13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3672 í B-deild Alþingistíðinda. (3745)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir á þskj. 647 till. sem er varðandi lánsheimild vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Tel ég mér rétt og skylt að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þess máls.

Ég er eindreginn stuðningsmaður þess, að hafist verði handa hið fyrsta við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Til þess eru fyrst og fremst þrjár ástæður: Í fyrsta lagi er starfsaðstaða öll og öryggismál í núverandi byggingu óviðunandi. Í öðru lagi hlýtur það að vera þjóðarmetnaður hvernig fyrsta aðkoma er til landsins og raunar einnig við brottför. Síðast en ekki síst vit ég nefna aðskilnað hers og þjóðar, eins og það hefur verið kallað. Í því sambandi bendi ég á nýja samþykkt síðasta aðalfundar miðstjórnar Framsfl. sem lýst hefur eindregnum stuðningi við byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.

Þegar þessi ríkisstj. var mynduð var gengið frá stjórnarsáttmáta þar sem kveðið er á um byggingu þessarar flugstöðvar. Ég skil þetta ákvæði stjórnarsáttmálans á þann veg, að það skuli byggja flugstöð á Keflavíkurflugvelli, og í öðru lagi, að það skuli ekki hefja framkvæmdir nema fyrir liggi samþykkt allra aðila að ríkisstj.

Fyrra atriðinu, varðandi það að byggja flugstöðina, hefur hæstv. utanrrh. Ólafur Jóhannesson framfylgt með því að láta endurskoða allar áætlanir og teikningar um bygginguna og er því verki nýlokið. Samið hefur verið við Bandaríkjamenn um ákveðna þátttöku þeirra í byggingu flugstöðvarinnar, m. a. vegna þess að þetta er í raun kostnaður við að aðskilja her og þjóð. Ég er að vísu ekki alveg ánægður með þá samninga, sem gerðir hafa verið við Bandaríkjamenn, og tel að þá þyrfti að endurskoða, en það er annað mál og mun það verða rætt síðar á öðrum vettvangi.

En á síðari hlutann, að það þurfi samþykki allra aðila ríkisstj. til að hefja framkvæmdir, hefur enn ekki reynt formlega innan ríkisstj. þó svo að hæstv. utanrrh. hafi margsinnis rætt þessi mál þar og áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja till. sem slíkri sem hér er til umr. Að fengnum þeim upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér síðan umr. hófst um svipaða till. í síðustu viku, kemst ég að þeirri niðurstöðu að líkindi til þess, að unnt sé að hefja framkvæmdir í ár, séu sáralítil. Frá því að ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um, að hefja skuli þessar framkvæmdir, mun líða nokkur tími þar til útboðsauglýsing er fyrir hendi. Aðilum vinnumarkaðarins þarf að ætla nokkra mánuði, jafnvel 3–4, til þess að ganga frá tilboðum sínum og byggingarnefnd og réttum yfirvöldum veitir ekki af og þau munu þurfa nokkrar vikur til að yfirfara tilboð, sem fram koma, og ganga frá byggingarsamningi.

Að öllu þessu loknu verður komið mjög nærri næstu áramótum. Þá er loks möguleiki á að hefja framkvæmdir ef þessi samþykkt verður gerð. Það er því að mínu viti ekki nauðsynlegt að á lánsfjárlögum þessa árs sé fé veitt til þessara framkvæmda og mun ég því ekki greiða þessari till. atkv. mitt. En í framhaldi af því, sem ég hef hér sagt nú og reyndar áður á öðrum vettvangi, áskil ég mér rétt, eins og aðrir hafa reyndar gert, til að flytja og/eða fylgja tillögu sem slíkri við afgreiðslu fjárlaga ársins 1982 eða lánsfjárlaga þess árs. Ég legg þó á það ríka áherslu, að innan ríkisstj. þarf að nást samkomulag á næstu mánuðum, jafnvel vikum, svo að unnt sé að hefja framkvæmdir í byrjun næsta árs, svo að næsta ár eða fyrri hluti þess fari ekki einungis í undirbúning og útboðsauglýsingar, svo sem ég rakti fyrr í máli mínu, enda er það einnig forsenda þess, að fjárframlag Bandaríkjamanna falli ekki úr gildi, en það mun vera 1. okt. 1982.

Herra forseti. Mitt mat er það, að sú till., sem hér hefur verið lögð fram, sé fyrst og fremst sýndartillaga, sýndarmennska, til þess eins að reyna og láta reyna á á hvern hátt stjórnarsamstarfið stendur, en það tel ég varla tímabært. Menn leggja kannske misjafnt mat á hvað sé sýndartillaga, en mitt mat er að þetta sé ein af slíkum, þar sem ekki er fyrst og fremst gætt að því að tryggja að framkvæmdir við flugstöðvarbygginguna geti hafist svo fljótt sem unnt er.

Herra forseti. Í framhaldi af því, sem ég hef nú sagt, mun ég ekki geta greitt þessari till. atkvæði mitt.