25.04.1979
Neðri deild: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4191 í B-deild Alþingistíðinda. (3291)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans. Ég skil ósköp vel að hann sé áhyggjufullur, hafi þungar áhyggjur af afgreiðslu þessa máls. En ég vil ekki, eins og hv. 1. þm. Reykn. tók fram, kenna hv. fjh.- og viðskn. um þennan seinagang, heldur því, að ekki er samkomulag um afgreiðslu málsins. Það skiptir höfuðmáli. Þess vegna eiga fulltrúar stjórnarflokkanna erfitt í sambandi við afgreiðslu málsins. Það skiptir eiginlega engu máli þó að formaður og varaformaður fjh.- og viðskn. hafi farið á Hafréttarráðstefnuna, jafnvel engu þó að öll n. hefði farið þangað. Það væri jafnskammt komið afgreiðslu þessa máls. En guði er fyrir þakkandi að þessu frv. var ekki vísað til Hafréttarráðstefnunnar, því að þá væri gangur málsins enn hægari en hjá fjh.- og viðskn.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem hv. 1. þm. Reykn. sagði varðandi tilteknar framkvæmdir, ég ætla ekki að lengja mál mitt með því, en eitt stórt atriði vitum við að er ágreiningur um, sem hv. 6. þm. Reykv. ræddi við 1. umr. Það er ákvæðið í 3. gr. um að lífeyrissjóðir á samningssviði Alþýðusambandsins kaupi skuldabréf Byggingarsjóðs ríkisins fyrir 20% af ráðstöfunarfé innan þess ramma sem lögin að öðru leyti setja. Þetta er sagt að sé til staðfestingar á samkomulagi ASÍ við ríkisstj. í febr. 1974. Samkv. þessu frv. er jafnframt ákveðið að fjmrh. setji með reglugerð ákvæði um framgang og tímasetningu þessara skuldabréfakaupa innan ársins og hafi heimild til ákvörðunar um af hvaða aðilum lífeyrissjóðirnir kaupa skuldabréf, enda séu ávöxtunarkjör sambærileg. Þetta er auðvitað viðamikið atriði í þessu máli öllu saman. Þessari deilu verður að ljúka. Það þýðir auðvitað ekki að lögfesta þetta atriði með þessum hætti ef það á að kosta einhverja uppreisn lífeyrissjóðanna. Þess vegna verður að ná frjálsu samkomulagi, eins og gert var í tíð fyrrv. ríkisstj., svo að þetta mál verði þess ekki valdandi að tefja ofboðslega afgreiðslu þessa mikilvæga frv.

Ég endurtek að ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans. Sömuleiðis þakka ég þeim öðrum, sem hafa gefið hér upplýsingar, og treysti því að lagt verði á það kapp að afgreiða þetta mál. Ef ekki er hægt að ná sáttum innan stjórnarflokkanna um það, held ég að sé ekki um annað að ræða en málið komi til atkv. og umr. á Alþ. Ef ágreiningur verður innan stjórnarflokkanna getur alveg eins farið á þann veg, að stjórnarandstaðan verði að koma til aðstoðar við afgreiðslu málsins til þess að allar framkvæmdir stofnlánasjóða í landinu leggist ekki niður á þessu ári.