06.12.1978
Neðri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

117. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. um breyt. á l. nr. 30 frá 1971, um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, ásamt hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni, Kjartani Ólafssyni, Páli Péturssyni og Lárusi Jónssyni. Frv. felur í sér þá breytingu á 10. gr. laga um aflatryggingasjóð frá árinu 1971 að í staðinn fyrir að áður var síðasta málsgr. 10. gr. þannig, að stjórn sjóðsins væri heimilt að greiða bætur til báta sem hafa þurft að hætta veiðum á tilteknu svæði, en við það bætist: „eða hafa ekki getað hafið veiðar á tilteknu veiðisvæði, sem hefur verið lokað fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið vegna hrygningar nytjafiska eða hættu á seiðadrápi, með þeim afleiðingum, að eigendur viðkomandi báta hafi ekki getað gert ráðstafanir til veiða með sömu eða öðrum veiðarfærum á öðrum veiðisvæðum með svipuðum árangri og vænta hefði mátt á hinu friðaða veiðisvæði.“

Í núgildandi lögum er til viðbótar við þessa 10. gr.: „Má í þessu skyni verja allt að 1 millj. kr. hverju sinni, og í meginatriðum við það miðað, eftir því sem fé hrekkur til, að útgerðarmaður sleppi skaðlaus af greiðslu kauptryggingar.“

Þessi málsgr. var sett inn 1971 vegna þess að er dragnótaveiðar voru heimilaðar í Faxaflóa, þá gerðist það að veiðisvæði báta, sem dragnótaveiðar stunduðu, var lokað til að afstýra skemmdum á síldarhrognum, en talið var vitað að síld hefði hrygnt á þessu veiðisvæði. Það var ekki með öllu ljóst, hversu lengi sú lokun þyrfti að standa og vegna óvissu og einnig af öðrum ástæðum var talið torvelt fyrir eigendur þeirra fiskibáta, sem veiðar stunduðu á umræddu svæði, að snúa sér að öðrum veiðum, meðan á lokun kynni að standa, eða stunda dragnótaveiðar á öðrum fjarlægum veiðisvæðum, og því var þetta ákvæði sett.

Nú er slíkt ákvæði löngu orðið úrelt hvað upphæð snertir og ekki ástæða til, finnst okkur flm. þessa frv., að setja hér ákveðna upphæð inn sem heimild fyrir stjórn aflatryggingasjóðs, heldur alfarið að heimila sjóðsstjórninni að greiða samkv. venjum sjóðsins og heimildum bætur til þeirra, sem verða að hætta veiðum, og eins þeirra, sem geta ekki hafið veiðar vegna þess að stjórnvöld hafi bannað af þessum ástæðum að hefja eða halda veiðum áfram. Þess vegna flytjum við þetta frv., og það er gert vegna þeirra báta og sjómanna sem stundað hafa rækjuveiðar á svæðum sem eru lokuð þrátt fyrir að leyfi hafa verið gefin út til veiða af sjútvrn. Á sumum svæðum hefur verið leyft að byrja veiðar, en veiði afturkölluð eftir örstuttan tíma, eins og á Öxarfirði. Þar hófust veiðar, að mig minnir, 5. okt. og hafa, að ég best man, tvisvar sinnum verið stöðvaðar síðan. Á Húnaflóa hófust veiðar einnig með allra síðasta móti, eða 14. nóv. s.l., og þá á afmörkuðum svæðum. En veiðar við Ísafjarðardjúp og við Arnarfjörð hafa ekki hafist enn þá og litlar líkur til að þær muni hefjast á þessu ári. Þetta þýðir það, að 49 bátar frá Arnarfirði, Bolungarvík, Ísafirði og Súðavík hafa ekki getað hafið þessar veiðar og ekki getað snúið sér að öðrum veiðum, vegna þess að þetta eru litlir bátar sem geta ekki stundað línuútgerð á þessum tíma árs. Því standa þessir menn mjög illa að vígi, og því teljum við að með breytingu laganna um aflatryggingasjóð sé bæði sanngjarnt og eðlilegt að þessir bátar og sjómenn þeirra fái bætur samkv. reglum þeim sem stjórn aflatryggingasjóðs fer eftir og heimilt er í lögum um aflatryggingasjóðs jávarútvegsins.

Ég tel mig ekki þurfa að hafa fleiri orð um þetta mál. Þetta er mjög einfalt og skýrt mál, og við flm. frv. teljum brýna nauðsyn að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu af þeirri ástæðu sem ég hef þegar nefnt. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. sjútvn.