir hendi. Gagnkrafan skal þá höfð uppi í greinargerð en sjálfstæður dómur getur ekki gengið um hana.
2. Með gagnstefnu er varnaraðila heimilt að hafa uppi gagnkröfu í máli til sjálfstæðs dóms og eftir atvikum skuldajafnaðar ef gagnkrafan er samkynja aðalkröfunni eða þær eiga báðar rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings eða samið hefur verið um að sækja mætti gagnkröfuna í máli um aðalkröfuna. Gagnsök verður að höfða innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar.
3. Gagnkröfu má hafa uppi eftir þann tíma sem segir í 1. og 2. mgr. ef það er gert fyrir aðalmeðferð máls og það verður ekki metið varnaraðila til vanrækslu að hafa ekki gert gagnkröfu sína í tæka tíð.
29. gr.
Með framhaldsstefnu er heimilt að auka við fyrri kröfu eða hafa uppi nýja kröfu í máli eftir þingfestingu en fyrir aðalmeðferð þess ef skilyrðum 1. mgr. 27. gr. er fullnægt og það verður ekki metið aðilanum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu.
30. gr.
1. Þyki dómara það til skýringar eða hagræðis getur hann ákveðið að ósk eins eða fleiri aðila að sameina tvö eða fleiri mál:
    a. ef þau eru rekin milli sömu aðila og unnt hefði verið að höfða eitt mál um allar kröfurnar skv. 1. mgr. 27. gr.,
    b. ef þau eru rekin milli sömu aðila og unnt hefði verið að höfða annað málið sem gagnsök í hinu skv. 2. mgr. 28. gr.,
    c. ef höfða hefði mátt eitt mál um kröfurnar skv. 1. mgr. 19. gr.
2. Dómari getur ekki sameinað mál eftir ákvæðum 1. mgr. gegn mótmælum aðila ef það hefði varðað frávísun eftir kröfu hans að höfða mál þannig í öndverðu.
3. Þyki dómara það nauðsynlegt til skýringar eða hagræðis getur hann ákveðið af sjálfsdáðum að aðskilja kröfur sem eiga ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings en eitt mál er rekið um, þannig að farið verði með hvora eða hverja þeirra í sjálfstæðu máli.
31. gr.
[1. Dómari getur ákveðið að eigin frumkvæði eða eftir ósk annars aðila eða beggja að skipta sakarefni þannig að fyrst verði dæmt sérstaklega um tiltekin atriði máls meðan önnur atriði þess hvíla og bíða þess að verða dæmd.] 1)
2. Ef sakarefni er skipt í máli um skaðabætur þannig að fyrst sé dæmt um bótaskyldu getur dómari orðið við kröfu sóknaraðila um það að í dómi um þá skyldu verði kveðið á um hæfilega fjárhæð sem varnaraðila beri þegar að greiða upp í væntanlegar bætur.
    1)L. 78/2015, 4. gr.

V. kafli. Varnarþing.
32. gr.
1. Sækja má mann fyrir dómi í þinghá þar sem hann á skráð lögheimili. Eigi maður fasta búsetu í annarri þinghá en þar sem lögheimili hans er skráð má einnig sækja hann í þeirri þinghá.
2. Mann, sem á hvergi skráð lögheimili, má sækja í þinghá þar sem hann hefur fasta búsetu. Sé ókunnugt um fastan búsetustað má sækja hann í þinghá þar sem hann dvelst eða ella þar sem hann er staddur þegar stefna er birt.
3. Íslenskan ríkisborgara, sem er búsettur erlendis en verður ekki sóttur þar, má sækja fyrir dómi í Reykjavík ef hann á ekki skráð lögheimili í annarri þinghá.
4. Sækja má mann, sem er búsettur erlendis, í þeirri þinghá þar sem hann er staddur við birtingu stefnu ef mál varðar fjárskyldu hans við mann sem er búsettur hér á landi eða félag, stofnun eða samtök sem eiga varnarþing hér.
5. Ólögráða maður verður sóttur í þinghá þar sem sækja mætti lögráðamann hans skv. 1.–4. mgr. ef hann hefur ekki sjálfur forræði á sakarefninu.
33. gr.
1. Skrásett félag eða firma má sækja í þeirri þinghá þar sem varnarþing þess er skráð. Ef stjórnarstöð þess er í annarri þinghá en þar sem varnarþing er skráð má einnig sækja það í þeirri þinghá. Ef mál varðar skrásett útibú félags eða firma má sækja það í þeirri þinghá þar sem útibúið er.
2. Óskrásett félag eða firma má sækja í þeirri þinghá þar sem heimili þess telst vera samkvæmt samþykktum þess eða stjórnarstöð þess er. Einnig má sækja það í þeirri þinghá þar sem fyrirsvarsmaður þess yrði sjálfur sóttur skv. 32. gr. Það sama á við um annars konar óskrásett samtök eða stofnanir sem ákvæði 3. og 4. mgr. taka ekki til.
3. Ríkið verður sótt fyrir dómi í Reykjavík. Sé máli beint að stjórnvaldi fyrir ríkisins hönd og það hefur stjórnarstöð í annarri þinghá má þó sækja það í þeirri þinghá. Sveitarfélag verður með sama skilorði sótt í þeirri þinghá sem það heyrir til.
4. Stofnun eða fyrirtæki ríkisins eða sveitarfélags eða stjórnvald þess má sækja í þeirri þinghá þar sem það hefur stjórnarstöð.
34. gr.
1. Ef skoðun fasteignar getur orðið nauðsynleg í máli sem varðar hana má sækja það í þeirri þinghá þar sem hún er. Það sama á við um önnur mál um réttindi yfir fasteign, svo og mál þar sem sóttar eru kröfur sem rísa af slíkum réttindum.
2. Ef fasteign er í fleiri þinghám en einni eða mál varðar fleiri fasteignir en eina sem eru ekki í sömu þinghá má sækja mál skv. 1. mgr. í einhverri þeirra.
35. gr.
1. Mál til efnda á eða lausnar undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á löggerningi má sækja í þeirri þinghá þar sem átti að efna hann eftir hljóðan hans, tilætlun aðila eða réttarreglum.
2. Víxil- og tékkamál má sækja í þeirri þinghá þar sem greiðslustaður víxilsins eða tékkans er. Hafi greiðslustaður víxils eða tékka verið erlendis má sækja mál um hann í þeirri þinghá, þar sem sá sem innheimtir hann hefur stjórnar- eða starfstöð, enda sé um banka að ræða, sparisjóð eða annan þann sem hefur skuldheimtu að atvinnu.
36. gr.
1. Mál til greiðslu á andvirði vöru eða þjónustu, sem hefur verið fengin eða þegin í verslun eða annarri fastri starfstöð, má sækja í þeirri þinghá þar sem verslunin eða starfstöðin er ef það er atvinna upphaflega skuldareigandans að láta slíka vöru eða þjónustu í té.
2. Hafi vara eða þjónusta verið látin í té í útibúi upphaflegs skuldareiganda hér á landi verður heimildar skv. 1. mgr. aðeins neytt til að sækja mál í þeirri þinghá þar sem útibúið er.
3. Nú hefur vara eða þjónusta verið látin í té erlendis með þeim hætti sem segir í 1. mgr., og má þá höfða mál til greiðslu á andvirði hennar í þeirri þinghá þar sem sá sem hefur kröfuna til innheimtu hér á landi hefur starfstöð, enda hafi hann skuldheimtu að atvinnu.
37. gr.
Mál vegna kaupa á vöru eða þjónustu hér á landi má kaupandi sækja í þinghá þar sem hann yrði sjálfur sóttur skv. 32. eða 33. gr.
38. gr.
1. Mál til greiðslu vinnulauna má sækja í þeirri þinghá þar sem vinnan var leyst af hendi eða í einhverri þeirra hafi verið unnið víðar.
2. Sjómenn mega sækja mál til greiðslu fyrir vinnu sína í þeirri þinghá þar sem skip er skráð.
3. Þeir sem leysa störf sín af hendi um borð í loftfari mega sækja mál til greiðslu vinnulauna í þeirri þinghá þar sem loftfarið er skráð.
39. gr.
1. Útgerðarmann má sækja í máli varðandi útgerðina í þeirri þinghá þar sem skip er skráð. Það sama á við um mál á hendur skipstjóra eða skipshöfn vegna skyldustarfa þeirra.
2. Mál um björgunarlaun má höfða í þeirri þinghá þar sem bjargað var eða það sem var bjargað var flutt í land.
3. Ef krafa er tryggð með sjóveði í skipi, farmi eða farmgjaldi og sjóveðið hefur verið kyrrsett má höfða mál um kröfuna í þeirri þinghá þar sem kyrrsetning fór fram.
40. gr.
Ef mál á rætur að rekja til fjárvörslu eða reikningshalds má sækja það í þeirri þinghá þar sem fjárvarslan eða reikningshaldið fór fram.
41. gr.
Mál til skaðabóta, refsingar eða annarrar fullnustu vegna réttarbrots utan samninga má sækja í þeirri þinghá þar sem brot var framið eða í einhverri þeirra ef brot var framið víðar.
42. gr.
1. Ef kröfum er beint að fleiri en einum aðila í sama máli má sækja það á varnarþingi hvers þeirra sem er.
2. Gagnkrafa og gagnsök skal jafnan sótt á varnarþingi aðalsakar.
3. Aðilum er rétt að semja um meðferð máls í hverri þinghá sem er.
43. gr.
1. Ákvæðum 34.–42. gr. verður beitt til að sækja mann sem er búsettur erlendis, svo og félag, firma, stofnun eða samtök sem er eins ástatt um, nema annað leiði af samningi við erlent ríki.
2. Ákvæði þessa kafla raska ekki gildi sérreglna um varnarþing eftir öðrum lögum.

2. þáttur. Sönnun og sönnunargögn.
VI. kafli. Almennar reglur um sönnun.
44. gr.
1. Dómari sker úr því hverju sinni eftir mati á þeim gögnum sem hafa komið fram í máli hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð, enda bindi fyrirmæli laga hann ekki sérstaklega um mat í þessum efnum.
2. Sá sem ber fyrir sig venju eða erlenda réttarreglu verður að leiða tilvist og efni hennar í ljós.
3. Ekki þarf að sanna það sem er alkunnugt á þeim stað og tíma sem dómur eða úrskurður gengur.
45. gr.
Yfirlýsing aðila, sem er gefin fyrir dómi og felur í sér ráðstöfun á sakarefni, bindur hann eftir reglum um gildi loforða ef hann hefur forræði á því.
46. gr.
1. Aðilar afla sönnunargagna ef þeir fara með forræði á sakarefni.
2. Eftir því sem dómari telur nauðsynlegt til skýringar á máli er honum rétt að beina því til aðila að afla gagna um tiltekin atriði þess.
3. Ef dómari telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar getur hann meinað aðila um sönnunarfærslu.
47. gr.
1. Öflun sönnunargagna skal að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem fer með málið. Ef þessu verður ekki komið við nema með verulegum kostnaði eða óhagræði getur dómari ákveðið eftir ósk aðila að gagnaöflun megi fara fram fyrir öðrum dómi samkvæmt ákvæðum XI. kafla, enda leiði það ekki til óþarfra tafa á rekstri máls.
2. Ákvæði 1. mgr. girða ekki fyrir að byggt verði á sönnunargagni sem er aflað eftir ákvæðum XII. kafla áður en mál er höfðað.

VII. kafli. Skýrslugjöf aðila.
48. gr.
1. Aðila er jafnan heimilt að gefa skýrslu um málsatvik fyrir dómi í máli sínu nema dómari telji sýnilegt að hún sé þarflaus eða tilgangslaus.
2. Eftir kröfu gagnaðila og með sama skilorði og segir í 1. mgr. er dómara rétt að kveðja aðila fyrir dóm til að gefa skýrslu um málsatvik.
3. Dómari getur af sjálfsdáðum kvatt aðila fyrir dóm til að gefa skýrslu ef hann telur þess þörf til skýringar á máli.
4. Sem aðili eftir ákvæðum þessa kafla skoðast fyrirsvarsmaður sem kemur fram fyrir aðila hönd, sbr. 3.–5. mgr. 17. gr.
49. gr.
1. Aðila er rétt sér að meinalausu að færast undan því að svara spurningum fyrir dómi ef honum væri óheimilt að svara þeim sem vitni í málinu.
2. Þegar aðili gefur skýrslu fyrir dómi fer um framkvæmd skýrslugjafar eftir ákvæðum 3. og 4. mgr. 51. gr., 56. gr. og 1. mgr. 59. gr. eftir því sem átt getur við.
50. gr.
1. Nú hefur aðili forræði á sakarefni og hann viðurkennir fyrir dómi tiltekið atvik sem er honum óhagstætt, og skal þá viðurkenning hans að jafnaði lögð til grundvallar, enda þyki dómara hún hafa verið gefin af nægilegri þekkingu og skilningi og ekkert kemur fram sem hnekkir henni eða veikir hana verulega.
2. Ef aðili verður ekki við kvaðningu um að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu eða svarar ekki nægilega spurningu sem honum er ekki rétt að færast undan getur dómari skýrt vanrækslu hans, óljós svör eða þögn á þann hátt sem er gagnaðila hagfelldast.

VIII. kafli. Vitni.
51. gr.
1. Hverjum manni, sem er orðinn 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, er skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem er beint til hans um málsatvik.
2. Dómari metur með hliðsjón af atvikum hverju sinni hvort yngri manni en getur í 1. mgr. verði gert skylt að gefa skýrslu sem vitni. Sama hátt hefur dómari á um geðveika menn og þroskahefta.
3. Ef vitni kemst ekki á þingstað vegna veikinda eða svipaðra ástæðna má dómari ákveða að það gefi skýrslu á öðrum stað þar sem þess er kostur.
4. Nú er vitni statt fjarri þingstað eða það hefði annars sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm, og getur þá dómari ákveðið að skýrsla verði tekin af því á dómþingi gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, enda verði skýrslutöku hagað þannig að allir sem eru staddir á dómþingi heyri orðaskipti við vitnið.
5. Ef þess er krafist getur dómari lagt fyrir vitni í kvaðningu skv. 2. mgr. 54. gr. að hafa með sér gögn til sýningar fyrir dómi eða að athuga bækur sínar, skjöl og aðra muni og gera útdrátt úr tilteknum atriðum í þeim til skýringar á málsatvikum.
52. gr.
1. Eftirtaldir geta skorast undan því að gefa vitnaskýrslu að öllu leyti eða einhverju:
    a. sá sem er eða hefur verið maki aðila,
    b. skyldmenni aðila í beinan legg, systkin hans og þeir sem tengjast honum þannig vegna ættleiðingar,
    c. stjúpforeldri aðila og stjúpbarn,
    d. tengdaforeldri aðila og tengdabarn.
2. Dómari getur leyst aðra sem eru eða hafa verið nákomnir aðila undan vitnaskyldu ef honum virðist samband þeirra mjög náið.
3. Vitni er rétt að skorast undan því að svara spurningu ef ætla má að í svari þess geti falist játning eða bending um að það hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi því siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni. Það sama á við ef ætla má að svar hefði sömu afleiðingar fyrir einhvern þann sem tengist vitni með þeim hætti sem segir í 1. eða 2. mgr.
4. Dómari getur undanþegið vitni frá því að upplýsa um leyndarmál varðandi viðskipti þess, uppgötvanir eða önnur slík verk ef hann telur hagsmuni vitnis af leyndinni verulega ríkari en hagsmuni aðila af vættinu.
5. Embættis- og sýslunarmönnum er óskylt að koma fyrir dóm til að vitna um atvik sem hafa gerst í embætti þeirra eða sýslan og má leiða nægilega í ljós með vottorði úr embættisbók eða öðru opinberu skjali.
53. gr.
1. Án leyfis hlutaðeigandi ráðherra er vitni óheimilt að svara spurningum um leynilegar ráðagerðir, ályktanir eða samninga handhafa ríkisvalds um málefni sem varða öryggi, réttindi eða heill ríkisins eða skipta mjög miklu fyrir viðskipti eða fjárhag þjóðarinnar.
2. Vitni er óheimilt án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um:
    a. hver sé höfundur eða heimildarmaður að riti, grein, frásögn eða tilkynningu sem hefur birst án þess að hann væri nafngreindur, ef vitnið ber ábyrgð að lögum á efni prentaðs rits eða öðru efni sem birtist opinberlega eða það hefur öðlast vitneskju um höfund eða heimildarmann í starfi hjá ábyrgðarmanni,
    b. einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að á annan hátt í starfi sem endurskoðandi, félagsráðgjafi, lögfræðingur, lyfsali, læknir, prestur, sálfræðingur eða aðstoðarmaður einhvers þessara, eða í öðru starfi sem viðlíka trúnaðarskylda fylgir,
    c. atriði sem það hefur komist að í opinberu starfi og á að fara leynt,
    d. leyndarmál um viðskipti, uppgötvanir eða önnur slík verk sem það hefur komist að í starfi.
3. Nú telur dómari hagsmuni aðila verulega meiri af því að upplýst verði um atriði skv. b- til d-lið 2. mgr. en hagsmuni hlutaðeiganda af því að leynd verði haldið, og getur hann þá eftir kröfu aðila lagt fyrir vitni að svara spurningu þótt leyfi sé ekki veitt til þess, enda feli þá svarið ekki í sér frásögn af einkahögum manns sem á ekki aðild að máli. Ef dómari telur óvíst hvort þessum skilyrðum sé fullnægt getur hann lagt fyrir vitni að tjá sér fyrst í trúnaði hvers efnis svar þess yrði.
54. gr.
1. Aðili, sem óskar eftir að leiða vitni, annast boðun þess á dómþing.
2. Aðila er rétt að boða vitni á dómþing með skriflegri kvaðningu sem hann gefur út sjálfur eða leggur fyrir dómara til útgáfu. Í kvaðningu skal greint nafn og heimili vitnis, tilefni boðunar í aðalatriðum, nafn dómstóls, hvar og hvenær vitnaleiðslan fer fram og hverjar afleiðingar það geti haft að vitni mæti ekki. Kvaðningu skal birta með sama hætti og fyrirvara og stefnu.
3. Ef vitni er statt á dómþingi er því skylt að bera þegar vætti þótt það hafi ekki verið boðað í því skyni.
55. gr.
1. Nú kemur vitni ekki fyrir dóm samkvæmt löglega birtri kvaðningu án þess að um lögmæt forföll sé að ræða, og getur þá dómari orðið við kröfu aðila um að leita til lögreglu um að sækja vitnið. Lögreglu er skylt að verða við slíkum fyrirmælum dómara.
2. Ef vitni kemur fyrir dóm en fullnægir annars ekki vitnaskyldu sinni getur dómari að kröfu aðila gert því sekt með úrskurði. Viðurlög eftir úrskurðinum falla niður ef vitni fullnægir síðan skyldu sinni eða aðili hverfur frá því að krefja það vættis.
3. Ef vitni kemur fyrir dóm en getur ekki fullnægt vitnaskyldu sinni vegna ástands síns, svo sem vegna ölvunar eða geðshræringar, getur dómari gert nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að það geti leyst skyldu sína af hendi síðar.
56. gr.
1. Þegar vitni kemur fyrir dóm lætur dómari það fyrst gera grein fyrir nafni sínu, kennitölu og heimili, en prófar svo eftir þörfum hvort því sé rétt eða skylt að bera vætti. Síðan brýnir dómari alvarlega fyrir vitni skyldu þess til að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan, og leiðir athygli þess að þeirri refsiábyrgð sem er samfara vísvitandi eða gáleysislega röngum framburði.
2. Að svo búnu verða spurningar lagðar fyrir vitni. Dómara er rétt að láta aðila um að spyrja vitni, en þá skal sá sem kvaddi vitni leggja spurningar fyrir það fyrst og síðan gagnaðili. Dómara er rétt að umorða, laga og skýra spurningar aðila áður en vitni svarar og koma í veg fyrir að spurningar séu lagðar fyrir vitni sem eru óákveðnar, tvíræðar, veiðandi, óþarflega móðgandi eða særandi, lagaðar til að villa um fyrir vitni eða sýnilega tilgangslausar. Dómari getur svipt aðila, sem brýtur gegn þessu, rétti til að leggja spurningar fyrir vitni og tekið skýrslutöku í sínar hendur. Dómara er og rétt að krefja vitni frekari skýringa á svari þannig að efni þess komi skýrt fram, svo og að leggja spurningar sjálfstætt fyrir vitni.
3. Hvert vitni skal að jafnaði prófa sér án þess að önnur vitni hlýði á. Að kröfu aðila getur dómari þó ákveðið að vitni verði samprófað við annað vitni eða aðila.
4. Nú er dómþing háð fyrir opnum dyrum og spurningu til vitnis er þannig háttað að svar við henni varðar einkahagi þess eða annarra, og getur þá dómari látið vitnið svara skriflega. Skal þá bókað um svarið og aðilum og vitninu gefinn kostur á að ganga úr skugga um að bókun sé rétt án þess að hún sé lesin upp.
5. Dómari leiðbeinir vitni um atriði sem lúta að skyldu og heimild þess til vitnisburðar. Ef vitni telur sér óskylt að gefa skýrslu eða svara einstökum spurningum eða heldur fram heimildarskorti ber því að leiða líkur að staðreyndum sem veltur á í þeim efnum. Dómari getur leyft vitni að leiða aðra fyrir dóm til skýrslugjafar í því skyni.
57. gr.
1. Við skýrslugjöf vitnis leitar dómari eftir þörfum vitneskju um atriði sem varða mat á trúverðugleika þess. Í þeim efnum skal dómari jafnan leitast við að ganga úr skugga um hvort skýrsla vitnis sé reist á skynjun þess sjálfs eða sögusögn annarra. Þá skal dómari gera sér far um að leiða í ljós hvort horf vitnis til máls eða aðila sé með einhverjum þeim hætti að það geti haft áhrif á sönnunargildi framburðar þess.
2. Eftir kröfu aðila skal dómari láta vitni staðfesta framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti þegar það hefur lokið skýrslugjöf. Vitni verður þó ekki látið staðfesta framburð sinn ef:
    a. það hefur ekki náð 15 ára aldri,
    b. því er svo vitsmuna vant eða geðbilað að það beri ekki skyn á eða er ófært um að meta helgi eða þýðingu staðfestingar,
    c. það er undir ákæru fyrir rangan framburð eða hefur verið sakfellt fyrir slíkt brot,
    d. það færist undan staðfestingu og ákvæði 1.–3. mgr. 52. gr. eiga við,
    e. dómari telur það svo tengt aðila eða hafa slíka hagsmuni af málsúrslitum að staðfesting sé óviðeigandi.
3. Áður en vitni staðfestir framburð sinn brýnir dómari fyrir því helgi og þýðingu staðfestingar, bæði fyrir úrslit máls og vitnið sjálft lagalega og siðferðislega.
4. Ef vitni lýsir því yfir að gefnu tilefni frá dómara að það samrýmist afstöðu þess í trúarefnum að vinna eið og að það trúi á guð fer staðfesting þannig fram að vitnið lyftir upp hægri hendi og hefur þessi orð eftir dómara: Ég sver það og vitna til guðs míns að ég hef sagt það sem ég veit sannast og réttast og ekkert dregið undan.
5. Ef ekki eru skilyrði til eiðvinningar skv. 4. mgr. vinnur vitni heit og fer staðfesting þannig fram að vitnið lyftir upp hægri hendi og hefur þessi orð eftir dómara: Ég lýsi því yfir og legg við drengskap minn og heiður að ég hef sagt það sem ég veit sannast og réttast og ekkert dregið undan.
6. Eiður og heitvinning hafa sömu þýðingu að lögum.
58. gr.
1. Þeim aðila, sem leiðir vitni, er skylt að sjá því fyrir fram fyrir fé til greiðslu kostnaðar af ferð og dvöl á þingstað.
2. Ef vitni krefst þess að fullnægðum skyldum sínum ákveður dómari því greiðslu vegna útlagðs kostnaðar af rækslu vitnaskyldu og þóknun fyrir atvinnumissi sem má telja skipta það máli miðað við efnahag þess og aðstæður. Sá sem kveður vitni greiðir einn kostnað og þóknun um sinn, en hafi báðir aðilar krafist vættis eða haft not af því getur dómari ákveðið að skipta greiðslu milli þeirra sem þeir ábyrgjast þó í sameiningu. Greiðslu skal þegar inna af hendi.
59. gr.
Dómari metur sönnunargildi vitnisburðar við úrlausn máls. Í því sambandi skal meðal annars hugað að afstöðu vitnis til aðila, hagsmunum þess af málsúrslitum, þroska þess, áreiðanleika skynjunar þess á atvikum, minni, ástandi og hegðun þess við skýrslugjöf, öryggi þess og skýrleika í svörum og samræmi í frásögn.

IX. kafli. Matsgerðir.
60. gr.
1. Skoðunar- og matsgerðir, lýsingar á hlutum og aðrar rannsóknargerðir kallast hér einu nafni matsgerðir eða mat og athafnir sem lúta að þeim að meta.
2. Dómari leggur sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar.
3. Ef opinber starfsmaður er skipaður í eitt skipti fyrir öll til að meta tiltekin atriði getur aðili snúið sér beint til hans ef honum er skylt að framkvæma matið eða hann er fús til þess án dómkvaðningar, enda sé það í verkahring hans.
61. gr.
1. Ef ekki verður farið svo að sem segir í 2. eða 3. mgr. 60. gr. kveður dómari einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Í beiðni skal koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það er sem meta á og hvað aðili hyggst sanna með mati.
2. Aðilar skulu kvaddir á dómþing þar sem matsbeiðni er tekin fyrir. Ef þeir koma sér saman um hæfan matsmann skal kveðja hann til starfans nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Annars greinir dómari aðilum að öðru jöfnu frá því hvern hann hafi í hyggju að kveðja til matsstarfa.
3. Þann einn má dómkveðja til að framkvæma mat sem er orðinn 20 ára að aldri, er að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta og hefur nauðsynlega kunnáttu til að leysa starfann af hendi eða annars þá kunnáttu sem bestrar er kostur. Maður getur ekki skorast undan að verða við kvaðningu ef honum væri skylt og heimilt að bera vitni um matsatriði og breytir engu þótt nauðsyn beri til að hann fari í aðra þinghá en þar sem hann á heimili til að rækja starfann. Dómara er þó rétt að taka rökstudda undanfærslu til greina, enda sé þá kostur jafnhæfs manns til starfans.
4. Dómari getur dómkvatt matsmann sem er búsettur utan lögsagnarumdæmis hans.
5. Dómkvaðning skal bókuð í þingbók. Í henni skal greina skýrt hvað skuli metið, hvenær mati skuli lokið og hverjum eigi að gefa kost á að gæta hagsmuna sinna við framkvæmd þess. Þá skal tekið fram að matsmanni beri að vinna verk sitt af bestu vitund og semja rökstudda matsgerð sem hann megi vera viðbúinn að þurfa að gefa skýrslu um fyrir dómi.
6. Ef matsmaður deyr, forfallast, reynist óhæfur til starfans eða vanrækir það kveður dómari annan í hans stað að kröfu matsbeiðanda.
62. gr.
1. Matsbeiðandi tilkynnir matsmanni um dómkvaðningu og lætur honum í té endurrit af bókun um hana.
2. Matsmaður tilkynnir aðilum svo fljótt sem verða má og með sannanlegum hætti hvar og hvenær verði metið. Aðilum og dómara ber að veita matsmanni leiðbeiningar eftir föngum um matsatriði. Matsmanni er rétt að afla sér gagna til afnota við matið, en aðilum, sem eru viðstaddir, skal þá gefinn kostur á að tjá sig um þau eftir þörfum. Ef vitnaleiðsla reynist nauðsynleg til skýringar á matsatriði er dómara rétt að láta hana þegar fara fram.
3. Þeim sem hefur umráð þess sem matsgerð lýtur að er skylt að veita matsmanni aðgang að því nema hann megi skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða sé óheimilt að bera vitni um það.
4. Matsmaður framkvæmir starf sitt þótt aðilar mæti ekki þegar metið er, nema upplýsingar vanti sem þeir hefðu mátt veita.
63. gr.
1. Matsmaður skal semja rökstudda matsgerð þar sem þau sjónarmið eru greind sem álit hans er reist á. Matsgerð skal fengin matsbeiðanda í hendur, en matsmanni er þó rétt að krefjast áður greiðslu skv. [3. mgr.] 1)
[2. Ef matsbeiðandi óskar getur dómari ákveðið að matsmaður þurfi ekki að semja skriflega matsgerð skv. 1. mgr. heldur skuli hann mæta fyrir dóm áður en aðalmeðferð fer fram, leggja þar fram skrifleg svör við matsspurningum sem til hans er beint í matsbeiðni og gefa skýrslu um niðurstöðu matsins, sbr. 2. mgr. 65. gr. Áður en matsmaður afhendir matsbeiðanda svörin og kemur fyrir dóm er honum rétt að krefjast greiðslu skv. 3. mgr.] 1)
[3.] 1) Matsmaður á rétt á hæfilegri þóknun fyrir störf sín samkvæmt reikningi og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar úr hendi matsbeiðanda. Matsmanni er rétt að krefjast greiðslu fyrir fram vegna ferðakostnaðar, svo og tryggingar samkvæmt ákvörðun dómara fyrir þóknun sinni ef með þarf.
    1)L. 78/2015, 5. gr.
64. gr.
Aðili getur krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem hafa áður verið metin. Yfirmatsmenn skulu vera fleiri en matsmenn voru, en að öðru leyti gilda ákvæði 61.–63. gr. um yfirmat.
65. gr.
[1. Að kröfu aðila ber matsmanni að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð og um atriði sem tengjast henni. Ef matsmaður hefur ekki skilað skriflegri matsgerð er honum skylt að koma fyrir dóm að kröfu matsbeiðanda, leggja þar fram skrifleg svör við matsspurningum án rökstuðnings og skýra frá niðurstöðu mats, svo og að svara spurningum um atriði sem tengjast því. Nú hefur dómari kvatt til meðdómsmenn eftir að matsmaður kom fyrir dóm og getur aðili þá krafist þess að matsmaður komi að nýju fyrir dóm til skýrslugjafar.
2. Ákvæðum VIII. kafla verður beitt um skýrslugjöf matsmanns eftir því sem þau geta átt við.] 1)
    1)L. 78/2015, 6. gr.
66. gr.
1. Dómari leysir úr ágreiningi sem lýtur að dómkvaðningu og hæfi matsmanns og um greiðslur til hans með úrskurði. Dómari getur enn fremur úrskurðað um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar, svo sem hvort það hafi verið metið sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningu eða hvort matsgerð sé nægilega rökstudd, ef ágreiningur rís um kröfu um endurskoðun hennar eða endurmat.
2. Dómari leggur mat á önnur atriði varðandi matsgerð, þar á meðal sönnunargildi hennar þegar leyst er að öðru leyti úr máli.

X. kafli. Skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn.
67. gr.
1. Ef aðili skírskotar til skjals sem er í vörslum hans skal hann leggja það fram eftir kröfu gagnaðila ef taka á tillit til þess við úrlausn máls.
2. Nú skorar aðili á gagnaðila að leggja fram skjal sem hann hefur í vörslum sínum, og ber þá gagnaðila að verða við því ef aðili á rétt til skjalsins án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að gagnaðila væri skylt að bera vitni um það ef hann væri ekki aðili að málinu.
3. Nú er skjal í vörslum manns sem er ekki aðili að máli, og getur þá aðili krafist að fá það afhent til framlagningar í máli ef vörslumanni skjalsins er skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu.
4. Aðili, sem krefst skjals skv. 2. eða 3. mgr., ber sönnunarbyrði fyrir því að skjalið sé til og í vörslum þess sem hann heldur fram. Ef staðhæfingum aðila um það er mótmælt ber honum að leggja fram eftirrit af skjalinu ef þess er kostur, en lýsa ella efni þess eftir föngum, og skal greina frá því hvað eigi að leiða í ljós með skjalinu.
68. gr.
1. Nú verður aðili ekki við áskorun skv. 2. mgr. 67. gr. um að leggja fram skjal sem þykir sannað að hann hafi undir höndum, og getur þá dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskoranda um efni skjalsins, sbr. þó 69. gr.
2. Ef vörslumaður skjals verður ekki við kröfu aðila um að láta það af hendi getur aðili lagt þau gögn, sem getur í 4. mgr. 67. gr., fyrir dómara, ásamt skriflegri beiðni um að vörslumaður verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið fyrir dómi. Ef dómari telur ekki útilokað að skjalið hafi þýðingu í málinu kveður hann aðila og vörslumann fyrir dóm og gefur þeim kost á að tjá sig um beiðnina. Að því loknu kveður dómari upp úrskurð ef með þarf um skyldu vörslumanns til að afhenda aðila skjalið, sbr. þó 69. gr. Í úrskurði má ákveða að leysa beri þessa skyldu af hendi innan tiltekins tíma að viðlögðum dagsektum til aðilans sem skyldan er við. Úrskurðinum má einnig fullnægja með aðför eftir aðalefni sínu.
3. Ef vörslumaður mætir ekki fyrir dóm skv. 2. mgr. getur dómari leitað til lögreglu um að sækja hann ef aðili krefst.
69. gr.
1. Nú hefur skjal, sem er skylt að láta af hendi skv. 67. gr., að geyma atriði sem hlutaðeiganda væri óskylt eða óheimilt að bera vitni um, og getur þá dómari ákveðið að skjalið verði lagt fyrir hann í trúnaði og gegn þagnarskyldu og annaðhvort að hann taki eftirrit af því úr skjalinu sem er skylt og heimilt að láta uppi eða geri skýrslu um þau atriði.
2. Ef sá sem er skylt að láta af hendi skjal skv. 67. gr. gerir sennilegt að það baki sér tjón eða óhagræði að verða við þeirri skyldu getur dómari ákveðið að láta við það sitja að skjalið verði afhent fyrir dómi til eftirritunar. Það sama á við ef skjal er verðmætt fyrir hlutaðeiganda eða sérstök hætta er á því að það glatist eða spillist ef það er látið af hendi. Hlutaðeigandi getur einnig krafist að trygging verði sett fyrir tjóni sem afhending skjals kann að baka honum áður en hann lætur það frá sér.
3. Frumrit skjala, sem ákvæði 1. og 2. mgr. taka til, skulu afhent hlutaðeiganda um leið og afnotum er lokið.
70. gr.
Eftir því sem átt getur við gilda ákvæði 67.–69. gr. um skyldu til að sýna og afhenda önnur sýnileg sönnunargögn en skjöl og til að leyfa afnot af og veita aðgang að þeim.
71. gr.
1. Opinber eru þau skjöl sem embættis- eða sýslunarmenn gefa út í embættisnafni um það sem gerist í embætti þeirra eða sýslan.
2. Þar til annað sannast skal telja íslenskt opinbert skjal ófalsað ef það stafar frá embættis- eða sýslunarmanni eftir formi sínu og efni. Það sama á við um erlent opinbert skjal ef ræðismaður eða annar trúnaðarmaður íslenska ríkisins í hlutaðeigandi ríki vottar að útgefandi skjals hafi heimild til þess eftir lögum þess ríkis eða það er sýnt með öðrum fullnægjandi hætti.
3. Þar til annað sannast skal efni opinbers skjals talið rétt ef það varðar tiltekin atvik sem er sagt að hafi gerst í embætti eða sýslan útgefanda.
72. gr.
1. Einkaskjal með eiginhandarnafni útgefanda telst gefið út af honum með því efni sem það hefur að geyma þar til það gagnstæða er sannað eða gert sennilegt.
2. Nú kemur sá sem tjáist vera útgefandi skjals fyrir dóm til skýrslugjafar og því er borið við í máli að undirritun á skjali sé fölsuð eða efni þess breytt, og getur þá dómari eftir kröfu aðila lagt fyrir hlutaðeiganda að gefa sýnishorn af rithönd sinni. Ef slíkri kröfu er beint að aðila og hann neitar að verða við henni skal að öðru jöfnu líta svo á að hann samþykki staðhæfingar gagnaðila um skjalið. Ef vitni neitar að verða við slíkri kröfu má beita það viðurlögum skv. 2. mgr. 55. gr.
3. Dómari metur sönnunargildi einkaskjals með hliðsjón af atvikum hverju sinni.

XI. kafli. Öflun sönnunargagna fyrir öðrum dómi.
73. gr.
1. Nú óskar aðili að gefa skýrslu, leiða vitni, fá matsmann kvaddan eða afla skjala eða annarra sýnilegra sönnunargagna fyrir öðrum dómi en þar sem mál er rekið, og leggur hann þá skriflega beiðni um það fyrir dómara í málinu. Í beiðni skal greint frá ástæðum fyrir henni, hvar sé óskað að gagnaöflun fari fram, hver gögn þurfi að senda hlutaðeigandi dómi, hverjum eigi að gera aðvart um þinghald þar og um hverja gagnaöflun sé nánar að tefla. Ef óskað er að leiða vitni skal þannig greint frá nafni þess, kennitölu og heimili, svo og þeim atriðum nákvæmlega sem vætti á að varða. Sé óskað dómkvaðningar matsmanns skal beiðni um hana að jafnaði fylgja.
2. Beiðni skv. 1. mgr. skal tekin fyrir í þinghaldi í málinu. Dómari getur sett það skilyrði fyrir að sinna beiðni að aðili greiði fyrir fram kostnað eða setji tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar af málaleitan sinni.
3. Ef dómari telur skilyrðum 1. mgr. 47. gr. fullnægt til að verða við beiðni bókar hann ákvörðun sína um það í þingbók. Úrskurður skal kveðinn upp ef krafist er.
74. gr.
1. Ef gagnaöflun á að fara fram fyrir öðrum dómi hér á landi sendir dómari í málinu hlutaðeigandi dómi skriflegt erindi ásamt beiðni aðila, frumritum eða myndritum nauðsynlegra gagna og endurritum úr þingbók.
2. Nú á gagnaöflun að fara fram fyrir dómi í öðru ríki, og aflar þá dómari í málinu þýðingar á þeim gögnum sem um ræðir í 1. mgr. á kostnað aðila. Dómari sendir skriflegt erindi sitt og önnur gögn ásamt þýðingum til hlutaðeigandi dóms, eftir atvikum fyrir milligöngu Stjórnarráðsins. [Um þá gagnaöflun fer eftir lögum viðkomandi ríkis og þjóðréttarsamningi, ef slíkur samningur er í gildi við hlutaðeigandi ríki.] 1)
    1)L. 53/2008, 1. gr.
75. gr.
1. Þegar gagnaöflun eftir fyrirmælum þessa kafla fer fram fyrir dómi hér á landi skal farið eftir ákvæðum II. og VII.–X. kafla eftir því sem átt getur við. Dómari, sem gagnaöflun fer fram fyrir, tekur ákvarðanir og úrskurðar um atriði varðandi framkvæmd hennar.
2. Ef sérstakt tilefni verður til þess meðan á gagnaöflun stendur fyrir öðrum dómi getur aðili óskað eftir því að frekari gagna verði aflað þar en var beiðst í byrjun. Ákveður hlutaðeigandi dómari hvort orðið verði við slíkri ósk.
3. Ef ekki er sótt þing við gagnaöflun fyrir öðrum dómi af hálfu þess sem beiddist hennar skal telja beiðni hans um hana fallna niður nema gagnaðili mæti og krefjist að hún fari allt að einu fram. Útivist hefur ekki aðrar afleiðingar, sbr. þó 4. mgr.
4. Falli beiðni niður skv. 3. mgr. skal tekið tillit til þess kostnaðar sem hún hefur bakað gagnaðila við endanlega ákvörðun málskostnaðar hvernig sem málið fer.
76. gr.
[1.] 1) Eftir því sem átt getur við skal ákvæðum 75. gr. beitt þegar gagna er aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi.
[2. Þá skal ákvæðum 75. gr. einnig beitt eftir því sem getur átt við þegar gagna er aflað fyrir héraðsdómi hér á landi í tengslum við rekstur máls erlendis, þar á meðal fyrir EFTA-dómstólnum. [Ef beiðni kemur frá öðru ríki skal haga gagnaöflun í samræmi við þjóðréttarsamning, ef slíkur samningur er í gildi við hlutaðeigandi ríki, enda fari það ekki í bága við ákvæði laga þessara.] 2)] 1)
    1)L. 133/1993, 27. gr. 2)L. 53/2008, 2. gr.

XII. kafli. Öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað.
77. gr.
1. Aðila, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, er heimilt að beiðast dómkvaðningar matsmanns þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli ef það er gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni.
2. Nú er hætta á að kostur fari forgörðum á því að afla sönnunar um atvik sem varðar lögvarða hagsmuni aðila eða að það verði verulega erfiðara síðar, og er honum þá heimilt að leita sönnunar um atvikið fyrir dómi með vitnaleiðslu eða öflun skjals eða annars sýnilegs sönnunargagns þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu í tengslum við atvikið í dómsmáli. Aðila er með sama hætti heimilt að leita sönnunar fyrir dómi um atvik sem varða lögvarða hagsmuni hans og geta ráðið niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra.
3. Heimildum 1. og 2. mgr. verður ekki beitt til að afla sannana um refsiverða háttsemi þar sem ákæruvaldið ætti sókn sakar.
78. gr.
1. Aðili, sem vill leita sönnunar skv. 77. gr., skal beina skriflegri beiðni um það til dómara í þinghá þar sem mætti höfða mál um kröfu hans, vitni er statt, sýnilegt sönnunargagn er að finna eða hlutur er niður kominn sem matsgerð varðar.
2. Í beiðni skal greina skýrt frá því atviki sem aðili vill leita sönnunar um, hvernig hann vill að það verði gert, hver réttindi eru í húfi og hverja aðra sönnunin varðar að lögum. Ef sönnunar er leitað skv. 2. mgr. 77. gr. skal enn fremur rökstutt hvers vegna sönnunarfærsla þolir ekki bið eða getur ráðið niðurstöðu um hvort mál verði síðar höfðað.
3. Dómari metur af sjálfsdáðum hvort skilyrði séu til að fallast á beiðni. Ef hann telur að svo sé ekki eða ágreiningur rís um það kveður hann upp úrskurð þar um.
4. Dómari kveður aðila fyrir dóm þar sem sönnunarfærsla fer fram. Ef beiðni varðar aðra aðila skulu þeir einnig kvaddir fyrir dóm, enda þoli málefnið þá bið sem leiðir af því.
79. gr.
1. Við öflun sönnunar eftir fyrirmælum þessa kafla skal farið eftir ákvæðum II. og VII.–X. kafla eftir því sem átt getur við. Dómari, sem öflun sönnunar fer fram fyrir, tekur ákvarðanir og úrskurðar um þau atriði varðandi hana sem hefðu ella borið undir dómara við sönnunarfærslu við rekstur máls.
2. Ef sérstakt tilefni verður til þess meðan á öflun sönnunar stendur getur aðili óskað eftir því að frekari gagna verði aflað en var beiðst í byrjun. Dómari ákveður hvort orðið verði við slíkri ósk.
3. Nú er ekki sótt þing af hálfu þess sem beiðni stafar frá, og verður þá ekki af öflun sönnunar nema annar mæti sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, hann óskar að athöfn fari allt að einu fram og dómari telur efni til að verða við ósk hans.
4. Sá sem biður um öflun sönnunar greiðir kostnað sem hlýst af því. Ef aðrir sækja þing og krefjast þess getur dómari úrskurðað þeim ómaksþóknun úr hendi hans.

3. þáttur. Almennar reglur um meðferð máls í héraði.
XIII. kafli. Stefna og stefnubirting.
80. gr.
1. Í stefnu skal greina svo glöggt sem verða má:
    a. nöfn aðila, kennitölu og heimili eða dvalarstað,
    b. nöfn fyrirsvarsmanna aðila, ef því er að skipta, stöðu þeirra og heimili eða dvalarstað,
    c. hver eða hverjir flytji málið fyrir stefnanda,
    d. dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum, ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu, refsingu fyrir tilgreind orð eða athafnir, ómerkingu tiltekinna ummæla, málskostnað o.s.frv.,
    e. málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er,
    f. tilvísun til helstu lagaákvæða eða réttarreglna sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á,
    g. helstu gögn sem stefnandi hefur til sönnunar og þau gögn sem hann telur að enn þurfi að afla,
    h. þá sem stefnandi hyggst leiða fyrir dóm til skýrslugjafar um atvik máls,
    i. dómþing þar sem mál verður þingfest, stað þess og stund, svo og stefnufrest,
    j. áskorun til stefnda um að koma fyrir dóm þegar málið verður þingfest, svara þar til sakar og leggja fram gögn,
    k. viðvörun um að útivistardómur geti gengið ef stefndi sækir ekki þing við þingfestingu málsins.
2. Ef stefnandi hefur aðeins uppi kröfur í máli sem er unnt að fullnægja með aðför skal eitt eintak stefnu ritað á löggiltan skjalapappír í stærðinni A4 með a.m.k. 4 sm spássíu vinstra megin á framhlið blaðs og hægra megin á bakhlið. Skal þetta eintak afhent dómara aukalega við þingfestingu máls nema sátt sé þá þegar gerð í því eða stefndi samþykkir kröfur stefnanda eða leggur fram greinargerð.
3. Stefnanda er jafnan rétt að gefa út stefnu sjálfur. Honum er einnig heimilt að leggja stefnu fyrir dómara til útgáfu, enda sé þá orðalag hennar tilhlýðilegt. Sé leitað til dómara um útgáfu stefnu skal hann benda stefnanda á galla sem hann sér á málatilbúnaði og geta varðað frávísun, en ekki má hann synja um útgáfu stefnu af þeim sökum, enda er hann óbundinn af slíku áliti sínu við úrlausn máls.
81. gr.
1. Til að birta stefnur, kvaðningar og aðrar tilkynningar skipar sýslumaður a.m.k. einn mann í hverju sveitarfélagi í umdæmi sínu og annan til vara til að gegna þeim störfum í forföllum. Enginn má víkjast undan skipun sem fullnægir skilyrðum 2. mgr.
2. Ekki má skipa mann stefnuvott nema hann sé orðinn 25 ára að aldri … 1) og sé svo heill og hraustur að hann geti gegnt starfanum. [Hann má ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.] 1)
3. Áður en stefnuvottur tekur til starfa skal hann undirrita drengskaparheit, sem sýslumaður varðveitir, um að hann muni rækja starfann af trúmennsku og samviskusemi.
4. [Ráðherra] 2) skal setja gjaldskrá vegna starfa stefnuvotta.
    1)L. 141/2018, 9. gr. 2)L. 162/2010, 126. gr.
82. gr.
1. Þar sem eftirfarandi ákvæði þessa kafla mæla fyrir um að stefna verði birt fyrir stefnda og öðrum sem tengjast honum, á stað sem varðar hann og með fresti sem tekur mið af högum hans eiga þær reglur við fyrirsvarsmann í stað stefnda ef fyrirsvarsmaður fer með mál hans.
2. Stefna verður ekki birt fyrir manni sem er yngri en 15 ára að aldri.
3. Stefnu má ekki birta fyrir gagnaðila stefnda eða manni sem gæti verið í fyrirsvari fyrir gagnaðila.
83. gr.
1. Birting stefnu er lögmæt ef:
    a. stefnuvottur eða lögbókandi vottar að hann hafi birt hana fyrir stefnda eða einhverjum sem er bær um að taka við henni í hans stað,
    b. samrit hennar er sent í ábyrgðarbréfi sem er borið út og póstmaður vottar að hann hafi afhent bréfið stefnda eða öðrum sem er bær um að taka við stefnu í hans stað.
2. Stefna telst einnig nægilega birt ef hún er auglýst í Lögbirtingablaði skv. 89. gr.
3. Í stað stefnubirtingar skv. 1. mgr. og jafngilt henni má koma stefnu á framfæri með því að:
    a. stefndi riti sjálfur undir yfirlýsingu á stefnu um að samrit hennar hafi verið afhent sér,
    b. hæstaréttar- eða héraðsdómslögmaður riti undir sams konar yfirlýsingu þar sem einnig er tekið fram að stefndi hafi falið honum að sækja þing fyrir sig við þingfestingu máls.
4. Ef stefndi sækir þing við þingfestingu máls breytir engu þótt stefna hafi ekki verið birt eða komið á framfæri við hann, galli hafi verið á birtingu eða birt með of skömmum fyrirvara.
84. gr.
1. Þegar birta á stefnu skv. 1. mgr. 83. gr. afhendir stefnandi þeim sem annast birtingu frumrit hennar ásamt samriti handa hverjum sem á að birta fyrir. Hverju samriti skal fylgja opið umslag merkt með nafni og heimili stefnda og áritað um að það hafi að geyma stefnu í tilteknu máli og hvenær birting megi síðast fara fram til þess að stefnufresti verði náð. Þegar sá sem annast birtingu hefur gengið úr skugga um að samrit sé samhljóða frumriti stefnu setur hann samrit í umslagið og lokar því. Stefnandi skal einnig láta af hendi umslag merkt sjálfum sér og heiti máls undir frumrit stefnu.
2. Þeim sem annast birtingu er rétt að áskilja fyrirframgreiðslu kostnaðar af henni úr hendi stefnanda.
3. Sá er vanhæfur til að birta stefnu sem er aðili að máli, maki aðila eða skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða annan lið til hliðar.
85. gr.
1. Stefnubirting skal fara fram á virkum degi frá lokum áttundu stundar til loka tuttugustu og annarrar stundar. Birting má þó fara fram á öðrum degi eða tíma ef það er nauðsynlegt til þess að stefnufrestur náist.
2. Stefna skal að jafnaði birt fyrir stefnda sjálfum á skráðu lögheimili hans eða þar sem hann hefur fasta búsetu, dvalarstað eða vinnustað. Birting er þó alltaf gild þótt hún fari fram á öðrum stað ef birt er fyrir stefnda sjálfum.
3. Birting er einnig lögmæt þótt hún fari ekki fram skv. 2. mgr. ef:
    a. birt er á skráðu lögheimili stefnda fyrir heimilismanni hans; sé heimilismanns ekki kostur má birta fyrir þeim sem dvelst á skráðu lögheimili stefnda, en sé ekki um neinn slíkan heldur að ræða má birta fyrir þeim sem hittist þar fyrir,
    b. birt er á öðrum stað en skráðu lögheimili stefnda fyrir heimilismanni hans sem tjáir hann eiga þar fasta búsetu eða dvalarstað,
    c. birt er á vinnustað stefnda fyrir vinnuveitanda hans eða nánasta yfirmanni eða samverkamanni.
4. Nú er félagi stefnt, og má þá birting alltaf fara fram á stjórnarstöð þess þótt fyrirsvarsmaður hafi þar ekki fastan vinnustað, en þá skal að jafnaði birta fyrir æðsta starfsmanni þess sem verður náð til. Eins má fara að þegar öðrum lögaðila er stefnt, svo sem firma, samtökum, stofnun, ríkinu, stjórnvaldi eða sveitarfélagi.
86. gr.
1. Þeim sem hittist fyrir þegar birta á stefnu er skylt að greina frá nafni sínu og öðrum atriðum sem lögmæti birtingar getur oltið á.
2. Sá sem annast birtingu skal afhenda þeim sem er birt fyrir samrit stefnu og vekja athygli hans á því hver athöfn sé að fara fram. Ef birt er fyrir öðrum en stefnda skal honum bent á skyldur sínar skv. 3. mgr.
3. Ef stefna er birt fyrir öðrum en stefnda ber þeim manni að viðlagðri sekt að koma samriti stefnu í hendur stefnda, en sé þess ekki kostur þá í hendur þess sem má telja líklegastan til að koma samriti til skila í tæka tíð.
4. Nú kemur í ljós að stefnda sé ekki lengur að finna á þeim stað sem er getið í stefnu, og skal þá sá sem annast birtingu leita vitneskju um annan stað til birtingar eftir því sem kostur er. Verði ekki uppvíst um annan stað eða bresti þann, sem annast birtingu, heimild til birtingar þar skal stefnan þegar endursend stefnanda með boðum um vitneskju sem var aflað.
87. gr.
1. Að lokinni stefnubirtingu skal sá sem annast hana gefa út dagsett og undirritað vottorð um birtinguna þar sem eftirfarandi kemur fram:
    a. hvar birting fór fram og eftir atvikum hvort hermt var að þar sé skráð lögheimili stefnda, fastur búsetustaður, dvalarstaður eða vinnustaður,
    b. fyrir hverjum var birt, en sé um annan en stefnda að ræða skal tiltekið hver tengsl voru sögð standa milli þeirra þannig að ráða megi um lögmæti birtingar,
    c. hvenær birting fór nákvæmlega fram,
    d. starfsheiti þess sem annast birtingu.
2. Birtingarvottorð skal fært á frumrit stefnu eða blað sem er fest við það. Frumritið skal síðan afhent eða sent stefnanda.
3. Efni birtingarvottorðs telst rétt þar til það gagnstæða sannast.
88. gr.
1. Nú er yfirlýsing skv. 3. mgr. 83. gr. rituð á stefnu, og skal þá telja undirskrift undir hana stafa frá stefnda eða eftir atvikum lögmanni hans þar til það gagnstæða sannast. Stefnandi verður ekki krafinn um sönnur fyrir að lögmaður, sem ritar undir slíka yfirlýsingu, hafi umboð stefnda til þess.
2. Ef yfirlýsing skv. 3. mgr. 83. gr. er ekki tímasett skal litið svo á að stefndi hafi fallið með bindandi hætti frá stefnufresti.
89. gr.
1. Stefnu má birta í Lögbirtingablaði ef:
    a. upplýsinga verður ekki aflað um hvar megi birta stefnu eftir almennum reglum,
    b. erlend yfirvöld neita eða láta hjá líða að verða við ósk um birtingu skv. 90. gr.,
    c. stefnu er beint að óákveðnum manni.
2. Ef stefna er birt skv. 1. mgr. skal tiltekið í henni af hverri ástæðu það er gert.
90. gr.
[1. Nú á stefndi þekkt heimili eða aðsetur erlendis eða það liggur annars fyrir að hann eigi heimili í tilteknu öðru ríki og birting stefnu getur ekki farið fram hér á landi eftir öðrum ákvæðum þessa kafla og fer þá um birtingu eftir lögum þess ríkis og þjóðréttarsamningi, ef slíkur samningur hefur verið gerður við hlutaðeigandi ríki.
2. Stefna eða önnur tilkynning frá öðru ríki verður birt hér á landi eftir reglum þessa kafla og í samræmi við þjóðréttarsamning, ef slíkur samningur er í gildi við hlutaðeigandi ríki, enda fari það ekki í bága við ákvæði laga þessara.] 1)
    1)L. 53/2008, 3. gr.
91. gr.
1. Ef stefndi á skráð lögheimili, fasta búsetu eða dvalarstað í þeirri þinghá þar sem mál verður þingfest ber honum þriggja sólarhringa stefnufrestur. Það sama gildir ef þingstaður er sá sami fyrir tvær eða fleiri þinghár, stefndi á skráð lögheimili, fasta búsetu eða dvalarstað í einni þinghánni og mál verður þingfest í annarri. Í þessu tilliti skal litið svo á sem lögsagnarumdæmi héraðsdóma Reykjavíkur og Reykjaness væru til samans ein þinghá.
2. Ef stefndi á annars skráð lögheimili, fasta búsetu eða dvalarstað hér á landi utan þinghár þar sem mál verður þingfest skal stefnufrestur vera ein vika.
3. Ef stefndi á heimili eða dvalarstað erlendis eða ókunnugt er um hann eða heimili hans skal stefnufrestur vera einn mánuður.
4. Nú er lögaðila stefnt og fyrirsvarsmaður hans á ekki skráð lögheimili, fasta búsetu eða dvalarstað í sömu þinghá og lögaðilinn hefur stjórnarstöð, og skal þá stefnufrestur miðast við þá þinghá þar sem stjórnarstöðin er ef það leiðir til skemmri stefnufrests.
5. Ef stefna þarf upphaflegum málsaðila í meðalgöngusök, framhaldssök eða gagnsök ber honum þriggja sólarhringa stefnufrestur án tillits til ákvæða 2.–4. mgr. Birta má fyrir umboðsmanni aðilans í málinu.
92. gr.
1. Tilkynningar, sem dómari lætur frá sér fara til aðila, skulu birtar eða sendar honum eða umboðsmanni hans á sannanlegan hátt eftir ákvörðun dómara. Dómari ákveður hverju sinni hæfilegan frest í því skyni.
2. Ef tími til nýs þinghalds er ákveðinn á dómþingi er ekki þörf frekari tilkynninga um þá ákvörðun til aðila sem er staddur þar þegar hún er kynnt.

XIV. kafli. Málsmeðferð.
93. gr.
Mál telst höfðað þegar stefna er birt eða árituð um viðtöku samrits hennar, sbr. 3. mgr. 83. gr., eða stefndi mætir að öðrum kosti fyrir dómi þar sem stefnandi afhendir honum samrit stefnu og þingfestir mál.
94. gr.
1. Mál er þingfest með því að stefna er lögð fram fyrir dómi.
2. Nú sækir stefnandi ekki þing þegar þingfesta á mál hans og hefur ekki lögmæt forföll, og er þá málatilbúnaður hans ónýtur. Sæki stefndi þing getur dómari úrskurðað honum ómaksþóknun úr hendi stefnanda að kröfu hans.
3. Gagnkrafa til skuldajafnaðar er þingfest þegar hún er gerð fyrir dómi.
4. Þegar mál hefur verið þingfest verður dóms ekki krafist um þær kröfur sem eru gerðar í því í öðru máli. Ef dóms er krafist þannig um kröfu í öðru máli skal vísa henni frá dómi.
95. gr.
1. Við þingfestingu skal stefnandi leggja fram stefnu og þau skjöl sem varða málatilbúnað hans eða hann byggir annars kröfur sínar á, svo og skrá yfir þau skjöl sem hann leggur þá fram. Stefnanda er einnig heimilt að leggja fram skriflega aðilaskýrslu sína um atvik máls.
2. Dómari getur veitt stefnanda skamman frest til að leggja fram önnur gögn skv. 1. mgr. en stefnu ef aðilar eru á það sáttir eða dómari telur að stefnandi verði ekki krafinn um þau þá þegar.
96. gr.
1. Nú sækir stefndi ekki þing þegar mál er þingfest og ekki er kunnugt að hann hafi lögmæt forföll, og skal þá málið tekið til dóms í þeim búningi sem það er, enda hafi stefnandi ekki fengið frest skv. 2. mgr. 95. gr. Verður málið þá dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum nema gallar séu á málinu sem varða frávísun þess án kröfu.
2. Ef stefndi sækir ekki þing síðar þegar mál er tekið fyrir og hann hefur ekki lagt fram greinargerð skal farið svo að sem segir í 1. mgr.
3. Hafi stefndi lagt fram greinargerð áður en þingsókn hans fellur niður má gefa stefnanda kost á að svara vörnum hans í skriflegri sókn, en að henni framkominni verður málið tekið til dóms. Málið verður þá dæmt eftir framkomnum kröfum, gögnum og sókn stefnanda með tilliti til þess sem hefur komið fram af hálfu stefnda.
4. Stefndi getur ekki skotið máli, sem er dæmt eftir 1.–3. mgr., til æðra dóms nema með gagnáfrýjun þegar stefnandi hefur áfrýjað fyrir sitt leyti. Stefndi getur beiðst endurupptöku þess í héraði eftir ákvæðum XXIII. kafla.
97. gr.
1. Forföll aðila frá þinghaldi teljast lögmæt ef þau stafa af:
    a. sjúkdómi hans sjálfs, heimilismanns hans eða annars manns sem hann þarf að annast eða leita læknishjálpar fyrir,
    b. veðri, torfærum eða öðrum óviðráðanlegum atvikum,
    c. því að hann yrði ella fyrir verulegum vinnumissi eða tjóni á atvinnu eða öðrum hagsmunum,
    d. þörf á ferðalagi um langan veg,
    e. embættis- eða sýslunarstörfum sem eru fyrir fram ákveðin og þola ekki bið,
    f. áður ákveðnu þinghaldi.
2. Lögmæt forföll umboðsmanns aðila jafngilda lögmætum forföllum aðilans sjálfs.
3. Ef dómara er kunnugt um að aðili mæti ekki vegna lögmætra forfalla frestar hann máli og tilkynnir hvenær það verði tekið fyrir á ný.
4. Nú hefur aðili ekki mætt í máli en haft lögmæt forföll sem dómara var ókunnugt um og ekki var unnt að tilkynna honum, og getur aðilinn þá snúið sér til dómara með sönnun fyrir forföllum sínum og skriflegri beiðni um endurupptöku máls, enda hafi dómur ekki gengið í því. Dómari tekur þá mál upp á ný með bókun í þingbók frá því aðili mætti síðast eða frá því mál skyldi þingfesta ef stefnandi mætti þá ekki og tilkynnir aðilum hvenær mál verði tekið fyrir á ný.
98. gr.
1. Nú sækir stefndi þing og samþykkir kröfur stefnanda í einu og öllu án þess þó að sátt takist um þær, og skal þá málið dómtekið og dómur lagður á það í samræmi við samþykki stefnda.
2. Um sáttaumleitan, gerð sáttar og áhrif hennar fer eftir ákvæðum XV. kafla.
99. gr.
1. Ef stefndi sækir þing við þingfestingu máls á hann rétt á hæfilegum fresti til að taka afstöðu til krafna stefnanda og kanna framkomin gögn.
2. Haldi stefndi uppi vörnum í máli skal hann leggja fram skriflega greinargerð um þær við lok frests skv. 1. mgr. Í henni skal greint frá aðilum, málflutningsumboði, kröfum stefnda, gögnum sem hann leggur fram og gögnum sem hann telur að enn þurfi að afla. Þá skal þar lýst á gagnorðan og skýran hátt málsástæðum stefnda og öðrum atvikum sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, auk þess að vísað skal til helstu lagaákvæða eða réttarreglna sem stefndi byggir málatilbúnað sinn á. Þá skulu þeir tilgreindir sem stefndi hyggst leiða til skýrslugjafar fyrir dómi um atvik máls. Dómari getur veitt stefnda frekari frest til að leggja fram greinargerð ef hann telur réttmæta ástæðu til þess. [Krefjist stefndi þess að máli verði vísað frá dómi er honum heimilt að leggja fram greinargerð einungis um þá kröfu, enda sé hún lögð fram innan fjögurra vikna frá þingfestingu málsins. Nú verður máli ekki vísað frá dómi og ber þá dómara að veita stefnda sérstakan frest til að leggja fram greinargerð um efnisvarnir.] 1)
3. Stefnda er með sama hætti og stefnanda heimilt að leggja fram gögn og skriflega aðilaskýrslu sína um atvik máls.
    1)L. 78/2015, 7. gr.
100. gr.
1. Þegar stefndi hefur lagt fram greinargerð athugar dómari hvort gallar séu á máli sem geta varðað frávísun þess án kröfu. Telji dómari slíka galla fyrir hendi gefur hann aðilum kost á að tjá sig um það munnlega. Ef mál skal sæta frávísun án kröfu kveður dómari upp úrskurð um frávísun þess þegar að því loknu.
2. Nú krefst stefndi frávísunar máls í greinargerð, og skal þá málið flutt munnlega um þá kröfu áður en fjallað verður frekar um efni þess og leyst úr kröfunni í úrskurði. Frá þessu má víkja ef krafan byggist á ástæðum sem varða einnig efni máls og nægilegar upplýsingar þykja ekki komnar fram að því leyti.
3. Nú hrindir dómari frávísunarkröfu, og er hann þá ekki bundinn af þeim úrskurði ef nýjar upplýsingar koma fram síðar undir rekstri máls um þau atriði sem úrskurðað var um.
4. Ef dómari verður þess var eftir dómtöku máls að gallar séu á því sem varða frávísun á einni eða fleiri kröfum, en þó ekki þeim öllum, getur hann kveðið á um frávísun máls að hluta og leyst úr efni þess að öðru leyti í dómi. Það sama á við ef aðilar eru fleiri en einn til sóknar eða varnar og frávísun varðar einn eða fleiri þeirra en ekki þá alla.
5. Nú fellir æðri dómur úr gildi úrskurð um frávísun máls að einhverju leyti eða öllu, og skal þá héraðsdómari taka málið upp á ný samkvæmt ákvæðum æðra dóms eins og það stóð þegar hann tók það til úrskurðar.
101. gr.
1. Nú heldur stefndi uppi vörnum í máli og því verður ekki vísað frá dómi, og skal þá flytja það munnlega. Dómari getur þó ákveðið að mál verði skriflega flutt ef hann telur hættu á að það skýrist ekki nægilega með munnlegum málflutningi. Dómari getur einnig ákveðið að mál verði tekið til dóms án málflutnings ef aðilar eru sammála um það.
2. Ef mál varðar flókin fjárviðskipti getur dómari gefið aðilum kost á að leggja fram útreikninga sem kröfur þeirra byggjast á, enda hafi slíkar upplýsingar ekki komið fram með fullnægjandi hætti í öðrum gögnum máls.
3. Aðilum ber eftir föngum að gefa glöggar og greinilegar yfirlýsingar fyrir dómi. Dómara ber að fylgjast með máli í öllum atriðum og spyrja aðila um hvert það atriði, sem honum þykir óljóst og kann að hafa þýðingu, og skal hann kosta kapps um að yfirlýsingar þeirra verði nægilega glöggar.
4. Dómara er skylt að leiðbeina aðila, sem er ólöglærður og flytur mál sitt sjálfur, um formhlið máls eftir því sem dómara virðist nauðsyn bera til.
5. Málsástæður og mótmæli skulu koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki eða aðili hefur þarfnast leiðbeininga dómara en ekki fengið þær.
102. gr.
1. Þegar stefndi hefur lagt fram greinargerð sína skal mál jafnan tekið fyrir einu sinni til þess að leita sátta og gefa aðilum kost á að koma að sýnilegum sönnunargögnum sem ekki hefur áður verið tilefni eða tækifæri til að leggja fram. Í því þinghaldi skal eftir atvikum leitað svara aðila við því í hverju skyni þeir hyggjast sjálfir gefa skýrslur og leiða einstök vitni til þess að staðreyna hvort og að hverju marki skýrslugjafar sé þörf. Dómara er rétt að inna aðila eftir því hve langan tíma þeir þurfi fyrir málflutningsræður við aðalmeðferð og ákveður dómari síðan lengd hennar í ljósi þess.
2. Dómari getur orðið við ósk aðila um að fresta máli frekar ef hann telur það vænlegt til að ná sáttum eða nauðsynlegt til að afla gagna sem nægilegur frestur hefur ekki áður verið til, en báðum aðilum ber þá jöfnum höndum að nota sama frest til gagnaöflunar. Að öðrum kosti synjar dómari að jafnaði um frest, þótt aðilar séu á einu máli um að æskja hans.
3. Nú fær dómari vitneskju um að [sakamál] 1) hafi verið höfðað eða … 1) rannsókn standi yfir vegna refsiverðs athæfis og telja má að úrslit þess máls eða rannsóknar skipti verulegu máli um úrslit einkamálsins, og getur hann þá frestað máli af sjálfsdáðum þar til séð er fyrir enda [sakamáls] 1) eða rannsóknar. Með sama hætti má fresta máli ef annað einkamál hefur verið höfðað út af efni sem varðar úrslit þess verulega eða það efni hefur verið réttilega lagt til úrlausnar stjórnvalds.
4. Dómari getur orðið við ósk aðila um að fá að gefa munnlega skýrslu fyrir dómi um atriði sem varða öflun gagna áður en komið er að aðalmeðferð máls. Eins er heimilt að taka skýrslu fyrir dómi áður en öflun sýnilegra sönnunargagna er lokið ef það þarf að gera eftir ákvæðum XI. kafla eða sá sem á að gefa skýrslu verður fjarverandi vegna lögmætra forfalla þegar þing er háð til aðalmeðferðar máls.
5. Að jafnaði ákveður dómari ekki hvenær þing verði háð til aðalmeðferðar máls fyrr en aðilar hafa lýst lokið öflun sýnilegra sönnunargagna. Eftir það er aðilum að jafnaði óheimilt að leggja fram sýnileg sönnunargögn. Frá þessu getur dómari þó vikið ef það veldur ekki töfum á máli, ekki hefur áður verið unnt að afla tiltekinna gagna eða skort hefur á leiðbeiningar hans eða ábendingar.
    1)L. 88/2008, 234. gr.
103. gr.
1. Þegar gagnaöflun er lokið skv. 102. gr. ákveður dómari með hæfilegum fyrirvara hvenær þing verði háð til aðalmeðferðar, en þá skulu að jafnaði fara fram í einni lotu skýrslutökur og munnlegur flutningur máls. Ef dómara þykir ástæða til getur hann beint því til aðila að þeir leggi fram skriflega kröfugerð og talningu málsástæðna við aðalmeðferð.
2. Aðalmeðferð hefst með því að dómari gefur stefnanda kost á að gera stuttlega grein fyrir málinu og að því búnu á stefndi færi á að gera stuttar athugasemdir við lýsingu stefnanda. Síðan eru teknar skýrslur af aðilum og vitnum og gengið á vettvang ef því er að skipta.
3. Að loknum skýrslutökum fer fram munnlegur flutningur máls. Stefnandi talar fyrst og síðan stefndi, en rétt er að talað sé tvisvar af hálfu hvors. Dómari getur leyft aðilum sjálfum að gera stuttar athugasemdir að loknum munnlegum málflutningi umboðsmanna þeirra. Dómari stýrir málflutningi og gætir þess að ræðumaður haldi sig við efnið og að málflutningur sé glöggur og sæmilegur. Dómari getur takmarkað málfrelsi þess sem lagar sig ekki að áminningum hans eða fer að mun fram úr þeim tíma sem hefur verið áætlað að málflutningur hans muni taka.
4. Nú er mál skriflega flutt, og skal þá fresta því að loknum skýrslutökum til þess að stefnandi leggi fram sókn. Að henni fram kominni verður máli frestað á ný til þess að stefndi leggi fram vörn. Enn verður máli síðan frestað til þess að aðilar eigi báðir kost á að leggja fram skrifleg andsvör einu sinni.
5. Að loknum málflutningi tekur dómari málið til dóms.
104. gr.
Nú verður dómari þess var eftir dómtöku máls að verulegur brestur sé á skýrleika í yfirlýsingum aðila eða upplýsingum um málsatvik og telja má brestinn stafa af því að dómari hafi ekki gætt nægilega að leiðbeiningum við aðila eða ábendingum til þeirra, og skal hann þá kveðja aðila fyrir dóm og eftir atvikum beina spurningum til þeirra eða benda þeim á nauðsyn þess að frekari gagna verði aflað. Fresta má málinu eftir þörfum, en að því búnu gefur dómari aðilum kost á að gera athugasemdir til viðbótar fyrri málflutningi sínum og tekur málið til dóms á ný.
105. gr.
1. Mál verður fellt niður ef:
    a. stefndi leysir af hendi þá skyldu sem hann er krafinn um í málinu,
    b. stefnandi sækir ekki þing og hefur ekki lögmæt forföll,
    c. stefnandi krefst þess,
    d. stefnanda er vikið af dómþingi eða umboðsmanni hans þannig að enginn sé þá viðstaddur af hans hálfu,
    e. stefnandi greiðir ekki lögmælt gjöld eftir kröfu dómara.
2. Ef mál verður fellt niður skv. b- til e-lið 1. mgr. og stefndi sækir þing og krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda kveður dómari upp úrskurð um kröfuna og niðurfellingu málsins. Slíkan úrskurð getur dómari fellt úr gildi ef stefnandi sannar að hann hafi haft lögmæt forföll þegar þingsókn hans féll niður.
3. Í öðrum tilvikum en greinir í 2. mgr. verður mál fellt niður með bókun í þingbók nema ágreiningur standi um hvort það verði gert sem dómari tekur þá afstöðu til með úrskurði.

XV. kafli. Sáttir.
106. gr.
1. Dómari leitar sátta ef aðilar fara með forræði á sakarefni nema hann telji víst að sáttatilraun verði árangurslaus vegna eðlis málsins, afstöðu aðila eða annarra ástæðna.
2. Dómari leitar að jafnaði sátta eftir að stefndi hefur lagt fram greinargerð sína en áður en þing er háð til aðalmeðferðar. Dómara er heimilt að leita sátta fyrr, svo og við aðalmeðferð eða eftir að flutningi máls er lokið. Ekki stendur það í vegi sáttaumleitana að þær hafi áður verið reyndar án árangurs.
3. Úrlausn héraðsdóms verður ekki ómerkt fyrir æðra dómi fyrir þær sakir að sátta hafi ekki verið leitað.
107. gr.
1. Dómari getur orðið við ósk aðila um að vísa sáttaumleitunum í máli til sýslumannsins í þeirri þinghá þar sem mál var höfðað ef dómari telur það vænlegt til árangurs og ekki leiða til óþarfra tafa. Aðilum er og rétt að koma sér saman um að vísa máli sínu til sáttaumleitana sýslumanns án atbeina dómara milli þess að mál þeirra er tekið fyrir á dómþingi eða áður en mál er höfðað.
2. Þegar sáttaumleitunum er vísað til sýslumanns skal sá sem gerir það láta honum í té málsgögn í þeim mæli sem þörf krefur. Skal sýslumaður síðan svo fljótt sem verða má kveðja aðila á sinn fund og reyna með þeim sættir.
3. Sýslumaður fellir niður sáttaumleitanir ef sáttafundur er ekki sóttur af hendi beggja aðila eða þegar hann telur annars sýnt að þær beri ekki árangur.
4. Ef sátt tekst fyrir sýslumanni skal hún bókuð í sérstakri gerðabók hans. Nú tekst sátt að nokkru leyti en ekki öllu, og fer þá um framhald máls fyrir dómi eftir 2. mgr. 108. gr.
5. Sátt, sem er gerð fyrir sýslumanni, felur í sér lok dómsmáls, eftir atvikum að því leyti sem sátt hefur tekist. Fullnægja má skyldu samkvæmt sátt sem tekst fyrir sýslumanni með aðför.
108. gr.
1. Dómari getur synjað aðilum um að gera dómsátt ef hann telur ólögmætt að gera hana, efni hennar óljóst eða ómögulegt að efna hana. Dómari kveður upp úrskurð um þetta ef þess er krafist.
2. Dómsátt má gera um hluta máls og verður það þá rekið áfram að öðru leyti. Ef sátt tekst um annað en málskostnað skal hann ákveðinn með úrskurði.
3. Sátt má gera um kröfur þótt þær hafi ekki verið gerðar fyrir dómi.
4. Gera má dómsátt um málsefni sem hefur verið dæmt fyrir héraðsdómi á næstu níu mánuðum eftir uppkvaðningu dóms.
109. gr.
Dómsáttar skal getið í þingbók og tekur dómsáttin þá gildi. Dómsáttin skal gerð skriflega og undirrituð af aðilum. Ef hún er ekki skráð í heild sinni í þingbók skal leggja hana fram sem málsskjal. Ef mál heldur áfram að nokkru skal þess getið í bókuninni, en ella er því lokið.
110. gr.
1. Dómsmál má höfða til að fá dómsátt ógilta að hluta eða öllu leyti.
2. Ef aðili byggir rétt á dómsátt í dómsmáli getur gagnaðili vefengt gildi hennar. Það sama á við ef réttur er byggður á dómsátt við fullnustugerð eða búskipti.
3. Í dómsmáli skv. 1. eða 2. mgr. er dómari bundinn af úrlausn hliðsetts dómara um atriði sem hann hefur tekið afstöðu til.
4. Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda um sátt sem tekst fyrir sýslumanni.

XVI. kafli. Dómsúrlausnir héraðsdóms.
111. gr.
1. Dómari má ekki fara út fyrir kröfur aðila í dómi sínum eða úrskurði nema um atriði sé að ræða sem honum ber að gæta af sjálfsdáðum. Kröfu, sem kemur ekki fram í stefnu, skal vísað frá dómi nema stefndi hafi samþykkt að hún kæmist að án þess. Sama er um hækkun á kröfu eða aðrar breytingar stefnda í óhag.
2. Dómari má ekki byggja niðurstöðu sína á málsástæðu eða mótmælum sem hefðu mátt koma fram en gerðu það ekki við meðferð máls. Nú er atviks getið í framlögðu skjali en aðili hefur ekki hreyft því sérstaklega sem málsástæðu við flutning máls, og metur þá dómari eftir atvikum hvort sú málsástæða komi til greina.
3. Dómari metur eftir atvikum hvort þögn aðila við staðhæfingu eða kröfu gagnaðila skuli meta sem samþykki eða ekki.
112. gr.
1. Að því leyti sem önnur ákvæði laga þessara mæla ekki á annan veg og ágreiningur er ekki uppi tekur dómari afstöðu til atriða sem varða rekstur máls með ákvörðun sem verður eftir atvikum skráð í þingbók. Slík atriði má einnig leiða til lykta með ákvörðun þótt ágreiningur sé um þau ef ágreiningsefnið sætir ekki kæru til æðra dóms.
2. Dómari leysir úr öðrum atriðum sem þarf að ráða til lykta fyrir dómtöku máls með úrskurði. Úrskurð skal kveða upp þegar í stað í þinghaldi ef unnt er, en að öðrum kosti svo fljótt sem verða má.
3. Úrskurður skal vera skriflegur og skráður í þingbók eða dómabók. Dómari skal færa rök fyrir niðurstöðu sinni í úrskurði án þess að greina frá atvikum máls eða kröfum eða rökstuðningi aðila, en niðurstaðan skal síðan dregin saman í úrskurðarorði. [Í stað skriflegs úrskurðar getur dómari látið við það sitja að skrá úrskurðarorð í þingbók og færa munnlega rök fyrir niðurstöðu sinni nema úrskurður feli í sér lokaniðurstöðu máls. Ef úrskurður er kærður til æðra dóms skal dómari semja skriflegan úrskurð samkvæmt framansögðu.] 1)
4. Feli úrskurður í sér lokaniðurstöðu máls skulu forsendur fylgja úrskurðarorði með sama hætti og ef um dóm væri að ræða. Ef máli er vísað frá dómi án kröfu stefnda eða það er fellt niður má dómari þó láta við það sitja að greina í forsendum úrskurðar frá aðilum og þingfestingardegi máls, kröfum aðila og rökstuðningi fyrir niðurstöðu.
5. Dómari getur breytt ákvörðun sinni um atriði sem varða rekstur máls, svo og úrskurði sem felur ekki í sér lokaniðurstöðu máls, sbr. þó 2. mgr. 105. gr.
    1)L. 78/2015, 8. gr.
113. gr.
[1. Ef útivist hefur orðið af hálfu stefnda, hann hefur ekki skilað greinargerð, kröfur stefnanda eru þess efnis að unnt er að fullnægja þeim með aðför og dómari telur málatilbúnaði stefnanda í engu áfátt þannig að taka megi kröfur hans til greina, sbr. 1. mgr. 96. gr., má dómari ljúka máli með því að rita á stefnu að dómkröfurnar séu aðfararhæfar, svo og ákvörðun um málskostnað. Á sama hátt má dómari með áritun fallast á að lögveðréttur verði staðfestur til tryggingar kröfunum. Dómari getur um leið leiðrétt augljósar villur í stefnu til samræmis við þau skjöl sem stefnandi byggir á í málinu. Einnig getur dómari vísað málinu frá með áritun á stefnu ef gallar eru á því sem varða án nokkurs vafa frávísun þess án kröfu. Ef stefnandi unir ekki þeirri ákvörðun dómara getur hann krafist þess innan tveggja vikna að úrskurður gangi um frávísunina. Verði máli ekki lokið með framangreindum hætti skal kveðinn upp dómur eða úrskurður eftir almennum reglum.] 1)
2. Áritun dómara á stefnu skv. 1. mgr. hefur sama gildi og dómur. Henni verður ekki skotið til æðra dóms.
    1)L. 78/2015, 9. gr.
114. gr.
1. Nú verður mál ekki fellt niður eða því vísað frá dómi eða lokið með sátt eða áritun skv. 113. gr., og skal þá saminn skriflegur dómur þar sem forsendur fylgja dómsorði. Í upphafi dóms skal koma fram heiti og númer máls, svo og hvar og hvenær hann sé kveðinn upp, en í forsendum skal síðan greina:
    a. hvenær mál var höfðað og dómtekið,
    b. nöfn og heimili aðila,
    c. kröfur aðila,
    d. stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því,
    e. helstu málsástæður aðila og réttarheimildir sem þeir byggja á, [þó aðeins að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar máli], 1)
    f. rökstudda niðurstöðu um sönnunaratriði og lagaatriði,
    g. athugasemdir um rekstur máls og réttarfarssektir,
    h. málskostnað,
    i. nöfn dómenda og hver sé dómsformaður ef dómur er fjölskipaður, svo og starfsheiti meðdómsmanna.
2. Í dómsorði skal aðalniðurstaða máls dregin saman, svo sem sýkna ef sýknað er af öllum efniskröfum, kröfur stefnanda sem eru teknar til greina o.s.frv.
3. Dómar skulu vera stuttir og glöggir.
4. Ekki má skírskota í dómi til sannana eða atvika sem kunna síðar að koma fram. Þó má verða við kröfu um að stefnda verði gert að leysa af hendi skyldu gegn tilteknu gagngjaldi úr hendi stefnanda eða að skylda verði lögð á stefnda til annars en peningagreiðslu að viðlögðum dagsektum.
5. Í dómi má eftir kröfu kveða á um aðfararfrest ef sérstök ástæða þykir til að víkja frá almennum reglum laga í þeim efnum. Þá má ákveða í dómi eftir kröfu ef mikilvægir hagsmunir þykja í húfi að áfrýjun málsins hindri ekki aðför eftir dóminum, en eftir atvikum má það vera háð því skilyrði að dómhafi setji þá tiltekna tryggingu við aðför. Kröfu um dómsákvæði sem þessi má setja fram við aðalmeðferð máls.
    1)L. 78/2015, 10. gr.
115. gr.
1. Dómur skal kveðinn upp svo fljótt sem unnt er. Hafi dómur ekki verið kveðinn upp í máli sem var munnlega flutt innan fjögurra vikna frá því það var dómtekið skal það flutt á ný nema dómari og aðilar telji það óþarft.
2. Ef dómur er fjölskipaður og mál munnlega flutt skulu allir dómendur hafa hlýtt á flutning þess. Geti þeir ekki allir tekið þátt í [samningu] 1) dóms skal nefna dómara í stað þess sem hefur misst við og endurtaka munnlegan flutning máls. Afl atkvæða ræður úrslitum um hvert atriði. Nú verður dómari í minni hluta um eitthvert atriði, og skal hann þá allt að einu taka þátt í ályktun um önnur atriði, en ágreiningsatriðis skal þá getið í dómi. Formaður dóms stýrir atkvæðagreiðslu og sér um samningu dóms.
3. Dómari tilkynnir aðilum hvar og hvenær dómur eða úrskurður verði kveðinn upp ef vörnum hefur verið haldið uppi í máli. Við uppkvaðningu skal lesa upp dómsorð eða úrskurðarorð á dómþingi í heyranda hljóði. Endurrit af dómi eða úrskurði skal að öðru jöfnu vera til reiðu við uppkvaðningu hans.
4. Frestir samkvæmt dómi eða úrskurði byrja að líða þegar við uppkvaðningu hans án tillits til þess hvort aðilar séu þar staddir.
    1)L. 78/2015, 11. gr.
116. gr.
1. Dómur er bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem koma að lögum í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til.
2. Krafa sem hefur verið dæmd að efni til verður ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en segir í lögum þessum. Nýju máli um slíka kröfu skal vísað frá dómi.
3. Dómur er bindandi fyrir dómara þegar hann hefur verið kveðinn upp. Dómara er þó heimilt að leiðrétta ritvillur, reikningsskekkjur, nafnskekkjur og aðrar bersýnilegar villur í dómi, enda láti hann aðilum sem hafa fengið endurrit af dómi þá í té nýtt endurrit án tafar.
4. Dómur hefur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað.

4. þáttur. Afbrigðileg meðferð einkamála í héraði.
XVII. kafli. Mál um víxla, tékka og skuldabréf.
117. gr.
Mál, sem fara eftir ákvæðum þessa kafla, eru:
    a. víxilmál, en til þeirra teljast mál gegn útgefanda, framseljanda og samþykkjanda víxils á hendur öðrum manni og gegn útgefanda og framseljanda eigin víxils til greiðslu víxilkröfu eða til að koma fram endurgreiðslukröfu eftir víxilrétti, mál gegn útgefanda og framseljanda víxils vegna skorts á samþykki til greiðslu víxilupphæðar að öllu leyti eða nokkru og mál gegn ábyrgðarmönnum víxilupphæðar,
    b. tékkamál, en til þeirra teljast mál um endurgjaldskröfu gegn tékkaskuldara samkvæmt lögum um tékka,
    c. skuldabréfamál, en til þeirra teljast mál til greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfi, enda sé skráður samningur í texta þess um að mál samkvæmt því verði rekið eftir ákvæðum þessa kafla.
118. gr.
1. Stefndi getur aðeins haft uppi eftirtaldar varnir um efni máls:
    a. að mál sé höfðað af röngum aðila eða því sé ranglega beint að sér,
    b. að aðila hafi skort hæfi að lögum til að taka á sig skuldbindinguna,
    c. að undirskrift á skjali sé fölsuð eða efni skjals sé falsað.
2. Í víxilmáli má stefndi einnig koma að vörnum sem varða form og efni víxils, aðferðina til að halda víxilkröfu í gildi og önnur atriði sem eru skilyrði til að koma fram víxilrétti eftir víxillögum. Það sama á við um tékkamál.
3. Í skuldabréfamáli má stefndi einnig koma að vörnum ef hann á ekki að sanna þær staðhæfingar sem varnirnar byggjast á eða unnt er að sanna staðhæfingarnar með skjölum sem hann leggur þegar fram.
4. Hafa má uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar eða sjálfstæðs dóms í máli samkvæmt ákvæðum þessa kafla ef gagnkrafan er sams konar og aðalkrafan eða gagnkrafan styðst annars við víxil eða tékka. Í víxil- eða tékkamáli má einnig koma að gagnkröfu sem er sprottin af því að aðili hafi ekki gefið þær tilkynningar til formanna sinna á víxli eða tékka sem eru boðnar í víxillögum eða lögum um tékka.
119. gr.
1. Ef stefnandi samþykkir má stefndi koma að frekari vörnum en er getið í 118. gr.
2. Nú fer stefndi á mis við að koma vörnum að í máli vegna ákvæða 118. gr., og getur hann þá höfðað mál gegn stefnanda eftir almennum reglum til heimtu skaðabóta.
3. Að öðru leyti fara mál samkvæmt þessum kafla eftir ákvæðum 3. þáttar.

XVIII. kafli. Ógildingar- og eignardómsmál.
120. gr.
1. Ógilda má glötuð eða horfin skuldabréf og hver önnur heimildarbréf með dómi eftir reglum þessa kafla, enda taki ekki sérstök ákvæði annarra laga til ógildingar á þeim. Ógildingardómur heimilar dómhafa að ráðstafa því sem skjalið hljóðar um eins og hann hefði skjalið undir höndum.
2. Mál til ógildingar á veðskuldabréfi skal höfðað í þeirri þinghá þar sem því var eða yrði þinglýst. Mál til ógildingar á öðru skjali skal höfða í þeirri þinghá þar sem það var gefið út. Ef þessu verður ekki komið við en skjal verður þó ógilt hér á landi skal höfða mál fyrir dómi í Reykjavík.
121. gr.
1. Nú vill maður höfða mál til ógildingar á skjali, og skal hann þá afhenda dómara stefnu til útgáfu og endurrit af skjalinu eða nákvæma lýsingu á efni þess. Í stefnunni skal greint frá því sem er vitað um afdrif skjalsins og rökstutt hvernig hlutaðeigandi telji til réttar samkvæmt því.
2. Ef dómari telur skilyrði fyrir ógildingardómi ekki vera fyrir hendi synjar hann um útgáfu stefnu. Skal kveðinn upp úrskurður um synjunina ef krafist er.
3. Ef dómari telur skilyrðum fyrir ógildingardómi fullnægt gefur hann út stefnu, en í henni skal skorað á hvern þann sem kann að hafa skjalið undir höndum að koma með það fyrir dóm við þingfestingu málsins, því ella megi vænta að það verði ógilt með dómi. Stefnan skal birt einu sinni í Lögbirtingablaði.
4. Nú kemur enginn fram með skjalið við þingfestingu máls og enginn mótmælir annars ógildingu þess, og skal þá ógildingardómur kveðinn upp nema gallar á málatilbúnaði leiði til frávísunar máls. Sé vörnum haldið uppi skal mælt fyrir í dómi um ógildingu skjals eða synjun um ógildingardóm.
5. Að öðru leyti fer um ógildingardómsmál eftir ákvæðum 3. þáttar.
122. gr.
1. Nú sannar maður eða gerir sennilegt að hann hafi öðlast réttindi yfir fasteign, skrásettu skipi eða loftfari, skrásettri bifreið eða viðskiptabréfi með samningi eða hefð, en hann skortir skilríki fyrir rétti sínum, og getur hann þá leitað eignardóms. Eignardómur veitir dómhafa heimild til að ráða yfir og ráðstafa eigninni eins og hann hefði afsalsbréf fyrir henni eða annað viðeigandi skjal.
2. Um varnarþing í eignardómsmáli og meðferð þess fer eftir ákvæðum 2. mgr. 120. gr. og 121. gr. að breyttu breytanda.

XIX. kafli. Flýtimeðferð einkamála.
123. gr.
1. Nú hyggst aðili höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu og það færi ella eftir almennum reglum þessara laga. Getur hann þá óskað eftir því að málið sæti meðferð eftir ákvæðum þessa kafla ef brýn þörf er á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni hans.
2. Aðili, sem æskir málsmeðferðar eftir reglum þessa kafla, skal afhenda forstöðumanni dómstóls stefnu ásamt skriflegri beiðni um útgáfu hennar og þeim málsgögnum sem geta stutt beiðnina. Í stefnu skal höfð eyða til þess að dómari geti skráð þar stað og stund til þingfestingar og stefnufrest og skal tekið fram í texta hennar að dómari hafi fallist á beiðni um að málið sæti meðferð eftir ákvæðum þessa kafla. Í beiðni skal rökstutt ítarlega hvernig megi telja skilyrðum 1. mgr. fullnægt.
3. Ef skilyrðum 1. mgr. er ekki fullnægt synjar dómari um útgáfu stefnu. Skal kveðinn upp úrskurður um synjunina ef krafist er.
4. Nú er fallist á að mál sæti meðferð eftir ákvæðum þessa kafla, og skal því þá þegar úthlutað dómara til meðferðar. Hann gefur út stefnu og ákveður um leið hvar og hvenær mál verður þingfest, sem að öðru jöfnu skal gert utan reglulegs dómþings, og hver stefnufrestur skuli vera, en hann má skemmstur vera einn sólarhringur.
5. Ákvæðum þessarar greinar má beita við höfðun gagnsakar þannig að mál sæti upp frá því í heild sinni meðferð eftir reglum þessa kafla. Ef beiðni berst um slíkt gefur forstöðumaður dómstóls þó gagnaðila kost á að tjá sig um hana áður en afstaða er tekin til hennar.
124. gr.
1. Ef vörnum er haldið uppi í máli skal því aðeins frestað í þeim mæli sem brýna nauðsyn ber til. Þeirra atriða, sem getur í 1. mgr. 102. gr., skal gætt í þinghaldi þegar stefndi leggur fram greinargerð og ber að öðru jöfnu að ljúka þá öflun sýnilegra sönnunargagna.
2. Að kröfu aðila getur dómari ákveðið að vitni verði kvatt fyrir dóm með skemmri fyrirvara en getur í 2. mgr. 54. gr.
3. Dómur skal kveðinn upp svo fljótt sem verða má eftir dómtöku máls.
4. Ef úrskurður dómara um atriði, sem varðar rekstur máls, er kærður til æðra dóms skal sá frestur sem getur í [148. gr.] 1) vera þrír sólarhringar.
5. Frestur til að áfrýja máli, sem sætir meðferð eftir ákvæðum þessa kafla til æðra dóms án áfrýjunarleyfis, er [tvær] 2) vikur frá uppkvaðningu dóms. … 3) Frestir í máli fyrir [æðri dómi] 2) skulu vera svo skammir sem verða má.
6. Að öðru leyti fer um þessi mál eftir almennum reglum.
    1)L. 76/2019, 5. gr. 2)L. 49/2016, 11. gr. 3)L. 38/1994, 3. gr.

5. þáttur. Gjafsókn, málskostnaður og réttarfarssektir.
XX. kafli. Gjafsókn.
125. gr.
1. Í þessum kafla er orðið gjafsókn notað bæði um gjafsókn og gjafvörn.
2. [Ráðherra] 1) skal skipa nefnd þriggja lögfræðinga, gjafsóknarnefnd, til fjögurra ára í senn til að veita umsögn um umsóknir um gjafsókn. Einn nefndarmanna skal skipaður eftir tilnefningu Lögmannafélags Íslands en annar eftir tilnefningu Dómarafélags Íslands. [[Ráðherra] 1) getur kveðið nánar á um starfshætti gjafsóknarnefndar í reglugerð. 2)] 3)
3. Umsókn um gjafsókn skal vera skrifleg og beint til [ráðherra]. 1) Í henni skal greint skýrlega frá máli sem hún varðar og rökstutt að skilyrðum fyrir gjafsókn sé fullnægt. Umsókn skulu fylgja gögn eftir þörfum.
4. [Ráðherra] 1) veitir gjafsókn eftir umsókn aðila. Hún verður því aðeins veitt að gjafsóknarnefnd mæli með því.
    1)L. 162/2010, 126. gr. 2)Rg. 45/2008, sbr. 1059/2010, 616/2012, 1164/2017, 740/2018, 434/2020 og 91/2023. 3)L. 7/20, 1. gr.
126. gr.
1. [Gjafsókn verður aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:
    a. að fjárhag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé,
    b. að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.
2. Ráðherra getur í reglugerð 1) kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar, þ.m.t. hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn skv. 1. mgr. 127. gr.] 2)
3. Gjafsókn verður enn fremur veitt eftir því sem fyrir er mælt í öðrum lögum.
4. Nú er gjafsókn veitt, og skal þá tekið fram í gjafsóknarbréfi til hvaða máls hún taki, hvort hún sé veitt til rekstrar máls fyrir héraðsdómi eða æðra dómi og hvort hún sé takmörkuð með tilteknum hætti.
    1)Rg. 45/2008, sbr. 1059/2010, 616/2012, 1164/2017, 740/2018, 434/2020 og 91/2023. 2)L. 72/2012, 7. gr.
127. gr.
1. Að því leyti sem hér er ekki mælt á annan veg skuldbindur gjafsókn ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli. Gjafsókn má þó takmarka þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð.
2. Ef þóknun umboðsmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls er ekki undanskilin gjafsókn skal hún ákveðin í dómi. Takist sátt í máli ákveður dómari þóknunina í úrskurði.
3. Gjafsóknarhafi er undanþeginn öllum greiðslum í ríkissjóð vegna þess máls sem gjafsókn tekur til, þar á meðal greiðslum fyrir opinber vottorð og önnur gögn sem verða lögð fram í máli.
4. Ef annað er ekki tekið fram í gjafsóknarbréfi nær gjafsókn einnig til kostnaðar af fullnustu réttinda gjafsóknarhafa með aðför og nauðungarsölu.
5. Nú skýtur gagnaðili gjafsóknarhafa máli til æðra dóms, og nær þá gjafsókn einnig til málskostnaðar gjafsóknarhafa þar fyrir dómi, þar á meðal af gagnáfrýjun eða gagnkæru máls, ef annað er ekki tekið fram í gjafsóknarbréfi.
128. gr.
1. Gjafsókn fellur ekki niður þótt gjafsóknarhafi látist.
2. [Ráðherra] 1) má afturkalla gjafsókn ef í ljós kemur að hún var veitt að ófyrirsynju, hagur gjafsóknarhafa breytist svo að hennar sé ekki lengur þörf eða gjafsóknarhafi lætur hjá líða að krefjast málskostnaðar úr hendi gagnaðila síns. Við afturköllun fellur greiðsluskylda ríkisins niður án tillits til þess hvort þegar hefur verið stofnað til kostnaðar vegna málsins. Gjafsóknarhafi verður þó ekki krafinn um greiðslu gjalda sem hann hefur komist hjá skv. 3. mgr. 127. gr. áður en gjafsókn var afturkölluð.
3. Gjafsókn breytir engu um að gjafsóknarhafa verði sjálfum gert að greiða gagnaðila sínum málskostnað.
4. Nú verður gagnaðili gjafsóknarhafa dæmdur til að greiða málskostnað, og skal þá ekki tekið tillit til þess að gjafsókn hafi verið veitt við ákvörðun málskostnaðar. Ef gjafsóknarhafi hefur sjálfur haft kostnað af máli skal honum ákveðin greiðsla málskostnaðar að því leyti í dómi, en að öðru leyti verður málskostnaður dæmdur ríkinu.
    1)L. 162/2010, 126. gr.

XXI. kafli. Málskostnaður.
129. gr.
1. Til málskostnaðar telst:
    a. kostnaður af flutningi máls,
    b. kostnaður af birtingu stefnu, kvaðninga og annarra tilkynninga,
    c. gjöld sem renna í ríkissjóð vegna máls,
    d. óhjákvæmilegur ferðakostnaður aðila og umboðsmanns hans,
    e. þóknun matsmanns, vitnis, túlks, þýðanda og þingvotts,
    f. kostnaður af endurritum, dómsgerðum og ágripi dómsgerða,
    g. annar kostnaður sem stafar beinlínis af máli.
2. Aðili, sem krefst dómsathafnar, greiðir kostnað af henni um sinn.
3. Aðila er rétt að krefjast greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila síns, þar á meðal í gagnsök og meðalgöngusök, eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi sem er lagður fram ekki síðar en við aðalmeðferð máls. Málskostnaður verður því aðeins dæmdur að hans sé krafist.
4. Málskostnaður, sem er dæmdur aðila úr hendi gagnaðila hans, ber dráttarvexti frá fimmtánda degi eftir uppkvaðningu dóms eða úrskurðar og til greiðsludags þótt þess sé ekki krafist sérstaklega eða getið í dómi eða úrskurði.
130. gr.
1. Sá sem tapar máli í öllu verulegu skal að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað.
2. Stefnanda skal gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um í máli.
3. Nú vinnur aðili mál að nokkru og tapar því að nokkru eða veruleg vafaatriði eru í máli, og má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu. Eins má fara að ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað.
4. Nú eru rekin fleiri dómsmál en eitt sem hefði mátt komast hjá með því að sækja kröfur í þeim öllum í einu máli, eftir atvikum sem gagnkröfu, og má þá lækka málskostnað handa þeim sem vinnur mál af tilliti til þess, sbr. einnig 2. mgr. 27. gr.
131. gr.
1. Hvernig sem úrslit máls verða má dæma aðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað ef hann hefur:
    a. höfðað mál að þarflausu eða án neins tilefnis af hendi gagnaðila,
    b. valdið óþörfum drætti á máli af ásetningi eða með skeytingarleysi eða handvömm,
    c. haft uppi kröfur, staðhæfingar eða mótbárur sem hann vissi eða mátti vita að væru rangar eða haldlausar.
2. Ef sakir skv. 1. mgr. eru miklar má dæma aðila til að greiða gagnaðila álag á málskostnað.
3. Án tillits til málsúrslita má einnig dæma aðila til að greiða sérstaklega þann kostnað sem hann hefur bakað gagnaðila með ráðstöfunum við rekstur máls eða í tengslum við það ef þær voru sýnilega þarflausar eða tilgangslausar.
4. Nú hefur umboðsmaður aðila átt þátt í þeim ávirðingum sem getur í 1. og 3. mgr., og má þá dæma hann einan eða sameiginlega með aðilanum til að greiða gagnaðila málskostnað, þar á meðal álag skv. 2. mgr., hvort sem þess er krafist í máli eða ekki.
132. gr.
1. Ef dæma á samaðilum skv. 18. gr. málskostnað skal það að jafnaði gert í einu lagi. Eins skal farið að ef dæma á samaðila til greiðslu málskostnaðar, en þá ábyrgjast þeir greiðslu einn fyrir alla og allir fyrir einn.
2. Nú eru annars fleiri aðilar en einn til sóknar eða varnar í máli og þeim verður dæmdur málskostnaður, og skal hann þá ákveðinn handa hverjum þeirra fyrir sig. Ef dæma á slíka aðila til greiðslu málskostnaðar skal það að jafnaði gert í einu lagi þannig að þeir ábyrgist greiðslu einn fyrir alla og allir fyrir einn.
133. gr.
1. Stefndi getur krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef:
    a. stefnandi er búsettur [utan Evrópska efnahagssvæðisins], 1) [aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða aðildarríkis Haagsamnings um einkamálaréttarfar frá 1. mars 1954] 2) og menn, sem eru búsettir hér á landi, eru ekki undanþegnir því að setja slíka tryggingu í heimalandi hans,
    b. leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar.
2. Dómari ákveður hvort stefnanda verði gert að setja tryggingu, hverrar fjárhæðar og í hverju formi hún verði og innan hvers frests það skuli gert. Leyst verður úr ágreiningi um þetta í úrskurði.
3. Ef stefnandi setur ekki tryggingu eftir ákvörðun dómara skal máli vísað frá dómi.
[4. Nú hefur maður búsettur hér verið undanþeginn því að leggja fram málskostnaðartryggingu í ríki sem á aðild að Haagsamningnum um einkamálaréttarfar frá 1. mars 1954 og skal þá úrlausn erlends dómstóls um skyldu hans til að greiða málskostnað eða réttargjöld vera aðfararhæf hér á landi.] 2)
    1)L. 97/1999, 1. gr. 2)L. 53/2008, 4. gr.

XXII. kafli. Réttarfarssektir.
134. gr.
1. Dómari ákveður sektir samkvæmt reglum þessa kafla af sjálfsdáðum og renna þær í ríkissjóð.
2. Ef refsing liggur að auki eftir öðrum lögum við broti sem ákvæði þessa kafla taka til má koma henni fram í öðru máli án tillits til ákvörðunar um réttarfarssekt.
135. gr.
1. Ákveða má sekt á hendur aðila fyrir:
    a. að höfða mál að þarflausu,
    b. að koma gagnaðila að ófyrirsynju í þá aðstöðu að honum var nauðsyn að höfða mál,
    c. að valda af ásetningi óþörfum drætti á máli,
    d. að hafa uppi vísvitandi rangar kröfur, staðhæfingar eða mótbárur,
    e. ósæmileg skrifleg eða munnleg ummæli sem hann hefur uppi fyrir dómi um dómara, gagnaðila, umboðsmann gagnaðila eða aðra menn,
    f. að misbjóða virðingu dóms á annan hátt með framferði sínu í þinghaldi.
2. Umboðsmanni aðila, sem gerist sekur um brot skv. c- til f-lið 1. mgr., má ákveða sekt einum sér eða með aðilanum.
3. Manni, sem gefur skýrslu fyrir dómi, má ákveða sekt fyrir brot gegn e- eða f-lið 1. mgr.
4. Ákveða má sekt á hendur öðrum en þeim sem ákvæði 1.–3. mgr. taka til fyrir að hlýða ekki fyrirskipunum dómara sem miða að því að halda uppi reglu á dómþingi eða að koma þar annars hneykslanlega eða ósæmilega fram.
5. Fyrir æðra dómi má ákveða sekt á hendur aðila, umboðsmanni hans eða þeim báðum í senn fyrir tilefnislaust málskot.
136. gr.
1. Ef dómur gengur í máli skal sekt á hendur aðila eða umboðsmanni hans ákveðin þar. Gangi úrskurður um frávísun máls frá dómi skulu sektir á hendur þeim ákveðnar þar. Ef mál er fellt niður skal kveðinn upp sérstakur úrskurður um sekt á hendur aðila eða umboðsmanni hans.
2. Sektir á hendur öðrum skulu ákveðnar í úrskurði jafnskjótt og brot er framið.

6. þáttur. Endurupptaka og málskot.
XXIII. kafli. Endurupptaka útivistarmáls í héraði.
137. gr.
1. Nú hefur dómur gengið eða stefna verið árituð skv. 113. gr. í máli þar sem stefndi sótti ekki þing eða þingsókn hans féll niður, og getur þá stefndi beiðst endurupptöku málsins innan þriggja mánaða frá því máli lauk í héraði, enda berist beiðnin dómara innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn.
2. Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því máli lauk í héraði en innan árs frá því getur stefndi beiðst endurupptöku útivistarmáls ef beiðnin berst dómara innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn og stefndi sýnir fram á að einhverju eftirfarandi skilyrða sé fullnægt:
    a. að stefna hafi hvorki verið birt honum né öðrum sem mátti birta fyrir,
    b. að átt hefði að vísa kröfum á hendur honum sjálfkrafa frá dómi að einhverju leyti eða öllu,
    c. að átt hefði að sýkna hann án kröfu að einhverju leyti eða öllu,
    d. að stefnandi sé samþykkur endurupptöku.
3. Beiðni um endurupptöku verður ekki sinnt nema stefndi setji áður tryggingu, sem dómari tekur gilda, fyrir greiðslu þess málskostnaðar sem var lagður á hann í dómi eða áritaðri stefnu eða hann sanni að hann hafi greitt málskostnaðinn. Frá þessu má þó víkja með samþykki stefnanda.
4. Stefndi getur ekki beiðst endurupptöku ef stefnandi hefur áfrýjað máli til æðra dóms.
5. Þegar frestur skv. 2. mgr. er liðinn verður mál ekki tekið upp í héraði nema [með úrskurði Endurupptökudóms samkvæmt lögum um dómstóla, sbr. XXVIII. kafla]. 1)
    1)L. 47/2020, 7. gr.
138. gr.
1. Beiðni um endurupptöku skal beint til þess dóms þar sem dómur gekk eða stefna var árituð. Í beiðni skal greint skýrlega frá því hverra breytinga stefndi krefjist á fyrri málsúrslitum og á hverjum málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum það sé byggt, svo og hvenær og hvernig stefnda varð kunnugt um málsúrslit. Ef endurupptöku er beiðst skv. 2. mgr. 137. gr. skal að auki rökstutt að einhverju þargreindu skilyrði sé fullnægt. Gögn skulu fylgja beiðni.
2. Ef beiðni er ófullnægjandi eða berst röngum dómi eða dómari telur sýnt að skilyrðum 137. gr. sé ekki fullnægt synjar hann þegar í stað um endurupptöku, en úrskurður skal kveðinn upp um synjunina ef krafist er. Að öðrum kosti boðar dómari báða aðila fyrir dóm til að taka beiðni fyrir.
3. Sæki stefndi ekki þing þegar beiðni hans er tekin fyrir telst hún fallin niður. Sæki stefnandi þing getur dómari úrskurðað honum ómaksþóknun úr hendi stefnda að kröfu hans. Ekki verður þá beiðst endurupptöku öðru sinni.
4. Nú sækir stefnandi ekki þing þegar beiðni er tekin fyrir, og verður málið þá endurupptekið og farið með það eftir ákvæðum 2. mgr. 140. gr.
5. Ef báðir aðilar sækja þing þegar beiðni er tekin fyrir getur stefnandi haft uppi mótmæli gegn endurupptöku og skal þá leyst úr þeim með úrskurði áður en lengra er haldið. Að öðrum kosti er mál endurupptekið.
139. gr.
1. Þegar mál hefur verið endurupptekið getur stefndi krafist þess að dómari kveði á um það í úrskurði að réttaráhrif dóms eða áritunar á stefnu falli niður að einhverju leyti eða öllu þar til máli lýkur á ný í héraði. Dómari metur eftir atvikum hvort eða að hverju leyti efni séu til að verða við slíkri kröfu.
2. Endurupptaka máls hindrar ekki aðför á grundvelli dóms eða áritunar á stefnu nema að því leyti sem krafa stefnda skv. 1. mgr. hefur verið tekin til greina. Úrskurður skv. 1. mgr. haggar ekki gildi aðfarargerðar sem hefur áður farið fram.
3. Upphaflegum dómi í máli verður ekki áfrýjað til æðra dóms eftir að það er endurupptekið nema endurupptöku ljúki með því að dómurinn standi óhaggaður skv. 2. eða 4. mgr. 140. gr. og stefnandi áfrýi.
140. gr.
1. Þegar endurupptaka er ráðin verður rekstri máls fram haldið eftir reglum þessara laga frá því stigi sem útivist varð af hálfu stefnda, að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessa kafla.
2. Mál verður ekki fellt niður þótt stefnandi sæki ekki þing eftir endurupptöku. Stefndi getur þó fallið þá frá endurupptöku og stendur þá upphafleg úrlausn óhögguð. Annars á stefndi þess þá kost að færa fram varnir og verður málið síðan dæmt á ný eftir framkomnum kröfum og málatilbúnaði aðilanna.
3. Ef stefndi sækir ekki þing eftir endurupptöku skal farið svo að sem segir í 3. mgr. 96. gr. Gangi þá útivistardómur á hendur stefnda gilda ákvæði 4. mgr. 96. gr. um heimild hans til að skjóta máli til æðra dóms.
4. Nú sækir hvorugur aðila þing eftir endurupptöku, og lýkur þá meðferð málsins þannig að upphafleg úrlausn stendur óhögguð.
141. gr.
1. Nú lýkur máli hvorki skv. 2. eða 4. mgr. 140. gr. né með sátt, og kveður dómari þá upp nýjan dóm í málinu eftir almennum reglum nema því verði vísað frá dómi með úrskurði. Fellur þá fyrri úrlausn sjálfkrafa úr gildi.
2. Gegn mótmælum stefnanda verður því aðeins tekið tillit til krafna, málsástæðna og sönnunargagna sem stefndi færir fram við endurupptöku að einhverju eftirfarandi skilyrða sé fullnægt:
    a. að útivist stefnda í öndverðu verði talin afsakanleg,
    b. að það ylli stefnda réttarspjöllum að ekki yrði tekið tillit til nýrrar kröfu eða málsástæðu hans eða nýrra sönnunargagna,
    c. að krafa eða málsástæða lúti að atriði sem dómari átti að gæta af sjálfsdáðum í upphaflegri úrlausn máls.
3. Í dómi eða úrskurði ákveður dómari málskostnað í einu lagi vegna málsins í heild. Að öðru jöfnu skal stefndi dæmdur til að greiða stefnanda allan málskostnað án tillits til þeirrar niðurstöðu sem fæst við endurupptöku.
142. gr.
1. Mál verður ekki endurupptekið öðru sinni eftir ákvæðum þessa kafla.
2. Stefnandi getur áfrýjað máli til æðra dóms eftir endurupptöku samkvæmt almennum reglum.
3. Að fengnu áfrýjunarleyfi skv. 154. gr. getur stefndi áfrýjað máli til æðra dóms eftir að dómur hefur gengið við endurupptöku, enda hafi það þá ekki verið útivistardómur á hendur honum.

XXIV. kafli. [Kæra til Landsréttar.]1)
    1)L. 49/2016, 16. gr.
143. gr.
1. Úrskurðir héraðsdómara um eftirfarandi sæta kæru til [Landsréttar]: 1)
    a. hvort hann víki sæti í máli,
    b. atriði varðandi skýrslugjöf aðila og vitna fyrir dómi,
    c. atriði varðandi matsgerðir,
    d. skyldu aðila eða vörslumanns til að láta skjal eða annað sýnilegt sönnunargagn af hendi eða veita aðgang að því,
    e. synjun um heimild til að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi,
    f. synjun um heimild til að afla sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað,
    g. ómaksþóknun, málskostnað eða gjafsóknarlaun, enda sé ekki kveðið á um annað í úrskurði,
    h. að frestur skuli veittur,
    i. synjun um endurupptöku máls vegna lögmætra forfalla frá þinghaldi,
    j. að máli sé vísað frá dómi,
    k. hvort mál verði fellt niður,
    l. hvort synjað verði um heimild til að gera dómsátt,
    m. synjun um útgáfu stefnu í ógildingar- eða eignardómsmáli,
    n. synjun um útgáfu stefnu til flýtimeðferðar á máli,
    o. málskostnaðartryggingu,
    p. réttarfarssekt,
    q. hvort dæmt mál verði endurupptekið,
    r. hvort réttaráhrif dóms eða áritunar á stefnu falli niður vegna endurupptöku máls.
2. Eftir að aðalmeðferð máls er hafin verður úrskurði héraðsdómara ekki skotið til æðra dóms nema úrskurður sé um:
    a. skyldu vitnis til að koma fyrir dóm eða svara spurningu og vitnið kæri,
    b. skyldu þriðja manns til að láta af hendi skjal eða veita aðgang að sýnilegu sönnunargagni og þriðji maður kæri,
    c. að máli sé vísað frá dómi,
    d. að mál sé fellt niður,
    e. synjun um heimild til að gera dómsátt,
    f. réttarfarssekt.
3. … 2)
    1)L. 49/2016, 12. gr. 2)L. 15/1998, 35. gr.
144. gr.
1. Nú vill maður kæra dómsathöfn, og afhendir hann þá héraðsdómara skriflega kæru áður en tvær vikur eru liðnar frá uppkvaðningu úrskurðar eða dómsathöfn ef hann eða umboðsmaður hans var þá staddur á dómþingi, en ella áður en tvær vikur eru liðnar frá því hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um úrskurð eða dómsathöfn.
2. Vitni eða matsmaður, sem er staddur á dómþingi við uppkvaðningu úrskurðar eða dómsathöfn, má þó lýsa yfir kæru munnlega og verður þá bókað um hana í þingbók.
3. Kæra frestar frekari framkvæmdum á grundvelli úrskurðar þar til leyst er úr máli fyrir æðra dómi.
145. gr.
1. Í kæru skal greina:
    a. þá dómsathöfn sem er kærð,
    b. kröfu um breytingu á henni,
    c. ástæður sem kæra er reist á.
2. Kæru má styðja við ný sönnunargögn. Vilji kærandi bera ný gögn fyrir sig skal hann greina frá þeim í kæru, svo og því hvað hann hyggst sanna með þeim. Slík gögn skulu fylgja kæru í frumriti eða staðfestu eftirriti.
3. Kærandi greiðir héraðsdómara lögmælt dómgjöld fyrir [Landsrétti]. 1)
    1)L. 49/2016, 12. gr.
146. gr.
1. Nú kemur kæra of seint fram, og beinir þá héraðsdómari því til kæranda að taka hana aftur.
2. Ef kæra fullnægir ekki ákvæðum 1. mgr. 145. gr. brýnir héraðsdómari fyrir kæranda að bæta úr göllum á henni.
3. Nú virðist héraðsdómara kæra á engum rökum reist, og getur hann þá ákveðið eftir kröfu að kæranda beri að setja tryggingu fyrir tjóni sem kæra kann að baka gagnaðila ef hún veldur frestun málsins. Tryggingu skal setja innan tveggja sólarhringa frá því kæru er lýst. Ella verður ekki frekar af kærumáli.
147. gr.
[1. Héraðsdómari sendir kæruna til [Landsréttar] 1) og gagnaðila þess sem kærir svo fljótt sem verða má nema hann kjósi sjálfur að fella kærðan úrskurð úr gildi.
2. Ef héraðsdómari hefur ekki samið úrskurð skriflega, sbr. 3. mgr. 112. gr., skal hann gera það innan viku og afhenda þeim sem kærir. Dómara er jafnan heimilt að láta skriflegar athugasemdir sínar um kæruefni fylgja [þegar hann sendir kæruna til Landsréttar]. 2)
3. [Sá sem kærir úrskurð eða dómsathöfn skal senda Landsrétti, innan tveggja vikna frá því að kæra hans barst héraðsdómi, þau gögn málsins sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið og í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður.] 3) Hann skal þá einnig, ef hann kýs, afhenda [Landsrétti] 1) skriflega greinargerð sem geymi kröfur hans og málsástæður sem byggt er á. Hann skal samtímis afhenda gagnaðila eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar. Gögnum skal fylgja skrá um þau og skulu þau vera í því horfi sem [Landsréttur] 1) mælir fyrir um.
4. Nú afhendir sá er kærir úrskurð eða dómsathöfn ekki greinargerð, ef því er að skipta, og kærumálsgögn til [Landsréttar] 1) innan þess frests sem greinir í 3. mgr. þessarar greinar og verður þá ekki frekar af máli.
5. Kæranda er heimilt að byggja á nýjum sönnunargögnum og skal þá farið að svo sem segir í 2. mgr. 145. gr.
6. [Landsréttur] 1) setur nánari reglur 4) um frágang málsgagna í kærumálum.] 5)
    1)L. 49/2016, 12. gr. 2)L. 49/2016, 13. gr. 3)L. 134/2022, 2. gr. 4) Rgl. 3/2018. 5)L. 78/2015, 13. gr.
148. gr.
[Þegar sá sem kærir úrskurð eða dómsathöfn hefur afhent [Landsrétti] 1) málsgögn skal gagnaðilinn eiga þess kost að skila innan viku til [Landsréttar] 1) skriflegri greinargerð sem geymi kröfur hans og málsástæður sem byggt er á. [Þó má lengja frest sem samkvæmt því rynni út á tímabilunum frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska sem svarar þeim dagafjölda.] 2) [Telji gagnaðili] 2) skorta á að kærandi hafi afhent [Landsrétti] 1) þau gögn máls sem þörf sé á til að leysa úr kæruefninu getur hann látið fylgja greinargerð sinni þau málsgögn sem hann telur vanta. [Hann skal samtímis afhenda þeim sem kærði eitt eintak greinargerðar og málsgagna sem henni fylgja.] 3) Kjósi gagnaðili að afhenda gögn af sinni hálfu skal það gert í því horfi sem [Landsréttur] 1) mælir fyrir um.] 4)
    1)L. 49/2016, 12. gr. 2)L. 134/2022, 3. gr. 3)L. 49/2016, 14. gr. 4)L. 78/2015, 14. gr.
149. gr.
[1. [Að liðnum fresti skv. 148. gr. eða þegar greinargerð gagnaðila hefur borist] 1) getur rétturinn lagt dóm á kæruefnið, en jafnan skal þó athuga skjöl sem berast síðar frá aðilum svo framarlega sem málinu er þá ekki lokið.] 2)
2. Nú er kæra ekki gerð þannig úr garði sem segir í 1. mgr. 145. gr. eða málatilbúnaður er annars ófullkominn, og getur þá [Landsréttur] 3) lagt fyrir kæranda að bæta úr því sem er ábótavant innan tiltekins frests. Verði kærandi ekki við því getur [Landsréttur] 3) vísað kærumálinu frá sér.
3. [Landsréttur] 3) getur með þeim fyrirvara, sem hann telur hæfilegan, gefið aðilum kost á að flytja kærumálið munnlega.
    1)L. 76/2019, 6. gr. 2)L. 78/2015, 15. gr. 3)L. 49/2016, 12. gr.
150. gr.
1. [Landsréttur] 1) kveður upp [úrskurð] 2) í kærumálinu eftir skjölum þess og munnlegum flutningi ef því er að skipta. [Úrskurður] 2) skal kveðinn upp svo fljótt sem kostur er.
2. [Landsréttur] 1) kveður á um kærumálskostnað.
3. Að gengnum [úrskurði] 2) sendir [Landsréttur] 1) héraðsdómara endurrit [úrskurðar]. 2) Héraðsdómari tilkynnir aðilum um niðurstöðu kærumáls.
4. Að öðru leyti verður reglum um áfrýjunarmál beitt um kærumál eftir því sem átt getur við.
    1)L. 49/2016, 12. gr. 2)L. 49/2016, 15. gr.

XXV. kafli. [Áfrýjun til Landsréttar.]1)
    1)L. 49/2016, 28. gr.
151. gr.
1. [Með þeim takmörkunum sem leiðir af öðrum ákvæðum þessara laga er aðila heimilt að áfrýja héraðsdómi til [Landsréttar]. 1) Við áfrýjun má leita endurskoðunar á úrskurðum og ákvörðunum sem hafa gengið undir rekstri máls í héraði.
2. Hafi sakarefni verið skipt í máli skv. 31. gr. verður að áfrýja hverjum dómi fyrir sig áður en lengra er haldið við rekstur þess.
3. Áfrýja má dómi í því skyni að honum verði breytt að efni til eða hann staðfestur, hann verði ómerktur og máli vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar eða máli verði vísað frá héraðsdómi.
4. Heimilt er báðum eða öllum aðilum að áfrýja dómi. Skal málið þá flutt í einu lagi fyrir [Landsrétti]. 1)
5. Afsal á rétti til málskots, hvort heldur er berum orðum eða þegjandi, verður ekki gefið fyrr en dómur er genginn í máli í héraði.] 2)
    1)L. 49/2016, 12. gr. 2)L. 38/1994, 5. gr.
152. gr.
[[1. Nú varðar mál fjárkröfu og er það þá skilyrði áfrýjunar að fjárhæð nemi 1.000.000 krónum. Þessari fjárhæð skal breyta um hver áramót miðað við breytingu á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2018, en ráðherra auglýsir í Lögbirtingablaði nýja fjárhæð ekki síðar en 10. desember ár hvert.] 1)
2. Áfrýjunarfjárhæð skal ákveða eftir höfuðstól kröfu í áfrýjunarstefnu. Ef fleiri kröfur en ein eru sóttar saman í máli skal leggja þær saman við ákvörðun áfrýjunarfjárhæðar. Hafi gagnkrafa verið höfð uppi til skuldajafnaðar skal ekki litið til hennar við ákvörðun áfrýjunarfjárhæðar.
3. Ef mál varðar annars konar kröfu en fjárkröfu ákveður [Landsréttur] 2) hvort hagsmunirnir svari til áfrýjunarfjárhæðar. Áður en ákvörðun er tekin getur [Landsréttur] 2) leitað umsagnar málsaðila.
4. Nú nær krafa ekki áfrýjunarfjárhæð eða [Landsréttur] 2) telur hagsmuni ekki nægja til áfrýjunar skv. 3. mgr. og getur hann þá orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja máli ef einhverju eftirtalinna skilyrða er fullnægt:
    a. úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi,
    b. úrslit málsins varða mikilvæga hagsmuni þess sem leitar áfrýjunarleyfis,
    c. ekki er útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi kunni að verða breytt svo að einhverju nemi.] 3)
    1)L. 49/2016, 17. gr. 2)L. 49/2016, 12. gr. 3)L. 38/1994, 6. gr.
153. gr.
1. [Dómi verður áfrýjað til [æðri dóms innan fjögurra vikna] 1) frá uppkvaðningu hans.
2. [Landsréttur] 2) getur orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja dómi sem berst [næstu fjórar vikur] 1) eftir lok frests skv. 1. mgr. ef skilyrðum 4. mgr. 152. gr. er fullnægt, enda sé dráttur á áfrýjun nægilega réttlættur.
3. Nú áfrýjar aðili dómi og er gagnaðila þá heimilt að gagnáfrýja án tillits til áfrýjunarfrests, en stefnu til gagnáfrýjunar verður að gefa út meðan hann nýtur enn frests til að leggja fram greinargerð fyrir [Landsrétti], 2) sbr. 1. mgr. 158. gr.
4. Ef mál, sem hefur verið áfrýjað til [Landsréttar] 2) innan frests skv. 1.–3. mgr., verður ekki þingfest, það fellur þar niður eða því er vísað þaðan frá dómi er aðila heimilt að skjóta því þangað aftur þótt áfrýjunarfrestur sé þá liðinn. [Ber þá að fá áfrýjunarstefnu gefna út á ný innan fjögurra vikna frá því að málið átti að þingfesta eða frá niðurfellingu þess eða frávísun og á hún ekki við um gagnáfrýjunarstefnu nema áfrýjunarstefna í aðalsök hafi verið gefin út að nýju eða að gagnsök hafi verið vísað frá Landsrétti.] 3) Þessari heimild verður ekki beitt oftar en einu sinni í máli.] 4)
    1)L. 49/2016, 18. gr. 2)L. 49/2016, 12. gr. 3)L. 134/2022, 4. gr. 4)L. 38/1994, 7. gr.
154. gr.
1. [Sá sem leitar áfrýjunarleyfis skv. 152. eða 153. gr. skal senda [Landsrétti] 1) skriflega umsókn um það ásamt áfrýjunarstefnu sem hann vill fá gefna út og endurriti héraðsdóms. Í umsókninni skal rökstutt ítarlega hvernig umsækjandi telur skilyrðum fyrir áfrýjunarleyfi fullnægt.
2. [Landsréttur] 1) getur gefið öðrum málsaðilum kost á að tjá sig um umsókn áður en ákvörðun er tekin.
3. Synji [Landsréttur] 1) um áfrýjunarleyfi getur sami aðili ekki sótt um það öðru sinni.
4. Nú er áfrýjunarleyfi veitt og skal þá gefa út áfrýjunarstefnuna sem fylgdi umsókn og árita hana um leyfisveitinguna. [Landsréttur] 1) verður ekki krafinn um rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun.
5. Ef synjað er um áfrýjunarleyfi skal þeim sem sótti um það tilkynnt bréflega um þá niðurstöðu. Í tilkynningunni skal greint frá ástæðum fyrir synjuninni.] 2)
    1)L. 49/2016, 12. gr. 2)L. 38/1994, 8. gr.
155. gr.
1. [Nú vill aðili áfrýja dómi [héraðsdóms] 1) og leggur hann þá fyrir [skrifstofu [Landsréttar] 1)] 2) áfrýjunarstefnu ásamt endurriti af dóminum. Í áfrýjunarstefnu skal greina:
    a. heiti og númer sem málið bar fyrir héraðsdómi, fyrir hverjum héraðsdómstóli var leyst úr málinu og hvenær dómur var kveðinn upp í því,
    b. nöfn aðila, kennitölu og heimili eða dvalarstað, svo og nöfn fyrirsvarsmanna þeirra, ef því er að skipta, stöðu þeirra og heimili eða dvalarstað,
    c. hver eða hverjir flytji málið fyrir áfrýjanda,
    d. í hverju skyni áfrýjað er og hverjar dómkröfur áfrýjandi gerir,
    [e.3)], 1)
    [f.] 1) [hvenær stefndi verði í síðasta lagi að tilkynna Landsrétti að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum í málinu, en skrifstofa Landsréttar ákveður dagsetningu í þessu skyni við útgáfu stefnu; slík dagsetning skal þó ekki ákveðin að sinni ef áfrýjandi óskar eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja máli beint til Hæstaréttar, sbr. 175. gr.], 1)
    [g.] 1) hverju það varði að stefndi komi ekki fram tilkynningu [skv. f-lið], 1)
    [h. að áfrýjandi óski eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja máli beint til Hæstaréttar]. 1)
2. Afhenda skal [skrifstofu [Landsréttar] 4)] 2) tvö eintök af áfrýjunarstefnu sem [Landsréttur] 4) fær haldið eftir.
3. [Synjað skal um útgáfu áfrýjunarstefnu ef hún telst ekki vera í réttu horfi.] 2) Sé áfrýjunarfrestur að renna út getur [Landsréttur] 1) ákveðið skamman frest handa áfrýjanda til að bæta úr áfrýjunarstefnu og má þá gefa hana út án áfrýjunarleyfis ef henni er framvísað til útgáfu á ný í réttu horfi innan þess tíma þótt áfrýjunarfrestur sé þá liðinn. Frestur í þessu skyni skal ekki vera lengri en ein vika og verður aðeins veittur í eitt skipti. Áfrýjandi getur krafist ákvörðunar [Landsréttar] 1) um synjun … 2) um útgáfu áfrýjunarstefnu.
4. [Skrifstofa [Landsréttar] 4)] 2) gefur út áfrýjunarstefnu í nafni dómsins.
5. Áfrýjunarstefnu verður að birta ekki síðar en viku áður en frestur handa stefnda [skv. f-lið] 1) 1. mgr. er á enda. Að öðru leyti gilda ákvæði XIII. kafla um birtingu áfrýjunarstefnu.] 5)
    1)L. 49/2016, 19. gr. 2)L. 15/1998, 36. gr. 3)L. 76/2019, 7. gr. 4)L. 49/2016, 12. gr. 5)L. 38/1994, 9. gr.
156. gr.
[[1. Eftir birtingu áfrýjunarstefnu en áður en fresti stefnda skv. f-lið 1. mgr. 155. gr. lýkur skal áfrýjandi afhenda Landsrétti stefnuna ásamt sönnun fyrir birtingu hennar, svo og greinargerð af sinni hálfu. Einnig skal hann þá skila málsgögnum í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður en til þeirra teljast endurrit, þar á meðal af munnlegum framburði fyrir héraðsdómi, svo og þau málsskjöl … 1) sem áfrýjandi hyggst byggja mál sitt á fyrir Landsrétti og liggja þegar fyrir. Mál er þá þingfest fyrir Landsrétti. Áfrýjandi skal eigi síðar en við þingfestingu afhenda stefnda eintak málsgagna sem lögð eru fram fyrir Landsrétti. [Héraðsdómstóll skal afhenda Landsrétti hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði í málinu.] 1)] 2)
2. Í greinargerð áfrýjanda skal koma fram:
    a. Í hverju skyni sé áfrýjað og hvers áfrýjandi krefjist nákvæmlega fyrir [Landsrétti], 3) svo og hvort einnig sé áfrýjað til að fá hnekkt tilteknum úrskurði eða ákvörðun héraðsdómara.
    b. Málsástæður sem áfrýjandi ber fyrir sig fyrir [Landsrétti]. 2) Lýsing þeirra skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála á hverju áfrýjun sé byggð, en eftir atvikum getur áfrýjandi vísað um þær til tiltekinna skjala málsins [sem og hljóð- og myndupptaka af munnlegum framburði fyrir héraðsdómi]. 2) Felli áfrýjandi sig ekki við lýsingu annarra atvika í héraðsdómi skal hann á sama hátt greina frá hvernig hann telji þeim réttilega lýst.
    c. Tilvísun til helstu réttarreglna sem áfrýjandi byggir málatilbúnað sinn á fyrir [Landsrétti]. 3)
    d. Gögn sem áfrýjandi leggur þegar fram fyrir [Landsrétti], 3) svo og gögn sem hann telur sig þurfa að afla eftir þann tíma, [svo sem matsgerðar sem hann hyggst afla fyrir Landsrétti]. 2)
    [e. Hverjir áfrýjandi telur nauðsynlegt að gefi aðila- og vitnaskýrslur eða viðbótarskýrslur fyrir Landsrétti ásamt rökstuðningi þar að lútandi, þar á meðal fyrir því hvers vegna ekki sé nægilegt að byggja á upptökum, sbr. 3. mgr. 11. gr., hafi aðili eða vitni gefið skýrslu fyrir héraðsdómi. Jafnframt skal koma fram hvaða upptökur eða hluta af upptökum af aðila- og vitnaskýrslum fyrir héraðsdómi áfrýjandi telur nauðsynlegt að spila við aðalmeðferð málsins vegna endurmats á sönnunargildi þeirra.] 2)
3. Þegar mál hefur verið þingfest beinir [skrifstofa [Landsréttar] 3)] 4) því til héraðsdómstólsins, þar sem var leyst úr máli, að afhenda [Landsrétti] 3) dómsgerðir.
4. [Landsréttur] 3) setur nánari reglur 5) um frágang málsgagna og dómsgerða.] 6)
    1)L. 76/2019, 8. gr. 2)L. 49/2016, 20. gr. 3)L. 49/2016, 12. gr. 4)L. 15/1998, 36. gr. 5) Rgl. 461/1994. Rgl. 2/2018. 6)L. 38/1994, 10. gr.
[157. gr.
1. Nú lætur áfrýjandi undir höfuð leggjast að afhenda [Landsrétti] 1) áfrýjunarstefnu, greinargerð eða málsgögn samkvæmt fyrirmælum 156. gr. og verður þá ekki frekar af máli.
2. Ef ekki er sótt þing af hálfu áfrýjanda á síðara stigi verður málið fellt niður með dómi. Hafi stefndi skilað greinargerð í málinu má dæma honum málskostnað úr hendi áfrýjanda.] 2)
    1)L. 49/2016, 12. gr. 2)L. 38/1994, 11. gr.
[158. gr.
[1. Nú hyggst stefndi skila greinargerð í máli og skal þá bréfleg tilkynning hans um það berast Landsrétti innan frests sem honum var settur í þessu skyni í áfrýjunarstefnu. Þegar mál er þingfest ákveður skrifstofa Landsréttar stefnda frest í fjórar til sex vikur til að skila greinargerð. [Þó má lengja frest sem samkvæmt því rynni út á tímabilunum frá og með 15. júlí til og með 14. ágúst, frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska sem svarar þeim dagafjölda.] 1) Áfrýjanda skal tilkynnt um þann frest sem stefnda er veittur. Skal stefndi senda áfrýjanda eintak af greinargerð og öðrum málsgögnum sem hann leggur fram.] 2)
2. Gagnáfrýjun veitir ekki stefnda rétt til sjálfstæðs frests.
3. Berist [Landsrétti] 3) ekki tilkynning skv. 1. mgr. eða skili stefndi ekki greinargerð innan þess frests sem honum hefur verið settur skal litið svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Skal málið þá dómtekið, en fyrst má þó veita áfrýjanda skamman frest til að ljúka gagnaöflun sem hann hefur boðað í greinargerð. [Landsréttur] 3) kveður upp dóm í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna [og að jafnaði] 4) án munnlegs flutnings.
4. Hafi stefndi skilað greinargerð en þingsókn fellur niður af hans hálfu á síðara stigi máls má gefa áfrýjanda kost á að svara vörnum hans í skriflegri sókn og ljúka gagnaöflun. Skal málið síðan dómtekið og dómur lagður á það eftir framkomnum kröfum, gögnum og sókn áfrýjanda með tilliti til þess sem hefur komið fram af hálfu stefnda.
5. Nú hefur stefndi ekki skilað greinargerð og getur þá [Landsréttur] 3) allt að einu heimilað honum að taka til varna í máli með eða án samþykkis áfrýjanda, enda séu miklir hagsmunir í húfi fyrir hann og vanræksla hans þyki afsakanleg. Eins má fara að ef þingsókn stefnda fellur niður á síðara stigi máls.] 5)
    1)L. 134/2022, 5. gr. 2)L. 49/2016, 21. gr. 3)L. 49/2016, 12. gr. 4)L. 18/2019, 2. gr. 5)L. 38/1994, 12. gr.
[159. gr.
1. Í greinargerð stefnda skal koma fram:
    a. hver eða hverjir flytji málið fyrir stefnda,
    b. kröfugerð stefnda, en í þeim efnum skal skýrlega tekið fram hvort og þá hvers vegna hann breyti kröfum frá þeim sem hann gerði í héraði, svo og hvort hann samþykki kröfur áfrýjanda í einhverjum atriðum og þá nákvæmlega hverjum,
    c. málsástæður sem stefndi ber fyrir sig fyrir [Landsrétti], 1) en lýsing þeirra skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála á hverju hann byggi. Felli stefndi sig ekki við lýsingu annarra atvika máls í héraðsdómi eða eftir atvikum áfrýjunarstefnu skal hann geta á sama hátt hvernig hann telji atvikum réttilega lýst,
    d. tilvísun til helstu réttarreglna sem stefndi byggir málatilbúnað sinn á fyrir [Landsrétti], 1)
    e. athugasemdir við málatilbúnað áfrýjanda ef þeirra er þörf,
    f. gögn sem stefndi telur sig þurfa að afla síðar,
    [g. hverjir stefndi telur nauðsynlegt að gefi aðila- og vitnaskýrslur eða viðbótarskýrslur fyrir Landsrétti ásamt rökstuðningi þar að lútandi, þar á meðal fyrir því hvers vegna ekki sé nægilegt að byggja á upptökum, sbr. 3. mgr. 11. gr., hafi aðili eða vitni gefið skýrslu fyrir héraðsdómi; jafnframt skal koma fram hvaða upptökur eða hluta af upptökum af aðila- og vitnaskýrslum fyrir héraðsdómi stefndi telji nauðsynlegt að spila við aðalmeðferð málsins vegna endurmats á sönnunargildi þeirra]. 2)
[2. Með greinargerð skal stefndi afhenda málsgögn í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður, en til þeirra teljast þau málsskjöl og hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði fyrir héraðsdómi sem hann hyggst byggja mál sitt á fyrir Landsrétti og liggja þegar fyrir, enda hafi áfrýjandi ekki þegar afhent þessi gögn.] 2)
3. Ákvæði 4. mgr. 156. gr. gilda um málsgögn stefnda.] 3)
    1)L. 49/2016, 12. gr. 2)L. 49/2016, 22. gr. 3)L. 38/1994, 13. gr.
[160. gr.
[1. Áfrýjanda skal tilkynnt þegar Landsrétti hefur borist greinargerð og málsgögn stefnda. Hafi aðilar ekki þegar lýst gagnaöflun lokið skal þeim um leið veittur sameiginlegur frestur til frekari gagnaöflunar. Sá frestur skal að jafnaði ekki vera lengri en einn mánuður. Hvor aðili um sig skal afhenda í einu lagi ný gögn sín í frumriti og ljósrit eða eftirrit þeirra í sama búningi og segir í 156. gr. og 159. gr. Aðilar skulu jafnframt senda gagnaðila eftirrit gagnanna. Að liðnum fresti telst öflun sýnilegra sönnunargagna sjálfkrafa lokið nema áður hafi verið fallist á skriflega ósk aðila um lengri frest eða dómurinn beinir því síðar til aðila að hann megi afla tiltekinna gagna. Landsréttur getur þó heimilað aðila að leggja fram ný gögn eftir lok gagnaöflunar ef ekki var unnt að afla þeirra fyrr eða atvik hafa breyst svo að máli skiptir eftir þann tíma.] 1)
2. Strax og gagnaöflun er lokið skal hvor aðili um sig tilkynna [Landsrétti] 1) hve langan tíma hann áætli að hann þurfi til að flytja munnlega málflutningsræðu í málinu [og til að taka þær skýrslur sem hann hefur óskað eftir fyrir Landsrétti]. 1)
[3. Ef tilefni er til tekur Landsréttur mál fyrir á dómþingi til að ráða til lykta atriðum varðandi rekstur þess, þ.m.t. gagnaöflun og framlagningu gagna, hvaða skýrslutökur verði heimilaðar fyrir Landsrétti og hvaða upptökur verði spilaðar við aðalmeðferð. Skulu aðilar kvaddir fyrir dóm með hæfilegum fyrirvara í þessu skyni. Dómsformaður tekur að jafnaði einn fyrir mál í þessu skyni og tekur einn ákvarðanir varðandi rekstur þess sem ekki eru kæranlegar.] 1)] 2)
    1)L. 49/2016, 23. gr. 2)L. 38/1994, 14. gr.
[161. gr.
[1. Þegar gagnaöflun er lokið í máli þar sem stefndi skilar greinargerð og þegar ráðið hefur verið til lykta atriðum varðandi rekstur þess ákveður Landsréttur hvenær það verði flutt og tilkynnir hvort og þá hvaða aðila- og vitnaskýrslur verði teknar fyrir dóminum og hvaða tími sé áætlaður í því skyni og fyrir málflutning hvers aðila. Skal aðilum tilkynnt um það með ekki skemmri en tveggja vikna fyrirvara. Um tilhögun skýrslutöku fer að öðru leyti eftir ákvæðum VII. og VIII. kafla.
2. Ef hafðar eru uppi í máli fyrir Landsrétti kröfur um ómerkingu héraðsdóms, frávísun frá héraðsdómi, frávísun frá Landsrétti eða niðurfellingu máls, eða Landsréttur telur að vera kunni á máli ágallar sem geti leitt til sömu niðurstöðu þótt slíkar kröfur séu ekki gerðar, skal Landsréttur innan mánaðar frá því að máli er úthlutað láta flytja mál um formsatriði þess áður en það er tekið til frekari meðferðar að efni til. Dómsformaður getur þó ákveðið að mál verði flutt síðar um formsatriði sérstaklega eða í einu lagi um formsatriði og efni.] 1)
3. Ef stefndi hefur skilað greinargerð í máli verður það flutt munnlega. [Landsréttur] 2) getur þó ákveðið að mál verði skriflega flutt ef sérstakar ástæður mæla með því. [Landsréttur] 2) getur einnig tekið til greina samhljóða óskir aðila um að málið verði dómtekið án sérstaks málflutnings.
4. Um leið og boðað er til málflutnings getur [Landsréttur] 2) beint til aðila að þeir afhendi hvor um sig með tilteknum fyrirvara stutt yfirlit um atvik máls í tímaröð, málsástæður sínar og tilvísanir til réttarreglna, svo og um tilvitnanir í fræðirit og dóma sem þeir hyggjast styðjast við í málflutningi.
5. [Landsréttur] 2) getur takmarkað ræðutíma aðila við munnlegan flutning máls. Þegar boðað er til málflutnings má taka fram hve langan tíma aðilar fá hvor um sig til umráða.] 3)
    1)L. 49/2016, 24. gr. 2)L. 49/2016, 12. gr. 3)L. 38/1994, 15. gr.
[162. gr.
[1. Við upphaf aðalmeðferðar á dómþingi skal gerð grein fyrir dómsorði héraðsdóms og áfrýjunarstefnu að því leyti sem dómsformaður telur þess þörf til skýringar á málflutningi. Við aðalmeðferð skulu að jafnaði fara fram í einni lotu skýrslutökur og munnlegur flutningur máls. Fyrst er horft og hlustað á upptökur af aðila- og vitnaskýrslum fyrir héraðsdómi að því leyti sem Landsréttur hefur þegar ákveðið. Því næst eru teknar skýrslur af aðilum og vitnum sem ekki gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi eða málsaðilar hafa óskað eftir að gefi viðbótarskýrslu og Landsréttur telur að geti haft þýðingu við úrlausn málsins. Að því loknu verða málflutningsræður fluttar. Jafnan skal gengið á vettvang í upphafi aðalmeðferðar ef þurfa þykir.
2. Frumræða verður fyrst flutt af hálfu áfrýjanda og síðan af hálfu stefnda nema dómsformaður hafi ákveðið aðra röð og aðilum verið það tilkynnt við boðun til málflutnings. Eftir frumræður skal gefinn kostur á að fram komi stutt andsvör af hálfu hvors aðila í sömu röð. Flytji lögmaður málið af hálfu aðila getur dómsformaður heimilað aðilanum sjálfum eða fyrirsvarsmanni hans að koma að stuttum athugasemdum að loknum andsvörum lögmanns hans.] 1)
3. Í málflutningi skal gera grein fyrir kröfum, í hverju ágreiningsefni aðilanna felast, málsástæðum og öðrum röksemdum fyrir kröfum. Skal forðast málalengingar og málflutningi beint að þeim atriðum sem ágreiningur er um eða nauðsynlegt er að fjalla um til að varpa ljósi á ágreiningsefni.
4. [Dómsformaður] 1) stýrir þinghaldi. Hann getur krafist að málflytjandi haldi sig við efnið og láti vera að fjalla um þá þætti máls sem ágreiningur er ekki um eða ástæðulaust er af öðrum sökum að gera frekari grein fyrir. [Dómsformaður] 1) getur stöðvað málflutning ef ræður verða langar úr hófi fram eða sett honum tímatakmörk og við þau bundið enda á málflutning.
5. Að loknum málflutningi tekur [Landsréttur] 2) málið til dóms.] 3)
    1)L. 49/2016, 25. gr. 2)L. 49/2016, 12. gr. 3)L. 38/1994, 16. gr.
[163. gr.
1. Dómar [Landsréttar] 1) skulu byggðir á því sem hefur komið fram í máli og er sannað eða viðurkennt. Ákvæði 111. gr. gilda um dóma [Landsréttar]. 1)
2. Nú hefur aðili borið fram kröfur eða málsástæður sem hann hafði ekki uppi í héraði og getur þá [Landsréttur] 1) byggt á þeim við úrlausn máls ef þær hafa komið fram í greinargerð aðilans, grundvelli máls er ekki raskað á þann hátt, afsakanlegt er að þær voru ekki hafðar uppi í héraði og það yrði aðilanum til réttarspjalla að ekki yrði tekið tillit til þeirra.] 2)
    1)L. 49/2016, 12. gr. 2)L. 38/1994, 17. gr.
[164. gr.
[1. Að því leyti sem önnur ákvæði laga þessara mæla ekki á annan veg og ágreiningur er ekki uppi tekur Landsréttur afstöðu til atriða sem varða rekstur máls fyrir Landsrétti með ákvörðun. Slík atriði má einnig leiða til lykta með ákvörðun þótt ágreiningur sé um þau ef ágreiningsefnið sætir ekki kæru til Hæstaréttar eða úrlausn um það leiðir ekki til loka máls fyrir dóminum en í slíkum tilvikum skal kveðinn upp rökstuddur úrskurður. Ákvörðun verður ekki rökstudd sérstaklega en um efni hennar skal getið í þingbók eftir þörfum.
2. Landsréttur kveður upp úrskurð í kærumáli en þó skal kveðinn upp dómur þegar svo er mælt fyrir um í öðrum lögum. Feli úrlausn Landsréttar í áfrýjunarmáli í sér lyktir máls án þess að það hafi verið flutt um efni skal kveðinn upp úrskurður. Úrskurð skal kveða upp svo fljótt sem verða má. Ef áfrýjunarmál er aðeins flutt um efni eða samhliða um form og efni kveður Landsréttur upp dóm hver svo sem niðurstaða málsins er.
3. Dómar og úrskurðir Landsréttar skulu rökstuddir. Ef mál er fellt niður eða því er vísað frá Landsrétti skal þó aðeins getið um ástæður þess í úrskurði eða dómi, svo og um málskostnað ef því er að skipta. Sama gildir ef héraðsdómur er ómerktur og máli vísað heim eða því er vísað frá héraðsdómi. Sé í dómi kveðið á um önnur málalok en að framan getur skal greina þar frá kröfum aðila eftir því sem þörf er á svo að niðurstaða verði skýr. Að því leyti sem greinargerð um málsatvik er ábótavant í héraðsdómi skal bætt úr því í dómi Landsréttar. Ef og að því leyti sem niðurstöðu héraðsdóms er breytt skal það rökstutt í dómi Landsréttar. Fallist Landsréttur á niðurstöðu héraðsdóms en ekki á röksemdir fyrir henni getur hann greint frá rökum sínum eftir því sem þurfa þykir.] 1)
4. Um dóma [Landsréttar] 2) gilda að öðru leyti ákvæði 114. gr. eftir því sem getur átt við.] 3)
    1)L. 49/2016, 26. gr. 2)L. 49/2016, 12. gr. 3)L. 38/1994, 18. gr.
[165. gr.
1. Dóm skal kveða upp svo fljótt sem er unnt eftir að mál er dómtekið og aldrei síðar en þegar fjórar vikur eru liðnar frá því. Verði því ekki komið við og hafi mál verið munnlega flutt skal endurtaka málflutning að því leyti sem [Landsrétti] 1) þykir nauðsynlegt.
[2. Strax eftir dómtöku máls skulu dómarar ræða með sér fyrir luktum dyrum röksemdir og niðurstöðu dóms. Dómsformaður er frummælandi á þeim fundi, stýrir honum, ber fram spurningar, stuðlar að því að álit hvers dómara komi þar sem skýrast fram og telur atkvæði þeirra. Afl atkvæða ræður úrslitum. Að lokinni umræðu semur dómsformaður atkvæði að dómi. Greinist dómarar í meiri og minni hluta semur dómsformaður atkvæði fyrir þann hluta sem hann heyrir til, en hinir dómararnir ákveða hver þeirra semji atkvæði þeirra, myndi þeir meiri hluta. Landsréttardómari sem myndar meiri hluta með sérfróðum meðdómsmanni semur þó atkvæði. Dómari, sem greiðir atkvæði með ómerkingu héraðsdóms eða frávísun máls og verður í minni hluta, verður einnig að greiða atkvæði um efni máls. Dómarar ganga í sameiningu frá dómi, með eða án sératkvæða.] 2)
3. Við uppkvaðningu dóms skal lesa upp dómsorð í heyranda hljóði á dómþingi eftir því sem þörf þykir. Ef sératkvæði er í dómi skal þess einnig getið.
4. … 3)] 4)
    1)L. 49/2016, 12. gr. 2)L. 49/2016, 27. gr. 3)L. 15/1998, 35. gr. 4)L. 38/1994, 19. gr.
[166. gr.
Um meðferð áfrýjunarmála fer að öðru leyti eftir reglum þessara laga um meðferð mála í héraði eftir því sem á við.] 1)
    1)L. 38/1994, 20. gr.

[XXVI. kafli. Kæra til Hæstaréttar.]1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[167. gr.
1. [Dómsathafnir] 1) Landsréttar um eftirfarandi sæta kæru til Hæstaréttar:
    a. frávísun frá héraðsdómi eða Landsrétti eða niðurfellingu máls að hluta eða að öllu leyti fyrir héraðsdómi eða Landsrétti [ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms], 1)
    b. hvort dómari Landsréttar víki sæti í máli,
    c. málskostnaðartryggingu fyrir Landsrétti,
    d. [úrskurð um] 1) réttarfarssekt fyrir Landsrétti,
    e. skyldu vitnis skv. 53. gr. til að svara spurningu.
2. Unnt er að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar í kærumálum þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Við mat á því hvort Hæstiréttur eigi að samþykkja að taka slíkt kæruefni til meðferðar skal líta til þess hvort kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, hafi fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Þá getur Hæstiréttur tekið kæruefni til meðferðar ef ástæða er til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni.
[3. Unnt er að sækja um leyfi til að kæra til Hæstaréttar úrskurð Landsréttar um önnur atriði en í 1. mgr. greinir. Við mat á því hvort Hæstiréttur eigi að samþykkja að taka slíkt kæruefni til meðferðar skal líta til þess hvort kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, hafi fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Þá getur Hæstiréttur tekið kæruefni til meðferðar ef ástæða er til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni.] 2)
[4.] 2) Hæstiréttur getur þó á hvaða stigi máls sem er synjað að taka kæruefni skv. [1., 2. og 3. mgr.] 2) til meðferðar ef rétturinn telur kæru tilefnislausa eða augljóslega setta fram í þeim tilgangi að tefja framgang máls.] 3)
    1)L. 76/2019, 9. gr. 2)L. 134/2022, 6. gr. 3)L. 49/2016, 29. gr.
[168. gr.
1. Nú vill maður kæra eða leita leyfis til að kæra dómsathöfn Landsréttar og afhendir hann þá Landsrétti skriflega kæru, [ef við á með] 1) ósk um kæruleyfi Hæstaréttar, … 1) áður en tvær vikur eru liðnar frá uppkvaðningu dómsathafnar ef hann eða umboðsmaður hans var þá staddur á dómþingi, en ella áður en tvær vikur eru liðnar frá því hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um dómsathöfn.
2. [Kæra, ef við á með ósk um kæruleyfi], 1) frestar frekari framkvæmdum á grundvelli dómsathafnar þar til leyst er úr máli fyrir Hæstarétti.] 2)
    1)L. 76/2019, 10. gr. 2)L. 49/2016, 29. gr.
[169. gr.
1. Í kæru skal greina:
    a. þá dómsathöfn sem er kærð,
    b. rökstuðning fyrir því að kæra skuli tekin til meðferðar,
    c. kröfu um breytingu á [hinni kærðu dómsathöfn], 1)
    d. ástæður sem kæra er reist á.
2. Kæru má styðja með nýjum sönnunargögnum. Vilji kærandi bera ný gögn fyrir sig skal hann greina frá þeim í kæru, svo og hvað hann hyggst sanna með þeim. Slík gögn skulu fylgja kæru í frumriti eða staðfestu endurriti.
3. Kærandi greiðir Landsrétti lögmælt dómgjöld fyrir Hæstarétti.] 2)
    1)L. 76/2019, 11. gr. 2)L. 49/2016, 29. gr.
[170. gr.
1. Nú kemur kæra eða ósk um kæruleyfi og kæra of seint fram og beinir þá Landsréttur því til kæranda að taka hana aftur.
2. Ef kæra fullnægir ekki ákvæðum 1. mgr. 169. gr. brýnir Landsréttur fyrir kæranda að bæta úr göllum á henni.
3. Nú virðist Landsrétti að kæra eða ósk um kæruleyfi sé á engum rökum reist, og getur hann þá ákveðið að kæranda beri að setja tryggingu fyrir tjóni sem kæra kann að baka gagnaðila ef hún veldur frestun málsins. Tryggingu skal setja innan tveggja sólarhringa frá því að kæru er lýst. Ella verður ekki frekar af kærumáli.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[171. gr.
1. Landsréttur sendir kæru, [ef við á með ósk um kæruleyfi], 1) til Hæstaréttar og gagnaðila þess sem kærir svo fljótt sem verða má nema hann kjósi sjálfur að fella kærða dómsathöfn úr gildi.
2. [Sá sem kærir dómsathöfn Landsréttar, eftir atvikum með kæruleyfi, skal senda Hæstarétti þau gögn málsins sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið og í þeim fjölda eintaka sem Hæstiréttur ákveður. Gögnin skal senda innan viku frá því að Landsréttur sendi Hæstarétti kæru eða ósk um kæruleyfi.] 2) Hann skal þá einnig … 3) afhenda Hæstarétti skriflega greinargerð sem geymi kröfur hans og málsástæður sem byggt er á, svo og rökstuðning fyrir því að taka skuli kæru til meðferðar. Hann skal samtímis afhenda gagnaðila eða gagnaðilum eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar. Gögnum skal fylgja skrá um þau og skulu þau vera í því horfi sem Hæstiréttur mælir fyrir um.
[3. Nú afhendir sá er kærir, [ef við á með ósk um kæruleyfi], 1) ekki kærumálsgögn til Hæstaréttar innan þess frests sem greinir í 2. mgr. og verður þá ekki frekar af máli.] 3)
4. Hæstiréttur setur nánari reglur 4) um frágang málsgagna í kærumálum.] 5)
    1)L. 76/2019, 12. gr. 2)L. 134/2022, 7. gr. 3)L. 90/2017, 6. gr. 4) Rgl. 140/2018. 5)L. 49/2016, 29. gr.
[172. gr.
Þegar sá sem kærir úrskurð eða dómsathöfn eða óskar eftir kæruleyfi hefur afhent Hæstarétti málsgögn skal gagnaðilinn eiga þess kost að skila innan viku til Hæstaréttar skriflegri greinargerð sem geymi afstöðu hans til kæruefnis, kröfur og málsástæður sem byggt er á og eftir atvikum afstöðu hans til þess hvort orðið verði við ósk um kæruleyfi. [Þó má lengja frest sem samkvæmt því rynni út á tímabilunum frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska sem svarar þeim dagafjölda.] 1) Telji hann skorta á að kærandi hafi afhent Hæstarétti þau gögn máls sem þörf sé á til að leysa úr kæruefninu getur hann látið fylgja greinargerð sinni þau málsgögn sem hann telur vanta. Hann skal samtímis afhenda kæranda eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar. Kjósi gagnaðili að afhenda gögn af sinni hálfu skal það gert í því horfi sem Hæstiréttur mælir fyrir um.] 2)
    1)L. 134/2022, 8. gr. 2)L. 49/2016, 29. gr.
[173. gr.
1. [Að liðnum fresti skv. 172. gr. eða þegar greinargerð gagnaðila hefur borist] 1) Hæstarétti getur rétturinn ákveðið hvort kæra verði tekin til meðferðar og eftir atvikum lagt dóm á kæruefnið, en jafnan skal þó athuga skjöl sem berast síðar frá aðilum svo framarlega sem málinu er þá ekki lokið.
2. Nú er kæra ekki gerð þannig úr garði sem segir í 1. mgr. 169. gr. eða málatilbúnaður er annars ófullkominn, og getur þá Hæstiréttur lagt fyrir kæranda að bæta úr því sem er ábótavant innan tiltekins frests. Verði kærandi ekki við því getur Hæstiréttur vísað kærumálinu frá sér.
3. Hæstiréttur getur með þeim fyrirvara sem hann telur hæfilegan gefið aðilum kost á að flytja kærumálið munnlega.] 2)
    1)L. 76/2019, 13. gr. 2)L. 49/2016, 29. gr.
[174. gr.
1. Dómur í kærumáli skal kveðinn upp eftir skjölum þess og munnlegum flutningi ef því er að skipta. Dómur skal kveðinn upp svo fljótt sem kostur er.
2. Hæstiréttur kveður á um kærumálskostnað.
3. Nú telur Hæstiréttur að skilyrði fyrir því að veita kæruleyfi séu ekki uppfyllt og skal málsaðilum, héraðsdómara og Landsrétti þá tilkynnt um það skriflega. [Í tilkynningu skal greint frá ástæðum fyrir synjuninni.] 1)
4. Að gengnum dómi sendir Hæstiréttur Landsrétti [og eftir atvikum héraðsdómara] 1) endurrit dóms. [Hæstiréttur tilkynnir aðilum kærumáls sem hafa látið það til sín taka fyrir réttinum um úrslit þess.] 1)
5. Að öðru leyti verður reglum um áfrýjunarmál beitt um kærumál eftir því sem átt getur við.] 2)
    1)L. 76/2019, 14. gr. 2)L. 49/2016, 29. gr.

[XXVII. kafli. Áfrýjun til Hæstaréttar.]1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[175. gr.
1. Heimilt er aðila að óska eftir leyfi til að áfrýja dómi héraðsdóms beint til Hæstaréttar. [Slíkt leyfi skal ekki veitt nema niðurstaða málsins geti haft fordæmisgildi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða haft verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti.] 1) Þá skal slíkt leyfi ekki veitt ef málsaðili telur þörf á að leiða vitni í málinu eða enn er uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn var fyrir héraðsdómi [eða enn er deilt um staðreyndir sem sérkunnáttu þarf í dómi til að leysa úr]. 1) Hæstiréttur skal gefa öllum málsaðilum kost á að tjá sig um umsókn áður en ákvörðun er tekin.
2. Ósk um leyfi Hæstaréttar til að áfrýja héraðsdómi til Hæstaréttar skal koma fram í áfrýjunarstefnu sem lögð er fyrir Landsrétt. Slík ósk, ásamt áfrýjunarstefnu til Hæstaréttar, skal jafnframt send Hæstarétti í síðasta lagi þegar áfrýjunarstefna er lögð fyrir Landsrétt, sbr. 155. gr. Fallist Hæstiréttur á áfrýjun til réttarins fer um útgáfu áfrýjunarstefnu eftir 179. gr. og um meðferð málsins fyrir Hæstarétti að öðru leyti eftir þessum kafla. Skal áfrýjandi þá þegar í stað tilkynna Landsrétti að Hæstiréttur hafi fallist á áfrýjun beint til réttarins og verður þá ekki meira af máli fyrir Landsrétti. Hafni Hæstiréttur hins vegar óskinni skal áfrýjandi innan viku tilkynna Landsrétti um höfnunina og eftir atvikum óska eftir að áfrýjunarmáli verði fram haldið fyrir Landsrétti. [Landsréttur gefur þá út áfrýjunarstefnu og ákveður] 1) hvenær stefndi verði í síðasta lagi að tilkynna Landsrétti að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum í málinu, sbr. f-lið 1. mgr. 155. gr. og tilkynnir stefnda þá ákvörðun með sannanlegum hætti. Fer þá um meðferð málsins fyrir Landsrétti að öðru leyti eftir XXV. kafla.
3. Hæstiréttur getur afturkallað leyfi til áfrýjunar beint til Hæstaréttar ef í ljós kemur undir rekstri málsins að þörf er á að leiða vitni í málinu eða enn er uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn var fyrir héraðsdómi. Fer þá um frekari áfrýjunarmeðferð eftir lokamálslið 2. mgr.] 2)
    1)L. 134/2022, 9. gr. 2)L. 49/2016, 29. gr.
[176. gr.
1. Heimilt er aðila að óska eftir leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar. [Hæstiréttur ákveður hvort orðið verði við umsókn um áfrýjunarleyfi og má takmarka leyfið við tiltekin atriði máls. Við mat á því hvort fallist verði á beiðni um áfrýjunarleyfi skal líta til þess hvort úrslit máls hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þess sem leitar leyfis.] 1) Þá getur Hæstiréttur veitt slíkt leyfi ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni.
2. Afsal á rétti til málskots til Hæstaréttar, hvort heldur berum orðum eða þegjandi, verður ekki gefið fyrr en dómur er genginn í máli.] 2)
    1)L. 76/2019, 15. gr. 2)L. 49/2016, 29. gr.
[177. gr.
1. Sækja skal um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms.
2. Hæstiréttur getur orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja dómi sem berst næstu fjórar vikur eftir lok frests skv. 1. mgr., enda sé dráttur á áfrýjun nægjanlega réttlættur.
3. Nú er dómi áfrýjað og er gagnaðila þá heimilt að gagnáfrýja án áfrýjunarleyfis og án tillits til áfrýjunarfrests, en stefnu til gagnáfrýjunar verður að gefa út meðan gagnaðili nýtur enn frests til að leggja fram greinargerð fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 182. gr.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[178. gr.
1. Sá sem leitar áfrýjunarleyfis skv. 175. eða 176. gr. skal senda Hæstarétti skriflega umsókn um það ásamt áfrýjunarstefnu sem hann vill fá gefna út og endurriti dómsins. Í umsókninni skal rökstutt hvernig umsækjandi telur skilyrðum fyrir áfrýjunarleyfi fullnægt.
2. Hæstiréttur getur gefið öðrum málsaðilum kost á að tjá sig um umsókn áður en ákvörðun er tekin.
3. Synji Hæstiréttur um áfrýjunarleyfi getur sami aðili ekki sótt um það öðru sinni.
4. Nú er áfrýjunarleyfi veitt og skal þá gefa út áfrýjunarstefnuna sem fylgdi umsókn og árita hana um leyfisveitinguna. Hæstiréttur verður ekki krafinn um rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun.
5. Ef synjað er um áfrýjunarleyfi skal þeim sem sótti um það tilkynnt bréflega um þá niðurstöðu. Í tilkynningunni skal greint frá ástæðum fyrir synjuninni.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[179. gr.
1. Í áfrýjunarstefnu skal greina:
    a. heiti og númer sem málið bar á fyrra dómstigi, fyrir hvaða dómstól var leyst úr málinu og hvenær dómur var kveðinn upp í því,
    b. nöfn aðila, kennitölu og heimili eða dvalarstað, svo og nöfn fyrirsvarsmanna þeirra, ef því er að skipta, stöðu þeirra og heimili eða dvalarstað,
    c. hver eða hverjir flytji málið fyrir áfrýjanda,
    d. í hverju skyni áfrýjað er og hverjar dómkröfur áfrýjandi gerir,
    e. hvenær stefndi verði í síðasta lagi að tilkynna Hæstarétti að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum í málinu en skrifstofa Hæstaréttar ákveður dagsetningu í þessu skyni við útgáfu stefnu,
    f. hverju það varði að stefndi komi ekki fram tilkynningu skv. e-lið.
2. Afhenda skal skrifstofu Hæstaréttar tvö eintök af áfrýjunarstefnu sem Hæstiréttur fær haldið eftir.
3. Skrifstofa Hæstaréttar gefur út áfrýjunarstefnu í nafni dómsins. Synjað skal um útgáfu áfrýjunarstefnu ef hún telst ekki vera í réttu horfi. Getur Hæstiréttur ákveðið skamman frest handa áfrýjanda til að bæta úr áfrýjunarstefnu. Frestur sem veittur er í þessu skyni skal ekki vera lengri en ein vika og verður aðeins veittur í eitt skipti. Áfrýjandi getur krafist ákvörðunar Hæstaréttar um synjun um útgáfu áfrýjunarstefnu.
4. Áfrýjunarstefnu verður að birta ekki síðar en viku áður en frestur handa stefnda, skv. e-lið 1. mgr., er á enda. Að öðru leyti gilda ákvæði XIII. kafla um birtingu áfrýjunarstefnu.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[180. gr.
1. Eftir birtingu áfrýjunarstefnu, en áður en fresti stefnda skv. e-lið 1. mgr. 179. gr. lýkur, skal áfrýjandi afhenda Hæstarétti stefnuna ásamt sönnun fyrir birtingu hennar, svo og greinargerð af sinni hálfu. Einnig skal hann þá skila málsgögnum í þeim fjölda eintaka sem Hæstiréttur ákveður en til þeirra teljast þau málsskjöl og endurrit sem áfrýjandi hyggst byggja mál sitt á fyrir Hæstarétti og liggja þegar fyrir. Mál er þá þingfest fyrir Hæstarétti. Ef mál sem hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar verður ekki þingfest, það fellur þar niður eða því er vísað þaðan frá dómi er aðila heimilt að skjóta því þangað aftur þótt áfrýjunarfrestur sé liðinn. [Ber þá að fá áfrýjunarstefnu gefna út á ný innan fjögurra vikna frá því að málið átti að þingfesta eða frá niðurfellingu þess eða frávísun og á hún ekki við um gagnáfrýjunarstefnu nema áfrýjunarstefna í aðalsök hafi verið gefin út að nýju eða að gagnsök hafi verið vísað frá Hæstarétti.] 1) Þessari heimild verður ekki beitt oftar en einu sinni í máli.
2. Í greinargerð áfrýjanda skal koma fram:
    a. Í hverju skyni sé áfrýjað og hvers áfrýjandi krefjist nákvæmlega fyrir Hæstarétti.
    b. Málsástæður sem áfrýjandi ber fyrir sig fyrir Hæstarétti. Lýsing þeirra skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála á hverju áfrýjun sé byggð, en eftir atvikum getur áfrýjandi vísað um þær til tiltekinna skjala málsins. Felli áfrýjandi sig ekki við lýsingu annarra atvika í hinum áfrýjaða dómi skal hann á sama hátt greina frá hvernig hann telji þeim réttilega lýst.
    c. Tilvísun til helstu réttarreglna sem áfrýjandi byggir málatilbúnað sinn á fyrir Hæstarétti.
    d. Gögn sem áfrýjandi leggur þegar fram fyrir Hæstarétti, svo og gögn sem hann telur sig þurfa að afla eftir þann tíma.
3. Þegar mál hefur verið þingfest beinir skrifstofa Hæstaréttar því til þess dómstóls, þar sem leyst var úr máli, að afhenda Hæstarétti dómsgerðir.
4. Hæstiréttur setur nánari reglur 2) um frágang málsgagna og dómsgerða.] 3)
    1)L. 134/2022, 10. gr. 2) Rgl. 434/2018. 3)L. 49/2016, 29. gr.
[181. gr.
1. Nú lætur áfrýjandi undir höfuð leggjast að afhenda Hæstarétti áfrýjunarstefnu, greinargerð eða málsgögn samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 180. gr. og verður þá ekki frekar af máli.
2. Ef ekki er sótt þing af hálfu áfrýjanda á síðara stigi verður málið fellt niður með dómi. Hafi stefndi skilað greinargerð í málinu má dæma honum málskostnað úr hendi áfrýjanda.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[182. gr.
1. Nú hyggst stefndi skila greinargerð í máli og skal þá bréfleg tilkynning hans um það berast Hæstarétti innan frests sem honum var settur í þessu skyni í áfrýjunarstefnu. Þegar mál er þingfest ákveður skrifstofa Hæstaréttar stefnda frest í fjórar til sex vikur til að skila greinargerð. [Þó má lengja frest sem samkvæmt því rynni út á tímabilunum frá og með 15. júlí til og með 14. ágúst, frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska sem svarar þeim dagafjölda.] 1) Áfrýjanda skal tilkynnt um þann frest sem stefnda er veittur. Áfrýjandi skal eigi síðar en við þingfestingu afhenda stefnda eintak málsgagna sem lögð eru fram fyrir Hæstarétti.
2. Gagnáfrýjun veitir ekki stefnda rétt til sjálfstæðs frests.
3. Berist Hæstarétti ekki tilkynning skv. 1. mgr. eða skili stefndi ekki greinargerð innan þess frests sem honum hefur verið settur skal litið svo á að hann krefjist staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Skal málið þá dómtekið en fyrst má þó veita áfrýjanda skamman frest til að ljúka gagnaöflun sem hann hefur boðað í greinargerð. Hæstiréttur kveður upp dóm í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna [og að jafnaði] 2) án munnlegs flutnings.
4. Hafi stefndi skilað greinargerð en þingsókn fellur niður af hans hálfu á síðara stigi málsins má gefa áfrýjanda kost á að svara vörnum hans í skriflegri sókn og ljúka gagnaöflun. Skal málið síðan dómtekið og dómur lagður á það eftir framkomnum kröfum, gögnum og sókn áfrýjanda með tilliti til þess sem hefur komið fram af hálfu stefnda.
5. Nú hefur stefndi ekki skilað greinargerð og getur þá Hæstiréttur allt að einu heimilað honum að taka til varna í máli með eða án samþykkis áfrýjanda, enda séu miklir hagsmunir í húfi fyrir hann og vanræksla hans þyki afsakanleg. Eins má fara að ef þingsókn stefnda fellur niður á síðara stigi máls.] 3)
    1)L. 134/2022, 11. gr. 2)L. 18/2019, 3. gr. 3)L. 49/2016, 29. gr.
[183. gr.
1. Í greinargerð stefnda skal koma fram:
    a. hver eða hverjir flytji málið fyrir stefnda,
    b. kröfugerð stefnda, en í þeim efnum skal skýrlega tekið fram hvort og þá hvers vegna hann breyti kröfum frá þeim sem hann gerði á fyrra dómstigi, svo og hvort hann samþykki kröfur áfrýjanda í einhverjum atriðum og þá nákvæmlega hverjum,
    c. málsástæður sem stefndi ber fyrir sig fyrir Hæstarétti en lýsing þeirra skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála á hverju hann byggi; felli stefndi sig ekki við lýsingu annarra atvika máls í hinum áfrýjaða dómi eða eftir atvikum áfrýjunarstefnu skal hann geta á sama hátt hvernig hann telji atvikum réttilega lýst,
    d. tilvísun til helstu réttarreglna sem stefndi byggir málatilbúnað sinn á fyrir Hæstarétti,
    e. athugasemdir við málatilbúnað áfrýjanda ef þeirra er þörf,
    f. gögn sem stefndi telur sig þurfa að afla síðar.
2. Með greinargerð skal stefndi afhenda málsgögn í þeim fjölda eintaka sem Hæstiréttur ákveður en til þeirra teljast þau málsskjöl og endurrit sem hann hyggst byggja mál sitt á fyrir Hæstarétti og liggja þegar fyrir, enda hafi áfrýjandi ekki þegar afhent þau. Skal stefndi senda áfrýjanda eintak af greinargerð og öðrum málsgögnum sem hann leggur fram.
3. Ákvæði 4. mgr. 180. gr. gilda um málsgögn stefnda.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[184. gr.
1. Áfrýjanda skal tilkynnt þegar Hæstarétti hefur borist greinargerð og málsgögn stefnda. Hafi aðilar ekki þegar lýst gagnaöflun lokið skal þeim um leið veittur sameiginlegur frestur til frekari gagnaöflunar. Sá frestur skal að jafnaði ekki vera lengri en einn mánuður. Hvor aðili um sig skal afhenda í einu lagi ný gögn sín í frumriti og ljósrit eða eftirrit þeirra í sama búningi og segir í 180. gr. og 183. gr. Hæstiréttur tilkynnir aðilum um gögn sem berast innan þessa frests en að honum liðnum telst gagnaöflun sjálfkrafa lokið nema áður hafi verið fallist á skriflega ósk aðila um lengri frest eða dómurinn beinir því síðar til aðila að hann megi afla tiltekinna gagna. Hæstiréttur getur þó heimilað aðila að leggja fram ný gögn eftir lok gagnaöflunar ef ekki var unnt að afla þeirra fyrr eða atvik hafa breyst svo að máli skiptir eftir þann tíma. Aðilar skulu jafnframt senda gagnaðila eftirrit gagnanna.
2. Strax og gagnaöflun er lokið skal hvor aðili um sig tilkynna Hæstarétti hve langan tíma hann áætli að hann þurfi til að flytja munnlega málflutningsræðu í málinu.
3. Ef þörf krefur tekur Hæstiréttur mál fyrir á dómþingi til að ráða til lykta atriðum varðandi rekstur þess. Skulu aðilar kvaddir fyrir dóm með hæfilegum fyrirvara í þessu skyni.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[185. gr.
1. Þegar gagnaöflun er lokið í máli þar sem stefndi skilar greinargerð ákveður Hæstiréttur hvenær það verði flutt og tilkynnir aðilum um það með hæfilegum fyrirvara.
2. Að jafnaði skal flytja mál um formsatriði þess áður en það verður tekið til frekari meðferðar að efni til. Hæstiréttur getur þó ákveðið að mál verði flutt í einu lagi um formsatriði og efni eða taka formsatriði til úrlausnar án sérstaks málflutnings, enda hafi aðilar þá áður átt kost á að tjá sig um það.
3. Ef stefndi hefur skilað greinargerð í máli verður það flutt munnlega. Hæstiréttur getur þó ákveðið að mál verði skriflega flutt ef sérstakar ástæður mæla með því. Hæstiréttur getur einnig tekið til greina samhljóða óskir aðila um að málið verði dómtekið án sérstaks málflutnings.
4. Um leið og boðað er til málflutnings getur Hæstiréttur beint til aðila að þeir afhendi hvor um sig með tilteknum fyrirvara stutt yfirlit um atvik máls í tímaröð, málsástæður sínar og tilvísanir til réttarreglna, svo og um tilvísanir í fræðirit og dóma sem þeir hyggjast styðjast við í málflutningi.
5. Hæstiréttur getur takmarkað ræðutíma aðila við munnlegan flutning máls. Þegar boðað er til málflutnings má taka fram hve langan tíma aðilar fá hvor um sig til umráða.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[186. gr.
1. Áður en munnlegur málflutningur hefst á dómþingi skal gerð grein fyrir dómsorði hins áfrýjaða dóms og áfrýjunarstefnu að því leyti sem forseti telur þess þörf til skýringar á málflutningi. Að því loknu verða málflutningsræður fluttar.
2. Frumræða verður fyrst flutt af hálfu áfrýjanda og síðan af hálfu stefnda nema forseti hafi ákveðið aðra röð og aðilum verið það tilkynnt við boðun til málflutnings. Eftir frumræður skal gefinn kostur á að fram komi stutt andsvör af hálfu hvors aðila í sömu röð. Flytji lögmaður málið af hálfu aðila getur forseti heimilað aðilanum sjálfum eða fyrirsvarsmanni hans að koma að stuttum athugasemdum að loknum andsvörum lögmanns hans.
3. Í málflutningi skal gera grein fyrir kröfum, í hverju ágreiningsefni aðilanna felast, málsástæðum og öðrum röksemdum fyrir kröfu. Skal forðast málalengingar og málflutningi beint að þeim atriðum sem ágreiningur er um eða nauðsynlegt er að fjalla um til að varpa ljósi á ágreiningsefni.
4. Forseti stýrir þinghaldi. Hann getur krafist að málflytjandi haldi sig við efnið og láti vera að fjalla um þá þætti máls sem ágreiningur er ekki um eða ástæðulaust er af öðrum sökum að gera frekari grein fyrir. Forseti getur stöðvað málflutning ef ræður verða langar úr hófi fram eða sett málflytjanda tímatakmörk og við þau bundið enda á málflutning.
5. Að loknum málflutningi tekur Hæstiréttur málið til dóms.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[187. gr.
1. Dómar Hæstaréttar skulu byggðir á því sem hefur komið fram í máli og er sannað eða viðurkennt. Ákvæði 111. gr. gilda um dóma Hæstaréttar.
2. Nú hefur aðili borið fram kröfur eða málsástæður sem hann hafði ekki uppi á fyrra dómstigi og getur þá Hæstiréttur byggt á þeim við úrlausn máls ef þær hafa komið fram í greinargerð aðilans, grundvelli máls er ekki raskað á þann hátt, afsakanlegt er að þær voru ekki hafðar uppi á fyrra dómstigi og það yrði aðilanum til réttarspjalla að ekki yrði tekið tillit til þeirra.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[188. gr.
1. Að því leyti sem þarf að taka afstöðu til atriða varðandi rekstur máls fyrir Hæstarétti ræður hann þeim til lykta með ákvörðun, hvort sem ágreiningur er um þau milli aðila eða ekki, enda leiði ákvörðunin ekki til loka máls fyrir dóminum. Ákvörðun verður ekki rökstudd sérstaklega en um efni hennar skal getið í þingbók eftir þörfum.
2. Úr öðrum atriðum máls leysir Hæstiréttur með dómi. Ef mál er fellt niður eða því er vísað frá Hæstarétti skal aðeins getið um ástæður þess í dómi, svo og um málskostnað ef því er að skipta. Sama gildir ef dómur er ómerktur og máli vísað heim eða því er vísað frá dómi.
3. Sé kveðið á í dómi um önnur málalok en getur í 2. mgr. skal greina þar frá kröfum aðila eftir því sem þörf er á svo að niðurstaða verði skýr. Að því leyti sem greinargerð um málsatvik er ábótavant í hinum áfrýjaða dómi skal bætt úr því í dómi Hæstaréttar. Ef og að því leyti sem niðurstöðu hins áfrýjaða dóms er breytt skal það rökstutt í dómi Hæstaréttar. Fallist Hæstiréttur á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms en ekki á röksemdir fyrir henni getur hann greint frá rökum sínum eftir því sem þykir þörf.
4. Um dóma Hæstaréttar gilda að öðru leyti ákvæði 114. gr. eftir því sem getur átt við.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[189. gr.
1. Dóm skal kveða upp svo fljótt sem er unnt eftir að mál er dómtekið og aldrei síðar en þegar fjórar vikur eru liðnar frá því. Verði því ekki komið við og hafi mál verið munnlega flutt skal endurtaka málflutning að því leyti sem Hæstarétti þykir nauðsynlegt.
2. Strax eftir dómtöku máls skulu dómarar ræða með sér fyrir luktum dyrum röksemdir og niðurstöðu dóms. Fyrir málflutning felur forseti einum dómara að vera frummælandi á þeim fundi en forseti stýrir þar ráðagerðum, ber fram spurningar, stuðlar að því að álit hvers dómara komi þar sem skýrast fram og telur atkvæði þeirra. Afl atkvæða ræður úrslitum. Að lokinni umræðu felur forseti frummælandanum að semja atkvæði að dómi. Greinist dómarar í meiri og minni hluta semur frummælandinn atkvæði fyrir þann hluta sem hann heyrir til en hinir dómararnir ákveða hver þeirra semji atkvæði þeirra. Dómari, sem greiðir atkvæði með ómerkingu héraðsdóms eða frávísun máls og verður í minni hluta, verður einnig að greiða atkvæði um efni máls. Dómarar ganga í sameiningu frá dómi, með eða án sératkvæða.
3. Við uppkvaðningu dóms skal lesa upp dómsorð í heyranda hljóði á dómþingi eftir því sem þörf þykir. Ef sératkvæði er í dómi skal þess einnig getið.] 1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[190. gr.
Um meðferð áfrýjunarmála fer að öðru leyti eftir reglum þessara laga um meðferð mála [fyrir Landsrétti] 1) eftir því sem á við.] 2)
    1)L. 76/2019, 16. gr. 2)L. 49/2016, 29. gr.

[XXVIII. kafli.]1) Endurupptaka óáfrýjaðs máls.
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[191. gr.]1)
[1. Nú hefur héraðsdómur gengið í máli, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, og getur þá Endurupptökudómur orðið við beiðni um að málið verði endurupptekið í héraði ef skilyrði a- eða b-liðar er fullnægt, enda mæli atvik með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi:
    a. Sterkar líkur eru leiddar að því með nýjum gögnum eða upplýsingum að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki um það kennt og að gögnin eða upplýsingarnar muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.
    b. Sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn eða upplýsingar um annað en málsatvik muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.
2. Aðili getur að jafnaði ekki sótt um endurupptöku máls skv. 1. mgr. oftar en einu sinni nema ný gögn eða upplýsingar hafi komið fram eftir að leyst var úr fyrri beiðni hans og sterkar líkur séu leiddar að því að gögnin eða upplýsingarnar muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.] 2)
    1)L. 49/2016, 29. gr. 2)L. 47/2020, 8. gr.
[192. gr.]1)
1. Skriflegri beiðni um endurupptöku skal beint til [Endurupptökudóms]. 2) Í henni skal rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skulu gögn fylgja henni eftir þörfum.
2. Ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synjar [Endurupptökudómur] 2) þegar í stað um endurupptöku. Að öðrum kosti verða beiðnin og fylgigögn send gagnaðila og hann krafinn um skriflega greinargerð um viðhorf sín innan tiltekins frests. [Málsmeðferð fyrir Endurupptökudómi skal að jafnaði vera skrifleg. Þó getur dómurinn ákveðið munnlega málsmeðferð, þar á meðal munnlegar skýrslutökur. Þegar málsmeðferðin er skrifleg skal Endurupptökudómur, að fenginni greinargerð gagnaðila endurupptökubeiðanda, gefa endurupptökubeiðanda, og eftir atvikum gagnaðila að nýju, kost á að skila skriflegum athugasemdum og frekari gögnum eftir þörfum.] 2)
[3. Endurupptökudómur kveður upp úrskurð um hvort mál verði endurupptekið. Úrlausnir Endurupptökudóms eru endanlegar og verður ekki skotið til annars dómstóls. Úrskurðir dómsins um hvort mál verði endurupptekið skulu vera skriflegir og birtir opinberlega, þar á meðal sérálit minni hluta dómenda ef um það er að ræða. Um birtingu úrskurða fer eftir reglum stjórnar dómstólasýslunnar um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu dómstólanna, sem settar eru á grundvelli ákvæða í lögum um dómstóla.
4. Í úrskurði ber að greina nafn og heimili þess sem beðið hefur um endurupptöku og þann dóm sem beiðst er upptöku á, svo og í stuttu máli á hverju beiðnin er reist. Þá á að koma þar fram stutt yfirlit yfir atvik máls og rökstuðningur fyrir niðurstöðu dómsins sem dregin skal að lokum saman í úrskurðarorð. Ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist er ekki þörf á að greina málsatvik í úrskurði. Að öðru leyti tekur dómurinn afstöðu til atriða, svo sem varðandi meðferð máls, með skriflegri ákvörðun.
5. Fallist dómurinn á beiðni skal hann um leið taka afstöðu til þess hvort áhrif fyrri dóms falli niður meðan málið er rekið. Endurupptaka hindrar ekki aðför eftir dómi nema áhrif hans séu felld niður með þessum hætti.] 2)
[6.] 2) Nú hefur endurupptaka verið ákveðin en útivist verður við nýja meðferð málsins í héraði af hendi þess sem beiddist hennar, og fellur þá frekari meðferð málsins niður þannig að fyrri dómur stendur óhaggaður. Dómur skal hins vegar felldur á málið þótt gagnaðili sæki ekki þing.
[7.] 2) [Um málsmeðferð fyrir Endurupptökudómi, þ.m.t. um ákvörðun málskostnaðar, fer að öðru leyti eftir ákvæðum þessara laga. Gjafsókn verður þó ekki veitt vegna endurupptökumála. Endurupptökudómur setur sér reglur 3) þar sem nánar skal kveðið á um starfsemi hans og meðferð mála fyrir honum að svo miklu leyti sem ekki er mælt fyrir um það í lögum þessum.] 2)
    1)L. 49/2016, 29. gr. 2)L. 47/2020, 9. gr. 3) Rgl. 425/2022.

[XXIX. kafli.]1) [Endurupptaka máls sem hefur verið dæmt í Landsrétti eða Hæstarétti.]2)
    1)L. 49/2016, 29. gr. 2)L. 38/1994, 22. gr.
[[193. gr.]1)
[1. [Endurupptökudómur] 2) getur leyft samkvæmt beiðni aðila að mál sem dæmt hefur verið í Landsrétti eða Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 191. gr. Mál verður ekki endurupptekið í Landsrétti nema frestur til að leita áfrýjunarleyfis til Hæstaréttar sé liðinn eða Hæstiréttur hafi synjað um áfrýjunarleyfi.
2. [Aðili getur að jafnaði ekki sótt um endurupptöku máls skv. 1. mgr. oftar en einu sinni nema ný gögn eða upplýsingar hafi komið fram eftir að leyst var úr fyrri beiðni hans og sterkar líkur séu leiddar að því að gögnin eða upplýsingarnar muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.] 2) Að öðru leyti getur aðili ekki afsalað sér rétti til að beiðast endurupptöku.
3. Ákvæði [1.–5. og 7. mgr.] 2) 192. gr. gilda um beiðni um endurupptöku, meðferð beiðni, ákvörðun um hana og áhrif endurupptöku.
4. Nú hefur endurupptaka verið ákveðin en útivist verður við nýja meðferð málsins fyrir Landsrétti eða Hæstarétti af hendi þess sem beiddist hennar og fellur þá frekari meðferð málsins niður þannig að fyrri dómur stendur óhaggaður. Dómur skal hins vegar felldur á málið þótt gagnaðili sæki ekki þing.
5. Að öðru leyti fer meðferð málsins fram á ný fyrir Landsrétti eða Hæstarétti samkvæmt reglum XXV. eða XXVII. kafla þessara laga eftir því sem á við.] 3)] 4)
    1)L. 49/2016, 29. gr. 2)L. 47/2020, 10. gr. 3)L. 49/2016, 30. gr. 4)L. 38/1994, 22. gr.

7. þáttur. Ýmis ákvæði.
[XXX. kafli.]1) Gildistaka, brottfall laga o.fl.
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[194. gr.]1)
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[195.–197. gr.]1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.

[XXXI. kafli.]1) Ákvæði til bráðabirgða.
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[198.–200. gr.]1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[201. gr.]1)
1. Ákvæði 4. mgr. 96. gr. breyta því ekki að áfrýja má útivistarmáli til æðra dóms ef dómur er kveðinn upp í því fyrir 1. júlí 1992. Gangi dómur í útivistarmáli eftir gildistöku þessara laga verður máli ekki áfrýjað þótt það hafi verið þingfest fyrir þann tíma, en beita má ákvæðum XXIII. kafla til endurupptöku slíks máls í héraði.
2. Hafi áskorunarstefna verið árituð um aðfararhæfi að hætti eldri laga fyrir gildistöku þessara laga má krefjast endurupptöku máls í héraði eftir ákvæðum XXIII. kafla. Áskorunarmáli verður ekki áfrýjað til æðra dóms eftir gildistöku þessara laga.
3. Hafi mál verið þingfest sem áskorunarmál fyrir 1. júlí 1992 og því lýkur með áritun skv. 113. gr. gilda ákvæði 4. mgr. 96. gr. um það.
4. Ákvæði XXVI. kafla gilda án tillits til þess hvenær dómur hefur gengið í máli.
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[202. gr.]1)
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[203. gr.]1)
Áskorunarstefna, sem hefur verið árituð um aðfararhæfi fyrir gildistöku þessara laga, hefur sömu áhrif og áritun á stefnu skv. 113. gr.
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[204. gr.]1)
Nú hefur skuldabréf, sem er gefið út fyrir 1. júlí 1992, að geyma ákvæði um að mál vegna þess megi reka eftir XVII. kafla laga nr. 85/1936, og jafngildir það þá samningi um að slíkt mál verði rekið eftir reglum XVII. kafla þessara laga.
    1)L. 49/2016, 29. gr.
[[205. gr.]1) ] 2)
    1)L. 49/2016, 29. gr. 2)L. 38/1994, 24. gr.
[[206. gr.]1)
Nú hefur aðila verið veitt gjafsókn fyrir héraðsdómi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 fyrir gildistöku laga þessara og skal þá heimilt að veita honum gjafsókn vegna sama máls fyrir Hæstarétti, gangi það þangað.] 2)
    1)L. 49/2016, 29. gr. 2)L. 7/2005, 3. gr.
[[207. gr.]1)2)] 3)
    1)L. 49/2016, 29. gr. 2)Ákvæðið gilti frá 4. júlí 2013 til 1. jan. 2015 skv. l. 80/2013, 2. gr. 3)L. 80/2013, 1. gr.
[208. gr.
1. Þrátt fyrir ákvæði þessara laga getur dómari ákveðið fram til [30. júní 2024] 1) að [þingfesting, aðalmeðferð og önnur þinghöld] 2) fari fram á fjarfundi, enda verði þinghaldi háttað þannig að allir viðkomandi aðilar heyri þau orðaskipti sem fara fram. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila. Skýrslugjöf málsaðila og vitna skal fara fram á fjarfundi með hljóði og mynd ef þess er kostur.
2. Skjöl og sýnileg sönnunargögn sem leggja skal fram vegna reksturs máls samkvæmt lögum þessum teljast fram til [30. júní 2024] 1) afhent dómstól berist þau honum sannanlega rafrænt innan tilskilins frests, enda verði dómstól sendur í pósti og án ástæðulauss dráttar tilskilinn fjöldi eintaka skjalanna og annarra sýnilegra sönnunargagna. Málsaðila er skylt að afhenda gagnaðila samtímis og með sama hætti skjöl og sýnileg sönnunargögn sem þannig eru afhent dómstól.
3. Ákvæði þetta tekur einnig til þinghalda og framlagningar skjala og sýnilegra sönnunargagna í einkamálum sem rekin eru fyrir dómstólum samkvæmt heimild í öðrum lögum að því leyti sem þar er vísað til ákvæða um þinghöld og sönnunarfærslu í lögum um meðferð einkamála.] 3)
    1)L. 98/2023, 4. gr. 2)L. 121/2020, 1. gr. 3)L. 32/2020, 6. gr.