19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði raunar ætlað mér í gær að kveðja mér ekki hljóðs öðru sinni um þetta utandagskrármál. En upp komu í ræðum hv. þm. Kjartans Jóhannssonar og Karls Steinars Guðnasonar atriði þess eðlis, að ég taldi mig til neyddan að leiðrétta mjög þýðingarmiklar rangfærslur varðandi útgerðarmál þeirra Þórshafnarbúa.

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason talaði um að moka milljörðum til Þórshafnar. Hann tók það upp eftir flokksformanni sínum, hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að það hefði komið í ljós, er Þórshafnarbúar höfðu eignarhald á Fontinum, að þeir gætu ekki gert út togara. Báðir gátu hv. þm. þess, að vel gengi útgerðin á Fontinum í höndum hinna nýju eigenda á Siglufirði. Ég vil aðeins geta þess, að skip þetta, sem skírt var Fonturinn eftir að komið var til Þórshafnar og keypt var héðan sunnan af Nesjum nokkru áður en til greina hafði komið af hálfu ónefndra manna að reyna að koma þangað togaranum Ými og togaranum Rán, — að þetta skip var selt þeim Þórshafnarbúum á 360 millj.kr. árið 1977. Umreiknað, uppfært til gildis í gömlum krónum um síðustu áramót, hefði söluverðið numið 1.9 milljörðum gkr. Þórshafnarbúar áttu þetta skip í eitt ár, svo að menn geta gert sér nokkra grein fyrir því, hvílíkir klaufar mennirnir eru í rekstri. Þeir áttu þetta skip í eitt ár. Að meðreiknuðum viðgerðum og eðlilegum breytingum á fjármagnskostnaði var verð skipsins komið upp í 1200 millj. eftir árið. Þannig var ástandið sem þeir tóku við þessu skipi í. Þessar 1200 millj. kr., sem skipið stóð í þegar það var tekið af Þórshafnarbúum, mundu samsvara 6.3 milljörðum gkr. nú. Lái þeim hver sem vill þótt þeir treystu sér ekki til að gera það skip út. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson, sem látinn var gegna embætti sjútvrh. fyrir skemmstu, má svo setjast við og reyna að gera sér nokkra grein fyrir því, hversu úthaldsdagar þess skips hafi verið margir á því ári sem Þórshafnarbúar höfðu eignarhald þess með höndum, sem þurfti að gera við fyrir næstum 900 millj. kr., skips sem kostaði 360 millj.

Ég vil svo rétt aðeins í lokin, svo að ég fjalli nú um hið aldna skip Fontinn, reyna að leiða getum að því, að það hafi verið skárra skip sem þeir Siglfirðingar tóku við þegar búið var að gera við þetta 360 millj.kr. fley fyrir næstum því 900 millj., heldur en það sem Þórshafnarbúar tóku við af þeim Suðurnesjamönnum á sínum tíma. Skuldirnar, sem Þórshafnarbúar, hreppur og fiskiðjuver, höfðu lent í vegna þessara viðskipta, vegna þess að tekið var við ónýtu skipi úr 8 ára klössun, námu þá 200 millj. kr., sem jafngilda 500 millj. nú. Það mætti kannske segja að Þórshafnarbúar væru betur í stakk búnir til þess að gera út nýtt skip núna ef þeir hefðu ekki tekið þann bagga með sér. Að skipt var um vélstjóra á Fontinum 12 sinnum á einu ári er hreint ekki sönnun fyrir því, að illa hafi verið staðið að útgerð skipsins. Það er vottur um hvers konar skip það var, sem komið var á Þórshafnarbúa frá þeim Suðurnesjamönnum á þessum tíma.

Og nú skulu þessir innflytjendur slæmra skipa og sölumenn með ryðkláfa, þessir tveir hv. þm. af Suðurnesjum, taka sig til og reyna að gera mun á þessu tvennu: að taka við skipi núna, nýju og vel búnu skipi upp á 3–3.5 milljarða gkr. eða að gera út það skip sem þeim var fengið þá, þess háttar fleytu sem þá var komin í 6.3 milljarða kr. Þessir ágætu menn ættu að drepa aðeins við fæti þegar þeir tala um útgerðarmöguleika á skipum og svara spurningunni um það, með hvaða hætti er hægt að láta togara upp á 5 milljarða kr. standa undir fjármagnskostnaði núna, hvernig svo sem um það er að öðru leyti. (Gripið fram í: Það er flutt inn af Matthíasi Bjarnasyni.) Síðan má taka til athugunar rök eins og þau hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, fyrrv. sjútvrh., að ekki sé hægt að gera út skip nema þar sem viðgerðaraðstaða sé á staðnum. Það er viðgerðaraðstaða eða hitt þó heldur á hinum einstöku Austfjarðahöfnum, þar sem togarar eru gerðir út með góðum árangri, eða Vestfjörðum. Síðan koma rök eins og þau, að hv. þm. hitti mann hérna fyrir utan húsið, ónefndan mann sem sagðist nú skilja hvert peningar skattborgaranna færu — þ.e. til þess að standa undir hallarekstri á útgerð yfirleitt — að maður sleppi nú því innleggi hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, að hann hefði einu sinni verið sumartíma í sveit á Þórshöfn. Hvort hv. þm. sagði þetta til þess að renna stoðum undir þá hugmynd, að hann bæri hlýjan hug til Þórshafnarbúa, eða hvort hann var bara á lubbalegan hátt að nudda þeim upp úr gömlum mistökum veit ég ekki.