16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

141. mál, smíði brúar á Ölfusá

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson leyfði sér að bera fram á þskj. 169 fsp. til hæstv. samgrh. um smíði brúar á Ölfusá. Fsp. var borin fram í samráði við mig og fylgi ég henni því eftir. Fyrri hluti fsp. er svo hljóðandi:

„Hvernig miðar hönnun brúar á Ölfusá við Óseyrarnes, sem gert er ráð fyrir í núgildandi vegáætlun?“

Um þennan lið vil ég taka fram, að óskað er upplýsinga um þá undirbúningsvinnu sem hefur verið unnin. Reyndar er ekki gert ráð fyrir að hönnunin sjálf hefjist fyrr en á næsta ári samkv. vegáætlun, en fróðlegt væri að fá fregnir af því hjá hæstv. ráðh., hvernig þessu máli líður í áætlun, sérstaklega könnun á hinum mikilvæga félagslega þætti brúarsmíðarinnar.

Seinni liður fsp. er svo hljóðandi:

„Er ráðh. reiðubúinn að lýsa yfir vilja sínum, að hafist verði handa við smíði brúarinnar strax að lokinni hönnun?“

Um þennan mikilvæga lið fsp. óska ég að benda á eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er atger einhugur allra Sunnlendinga um að brúin verði smíðuð. Á það jafnt við um þá hreppa og þá menn sem búa efst uppi í landinu, og þá sem búa niður við ströndina.

Í öðru lagi er það lífsspursmál fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri, sjávarþorp sem hafa verið svipt höfnum sínum, að brúin rísi. Um mörg undanfarin ár hefur þessum plássum verið neitað um fé til endurbóta á höfnum sínum vegna þess að til standi að smíða umrædda brú, en ekkert hefur enn þá, því miður, bólað á þeirri smíði.

Í þriðja lagi er hætt á að gamla brúin við Selfoss laskist verulega í næstu meiri háttar jarðhræringum, en nýja brúarstæðið er utan jarðskjálftasvæða. Eins og allir vita er gert ráð fyrir Suðurlandsskjálftum, sem koma venjulega á einnar aldar millibili, hvenær sem er úr þessu. Brúin stendur á sjálfri sprungunni og gæti laskast alvarlega og farið af undirstöðum sínum að áliti sérfróðra manna.

Í fjórða lagi mun brúin gera svæðið frá Þorlákshöfn að Selfossi yfir Eyrarbakka og Stokkseyri að einni atvinnulegri og félagslegri heild með öruggum samgöngum.

Í fimmta lagi eru valkostirnir í reynd einungis tveir: Annaðhvort að byggja brúna eða leggja niður byggð í sjávarþorpunum, sem væri ólíkt dýrara fyrir þjóðarbúið.

Hér er um að ræða eitt mesta réttlætismál í framkvæmdum hérlendis og þess vegna er spurt um skoðun hæstv. ráðh.