17.05.1979
Efri deild: 106. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4895 í B-deild Alþingistíðinda. (4224)

295. mál, Háskóli Íslands

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. um þetta mál lengi, enda er það svo að þetta er geysilega tæknilegt frv. Þegar við vorum á fundi með háskólarektor og háskólaritara gerðu menn sér grein fyrir því eftir þá miklu vinnu, sem hafði verið lögð í frv. í deildum Háskólans og háskólaráði, að þar mundum við fávísir þm. lítið um bæta þó við legðum okkur fram.

Frv. er ekki veigamikið, var sagt hér. Ég held að þetta sé mjög veigamikið frv., og mér skildist á þeim fundi sem við sátum með þessum tveimur mönnum Háskólans að það væri mjög mikilsvert að fá þetta tiltölulega veigamikla frv. í gegn sem allra fyrst, því að ýmsar reglugerðir Háskólans beinlínis stranda á því að þetta frv. er ekki orðið að lögum.

Varðandi ákvæðið um leyfi Háskólans til að reka lyfjabúð, þá kom fram hjá hv. frsm., að þetta ákvæði er einnig í frv. því að lyfjadreifingarlögum sem liggur nú fyrir þessari d. Virðist vera víðtæk samstaða um að þetta fléttist saman, enda var okkur tjáð að þetta væri nánast skilyrði þess að hægt væri að hafa þetta nám lyfjafræðinga alfarið hér á landi, en svo hefur ekki verið.

Ég vil leiðrétta það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Reykn., að þetta yrði fjárhagslegur baggi á Háskólanum. Háskólamennirnir á fundi okkar reiknuðu dæmið nefnilega allt öðruvísi. Eftir nokkur ár ætti þetta að þeirra útreikningum að vera lyftistöng fyrir Háskólann. Því urðum við allir sannfærðir, meirihlutamennirnir í n., um að þetta væri gott mál.