29.03.1979
Sameinað þing: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3714 í B-deild Alþingistíðinda. (2901)

209. mál, heilbrigðisþjónusta

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 417 hef ég leyft mér ásamt hv. 8. landsk. þm. að flytja till. um könnun á vissum þáttum heilbrigðisþjónustunnar með tilliti til hugsanlegs sparnaðar og bættrar þjónustu. Upphaf tillgr. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að fram fari könnun á skipulagi og virkni neðangreindra þátta heilbrigðisþjónustunnar:

1. heimilislækninga og heilsuverndar,

2. sérfræðilæknisþjónustu,

3. þjónustu við sérstaka sjúklingahópa,

4. rekstrar sjúkrahúsa,

5. öldrunarþjónustu og endurhæfingar.“

Svo sem fram kemur í grg. með till. er hún efnislega svipuð till. sem við Sverrir Bergmann læknir, þá varaþm. Framsfl., fluttum á 97. löggjafarþinginu. Þeirri till. var vísað til ríkisstj. En okkur finnst fullkomin ástæða til að flytja þessa till. nú vegna þess að ýmsar aðstæður hafa breyst hér síðustu árin. Við væntum þess, að með bættu skipulagi og breyttu vægi megi ná betri árangri í heilbrigðisþjónustunni en við nú búum við.

Heilsuvernd og heimilislækningar eru fyrsta atriðið sem við leggjum til að farið sé gaumgæfilega ofan í saumana á. Til heilbrigðismála fara nú um 7.5% af okkar þjóðartekjum, þ. e. um 30–40 milljarðar kr. árlega. Það er því þjóðhagslega mjög mikilvægt að þessu fjármagni sé vel varið. Að vernda heilsuna hlýtur að vera hið mikilvægasta verkefni heilsugæslunnar. Hún á að gæta heilsunnar, vernda einstaklinginn gegn líkamlegum og andlegum sjúkdómum. Það er miklum mun auðveldara og ódýrara og þar að auki affarasælla fyrir einstaklinginn að fyrirbyggja heldur en að fresta aðgerðum uns sjúkdómar hafa grafið um sig. Til þessa verkefnis, þ. e. heilsuverndarinnar, notum við þó ekki nema um 1% af því fjármagni sem heilbrigðisþjónustan fær til afnota í dag. Þá er það og viðurkennt að fullkomin og vel skipulögð heimilislæknaþjónusta er árangursrík og forðar fjöldamörgum frá því að þurfa að leggjast inn í sjúkrahús.

Á undanförnum árum hefur verið undirbúin mikil umbót á heilsuvernd og heimilislæknaþjónustu í þessu landi með byggingu heilsugæslustöðva. Gallinn er þó sá að svæði, þar sem um 60% landsmanna búa, hefur að mestu leyti orðið út undan í þessu efni. Þess vegna verða þær umbætur, sem þannig fást, takmarkaðar. Það er alveg augljóst að það er til hagsbóta fyrir alla landsmenn að aukin áhersla verði lögð á að bæta heilsuvernd og aðstöðu til nýtísku heimilislækninga hér á þéttbýlissvæðunum þar sem meiri hluti landsmanna býr. Fyrr þarf ekki að búast við því að allir landsmenn geti notið sjúkrahúsvistar þegar þeir þurfa þess með.

Í sept. s. l. var haldin ráðstefna á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Alma Ata í Sovétríkjunum um heilsuvernd og heimilislæknaþjónustu. Ráðstefnu þessa sóttu fulltrúar frá 134 þjóðum, þ. á m. frá Íslandi. Í ályktun ráðstefnunnar, sem er alllöng, segir m. a., lauslega þýtt:

„Ríkisstjórnir bera ábyrgð á heilsufari þegnanna, sem aðeins er hægt að hafa í lagi með viðunandi heilsufars- og félagslegum aðstæðum. Markmið ríkisstjórna og alþjóðasamtaka ætti að vera það, að um aldamótin byggju allar þjóðir heims við heilsufar er gerði þeim fært að lifa fjárhagslega og félagslega eðlilegu lífi. Heimilislæknaþjónusta er lykillinn að þessu marki.“

Helstu flokkar heilsuverndar eru þessir: Mæðravernd og vernd ungbarna og smábarna. Þessi málaflokkur hefur verið vel ræktur hjá okkur á fjöldamörgum undanförnum árum og áratugum og er vafalaust ein meginorsök þess að við búum nú við gott heilsufar í landinu og lifum lengur en aðrar þjóðir. Þar að auki er skólaeftirlit, íþróttaeftirlit, atvinnusjúkdómaeftirlit og vinnuvernd. Þetta allt saman eru mjög mikilvægir þættir sem miklu fjármagni þarf í framtíðinni að verja til. Þar að auki koma svo áfengis- og tóbaksvarnir, fíkniefnavarnir, ýmiss konar félagsráðgjöf og sjón- og heyrnarvernd, og fleira mætti upp telja. Þessi upptalning gefur okkur þó hugmynd um hið geysiþýðingarmikla verkefni heilsuverndarinnar. Verkefnin eru þar að auki síbreytileg vegna breyttra þjóðfélagshátta og vegna breyttrar þekkingar og neysluvenju þjóðarinnar.

Enn eitt verkefni heilsuverndar, sem hefur vaxandi þýðingu, en vanrækt hefur verið hjá okkur, er heilbrigðisfræðsla. Framfarir í fjölmiðlun hafa skapað geysimikla möguleika til þess að gera fólki grein fyrir heilbrigði og hollustuháttum, fræða það um skaðsemi vissra hluta og gagnsemi annarra. Útvarp og sjónvarp gætu, ef rétt væri á haldið, orðið mikilvirk tæki til eflingar heilsu landsmanna og þannig stuðlað að bættu lífi og bættum fjárhag. Það er hörmulegt að sjá glæsilegar auglýsingar til hvatningar um neyslu á vöru sem vitað er að betra væri að neyta ekki, í stað þess að kynna hollustuhætti með slyngum auglýsingum í þessum hinum sömu fjölmiðlum.

Varðandi þau verkefni heimilislæknisins að vera ráðgjafi og trúnaðarmaður fjölskyldunnar um heilsufar heimilisfólksins hefur það sýnt sig á undanförnum árum, að slíkur aðili veitir heimilinu nauðsynlegt öryggi og fráhvarf frá heimilislæknunum niður í fjölmennar miðstöðvar er vafasöm umbót. Þetta þarf að rannsaka gaumgæfilega og m. a. kynna sér reynslu annarra þjóða í þessum efnum.

Nú er aukinn áhugi hjá okkur á heimilislækningum og nokkur fjöldi ungra lækna er í framhaldsnámi í þessum fræðum. Ætti slíkt að geta orðið til heilla fyrir heilbrigðisþjónustu okkar ef við berum gæfu til að skapa þessum starfsmönnum viðunandi aðstöðu.

Varðandi 2. lið till. okkar, þ. e. um sérfræðitæknisþjónustu, er full ástæða til að rannsaka á hvern hátt mætti nýta sérfræðingana betur, t. d. hvort störf þeirra ættu að fara fram eingöngu á spítölum og göngudeildum þeirra og enn fremur á heilsugæslustöðvum úti á landi, á hvern veg mætti skipuleggja ferðir þeirra út um dreifbýlið. Það ætti að vera mun auðveldara nú heldur en áður var og vafalaust hægt að gera mjög miklar umbætur einmitt á þessu sviði.

Um 3. liðinn, þjónustu við sérstaka sjúklingahópa, má segja hið sama. Göngudeildir sjúkrahúsa geta unnið mun mikilvægara verkefni á þessu sviði en þær hafa gert hingað til ef þeim væri sköpuð betri starfsaðstaða. Enn fremur er ærið verkefni að leita eftir því, hvernig rannsókn og lækning þeirra, sem búa úti á landinu, verði tryggð á þessu sviði. Breyttir atvinnuhættir, ný efni og fleira veldur því, að flokkar vissra sjúkdóma stækka nú og eiga fyrir sér að stækka. Við þessu verður að finna svar og tryggja að sérfræðingar og aðstaða sé fyrir hendi til hjálpar þessu fólki.

4. þáttur till. okkar, þ. e. rekstur sjúkrahúsa, er sá hinn fjárfrekasti, mikilvægur rekstur, flókinn og ýmsar leiðir á því sviði færar. Þar ætti þess vegna raunsæ rannsókn hæfra sérfræðinga að geta leitt til umbóta sem vonandi leiddu til enn betri þjónustu og e. t. v. hægari útgjaldaaukningar en ella. Við dveljum um 1200 þús. daga árlega í sjúkrahúsum. Mikill þjónustu- og kostnaðarmismunur er á sjúkrahúsdvöl í þessu landi okkar eftir því á hvaða heilbrigðisstofnun dvalið er, og væntanlega gæti aukin samvinna og sparnaðaráhugi gefið hvað bestan árangur á þessu sviði. Þótt viðurkenna verði að aukin skipulagning á þessu sviði gæti leitt til enn hærri kostnaðar á legudag á dýrustu sjúkrahúsunum, þá er það þó víst að nýtingin ætti að aukast enn þá meira en kostnaðaraukningunni nemur. Talið er að við eigum nægan rúmafjölda af almennum sjúkrarúmum. En ýmsa hópa vantar tilfinnanlega rúm, t. d. bæklunarsjúklinga og langlegudeildir fyrir aldraða sem vantar hér á Reykjavíkursvæðinu. Miðað við mannfjölda ætti að vera nægur rúmafjöldi úti á landi, og væri verðugt verkefni að athuga hvort ekki mætti létta á sjúkrahúsunum hér á höfuðborgarsvæðinu með aukinni starfsemi sjúkrahúsa úti á öðrum svæðum landsins.

Án efa mundi könnun sem þessi ná til þess, hvort annað rekstrarform kynni að vera heppilegra á sjúkrahúsum en það sem hér er, t. d. hvort ríkið ætti að reka öll sjúkrahúsin eða hvort heilbrigðisráð kjördæma ættu í framtíðinni að vera stjórnunaraðili og fjárhagslega ábyrg fyrir rekstri sjúkrahúsanna þannig að hvert kjördæmi greiddi kostnaðinn af sínum sjúklingum, í þriðja tagi, hvort lífeyrissjóðir gætu í framtíðinni tekið í vaxandi mæli þátt í kostnaðinum við sjúkrahúslegu, og í fjórða lagi, hvort hugsandi væri að félög heilbrigðisstétta tækju að sér að einhverju leyti rekstur sjúkrahúsa.

Endurhæfing og þjónusta við aldraða, síðasta atriðið í till. okkar, gegnir þeirri sérstöðu að hafa lengst af verið rekin að verulegu leyti á vegum félagasamtaka. Þessar greinar eiga það sameiginlegt að hafa verið í meira fjársvelti en aðrir þættir heilbrigðisþjónustunnar og eiga það einnig sameiginlegt að aukning þjónustuþarfar hefur þar vaxið hraðar en á öðrum sviðum. Þetta byggist m. a. á því að meðalaldur okkar hækkar stöðugt og öldruðum fjölgar þess vegna, og það hefur sýnt sig við rannsóknir að þeir, sem eru 60 ára og eldri, þurfa fjórum sinnum meiri læknisþjónustu heldur en þeir sem eru á aldursskeiðinu 20–60 ára, Þess vegna þarf sannarlega rannsóknar við á því, hvað beri að gera til þess að á þessu sviði verði bætt úr bæði fjárþörf og e. t. v. framkvæmdur hagkvæmari rekstur. Flm. ætlast til þess, að það verði sérfræðingar lærðir í heilsuhagfræði sem geri þá könnun sem hér er lögð áhersla á að framkvæmd verði.

Ég legg til, herra forseti, að till. þessari verði við frestun umr. vísað til allshn.