14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Fyrir hönd hreinsunardeildar Alþfl. vil ég leggja nokkur orð í belg, enda hefur hv. 1. þm. Reykv. beinlínis til þess hvatt. Ég er sammála þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni, að auðvitað er það hreint hneyksli að söluverð skuli vera reiknað af útflutningsbótum. Auðvitað er þetta ekkert annað en gróf tilfærsla á fjármunum frá skattgreiðendum í þessu landi og þá ekki síst til hins stóra og mikla Sambands ísl. samvinnufélaga. Og ég vil ganga lengra í þessum efnum og vildi gjarnan hafa um það samvinnu við hv. 1. þm. Reykv., að það sé kannað til hlítar hve mikil þessi fjármunatilfærsla hefur verið og hvað þetta eru miklar upphæðir. Þetta ber auðvitað að stöðva sem allra fyrst. Og það segir sig sjálft, að þetta er meira en fjármunatilfærsla. Þetta dregur úr hvatanum til að leita að hagstæðari mörkuðum og er óskynsamlegt í alla staði. En kjarni málsins er þó sá, að svona á ekki að fara að.

M.ö.o.: hreinsunardeildin tekur undir það með hv. 1. þm. Reykv., að þetta er hreint hneyksli og þessu á að breyta. Og ég ítreka það, að ég vil gjarnan eiga um það samvinnu við hv. 1. þm. Reykv. að þrýsta á um úrlausnir í þessum efnum.