24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4147 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

224. mál, jarðhitaleit og fjarvarmaveitur á Snæfellsnesi og í Dalasýslu

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég held að við þm. Vesturl., sem höfum talað í þessu máli, verðum að heita hæstv. ráðh. fullum stuðningi í tilraunum hans við að afla fjár í þessu skyni, og ég held að við höfum fulla ástæðu til þess. Ég vitna til þess sem hér hefur komið fram um þann jarðhita sem þegar hefur fundist á þessu svæði. Ég vil aðeins bæta við, að á Reykhólum er eitt af meiri háttar jarðhitasvæðum landsins og þess vegna er talað um Breiðafjarðarbelti. Þessir þrír staðir, sem ég nefndi, eru í Dölum og sex á Snæfellsnesi, þó að ekki sé nema einn þeirra norðan fjalls, eins og hæstv. ráðh. gat um. Þá er allvíða að finna hita í Breiðafirðinum sjálfum, m. a. í Oddbjarnarskeri, — hita sem kemur jafnvel ekki upp nema um fjöru, — og undir jökulrótum er ylur sem hægt er að nefna. — Þess vegna teljum við þetta svæði — og erum þar sammála hinum hæfustu vísindamönnum okkar og rannsóknarmönnum — einkar forvitnilegt til nánari rannsókna. Og enn vil ég benda á það, að nú á síðari árum hafa svæði, sem áður voru talin köld að þessu leyti, orðið heit allt í einu við auknar rannsóknir, m. a. Akureyrarsvæðið norðanlands. Og þannig hygg ég að sé um fleiri svæði á voru landi. Þess vegna þakka ég hæstv. ráðh. þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið, og heiti honum stuðningi í þessu máli.