07.04.1981
Efri deild: 73. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3481 í B-deild Alþingistíðinda. (3539)

258. mál, ný orkuver

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hef áður tekið til máls um frv. það sem hér um ræðir og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson mælti nú enn með.

Ég tel mig aðeins tilknúinn að þakka honum kærlega fyrir upplýsingarnar, sem hann veitti okkur síðast er þetta mál var til umr. hér, um stofnkostnað og arðsemi járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Eins og hv. þm. vildi reikna stofnkostnað eða fjármagn í þessari verksmiðju og þeim virkjunum sem henni heyra og öðrum framkvæmdum, þessari verksmiðju sem hann nefndi í framsöguræðu sinni sem dæmi um hag Íslendinga af erlendri stóriðju, tilgreinda sérstaklega, — samkvæmt þeim upplýsingum, sem hann veitti okkur um kapítal í þessari verksmiðju nemur tap okkar af henni sexföldum stofnkostnaði verksmiðjunnar og þessara framkvæmda á þremur árum. Svo slæmt er þetta að vísu ekki, vegna þess að stofnkostnaðurinn er miklu meiri en hv. þm. tilgreindi í ræðu sinni.

Ef þetta dæmi er reiknað á enda, þá nemur það fé, sem í verksmiðjunni liggur núna, u. þ. b. milljarði á hvern starfsmann sem þar vinnur. Svo miklu nam tapið ekki, að það næmi sexföldum stofnkostnaði þessara framkvæmda á þremur árum. En það nemur geysilega miklu ef borið er saman við þau fyrirheit sem sérfræðingarnir gáfu og þáv. stjórnarflokkar studdust við þegar þeir knúðu í gegn fyrst lagasetninguna um samningsgerð við Union Carbide og síðan við Elkem-Spigerverket. Og svo miklu nemur þetta tap, að ég ítreka það, að það hefði verið stórkostlegur hagur að því fyrir okkur árið sem leið að verksmiðjunni hefði verið lokað og starfsfólki send launin heim, vegna þessa að þá hefðum við — borið saman við það tap sem við verðum að greiða af verksmiðjunni — haft raforkuna, sem til hennar er seld, ókeypis, — raforkuna, sem til hennar er seld á 4 nýaura og við kaupum til bakaá 35 aura til þess að selja álverinu á 3.6 aura. Ég óskaði inn virðulega eftir því, að hv. þm. veitti okkur glöggar upplýsingar um þann gróða og þann ágóða sem við höfum haft af þessari verksmiðju, hvernig hann væri reiknaður. Ég hef ekki fengið þennan reikning enn.