14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Það er nú liðið nokkuð á annan mánuð síðan umr. þessi hófst. Þetta eru auðvitað algerlega óhæfileg vinnubrögð, en ég vil taka sérstaklega fram, að það er ekki forseta að kenna að þetta hefur æxlast á þennan veg, þvert á móti hefur hann sýnt mikinn velvilja, og vil ég þakka honum sérstaklega fyrir að taka mál þetta nú á dagskrá þegar annir eru jafnmiklar og raun ber vitni. Mun þess verða freistað, að málið gangi til n. og þessari umr. ljúki. Með hliðsjón af þessu mun ég reyna að stytta mál mitt eins og nokkur kostur er og reyna að blanda ekki nýjum atriðum inn í þessa umr., en jafnframt að forðast alla áreitni, sem er þó tilefni til að kannske heyrðist af vörum mínum miðað við sumar þær ræður sem hér hafa verið fluttar.

Ég vil hefja mál mitt á því að víkja örlítið að ræðu hæstv. dómsmrh. um þetta mál 9. nóv. s.l. Hann upplýsti þá, að nefnd sú, sem hann hefði skipað til að fjalla um afurðalánin, ætti að skila áliti í tveim áföngum: fyrst að ganga frá tillögum um afurðalán þau, sem veitt voru um s.l. mánaðamót eða nokkuð fyrir þau, og síðan að halda áfram störfum og gera tillögur um það, með hvaða hætti unnt væri að koma fjármunum bænda fyrr til þeirra, þannig að segja mætti að þeir fengju laun sín greidd eins og aðrar stéttir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort nefndin hafi hafið störf að hinum síðari áfanga, og ef svo er, hvort nokkrar upplýsingar sé hægt að gefa um það, hvernig því hafi miðað áfram — og loks hvenær vænta megi lokaniðurstöðu nefndarinnar og álits, því að hér er um að ræða sama málið meira og minna og það sem er til umr. og þess vegna væri mjög gott að fá þessar upplýsingar nú.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. sérstaklega fyrir það, að hann lofaði að beita sér fyrir því, að upplýsingar fengjust um það sem hér var nefnt ferðasaga fjármunanna, þ.e.a.s. hvernig þessir milljarðar á milljarða ofan ferðast frá ríkinu og bönkunum og til bænda, að svo miklu leyti sem þeir fá nokkurn tíma að komast á leiðarenda. En á þessu stigi langar mig til að biðja hæstv. ráðh. einungis að upplýsa um allar greiðslur ríkissjóðs 1977 til landbúnaðarins, þ.e.a.s. niðurgreiðslur og útflutningsbætur, með dagsetningum, því næst allar greiðslur framleiðsluráðs til fyrirtækja, einnig með dagsetningum, og loks að reyna að afla skilagreinar frá stærstu afurðasölufyrirtækjunum um það, hvenær peningarnir hafi komið inn á reikninga bænda. Hygg ég þó, að þetta síðasta sé sjálfsagt einna erfiðast. En hv. þm. Stefán Valgeirsson upplýsti þó hér s.l. þriðjudag að t.d. Kaupfélag Borgfirðinga, sem mun vera eitt best rekna kaupfélag landsins og eitt hið sterkasta, vildi mjög gjarnan gefa nákvæmar upplýsingar og mætti t.d. byrja á því að fá að kíkja svolítið í bókhaldið í því ágæta fyrirtæki. Ég er sem sagt þakklátur ráðh. fyrir að ætla að hjálpa til við að leitast við að upplýsa þessi mál.

Ráðh. sagði að með því kerfi, sem núna væri, væri unnt að miðla á milli bænda, það mætti veita einstökum bændum fyrirgreiðslu af fé annarra og þá þannig að þeir, sem meira mættu sín, styddu þá sem minni máttar væru. Þetta höfum við heyrt margsinnis áður og heyrðum raunar í ræðum allra þeirra framsóknarmanna sem hér tóku til máls. En ég er ekki viss um að þessu sé nákvæmlega svona háttað. Ég er ekki viss um að hinum efnameiri bændum gangi verr að ná út peningum sínum hjá kaupfélögunum en hinum efnaminni. Ég held að það sé miklu fremur á hinn veginn, að þeir, sem aðstöðuna hafa, t.d. þm. og aðrir slíkir, fái peninga sína nokkuð greiðlega, en það geti orðið erfiðara fyrir þá sem minni máttar eru. En þetta er nú sjálfsagt hægt að skoða í hverju héraði um sig. Við, sem þekkjum til úti um land, höfum okkar ákveðnu skoðanir á því. Mínar skoðanir fara ekki saman við skoðanir þeirra hv. þm. Framsfl. sem hér halda því fram, að hinir fjársterku greiði fyrir því að fátækir bændur fái sína fjármuni fyrr. Ég held að það sé á hinn veginn. Hitt er svo annað mál, að auðvitað hafa samvinnufélögin mjög mikið fjármagn undir höndum frá bankakerfinu fyrir utan það fé sem við erum hér að ræða um, og þess vegna er rekin lánapólitík. Og það er auðvitað ekkert sem bannar það, þótt þessi till. verði samþ. og framkvæmd, að menn megi áfram stunda lánsviðskipti ef þeim sýnist svo.

Því er haldið fram, að verið sé að sundra samtökum bænda með þessum hætti. Ég get ekki á það fallist. Það er einungis verið að koma á heilbrigðum peningaviðskiptum í ríkara mæli en verið hefur. Og ég hef orðið þess var, að menn hafi talið að ég bæri einhverja óvild í garð samvinnuhreyfingarinnar. Ég mótmæli því alfarið. Ég held að það sé hvergi hægt að finna í einu eða neinu af því sem ég hef sagt eða skrifað, að ég sé andvígur samvinnuhreyfingu sem slíkri. Meira að segja er hún mjög skyld því félagaformi sem ég hef um langt skeið barist fyrir, þ.e.a.s. almenningshlutafélögum, og þyrfti ekki nema tiltölulega litlar breytingar á skipulagi samvinnufélaga til að þau gætu á ný orðið heilbrigðar stofnanir. Hitt er svo allt annað mál, að Samband ísl. samvinnufélaga svo nefnt er alls ekki samvinnufélag, þó að tími gefist ekki til að rökstyðja það nú.

Ég vík þá örfáum orðum að ræðu Páls Péturssonar. Hann sagði í upphafi máls síns orðrétt, með leyfi forseta: „Ég hef verið andstæðingur þessarar hugmyndar, en ég nenni ekki að standa í deilum um hana lengur og get verið stuttorður. Ég sé nefnilega fram á það, að vinur minn, hv. 5. þm. Norðurl. v., Eyjólfur K. Jónsson, er að vinna sigur í málinu, og þess vegna er ég ekkert að berja höfðinu við steininn með það og verð að óska honum til lukku með þann árangur sem hann hefur þar með náð.“

Þetta er drengilega mælt. Það er þó ekki rétt, að ég sé að vinna neinn sigur í þessu máli. Það er heilbrigð skynsemi, sem er að sigra, og það er réttlætið, sem er að sigra. (Gripið fram í.) Það fer oft saman, jú, heilbrigð skynsemi og sú persóna sem hér stendur. Mér fannst það hins vegar ekki drengilegt af hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að ráðast að flokksbróður sínum og segja að hann hefði lýst því yfir að hann væri sigraður, taldi jafnvel að hann hefði verið beittur göldrum og eitthvað fleira í þeim dúrnum. Það fannst mér nokkuð langt gengið.

En að því er varðar þetta eilífa tal um að verið sé að brjóta niður samvinnuhreyfinguna með þessu, þá finnst mér það nánast óverjandi áfellisdómur um samvinnuhreyfinguna, að hún muni ekki geta lifað ef bændur fá fjármuni sína í hendur beint. Mér finnst þetta vera rógur um samvinnuhreyfinguna. Auðvitað getur hún lifað í frjálsri samkeppni og jafnvel endurlífgast við breytingar.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson var að tala um að ég ætti að flytja frekar eitthvert mál sem væri til hagsbóta fyrir samvinnuhreyfinguna. Ég vildi mjög gjarnan flytja með honum t.d. till. til þál, um að lög um samvinnufélög yrðu endurskoðuð, nákvæmlega á sama hátt og lög um hlutafélög voru endurskoðuð á þinginu í fyrra, og ég skyldi með glöðu geði eyða miklum tíma í n. við að vinna að því máli, eins og við gerðum að því er varðaði hlutafélagalögin, þar sem n. flutti á milli 60 og 70 brtt. til að koma þeim lögum í nútímalegt horf sem á eftir að gerbreyta rekstri hlutafélaga. Auðvitað eru þessi gömlu samvinnufélagalög ekki við hæfi nú, og auðvitað ættu þeir, sem kalla sig öðrum meiri samvinnumenn, að hafa um það forustu, að þessari löggjöf yrði breytt og nýju lífi hleypt í þetta félagsform.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson hélt því fram, að bændur væru yfirleitt búnir að fá fjármunina áður en þeir kæmu til félaganna frá lánasjóðum o.s.frv. og vitnaði þar sérstaklega til Kaupfélags Borgfirðinga, — þetta væri nánast þannig, að það væru öfugmæli, staðreyndum væri snúið við, sagði hann, þegar sagt væri að afurðasölufélögin völsuðu með peninga bænda, sem sagt: það væru bændur sem völsuðu með peninga samvinnufélaganna. Ef þetta er svo, hvers vegna í ósköpunum berjast félögin þá eins og ólm séu fyrir því að viðhalda þessu kerfi sem leikur þau svona skelfilega grátt? Ég skil ekki annað en það ætti þá að vera hagur þeirra að breyta þessu í þá átt sem hér er um rætt.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson talaði um að það væri ekkert óeðlilegt að SÍS tæki umboðslaun af útflutningsbótum. Mér finnst það meira en lítið óeðlilegt. Hann réttlætti allt sem gert er í þessu efni. Þetta var nokkurs konar varnarræða fyrir SIS eða ástaróður — eða hvað menn vilja kalla það. En að því er samhjálpina varðar, þá er bókstaflega ekkert í þessum till. sem bannar hana. Hver einasti bóndi getur tilkynnt að fjármunir hans eigi að renna inn í viðkomandi kaupfélag. Það þarf ekkert annað en að tilkynna, að í staðinn fyrir að senda það heim á Hól eða Hvol skuli það fara í kaupfélagið hans. Það er ekkert sem bannar þessa samhjálp.

Hv, þm. Stefán Valgeirsson taldi að ég hefði falsað staðreyndir þegar ég talaði um að fjármunirnir, sem samanlagt kæmu árlega frá ríkinu og bankakerfinu, næmu um 8 millj. á meðalbú, — sem raunar er víst að nálgast 9 millj. nú eftir síðustu aðgerðir — og ég skildi ekki að lánið þyrfti að borga og tvíteldi peninga. Auðvitað kom það hvergi fram í máli mínu. Auðvitað skil ég það, að lánin eru borguð, en þetta er heildarvelta sem frá ríkinu og bankakerfinu ætti að koma til hvers bónda.

Hv. þm. Árni Gunnarsson sagðist auðvitað vera algerlega sammála meginefni till. og þeirri hugsun sem í henni fælist, en hann hélt að það væri tæknilega erfitt að framkvæma þetta. Það er mesti misskilningur. Staðhæfingar bankanna um þetta og kerfisins alls eru algerlega út í bláinn, og það sem meira er: bankarnir staðhæfa vísvitandi annað en rétt er. Bæði lögfræðingar bankanna og bankastjórarnir vita fullvel að það er algerlega óheimilt og ólöglegt hvernig þeir taka með í afurðunum. Sannleikurinn er sá, að það hefur enginn banki veð í einu einasta kjötkg. Það er allt saman ólöglegt eins og það er framkvæmt. Hins vegar er veðsetning lögleg eins og ég legg til að hún sé framkvæmd, vegna þess að í lögum hafa bændur heimild til þess að veðsetja jafnvel fé á fæti. En þessar veðsetningar eru allar ólöglegar eins og þær leggja sig. Bankarnir vita það og þeir staðhæfa rangt í bréfum til Alþingis. En það er svo sem ekkert nýtt að kerfið standi saman. Bankarnir og SÍS standa saman eins og klettur.

Ég get svo sem bætt því við, að þetta er framkvæmt án allra erfiðleika t.d. fyrir Slátursamlag Skagfirðinga á Sauðárkróki. Bankastjórinn þar, Ragnar Pálsson, hefur leyft mér að hafa það eftir sér, að þetta sé ekki nokkur vandi. Þetta er bara fært beint inn á bankareikninga bændanna í staðinn fyrir inn í félögin. Hvað er einfaldara? Miklu minni skriffinnska! Og ég get líka gjarnan upplýst það hér, af því að verið er að tala um að það sé eitthvað frábært að sum afurðasölufélög ætli að greiða núna 80% eða jafnvel 85% eða jafnvel 90% — heyrist sagt — af grundvallarverði. Slátursamlag Skagfirðinga borgar auðvitað 100% og á peninga eftir, þó að það hafi verið leikið svo grátt að það fékk ekki stofnlán fyrr en það var tekið með töngum nú fyrir nokkrum dögum, vegna þess að það áttu auðvitað ekki sömu lög að gilda um það félag og fínu félögin.

Eins og ég sagði, þá ætla ég ekki að stofna hér til mikilla og víðtækra umr., vona að málið komist til n., en ég vil þó spyrja hæstv. landbr. hvort hann hafi hugleitt það í sambandi við þann gífurlega vanda, sem nú steðjar að landbúnaði, hvort það kvótakerfi, sem væri einfaldast og réttlátast, væri ekki einmitt það að greiða öllum bændum beint heim þessa fjárhæð, kannske ekki alla, við skulum segja að hámark væri 7–8 millj., eitthvað slíkt, á bú, enginn fengi meira, einhverju yrði haldið eftir til að jafna út á milli svæða og héraða o.s.frv. Síðan væri auðvitað afurðaverðið, þegar bændur legðu inn, þeim mun lægra sem þessum upphæðum næmi, en allir mættu framleiða eins og þá lysti, það fengi bara enginn meira í uppbótum og niðurgreiðslum heldur en einhverja ákveðna upphæð. Þetta er langsamlega einfaldasta lausnin. Þetta er lykillinn að málinu. Þá þarf ekkert frekar vitnanna við. Ef menn á annað borð vilja kvótakerfi og úr því að ríkið styrkir landbúnað að sumu leyti og neytendur að öðru, — auðvitað er þetta hagstjórnartæki úr því að það gerir það, — hví þá ekki að hafa málið einfalt, koma peningunum beint til bændanna, en enginn fengi þó meira en þessa ákveðnu upphæð? Svo mega allir framleiða eins og þeim sýnist, en afurðaverðið er auðvitað þeim mun lægra þegar lagt er inn til afurðasölufyrirtækja.