14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2658 í B-deild Alþingistíðinda. (2629)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég má ekki gera nema örstutta athugasemd núna.

Hæstv. félmrh. svaraði fsp. þeim sem ég gerði til hans. Það var annars vegar um 1% af launaskattinum, sem ætlað er að renni í Byggingarsjóð verkamanna, og hins vegar um skilning á 19. gr. í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1980. Það er varðandi upphæðina sem þar er fram tekið að framlag til Byggingarsjóðs verkamanna á árinu 1980 megi ekki fara fram úr. Hæstv. ráðh. sagði að ég hefði lesið upp bréf frá félmrn. sem ég hefði komist yfir. Þetta er hvort tveggja rangt. Ég las ekki upp bréfið. Ég sagði frá efni þess og ég tel að ég hafi ekki komist yfir þetta bréf með neitt óeðlilegum hætti. (Gripið fram í: Það sagði ráðh. ekki). Nei, en hann notaði þetta orðalag. Bréfið var lagt fram í fjh.- og viðskn., en ekki að minni beiðni og vissi ég raunar ekkert um það fyrr en ég sá það þar.

Ég fagna því, að einmitt á þessum degi skuli það hafa skeð að ríkisstj. hafi tekið ákvörðun um að það skuli standa sú tala, sem er í frv. til lánsfjárlaga, og 432.5 millj. kr. skuli fara, eða allt að því, á þessu ári til verkamannabústaða. Ég fagna því að þessi ákvörðun hafi verið tekin í dag. En eftir stendur að þessi upphæð er skert, því að húsnæðismálastjórn hafði áætlað og talið að það þyrfti 500 millj. kr.

En ég hef litlu að fagna í sambandi við svarið við hinni spurningunni, um 1% af launaskattinum. Hæstv. ráðh. sagði að þetta 1%, sem ég hefði verið að tala um, væri sama prósentið og talað hefði verið um í yfirlýsingu ríkisstj., eins og hann orðaði það. Það skiptir engu máli í þessu sambandi hvort hér er um að ræða sama prósentið eða ekki. Hæstv. ráðh. sagði líka að það væri um að ræða þann launaskatt sem hefði verið lagður á og hér væri ekki um að ræða neina nýja skattlagningu. Þetta skiptir engu máli í því sambandi sem ég spurði. Ég spyr um ákveðið málefni og óska eftir ákveðnu svari. Launaskatturinn er samkv. lögum 3.5%. Samkv. lögum núna fer 1.5% í ríkissjóð, en 2% eiga að fara í Byggingarsjóð ríkisins. Ég spyr um þetta eina prósent sem á núna að fara í Byggingarsjóð verkamanna. Verður það tekið af 2%, sem Byggingarsjóður ríkisins fær, eða verður það tekið af 1.5%, sem ríkissjóður fær? Þetta var mín spurning. Og ég ítreka þessa spurningu.