10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2217 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það er nú e.t.v. ekki ástæða til að lengja þessar umræður mikið, vegna þess að þegar þær hófust hér á fundi í gær vakti ég athygli á því, að ákvæði þessa frv., aðallega tvö, væru í raun og veru mjög svipuð því sem ríkisstj. er að fást við. Ég sagði ekki að þau væru hin sömu. Það hef ég aldrei sagt, enda liggja þau fyrir alveg svört á hvítu og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Það er því í sjálfu sér ekki ástæða til að lengja þessar umræður þar sem menn eru — ja, ég vil segja: í meginatriðum sammála, þó að þarna sé nokkur munur á tillögugerð.

Ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs hér á nýjan leik, er sú, að hv. þm. Kjartan Jóhannsson vitnaði nokkuð rangt í það sem ég sagði hér í gær og raunar áðan einnig. Hann sagði að ég vissi ekkert um hvort bankakerfið þyldi það sem boðað hefði verið. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni áðan, að vonir stæðu til þess, að bankakerfið stæði svo vel eftir seinasta ár, að það gæfi svigrúm til athafna í þá veru sem hér er verið að ræða. En ég tók það mjög greinilega fram, að ekki væri lokið við að gera upp, og það lægi ekki fyrir endanlegt uppgjör í þessum efnum og ég hefði ekki fengið niðurstöður. Þannig liggur það ekki fyrir, hversu mikið þetta svigrúm er, og náttúrlega er eðlilegt að menn séu ekki í stakk búnir til þess að gera tillögur um að nýta þetta svigrúm fyrr en mönnum er ljóst hvert það er.

En þetta eru smáatriði. Það, sem máli skiptir í þessu, og það, sem ég vildi vekja athygli á þegar ég hóf umræður um þetta, var að í meginatriðum eru menn sammála um þessi mál, þó að menn geri tillögur sem ganga nokkuð á mis, þó ekki mjög. T.d. varðandi tillögurnar um verðtryggða sparireikninga er munurinn í raun og veru fyrst og fremst sá, að samkv. brbl. ríkisstj. eru það bundnir reikningar til sex mánaða og 1% vextir, en hér er lagt til að það séu óbundnir reikningar einnig með 1% vöxtum, en menn fái ekki verðtryggingu nema menn hafi þetta inni í banka í þrjá mánuði. Munurinn á þessu tvennu er ekki svo ákaflega mikill. Kannske mætti segja að munurinn væri sá, að lagaákvæði brbl. ríkisstj. bera þess vott, að menn þorðu ekki að fara lengra niður en í sex mánuði, og það er vegna þess að menn þurfa að gæta þess að hægt sé að standa undir þessum verðbótum. Það er þess vegna sem þær eru bundnar. Stjórnarandstaðan, sem ber ekki ábyrgð á þessu og getur þess vegna borið fram mál með tilliti til þess, gengur lengra í þessu efni — gengur lengra, en hefur þó ekki rökstutt það að fært sé að ganga lengra. Ég skal ekkert um það segja. Ég dreg í efa að það sé skynsamlegt eins og sakir standa að ganga lengra en í sex mánaða bindingu.

Svo að vikið sé að ríkisstj., þá er hún býsna vinsæt, það er alveg ljóst. Við sjáum hvað komið hefur fram í skoðanakönnunum sem hafa verið birtar, og engin ástæða er til að kvarta um það. (EG: Man ekki hæstv. ráðh. að framsóknarmenn sögðu 1978 að það væri ekkert að marka skoðanakannanir?) Ja, ég veit ekki hvort menn hafa sagt að það væri ekkert að marka þær. Við stóðum nokkuð höllum fæti fyrir kosningarnar og vildum ekki gera of mikið úr skoðanakönnununum þegar þannig stóð á, það ber að viðurkenna. Ég hef haldið því fram, að skoðanakannanir af þessu tagi séu vísbending, en mér dettur ekki í hug að álíta að þær séu nein endanleg skoðun, sem er rétt. En þær eru vísbending. Og þessar vísbendingar benda til þess, að ríkisstj. sé býsna vinsæl. Ég var heldur ekkert að kvarta yfir því, þó að ríkisstj. væri skömmuð. Ég sagði að það væri ekki ástæða til að skamma ríkisstj. út af þessu máli. Það er sjálfsagt að skamma ríkisstj. ef hún hefur unnið til þess.

Varðandi efnahagsaðgerðir ríkisstj. er það alveg ljóst og kom fram í málflutningi um áramótin, t.d. hjá mér og ýmsum fleirum, — við höfum ekki legið neitt á því — að þær aðgerðir, sem gerðar voru um áramótin, eru fyrsta skrefið í þá átt að telja verðbólguna niður. Það þarf að gera.frekari aðgerðir. Annars ná menn ekki því marki sem menn hafa samið um, þ.e. 40% verðbólgu á þessu ári. Það er að sjálfsögðu verið að vinna að þessum málum á vegum ríkisstj., og ég vonast til þess, að í fyllingu tímans komi tillögur frá ríkisstj. um frekari aðgerðir í efnahagsmálum.