14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, því að því miður var ég bundinn á fundi úti í bæ og heyrði ekki þá umr. sem hér hefur farið fram.

Út af ummælum hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, að þetta fyrirkomulag, sem ríkir í þessum efnum, sé hreint hneyksli, vil ég benda hv. þm. á að þetta fyrirkomulag var upp tekið í tíð viðreisnarstjórnarinnar svokölluðu, og þá var landbrh. Ingólfur Jónsson og viðskrh. Gylfi Þ. Gíslason.

Ég held að það sé nýlunda fyrir Alþ. að verða þess nú vitni að það er ekki hreinsunardeild Alþfl. sem er hér að verki, heldur má kalla hreinsunardeild Alþingis, þar sem hv. 1. þm. Reykv. virðist vera á góðri leið áð ganga í þessa deild.

Ég vil svo í þessu sambandi segja það, að það, sem skiptir höfuðmáli, er hvort sölulaun, sem tekin eru af þessari framleiðslu, eru óeðlilega há eða ekki. Það verður þá að meta það og hvernig á að koma því fyrir svo gott þyki. Hæstv. landbrh. er búinn að svara því, hvernig þetta er, og ég ætla ekki að endurtaka það. Hins vegar ætla ég að endurtaka það sem ég sagði hér þegar síðast var rætt um þetta mál, að áður en Osta- og smjörsalan t.d. tók til starfa var dreifingin fyrir sum kaupfélögin í höndum heildsala hér í Reykjavík og þá tóku þeir í sölulaun 12% af verðinu fyrir að dreifa vörunni. Það þarf að athuga öll þessi mál í samhengi.

Ég vil óska þeim þm. til hamingju með hlutskipti sitt, sem fyrst og fremst vilja beina spjótum sínum að félagsverslun og félagsrekstri í þessu landi. En við munum ræða það á öðrum vettvangi.