09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

346. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í sögu lýðveldisins hafa á ýmsum tímum verið skipaðar stjórnarskrárnefndir. Þær hafa allar, utan sú sem nú situr, starfað mjög lengi og skilað litlum árangri. Ég held að sú stjórnarskrárnefnd, sem nú situr, sé frábrugðin fyrirrennurum sínum hvað það snertir, að hún hafi mun fyrr en nokkrar aðrar nefndir afgreitt þann hluta málsins sem felst í því að kortleggja í grófum dráttum hvaða breytingar á stjórnarskránni kæmu hugsanlega til greina. Nefndin hefur skilað Alþingi og þingflokkunum fyrir röskum þremur mánuðum skýrslum um það efni.

Nú er ljóst að þessi stjórnarskrárnefnd er ekki frekar en aðrar samkoma viturra manna sem eiga að sitja einir sér og í einangrun og taka ákvörðun um hvernig breyta beri stjórnarskránni. Allir þeir, sem í nefndinni sitja, eru þar sem fulltrúar þingflokka og það er höfuðatriði málsins. Allir voru stjórnarskrárnefndarmenn sammála um að áður en lengra væri haldið væri nauðsynlegt að þeir, sem þingflokkarnir hefðu valið sem sína fulltrúa í nefndina, hefðu skýrari mynd af því en þeir hafa nú, hvaða afstöðu þingflokkarnir hafa til þeirra fjölmörgu atriða sem í þessum skýrslum er drepið á, sem eru ekki aðeins kjördæmabreytingar, heldur fjölmargt annað. Þess vegna held ég að það sé ljóst — og vil láta það koma fram hér — að næsti leikur þessa máls er hjá þingflokkunum. Það er þá verkefni okkar, sem erum formenn þingflokkanna, að tryggja að umræður fari fram um skýrslurnar. Og ég vil láta það koma hér fram, að þingflokkur Alþb. mun í þinghléi vegna jóla og nýárs taka þessi mál til sérstakrar umfjöllunar.