01.04.1981
Efri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3264 í B-deild Alþingistíðinda. (3379)

258. mál, ný orkuver

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það þarf ekkert að brýna það fyrir mér að tala ekki langt mál hér. Hæstv. iðnrh. hefur vikið að mjög mörgum þeirra mála, sem hér hefur borið á góma, og flutt mjög skýrt og greinilega afstöðu okkar Alþb.-manna í þeim efnum. Ég vil hins vegar í leiðinni segja það við hæstv. forseta, að við frændur hér, ég og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, og aðrir Vestfirðingar erum vanir því af fundum vestra, að það lífgi umr. að menn skiptist á athugasemdum úr sal og sæti. Ég veit að ýmsir góðir Austfirðingar eru því vanir líka, þótt rétt sé kannske að það verði ekki að samtali í salnum. Ég veit að ég mæli fyrir munn okkar beggja, mín og hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, þegar ég segi að við höfum ekkert við slíkt að athuga. Þó að við séum kannske ekki sammála um margt, þá erum við sammála um það. (EgJ: Heldurðu að þú mælir þetta bara fyrir sjálfan þig?) Nei, ég tók það skýrt fram, að ég gerði það fyrir munn okkar beggja. Hins vegar er það alveg greinilegt, hv. þm. Egill Jónsson, að það fer nú mjög að vandast staðan varðandi það hver mæli fyrir munn hv. þm. Egils Jónssonar og Sverris Hermannssonar í þessum virkjunarmálum.

Ég ætla að víkja hér að örfáum meginatriðum sem fram hafa komið hér í umr. og mér finnst standa alveg ljós eftir. Þau fela það í sér, að þetta frv. er samkv. rökstuðningi fyrsta flm. frv., ítrekað í þessum umr, frv. um að Fljótsdalsvirkjun verði ekki næsta virkjun sem ráðist verður í. Þótt deila megi um ýmislegt, þá er alveg ljóst af þeim rökum, sem sett voru hér fram af hálfu 1. flm. þessa frv. hvað eftir annað, að meginefni þessa frv. er að Fljótsdalsvirkjun verði ekki næsta virkjun sem ráðist verður í. Það kallaði ég stór tíðindi, að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson skyldi hafa fengið Egil Jónsson og Sverri Hermannsson til þess að standa að frv. sem felur þetta jafnskýrt í sér og hér hefur komið fram, og ég skal nú rökstyðja það með nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi hefur það komið fram hjá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni og fleirum, að menn hafa ekki í höndum nein gögn eða skýrslur, sem fela í sér ótvíræðar niðurstöður um það, hvað sé vænlegur, arðbær og skynsamlegur næsti kostur í nýtingu orku til stóriðnaðar. Slíkt liggur ekki fyrir og um þetta er ekki deilt. Ég lýsti þeirri skoðun minni hér í ræðu fyrr í þessum umr., að ekki legðist ég gegn því að að slíku væri leitað, — ég legðist ekki gegn því. Þess vegna er ýmislegt rangt sem sagt hefur verið um mína afstöðu hér, bæði af hálfu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar og annarra talsmanna Sjálfstfl. Ég sagði hins vegar að mér væri ekki kunnugt um það, að neins staðar lægi fyrir nein grg. eða úttekt á rannsókn á neinum kosti sem ég teldi skynsamlegan út frá þjóðhagslegu og arðsemisjónarmiði. Ég vek einnig athygli á því, að þrátt fyrir ítrekaðar spurningar af minni hálfu hér í þessum umr. til hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar og Egils Jónssonar — að vísu hefur Egill Jónsson ekki talað aftur, en Þorv. Garðar gerði það hér ítarlega — þá vita þeir ekki heldur um neinn slíkan kost. Þorv. Garðar Kristjánsson rökstuddi það hins vegar mjög ítarlega í sinni ræðu fyrr í dag, að hann teldi höfuðatriði í meðferð málsins að ekki væri ráðist í að virkja virkjun, sem beinlínis væri miðuð við slíka nýtingu, fyrr en samningar um þá nýtingu lægju fyrir. Og hann varði löngu máli til að útskýra hvers vegna hann teldi það skynsamlega samningsaðferð. Að vísu hélt hann því fram, að hann greindi eitthvað á við hæstv. iðnrh. um það efni. Það skal ég ekkert um segja. Hins vegar skal ég segja það hér, að mörgu af því, sem hv. þm. Þorv. Garðar færði fram sem rökum fyrir sinni skoðun, er ég alveg sammála. Ég er honum alveg sammála um það efni. Sú meginniðurstaða, sem hann flutti hér, var að það væri ekki skynsamlegt að ákveða virkjun, sem tengd væri stóriðju, nema fyrir lægju samningar. Þess vegna, sagði fyrsti flm. þessa frv., er sú virkjun ein, Fljótsdalsvirkjun, skilyrt í þessu frv., að í hana skuli þá fyrst vera ráðist þegar fyrir liggja samningar um erlenda stóriðju eða stóriðju af öðru tagi.

Nú er það ekkert deiluatriði neinna þeirra sem til slíks þekkja, að slík athugun, ef hún á að vera vönduð og örugg og traust og menn leita að skynsamlegum leiðum í þeim efnum, tekur að lágmarki hátt á annað ár. Það er alveg ljóst. Hún tekur að lágmarki hátt á annað ár. Um það er ekki deilt. Hins vegar eru menn sammála um það, ég tala nú ekki um þeir menn sem hafa lagt til hér virkjanaplan til næstu 10 ára, ætla sér að virkja hér þrjár stórvirkjanir á næstu 10 árum, þá eru menn jafnframt sammála um það, að þegar á næstu 12 mánuðum þurfi að hefjast handa við þá fyrstu af þessum virkjunum sem eigi að koma í röðinni. Þegar þessi málflutningur er tengdur saman; röksemdin fyrir því að tengja Fljótsdalsvirkjun samningum, sem liggi fyrir um nýtinguna, og það hvernig með slíka samninga er hægt að fara, og þörfina á því að þegar á næstu 12 mánuðum verði hafist handa um framkvæmd næstu stórvirkjunar, sem ég er alveg sammála að eigi að gera, þá liggur það auðvitað alveg ljóst fyrir hverjum manni, sem vill setja málflutning aðstandenda frv. saman, að samkv. þeirra eigin till., samkv. þeirra eigin rökum, getur Fljótsdalsvirkjun aldrei orðið næsta virkjun sem í verður ráðist.

Mér er alveg sama hve lengi hv. þm. Egill Jónsson reynir að snúa sig út úr þeim mikla pólitíska vanda sem hann er kominn í. Öll skynsamleg athugun málsins bendir til þess að þetta sé tvímælalaust niðurstaðan, enda var það athyglisvert, að þegar ég kallaði fram í fyrir hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni og bað hann um að taka af skarið í þessum efnum, þá gerði hann það ekki. Auðvitað er hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson það skynsamur maður, að hann sér þetta í hendi sér. Ég hef hins vegar ekki trú á því, að hv. þm. Egill Jónsson og Sverrir Hermannsson hafi gert þetta vitandi vits, og þess vegna orðaði ég það hér áðan, að þeir hefðu verið plataðir. En vegna hinna miklu andmæla hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar við það orðalag, þá fer ég að gera ráð fyrir því, að hv. þm. Sverrir Hermannsson og Egill Jónsson hafi staðið að þessu vitandi vits, þeir hafi vitandi vits staðið hér að frv. sem í öllum röksemdafærslum sínum og tillögugerð felur í sér þá ótvíræðu niðurstöðu, að Fljótsdalsvirkjun getur ekki orðið næsta virkjun. Svo kemur hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson bara og bætir um betur hér áðan í umr. og lýsir því yfir, að allur Sjálfstfl. eins og hann leggur sig, innan og utan ríkisstj., sé á sömu skoðun. Það er nú orðið erfitt á brattann að sækja fyrir þá sem vilja berjast fyrir Fljótsdalsvirkjun, þegar það liggur jafnskýrt og greinilega fyrir hér af hálfu Egils Jónssonar, Þorv. Garðars Kristjánssonar, Sverris Hermannssonar og nánast alls Sjálfstfl., að þeir hafi lagt málið þannig fyrir, að Fljótsdalsvirkjun getur ekki orðið næsta virkjun. Það er eðlilegt að menn séu orðnir kátir fyrir norðan, því að samkv. málflutningi Þorv. Garðars Kristjánssonar hefur Sjálfstfl. lagt fram till. um að annaðhvort Blönduvirkjun eða Sultartangavirkjun verði næst. Það blasir við samkv. þeirra eigin frv.

Nú ætla ég ekki að fella neinn dóm um það hér og nú, hvað sé skynsamlegt í þessum efnum. Ég er eingöngu að vekja athygli á því, hvað felst í þessu frv. og þeirri merkilegu pólitísku staðreynd, að Sverrir Hermannsson og Egill Jónsson skuli standa að þessu með þessum hætti. Jafnframt vek ég athygli á því, að þrátt fyrir ítrekaðar fsp. hafa þm. Sjálfstfl., sem hér hafa talað, ekki bent á einn einasta arðbæran, skynsamlegan og framkvæmanlegan kost af stóriðjutegundinni sem sé nokkurn veginn öruggt að gengið sé í. Það eina, sem hér hefur verið nefnt af þm. þessa flokks, er aukin framleiðsla kattasands, sem er sjálfsagt góðra gjalda verð framleiðsla. Skal ég sem mikill kattavinur ekki draga úr því. En það verður varla talið til mjög orkufreks iðnaðar. Það er á þessum grundvelli, sem ég hef sagt það, að þótt ýmislegt sé fróðlegt í kringum búning þessa frv. og málflutning flytjenda þess, þá er það botnlaust að því leyti, að ein af þessum virkjunum er í frv. sjálfu tengd stóriðju, en síðan liggur ekkert fyrir um það að menn viti af arðbærri eða skynsamlegri stóriðju í þessum efnum. Í framhaldi af því vil ég ítreka það sem hæstv. iðnrh. sagði hér áðan, að Alþb. hefur hvorki fyrr né síðar í sínum málflutningi lagst gegn stóriðju sem slíkri. Við erum með ýmis stóriðjufyrirtæki hér í landinu. Við erum með áburðarverksmiðju, við erum með sementsverksmiðju og við erum með ýmis önnur fyrirtæki. Það, sem við höfum lagst gegn, er að slík fyrirtæki, sem eru frek til orkunnar, séu annaðhvort í höndum útlendinga hvað snertir eignarhald að öllu leyti eða kannske yfirráðavald í gegnum markaðsaðstöðu og annað, eða þá að markaðsgrundvöllur og framleiðslugrundvöllur fyrirtækjanna sé svo illa undirbyggður að þau hljóti að verða baggi á landsmönnum hvað snertir greiðslugetu orkuvinnslunnar í landinu. Við höfum varað við því hvað eftir annað, bæði þegar álsamningurinn var gerður og í meðferð Grundartangaverksmiðjunnar, að menn rösuðu ekki um ráð fram í þeim efnum. Ég held að þau varnaðarorð, sem flutt voru þá, hafi sannast allrækilega á ferli álverksmiðjunnar og ferli Grundartangaverksmiðjunnar. Ég vil í því sambandi líkt og hæstv. iðnrh. segja það, að miklu frekar fannst mér hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur mælast af skynsemi í sinni ræðu en hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni. Það er einn af pólitískum erfiðleikum í þessu landi varðandi nýtingu orkunnar, sá pólitíski ágreiningur, að innan Sjálfstfl. eru enn þá menn sem vilja halda því opnu að útlendingar, erlend stórfyrirtæki, alþjóðleg stórfyrirtæki, eigi stærstu og dýrustu framleiðslutækin í okkar landi.

Íslendingar eru nú þegar — ég vek athygli á því — Íslendingar eru nú þegar orðnir sú þjóð í Evrópu sem ver hæstu hlutfalli orkuframleiðslu sinnar til stóriðju. Við erum nú þegar sú þjóð í heiminum sem ver stærstu hlutfalli orkuframleiðslu sinnar til stóriðju — og það stóriðju sem er annaðhvort alfarið eða að verulegu leyti gegnum stjórn á markaðsaðstöðunni í höndum erlendra aðila. Við höfum einfaldlega vakið athygli á því, að ef menn ætla að halda áfram á þessari braut þýðir það einfaldlega að æ stærri þáttur af framleiðslustarfseminni í landinu verður á valdi erlendra aðila. Það er alveg rétt, sem hæstv. iðnrh. sagði hér áðan, og væri athugunarefni fyrir þá þm. eða aðra utan þings sem vilja halda opnum möguleikunum á því að veita útlendingum meirihlutaaðild, jafnvel algera aðild að fyrirtækjum hér í landinu, að skoða reynslu stórþjóðanna, hvað þá í smáþjóðanna, af hinum alþjóðlegu auðhringum, sem hefur komið mjög berlega í ljós á s. l. 10 árum.

Á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa verið gerðar ítarlegar kannanir á starfsemi fyrirtækja af þessu tagi og hjá mörgum stofnunum Sameinuðu þjóðanna er að finna ítarlegar niðurstöður af þeim athugunum, og eins og hæstv. ráðh. greindi frá hér áðan — á vettvangi OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, eru uppi mjög harðar kröfur um endurskoðun á þátttöku alþjóðlegu auðhringanna í hagkerfi stórþjóðanna, hvað þá hagkerfi smáþjóðanna.

Það væri óskandi að hægt væri að mynda pólitíska samstöðu um það hér á Alþingi, að Íslendingar tækju þá afstöðu að hleypa ekki inn í landið stóriðjufyrirtækjum sem væru algerlega í eigu útlendinga. Ef þm. Sjálfstfl. eða stjórnarandstöðunnar eru reiðubúnir að lýsa því yfir — og ég kalla eftir þeirri yfirlýsingu hér í þessum umr. — ef þeir eru reiðubúnir að lýsa því yfir, að þeir vilji ganga til samstarfs við okkur hina um að mynda þjóðarsamkomulag um það á hvaða grundvelli við nálgumst samvinnu við erlenda aðila, þá er ég reiðubúinn til að skoða það mál. En það er skilyrði af okkar hálfu, og því verður ekki leynt, að við höfum verið og við verðum andvígir því, að erlendum stórfyrirtækjum verði veitt algert eða yfirgnæfandi meirihlutaforræði yfir öflugustu atvinnufyrirtækjum landsins. Þessi þjóðarsátt um nýtingu orkunnar strandar á því, að hingað til hafa þm. Sjálfstfl. og jafnvel Alþfl. ekki verið reiðubúnir til þess að útiloka það, að erlend auðfélög væru áframhaldandi afdrifaríkur aðili í uppbyggingu atvinnufyrirtækja í landinu. En ég tek ræðu hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur hér í umr. áðan — sem ég tel mjög merkilegan pólitískan viðburð — sem merki um það, að innan Sjálfstfl. sé vaxandi fylgi við þá skoðun að fara sér hægt í þessum efnum og setja fram ákveðin og afdráttarlaus skilyrði.

Við höfum, Íslendingar, borið gæfu til þess yfirleitt, þó ekki alltaf, en yfirleitt á síðasta áratug að ná ákveðinni þjóðarsamstöðu í meðferð landhelgismálsins og nýtingu auðlindanna í hafinu hér í kring. Það hefur náðst samstaða stjórnar og stjórnarandstöðu um þau efni og þar hefur ríkt sú afstaða, að annaðhvort ekki eða þá í algerum undantekningartilfellum og í mjög litlum mæli ætti að veita erlendum þjóðum rétt til þess að veiða í okkar fiskveiðilandhelgi. En ég spyr hv. þm. Sjálfstfl. og líka þm. Alþfl. þótt þeir séu fjarverandi: Eru þeir reiðubúnir til þess að gera sams konar landhelgissamning um orkuna? Eru þeir reiðubúnir til þess að gera sams konar þjóðarsátt um nýtingu auðlinda landsins, orkunnar, eins og í reynd hefur verið gerð um nýtingu auðlinda hafsins í kringum landið, að þar gildi í stórum dráttum sömu reglur gagnvart samstarfi við erlend stóriðnaðarfyrirtæki eins og hér hafa gilt gagnvart erlendum útgerðarfyrirtækjum? Er einhver munur á erlendum iðnaðarfyrirtækjum og erlendum útgerðarfyrirtækjum? Ekki að mínum dómi. En hvernig stendur þá á því, að hingað til hafa aðilar í þessum flokkum ekki verið reiðubúnir til þess að gera sams konar þjóðarsátt um framgöngu Íslendinga gagnvart erlendum iðnaðarfyrirtækjum og við höfum gert gagnvart erlendum útgerðarfyrirtækjum?

Herra forseti. Ég lofaði víst í upphafi að tala hér ekki langt mál. En vissulega eru þau atriði, sem hér eru til umr., mjög stór, mjög afdrifarík, og þau snerta grundvallarágreining sem hingað til hefur verið milli flokkanna í þessu landi. Andstaða okkar Alþb.-manna stafar ekki af því, að við séum á móti því að nýta orkuna, það er mikill misskilningur, stafar ekki af því, að við séum á móti því að byggja upp orkufrekan iðnað. Hún stafar eingöngu af því, að við höfum spurt: Hver á að eiga fyrirtækin? — og við höfum spurt: Á hvaða þjóðhagslegum grundvelli og á hvaða rekstrargrundvelli eiga þessi fyrirtæki að starfa? Aðrir aðilar í þessu landi hafa því miður verið reiðubúnir að skrifa upp á þessa ávísun án þess að það lægi ljóst fyrir, hver ætti að eiga fyrirtækin eða á hvaða þjóðhagsgrundvelli eða á hvaða rekstrargrundvelli þau ættu að starfa.