18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

139. mál, nýbyggingagjald

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það hefur nú rignt yfir okkur í hv. Nd. að undanförnu ýmsum frv. frá ríkisstj. sem eiga það sameiginlegt, að þar er enn verið að herða skattaálögur á allan almenning í þessu landi. Ríkisstj. stendur nú frammi fyrir því, að gjafmildi hennar og loforðalistar kosta að sjálfsögðu fjármagn og það fjármagn skapar ekki hæstv. ríkisstj. Hún verður að sjálfsögðu að leita í vasa skattborgaranna og láta þá borga brúsann.

Hér er um að ræða, eins og fram hefur komið hjá ræðumönnum stjórnarandstöðunnar fyrr í dag, stórkostlega skattpíningu, þar sem leitað er í hverri smugu að einhverju verðmæti sem hægt er að gera að gjaldstofni, þannig að öruggt sé að ekkert leynist í þessu landi, hvorki kvikt né dautt, sem ekki er hægt að koma höndum yfir með einhverjum hætti af hæstv. ríkisstj.

Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefur lýst afstöðu Sjálfstfl. til þeirra frumvarpa sem hér liggja fyrir, og ég get bætt því við, að að sjálfsögðu er Sjálfstfl. andvígur því gjaldi sem gert er ráð fyrir í þskj. 189 að leggist á nýbyggingar. Það virðist vera dálítið sérstakt fyrir þessi gjöld, að nú er það atvinnureksturinn sem á að standa undir auknum álögum, sá hinn sami atvinnurekstur sem í haust, þegar þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, mátti ekki við neinum nýjum álögum að því er bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar héldu fram. Þetta er sami atvinnureksturinn og ekki þolir að greiða hærri vexti, en þolir allt í einu núna að greiða hærri gjöld til ríkisins.

Það er einkar athyglisvert, að hér er ráðist að húsnæði fyrir skrifstofu- og verslunarrekstur, og ástæðan er, eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh., gegndarlaus fjárfesting í slíku húsnæði. Það væri út af fyrir sig athyglisvert að kanna hvernig stendur á þessu, þ.e.a.s. ef gert er ráð fyrir að hæstv. fjmrh. fari með rétt mál í þessu sambandi. Ég held að svarið við þessu sé ákaflega einfalt, og margir hafa reyndar bent á það hér í þd. þegar umr. áttu sér stað um önnur mál og þá á ég sérstaklega við vaxtamálin. Þar kom greinilega fram að einmitt vegna rangrar vaxtastefnu undanfarin ár hefur það gerst, að menn hafa orðið að verðtryggja eignir sínar með þeim hætti að festa þær í steinsteypu. Þetta hefur að sjálfsögðu leitt til þess, að fjármagnið hefur farið á ákaflega óarðsamar brautir, verið tekið úr rekstri og lagt í járn og steinsteypu.

Ég held að nær hefði verið, ef bregðast átti við þessum vanda, að breyta vaxtastefnunni annars vegar og verðmyndunarkerfinu hins vegar. Nú liggur það samt sem áður fyrir, að ríkisstj, hefur engan áhuga á tillögum Alþfl. eða tillögum Sjálfstfl. um breytingar á vaxtastefnunni annars vegar, og hins vegar hefur verið samþ. hér á Alþ. að fresta um sinn gildistöku laga um verðmyndun. Það væri út af fyrir sig athugunarefni fyrir hæstv. ríkisstj., sem nú situr og leitar með logandi ljósi að alls konar sköttum sem hægt sé að leggja á í þessu þjóðfélagi, hvort ekki sé kominn tími til að leggja skatt á skuldir manna. Sjálfsagt verður það næst, og ég efast ekki um að það verður hægt að finna rök fyrir slíku með nákvæmlega sama hætti og hæstv. fjmrh. færði rök fyrir máli sínu áðan.

Ég vil, herra forseti, fara aðeins örfáum orðum um það frv. sem hér liggur fyrir til umr., þótt ég hafi í og með rætt um önnur frv. sem telja má að hljóti að verða þessu frv. samferða í gegnum þd.

Ég hef lýst því yfir, að við sjálfstæðismenn erum andvígir þessu frv., en gerum ráð fyrir því samt sem áður að stjórnarflokkarnir hafi nú þegar náð samstöðu í málinu og leggi frv. þess vegna fram í sameiningu, en ekki með alls konar fyrirvörum, eins og mikið hefur borið á upp á síðkastið í röðum stjórnarinnar og stjórnarliðanna. En varðandi það frv., sem hér liggur fyrir, held ég að ástæða sé til þess að rekja örfá atriði og fá þá væntanlega skýringar hjá hæstv. fjmrh. á þeim hér á eftir.

Ég vil í fyrsta lagi benda á það, að í 4. gr. frv. er sagt að eindagi nýbyggingagjaldsins miðist við útgáfu byggingarleyfis, og í 6. gr., 2. mgr. og 3. mgr., er sagt frá því, hvernig innheimtan eigi að fara fram og hvenær dráttarvextir leggist á viðkomandi gjöld. Ég bendi á þetta hér vegna þess, að ég tel ákaflega óeðlilegt að gjald sé lagt á eignir sem ekki eru til í landinu, heldur eignir sem eiga eftir að verða til. Það er þess vegna spurning, sem hægt er að vísa til viðkomandi n., hvort ekki sé ástæða til þess, að þetta gjald greiðist ekki áður en byggingarframkvæmdir hefjast, heldur kannske miðist gjaldtakan við visst byggingarstig, t.d. þegar grunnur hafi verið gerður eða hús er fokhelt, en það mundi að sjálfsögðu koma miklu betur út fyrir gjaldþolana.

Þá er ástæða til að benda á að gjaldstofninn er hér auðvitað áætlað verð á húseignum sem eru gjaldstofnar, og það stríðir auðvitað gegn allri réttlætiskennd þess vegna. Þetta ýtir undir það, að menn reyni að komast hjá því að gefa upp fyrirhugaðar framkvæmdir, og ýtir undir það, sem í þessum þingsölum hefur verið kallað neðanjarðarhagkerfi. Þessi lög eru ágætt skóladæmi um það, hvernig á að setja lög til þess að efla neðanjarðarhagkerfið, svo að ég noti hugtak sem aðrir menn en ég eru þekktir fyrir að nota í umr. á Alþ. og í dagblöðum þjóðarinnar.

Í 2. gr. þessa frv, segir, með leyfi forseta: „Íbúðarhúsnæði er undanþegið gjaldskyldu samkv. lögum þessum. Heimilt er ráðh. að undanþiggja ákveðnar tegundir mannvirkja gjaldskyldu.“

Ég vil nú leyfa mér að biðja um nákvæmari upplýsingar en þær sem komu fram hjá hæstv. ráðh. áðan um það, hvernig hann hyggst beita þessari reglugerð. Það hefur margoft verið ásökunarefni af hálfu einstakra hv. þm., að Alþ., sem fer með löggjafar- og fjárveitingavaldið, afhendi slíkt ákvörðunarvald eins og reglugerðarvald í þessu máli til handhafa framkvæmdavaldsins, í þessu sambandi hæstv. fjmrh., þannig að hann fær þar ótiltekin völd til þess að setja reglugerð þar sem alls konar undantekningar geta komið fram. Þess vegna er ástæða til að spyrja hvort hæstv. ráðh. hyggist leggja nýbyggingagjald á þær fasteignir sem eru undanþegnar fasteignaskatti samkv. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga frá 22. mars 1972. Ég held að það væri ástæða til að fá þessar upplýsingar fram nú þegar. Ef það reynist ekki vera sé ég ástæðu til að vinna að gerð brtt. sem annaðhvort kæmi þá fram í n. eða við 2. umr. málsins. Í þeirri von, að hæstv. ráðh. gefi skýr svör um hvernig hann hyggst fara með þessi mál, læt ég máli mínu lokið.